Rasisti eða bara kjáni?

Fyrrverandi þingmaður Borgarflokksins, Ásgeir Hannes Eiríksson lét framkvæma fyrir sig könnun um umfang rasisma á Íslandi. Þessa könnun hyggst hann nota til að láta einhvern stofna fyrir sig einhvers konar íslenskan þjóðernisflokk. Ásgeir kynnti hugmyndir sínar í Kastljósinu seinasta miðvikudag.

Þeir sem þekkja til skrifa okkar hér á Deiglunni vita að við höfum mestu óbeit á málflutningi eins og þeim sem Ásgeir kynnti í umræddum þætti. Það er agalegt að sú hugmyndafræði að ein mannvera sé annarri æðri vegna uppruna eða fæðingarstaðar njóti enn fylgis meðal fólks sérstaklega í ljósi þess hve hræðilegar afleiðingar hennar hafa verið.

En lítum á nokkur textabrot úr áðurnefndu viðtali. Reyndar var Ásgeir ekki sá eini sem átti vondan dag enda voru spyrjendur þáttarins frekar slappir og spurningar þeirra bitlausar. Einum þeirra tókst meira að segja (vonandi óvart) að líkja væntanlegum straumi útlendinga til landsins við fuglaflensufaraldur. En engu að síður var það speki Ásgeirs sem var í aðalhlutverki.

Ásgeir um eigin rasisma

„Á: Já, já. Það má kalla mig rasista, hvað sem er. Það breytir mér ekki.“

S: „Er þetta ekki einhvers konar kynþáttafordómar?“

Á: „Lítið bara á Dani, þeir eru í einhvers konar fangelsi í sínu eigin landi.“

Flestir sem ég þekki mundu líklegast þvertaka fyrir að þeir væru rasistar. Það gengur ekki allt of vel hjá Ásgeiri. Þvert á móti gefur hann til kynna að skortur á kynþáttafordómum hafi gert Dani að föngum í eigin landi, eins og hann kallar það. Á einum stað tekst honum reyndar að neita því að hann sé rasisti en bætir fyrir það nánast samstundis:

S: „Ertu að boða einhverskonar rasisma: Ísland fyrir Íslendinga?“

Á: „Nei, ekkert svoleiðis. Ég vil náttúrlega að Íslendingar njóti Íslands, það er engin vafi, og hafi hér forgang í sínu landi. „

Sko, engin rasismi! Bara að Íslendingar njóti Íslands og hafi hér forgang. Þess má geta að ég sjálfur er ekki trúleysingi en ég bara trúi ekki á Guð. Svo þekki ég líka þýska stelpu sem er ekki grænmetisæta en borðar bara ekki kjöt.

Atvinnuhagfræði Ásgeirs

Ásgeiri tókst auðvitað, eins og öllum haturberum, að koma atvinnuþjófnaðarklisjunni sígildu að. Sú klisja gengur út á það að fjöldi starfa í þjóðfélaginu sé að eilífu fastur og að nýtt fólk á vinnumarkaðnum skapi atvinnuleysi. Hann taldi að fólk væri „hrætt, hrætt um vinnuna sína“ og þegar honum var bent á að hér væri nánast ekkert atvinnuleysi svaraði hann:

„Það styttist nú í að það verði kreppa, og hverjir halda þá vinnunni? Íslendingarnir eða útlendingarnir?“

Svarið við þessari spurningu er líklegast „Íslendingarnir“. Það mun þó ekki valda Ásgeiri og honum líkum neinum hugmyndafræðilegum vanda ef af því kemur. Hann getur þá einfaldlega farið að staglast á því að útlendingarnir sitji auðum höndum meðan Íslendingarnir striti í kreppunni.

Ásgeir um gagnkvæmni í opnun landamæra

Ásgeir hefur miklar áhyggjur af fjölgun útlendinga á Íslandi og kennir (forvera) ESB um.

„Þetta vandamál munu sennilega birtast upp úr fyrsta maí þegar EB [Evrópubandalagið – Það sem forveri Evrópusambandsins hét þegar Ásgeir sat á Þingi] fresturinn rennur út og fólk frá löndum Austur-Evrópu STREYMIR yfir Vestur-Evrópu.“

Ásgeri var þá spurður hvort honum finnist allt í lagi að Íslendingar geti ferðast frjálst til annarra landa meðan við lokum landinu fyrir öðrum.

