Leyfum útlendingum að kjósa

Stundum læðist að manni sá grunur að menn hafi svolítið tvíþætta skoðun á kosningarétti útlendinga og nýbúa. Annars vegar finnst mörgum það skemmtilega norrænt og rómantískt að leyfa fólki með skrýtin eftirnöfn henda atkvæði í kassa. En á hins vegar eru margir eflaust hræddir við að atkvæði þessa nýja hóps muni vera eitthvað öðruvísi en þeirra sem fyrir eru og að þau muni “raska” pólitíska landslaginu. Fólk vill sem sagt gjarnan að útlendingar kjósi, en bara ekki að atkvæði þeirra séu talin.

Svipað var uppi á teningnum þegar konur fengu kosningarétt. Fyrst máttu allar fertugar og eldri kjósa og svo var réttinum skammtað í áföngum til allra hinna. Ekki vildu menn að “kerlingarnar” myndu stofna einhvern “kerlingaflokk” og fara að stjórna öllu. Svo kom reyndar á daginn að konurnar kusu bara ósköp svipað og mennirnir. Skömmtunin var því látin ganga hraðar fyrir sig eftir þessa uppgötvun.

Samkvæmt núgildandi lögum hafa allir útlendingar kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum ef þeir hafa búið í landinu í fimm ár. Öðrum Norðurlandabúum nægja reyndar einungis þrjú ár.

Það má reyndar spyrja sig hvort umrædd mismunun milli erlendra ríkisborgara EES-svæðisins standist yfirhöfuð EES-samninginn. Umrædd ákvæði örugglega ekki í anda þeirra hugsjóna sem samningurinn stendur fyrir. Hins vegar nær fjórfrelsið reyndar ekki yfir pólitík svo þetta sleppur líklega.

En gott og vel, fyrst við lítum á Norðurlandabúa sem nógu líka okkur til leyfa þeim að kjósa fyrr þá væri kannski ekki úr vegi að skoða hvernig hin Norðurlöndin taka á þessum málum.

Noregur: Allir Norðurlandabúar fá kosningarétt um leið. Aðrir útlendingar, ef þeir hafa búið í landinu í 3 ár.

Danmörk og Svíþjóð: EES-borgarar um leið. Aðrir eftir þrjú ár.

Finnland: EES-borgarar um leið. Aðrir eftir tvö ár.

Íslendingar eru með öðrum orðum sem fyrr íhaldsamastir í þessum efnum, en auðvitað er engin ástæða til að vera það. Fimm ár er fáranlega langur tími, sérstaklega þar sem oft þarf einingis að bíða í sjö ár eftir íslenskum ríkisborgararétti.

Vegna framkvæmdanna fyrir austan mun einungis minnihluti íbúa í einum hreppi á landinu hafa kosningarétt. Skattar þessa fólks eru engu að síður gríðarleg tekjulind fyrir sveitarfélagið, en reyndar virðist sem sumir líti á þá sem happdrættisvinning fremur greiðslu sem umræddir skattgreiðendur eiga rétt á þjónustu fyrir. Er það bara ég, eða er þetta svolítið asnalegt?

Fyrir þarnæstu sveitarstjórnakosningar ætti að breyta lögunum og leyfa fleiri útlendingum að kjósa. Sú viðleitni okkar að kópera dönsk lög gagnrýnislaust mætti, hér sem aldrei fyrr, vera í hávegum höfð.

Leave a Reply

Your email address will not be published.