Leyfum útlendingum að kjósa

Stundum læðist að manni sá grunur að menn hafi svolítið tvíþætta skoðun á kosningarétti útlendinga og nýbúa. Annars vegar finnst mörgum það skemmtilega norrænt og rómantískt að leyfa fólki með skrýtin eftirnöfn henda atkvæði í kassa. En á hins vegar eru margir eflaust hræddir við að atkvæði þessa nýja hóps muni vera eitthvað öðruvísi en þeirra sem fyrir eru og að þau muni „raska“ pólitíska landslaginu. Fólk vill sem sagt gjarnan að útlendingar kjósi, en bara ekki að atkvæði þeirra séu talin.

Svipað var uppi á teningnum þegar konur fengu kosningarétt. Fyrst máttu allar fertugar og eldri kjósa og svo var réttinum skammtað í áföngum til allra hinna. Ekki vildu menn að „kerlingarnar“ myndu stofna einhvern „kerlingaflokk“ og fara að stjórna öllu. Svo kom reyndar á daginn að konurnar kusu bara ósköp svipað og mennirnir. Skömmtunin var því látin ganga hraðar fyrir sig eftir þessa uppgötvun.

Samkvæmt núgildandi lögum hafa allir útlendingar kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum ef þeir hafa búið í landinu í fimm ár. Öðrum Norðurlandabúum nægja reyndar einungis þrjú ár.

Það má reyndar spyrja sig hvort umrædd mismunun milli erlendra ríkisborgara EES-svæðisins standist yfirhöfuð EES-samninginn. Umrædd ákvæði örugglega ekki í anda þeirra hugsjóna sem samningurinn stendur fyrir. Hins vegar nær fjórfrelsið reyndar ekki yfir pólitík svo þetta sleppur líklega.

En gott og vel, fyrst við lítum á Norðurlandabúa sem nógu líka okkur til leyfa þeim að kjósa fyrr þá væri kannski ekki úr vegi að skoða hvernig hin Norðurlöndin taka á þessum málum.

Noregur: Allir Norðurlandabúar fá kosningarétt um leið. Aðrir útlendingar, ef þeir hafa búið í landinu í 3 ár.

Danmörk og Svíþjóð: EES-borgarar um leið. Aðrir eftir þrjú ár.

Finnland: EES-borgarar um leið. Aðrir eftir tvö ár.

Íslendingar eru með öðrum orðum sem fyrr íhaldsamastir í þessum efnum, en auðvitað er engin ástæða til að vera það. Fimm ár er fáranlega langur tími, sérstaklega þar sem oft þarf einingis að bíða í sjö ár eftir íslenskum ríkisborgararétti.

Vegna framkvæmdanna fyrir austan mun einungis minnihluti íbúa í einum hreppi á landinu hafa kosningarétt. Skattar þessa fólks eru engu að síður gríðarleg tekjulind fyrir sveitarfélagið, en reyndar virðist sem sumir líti á þá sem happdrættisvinning fremur greiðslu sem umræddir skattgreiðendur eiga rétt á þjónustu fyrir. Er það bara ég, eða er þetta svolítið asnalegt?

Fyrir þarnæstu sveitarstjórnakosningar ætti að breyta lögunum og leyfa fleiri útlendingum að kjósa. Sú viðleitni okkar að kópera dönsk lög gagnrýnislaust mætti, hér sem aldrei fyrr, vera í hávegum höfð.

Hrikalega slappur Háskóli?

Í ræðu við seinustu útskrift Háskólans minntist rektor á það markmið skólans að komast í hóp hundrað bestu háskóla í heiminum. Það er auðvitað ágætismarkmið, en ég held að fáir geri sér hins vegar grein fyrir því hve langt Háskóli Íslands er frá því að vera meðal þeirra bestu og hvað þarf að gera til að hann komist þangað.

Í þeim fréttum þar sem fjallað hefur verið um þetta mál hefur iðulega komið fram að öll Norðurlöndin, nema Ísland, eru með skóla í efstu hundrað sætunum. Þetta veldur mönnum vitanlega vonbrigðum. En ástandið er í raun mun verra en frá var sagt. Það kom nefnilega ekki nægilega vel fram í þessari umræðu að Háskólinn í Shanghai, sem framkvæmdi umrædda rannsókn, birti einnig lista yfir 500 bestu skóla í heiminum árið 2005. Háskóli Íslands komst heldur ekki inn á þann lista! Það væri því að mörgu leyti heppilegra að Háskólinn gerði það að skammtímamarkmiði sínu að komast í topp 500 listann, segjum innan 2. ára, áður en lengra er haldið. Til þess að ná þessu markmiði er auðvitað rétt að skoða fyrst eftir hvaða skilyrðum háskólarnir eru metnir.