„Nú er það svo að við ráðum ekki þessum réttindum heldur Efnahagsbandalag Evrópu.“

Snilld! EES er kennt um flóðbyglju útlendinga sem Ásgeir óttast heitar en allt en ferðafrelsið okkar er málinu óviðkomandi. Það er sko hluti af EES! Nei, Ásgeir! Annaðhvort á að segja upp EES-samningnum eða halda í hann. Við getum ekki reist Kínamúra á okkar eigin landamærum og vænst þess að allir aðrir taki okkur opnum örmum.

Sumir Pólverjar sleppa, Tyrkir úti í kuldanum?

Þáttastjórnendur reyndu nokkru sinnum að fá út úr Ásgeiri, hvaða hópar það voru sem hann síst vildi sjá:

S: „Fólk frá Austur-Evrópu, Tyrklandi, er það verra en …“

Á: Ég hef eytt tímanum í Eystrarsaltsríkjunum sem eru Austur-Evrópulönd. Það er prýðilegt fólk. En eftir því sem að hérna… sem ég hef kynnst þessu fólki… þá sé ég ekki betur en að það falli alveg inn í íslenskt þjóðfélag… [t.d.] Pólverjarnir.

Nú er ég alveg týndur. Ásgeir var áður búinn að lýsa yfir áhyggjum yfir opnun vinnumarkaðar fyrir fólki frá Austur-Evrópu. Síðan talar hann um að hann sé hræddur um að útlendingar samlagist þjóðfélaginu illa og loks segir hann að Pólverjar og aðrir Austur-Evrópubúar samlagist vel. Hvaða rugl er þetta. Þetta er ekki einu sinni rasismi. Þetta er nú bara kjánalegt!

(Takið eftir að Ásgeir svarar ekki spurningunni um hvort Tyrkir séu verri en annað fólk, en Pólverjarnir sleppa í hans augum.)

Að lokum

„Ertu sjálfur á þeirri skoðun að hér sé of mikið af útlendingum?“

„Já.“

Afdráttarlausara svar er ekki hægt að gefa. Ásgeir vill ekki hafa svona marga innflytjendur á Íslandi. Sjálfur mundi ég vilja hafa færri menn á Íslandi sem hugsa eins og Ásgeir. Ekki það að ég óski honum neins ills. Ég vil ekki að hann hverfi eða flytjist til útlanda. Bara að hann samlagist.

Frjáls ferða sinna

Þær góðu fréttir bárust nýlega að ríkisstjórnin hefði ákveðið að aflétta höftum á frjálsa för verkafólks frá ríkjum nýjum aðildarríkjum ESB. Þetta eru ánægjuleg tíðindi fyrir íbúa þessara ríkja og kannski enn ánægjulegri fyrir Íslendingana sjálfa.

Sú hugmynd um að atvinna sé einhver takmörkuð auðlind, eins og olía eða kol, virðist seint ætla að deyja. Birtingarmyndir hennar eru mismunandi. Stundum er því haldið fram að hagkvæmara sé að gera hluti óhagkvæmt því þá geti fleiri dundað sér við þá. En algengast er að menn óttist að útlendingar eða einhver hópur „taki vinnu“ af þeim sem fyrir eru. Með sama hætti mætti rökstyðja að Bandaríkjamenn í Ameríkuflugi Flugleiða að séu að „taka sæti“ af Íslendingum. Raunin er auðvitað allt önnur. Sá mikli fjöldi útlendinga sem ferðast með Icelandair gerir það að verkum að flugfélagið getur boðið upp á ferðir tíðar og til fleiri áfangastaða. Auðvitað græða íslenskir farþegar Icelandair á því.

Lengst af hafa Íslendingar (eða öllu heldur íslenskir ráðamenn) verið tregir til að opna landið fyrir erlendum vörum og þjóðum. Að undanförnu hefur orðið góð breyting þarna á, meðal annars með tilkomu EES samningsins. Stoltastur hefði ég nú reyndar orðið ef Ísland hefði, eins og Bretland, Írland og Svíþjóð, opnað vinnumarkað sinn frá fyrsta degi en ákvörðun stjórnarinnar er engu að síður gríðarlegt fagnaðarefni og vonandi vísir að nýrri utanríkisstefnu Íslands.

Þegar kemur að atvinnumálum er nefnilega full ástæða til að líkjast Bretum sem mest og Þjóðverjum og Frökkum sem minnst eins og tölfræðin yfir atvinnuleysi þessara ríkja sýnir glöggt. Það er reyndar sorglegt hve miklum vítahring menn geta lent í með þetta. Vegna hás atvinnuleysið munu Þjóðverjar líklegast ekki afnema hömlur á austurevrópskt vinnuafl fyrr en eftir 5 ár. En það eru einmitt hömlur sem þessar sem mesta atvinnuleysinu valda.

