Stytt eða skert?

Umræðan um breytta námsskipan hefur, því miður, ekki mikið snúist um námið sjálft. Stuðningsmennirnir hampa oftast einhverjum hagkvæmnisrökum en andstæðingarnir úr röðum kennara eru því miður oft ekki mikið skárri, þótt þeim hafi tekist að sannfæra flesta um að svo sé.

Eða eru rökin “ekkert samráð hefur verið haft við kennara eða nemendur” virkilega einhver sterk rök fyrir því að það kerfi sem menn hyggjast koma á sé vont? Varla. Aðalmálið hlýtur að vera námsskipanin sjálf en ekki hvernig henni var komið á.

En gott og vel. Það væri ósanngjarnt að halda því fram að engin önnur rök hafi komið fram að hálfu andstæðinganna. Þau rök sem þyngst vega eru, eða ættu að minnsta kosti að vera, þau að nám skerðist með styttingu framhaldsskólans og að betri úrræði séu fyrir hendi ef stytta á námstíma til stúdentsprófs.

Tökum fyrst fyrir rökin um að námið muni í raun skerðast. Ég sé ekki betur að oftast þegar þessi rök eru sett fram er einfaldlega tekin saman stundafjöldi, t.d. í íslensku, fyrir og eftir áformaða styttingu og reiknað út að hann muni skerðast um þessi og hin prósent. Miðað við það sem ég hef skoðað í drögum að námskrá í því fagi sem ég þekki best, þ.e.a.s. stærðfræði, sé ég ekki betur en að höfundar séu einlægir í þeirri viðleitni að reyna láta námsefnið vera það sama. Það á að gera með því ýta hluta námsefnis niður í grunnskólann og svo vantar ekki mikið upp á því framhaldskólinn er nú þegar í raun bara 3,5 ár miðað við fullan hraða (í áfangakerfi, auðvitað).

Síðan er það auðvitað spurning hvort skerðing námsins sé ekki fyrirgefanleg. Mín reynsla af dönskum stærðfræðinemendum á háskólastigi gefur til kynna að þeir kunni oft minna en íslensku nemendurnir. Stærðfræðinámið á Íslandi er að sama skapi eilítið erfiðara til að byrja með. Það er í sjálfu sér ágætt fyrir Íslendingana en, að mínu mati, ekki aukaársins virði.

Hin rökin eru þau að til séu aðrar og betri leiðir að sama marki, til dæmis stytting grunnskólans. Sú ranghugmynd um að þetta sé miklu einfaldara að gera virðist hafa náð einhverri furðulegri fótfestu. Hve oft hefur Múrinn birt fáranlegar fullyrðingar á borð við:

Til að mynda væri hægt að stytta grunnskólann um eitt ár enda er það minni röskun að stytta um 10% en 25%.[Katrín Jakobsdóttir, www.vinstri.is, 2003]

Umrædd tilvitnun er dæmi um hvers vegna banna eigi notkun á prósentum í opinberri umræðu. Það er ekkert auðveldara að bólusetja 1000 Norðmenn en 1000 Íslendinga bara út af því það er minna hlutfall af þjóðinni. Stytting um ár er stytting um ár. Hún mun þýða jafnmikla “skerðingu” á íslenskukennslu ef horft er til tímafjölda, þótt kannski verður hægt að fela hana betur yfir níu ára tímabil.

Á sama hátt er það ekkert “ljóst” að auðveldara sé útskrifa börn fyrr úr grunnskólanum. Á því tímabili þroskast krakkar ört, svo það er ekki hægt að byrja einfaldlega ári fyrr og kenna fólki í 10 ár með óbreyttri námsskrá. Það sama gildir um hugmyndir um flata styttingu námsins um eitt ár. Þetta er auðvitað allt vel hægt en er alls ekki auðveldara eða felur “minni röskun” en stytting framhaldskólans. Þær hugmyndir kalla einnig á heildarenduruppstokkun námsins og vel á minnst, grunnskólakennarar hafa þegar lýst sig andsnúna þeim.

Það er auðvitað hægt að hafa gott menntakerfi með ólíkum skiptingum milli skólastiga. Ég tel hins vegar að það væri mikill kostur ef Íslendingar lykju stúdentsprófi á svipuðum tíma og jafnaldrar þeirra erlendis. Stytting framhaldsskólans er ein leið að því marki, sem ég tel að ætti ekki að útiloka með frösum á borð við “allir skóla verða eins” og “þekking erlendra tungumála glatast”. Það er kominn tími til að allir sem telja málið sig einhverju varða, setjist niður og skrifi skýrslur og setji fram hugmyndir, sem eru merkilegri og lengri en það sem hingað til hefur birst um nýja námsskipan. Og þá er þessi pistill innifalinn.

Leave a Reply

Your email address will not be published.