Háskólinn í Shanghai notaði eftirfarandi skilyrði til að meta gæði háskóla heimsins:

1. Fjöldi fyrrverandi nemenda skólans sem hlotið hefur Nóbelsverðlaun eða Fields-orðuna (virtustu verðlaun í stærðfræði). Að mér vitandi hefur engum nema við HÍ enn hlotnast sá heiður.

2. Fjöldi kennara við skólann sem hlotið hafa áðurnefnd verðlaun. Engum starfsmanni Háskóla Íslands hefur enn hlotnast sá heiður.

3. Fjöldi vísindamanna við skólann sem mikið er vitnað í. (Byggt á http://www.isihighlycited.com. ) Enginn fræðimaður við Háskóla Íslands hefur þennan status.

4. Fjöldi greina eftir fræðimenn við skólann sem birst hafa í Science eða Nature á seinustu fimm árum. Samkvæmt athugun pistlahöfundar hafa 4 greinar, þar sem fræðimenn HÍ voru viðriðnir birst í tímaritunum á umræddum tíma. Sambærileg tala fyrir Harvard-háskólann, sem státar þar af bestum árangri er 999.

5. Fjöldi greina árið 2005, samkvæmt þremur gagnagrunnum (Science Citation Index-expanded, Social Science Citation Index, og Arts & Humanities Citation Index). Þetta er reyndar vegið hug- og félagsvísindunum í hag til að bæta upp fyrir að ekki eru veitt nóbelsverðlaun á þeim sviðum. Fljótleg athugun sýndi að 258 greinar þar sem starfsmenn HÍ komu að, var að finna í gagnagrunnunum þremur. Harvard skorar hvorki meira né minna 10.009 greinar.

6. Stærðarhagvæmni. Vegnu meðaltali ofangreindra þátta er deilt með fjölda fræðimanna sem starfa við skólann og sú útkoma er borin saman við hagkvæmasta skólann. Með mjög bjartsýnum nálgunum, reiknast Háskóli Íslands mér vera með stuðul 12,3 af 100 mögulegum sem þýðir að hann er átta sinnum lakari en besti skólinn á þessu sviði, Caltech.

Þegar allir þessir sex þættir eru teknir með í reikninginn verður niðurstaðan fyrir Háskóla Íslands vegna meðaltalið 1,8.

York-Háskólinn, sem er í 500. sæti á umræddum lista með vegna meðaltalið 9,0. Það þýðir að Háskólinn þyrfti að bæta sig fimmfalt bara til að ná inn á topp 500 listann, svo við tölum nú ekki um topp 100!

Á hátíðisstundum setja menn oft fram fullyrðingar á borð við þær að „Háskóli Íslands sé alþjóðlegur háskóli sem standist fullkomlega samanburð við aðra skóla erlendis.“ Ofannefndar tölur sýna hins vegar að Háskóli Íslands stenst engan veginn samanburð við erlenda háskóla. Fræðimenn skólans þyrftu að birta 7 til 8 sinnum fleiri greinar ár hvert ef hann ætti að ná Sænska landbúnaðarháskólanum að gæðum. Og ef skimað er yfir nöfn fastráðinna kennara er ljóst að skólinn er langt því að vera einhver „alþjóðleg stofnun“, því langflestir sem þar starfa eru Íslendingar.

Ég vona svo innilega að umræðan um bættan háskóla muni ekki bara snúast um frasa á borð við „fjársvelti skólans“ eða „virðingarleysi ráðamanna gagnvart honum“. Til að bæta sig þarf Háskólinn, fyrst og fremst, að reyna laða til sín framúrskarandi fræðimenn og afburðanemendur, meðal annars frá útlöndum. Það verður ekki gert öðruvísi en að taka launa- og styrkjakerfi skólans til gagngerrar endurskoðunar. En það er efni í annan pistil.

Stytt eða skert?

Umræðan um breytta námsskipan hefur, því miður, ekki mikið snúist um námið sjálft. Stuðningsmennirnir hampa oftast einhverjum hagkvæmnisrökum en andstæðingarnir úr röðum kennara eru því miður oft ekki mikið skárri, þótt þeim hafi tekist að sannfæra flesta um að svo sé.