Sjálfboðaliðið

Allir sem stuðst hafa við sjálfboðavinnu til koma einhverju í verk vita að það reynir oft á taugarnar. Þrátt fyrir fögur loforð um annað eru nefnilega ekki margir sem til eru í að gera eitthvað fyrir ekki neitt.

Ég bý á stóru dönsku kollegí í suðurhluta Kaupmannahafnar. Þar er allt til alls: tónlistarherbergi, bar, líkamsræktarstöð og pizzustaður. Það er skemmtilegt að bera saman rekstur pizzustaðarins annars vegar og líkamsræktarstöðvarinnar hins vegar. Kúrdarnir sem dæla flatbökum ofan í stúdentana eru einfaldalega að reka fyrirtæki. Pizzurnar þeirra eru kannski ekkert til að hrópa húrra fyrir og kebabinn þeirra kannski ekkert sérstaklega ódýr, en þjónustulundin er góð og auðvitað er alltaf opið á þeim tímum sem það á að vera opið. Enda væri annað fásinna í hverfi þar sem skyndibita má fá í hverju húsi.

Svolítið aðra sögu er að segja af líkamsræktarstöðinni. Hún er opin tvo tíma á morgnana og nokkra á kvöldin, þó minna á föstudögum og um helgar. Mesti vandinn er hins vegar sá, hve illa það gengur oft að halda úti þeim strjálu opnunartímum sem þó eiga vera. Ástæðan er sú að stöðinni er eingöngu haldið uppi af sjálfboðaliðum, fólki sem vaktar svæðið í nokkra tíma í senn gegn því að fá að æfa þar á öðrum tímum.

Kosturinn við þetta kerfi er að mánaðarkort eru afar ódýr (undir 1000 kr. íslenskar) enda launakostnaður enginn. Hins vegar lendir maður oftar en ekki í því að standa að standa eins og hálfviti í jogginggalla fyrir utan stöðina og lesa á handskrifaðan miða tilkynningu um að í dag verði fyrst opnað eftir kvöldmat vegna sjúkdóm. „Æði,“ hugsar maður, „ég afhita þá bara upp og reyni aftur á morgun.“ Það er svo önnur saga hve oft þessi sjúkdómafaraldrar virðast geisa seint á föstudögum og um helgar.

Vandinn er sá að í sjálfboðakerfi er hvatinn til að halda batteríinu gangandi lítill. Það er til dæmis engin ástæða fyrir neinn að taka vakt fyrir einhvern annan, þegar hann sjálfur hefur staðist sínar skuldbindingar. Einnig þarf mun fleiri til að manna vaktir en ef um fyrirtæki væri að ræða. Án fjárhagslegrar umbunar er fólk ólíklegt til að vinna í marga klukkutíma í viku hverri. Allavega í lengri tíma.

Auðvitað geta sjálfboðakerfi líka gengið vel. Það er oftast háð því að einhverjir einstaklingar innanborðs séu tilbúnir að taka meiri ábyrgð en aðrir. Þetta geta til dæmis verið stofnendur fyrirbæranna eða aðrir aðilar sem hafa metnað til að hefja þau til vegs og virðingar.

Rekstur sjálfboðakerfa á það þannig til að vera mjög sveiflukenndur. Þegar illa gengur reyna menn að koma á einhverjum nýjum umbunar- eða refsikerfum til að halda „þrælunum“ við efnið. Þetta var til dæmis gert á gimminu mínu núna stuttu eftir jól, þegar farið var að áminna fólk og svo reka ef það forfallaðist með stuttum eða engum fyrirvara. Staðan batnaði aðeins en var fljót að fara aftur í sama farið aftur. Að sumu leiti vegna þess að góður árangur gerir menn kærulausari en svo tekur það auðvitað líka mjög á taugar agameistaranna að vera með endalaus leiðindi við fólk sem er, þannig séð, að gera þeim greiða.

Í tímans rás hefur margt gott verið framkvæmt með því að láta fólk gefa vinnu sína. Sumir virðast halda að leysa megi allan fjandann með umræddu rekstrarformi og gleyma að oftar en ekki kemur þetta niður á áreiðanleikanum. Sjálfur væri ég vel til í að borga mun meira fyrir aðgang að líkamsræktarstöðinni minni ef hún yrði þá jafnáreiðanleg og pizzustaðurinn sem hleður á mann öllum aukakílóunum.