Eða eru rökin „ekkert samráð hefur verið haft við kennara eða nemendur“ virkilega einhver sterk rök fyrir því að það kerfi sem menn hyggjast koma á sé vont? Varla. Aðalmálið hlýtur að vera námsskipanin sjálf en ekki hvernig henni var komið á.

En gott og vel. Það væri ósanngjarnt að halda því fram að engin önnur rök hafi komið fram að hálfu andstæðinganna. Þau rök sem þyngst vega eru, eða ættu að minnsta kosti að vera, þau að nám skerðist með styttingu framhaldsskólans og að betri úrræði séu fyrir hendi ef stytta á námstíma til stúdentsprófs.

Tökum fyrst fyrir rökin um að námið muni í raun skerðast. Ég sé ekki betur að oftast þegar þessi rök eru sett fram er einfaldlega tekin saman stundafjöldi, t.d. í íslensku, fyrir og eftir áformaða styttingu og reiknað út að hann muni skerðast um þessi og hin prósent. Miðað við það sem ég hef skoðað í drögum að námskrá í því fagi sem ég þekki best, þ.e.a.s. stærðfræði, sé ég ekki betur en að höfundar séu einlægir í þeirri viðleitni að reyna láta námsefnið vera það sama. Það á að gera með því ýta hluta námsefnis niður í grunnskólann og svo vantar ekki mikið upp á því framhaldskólinn er nú þegar í raun bara 3,5 ár miðað við fullan hraða (í áfangakerfi, auðvitað).

Síðan er það auðvitað spurning hvort skerðing námsins sé ekki fyrirgefanleg. Mín reynsla af dönskum stærðfræðinemendum á háskólastigi gefur til kynna að þeir kunni oft minna en íslensku nemendurnir. Stærðfræðinámið á Íslandi er að sama skapi eilítið erfiðara til að byrja með. Það er í sjálfu sér ágætt fyrir Íslendingana en, að mínu mati, ekki aukaársins virði.

Hin rökin eru þau að til séu aðrar og betri leiðir að sama marki, til dæmis stytting grunnskólans. Sú ranghugmynd um að þetta sé miklu einfaldara að gera virðist hafa náð einhverri furðulegri fótfestu. Hve oft hefur Múrinn birt fáranlegar fullyrðingar á borð við:

Til að mynda væri hægt að stytta grunnskólann um eitt ár enda er það minni röskun að stytta um 10% en 25%.[Katrín Jakobsdóttir, www.vinstri.is, 2003]

Umrædd tilvitnun er dæmi um hvers vegna banna eigi notkun á prósentum í opinberri umræðu. Það er ekkert auðveldara að bólusetja 1000 Norðmenn en 1000 Íslendinga bara út af því það er minna hlutfall af þjóðinni. Stytting um ár er stytting um ár. Hún mun þýða jafnmikla „skerðingu“ á íslenskukennslu ef horft er til tímafjölda, þótt kannski verður hægt að fela hana betur yfir níu ára tímabil.

Á sama hátt er það ekkert „ljóst“ að auðveldara sé útskrifa börn fyrr úr grunnskólanum. Á því tímabili þroskast krakkar ört, svo það er ekki hægt að byrja einfaldlega ári fyrr og kenna fólki í 10 ár með óbreyttri námsskrá. Það sama gildir um hugmyndir um flata styttingu námsins um eitt ár. Þetta er auðvitað allt vel hægt en er alls ekki auðveldara eða felur „minni röskun“ en stytting framhaldskólans. Þær hugmyndir kalla einnig á heildarenduruppstokkun námsins og vel á minnst, grunnskólakennarar hafa þegar lýst sig andsnúna þeim.

Það er auðvitað hægt að hafa gott menntakerfi með ólíkum skiptingum milli skólastiga. Ég tel hins vegar að það væri mikill kostur ef Íslendingar lykju stúdentsprófi á svipuðum tíma og jafnaldrar þeirra erlendis. Stytting framhaldsskólans er ein leið að því marki, sem ég tel að ætti ekki að útiloka með frösum á borð við „allir skóla verða eins“ og „þekking erlendra tungumála glatast“. Það er kominn tími til að allir sem telja málið sig einhverju varða, setjist niður og skrifi skýrslur og setji fram hugmyndir, sem eru merkilegri og lengri en það sem hingað til hefur birst um nýja námsskipan. Og þá er þessi pistill innifalinn.