Rassskattar?

Hundar eru oft með nefið í hvor annars rassi.

Ætli skýringin á því að enn sé stundum lagt til að setja nefskatta hér og þar sé sú að ekki hafi verið valið nógu óaðlaðandi líffæri til að lýsa þessari asnalegu hugmynd um opinbera fjármögnun?

Það gladdi undirritaðan þegar hann heyrði af áformunum um að leggja niður afnotagjöld RÚV. Það er algjör óþarfi að reka sérstaka innheimtustofnun fyrir hvert einasta fyrirbæri sem ríkið kýs að reka. Gleðin hefði eflaust verið minni ef ég hefði vitað að leggja ætti nefskatt á í staðinn.

Ef það á á annað borð að reka Ríkisútvarp er ekki ástæða til annars en að það sé rekið af fjárlögum, líkt og flestar aðrar ríkisstofnanir. Hugmyndir Péturs Blöndal, um að lækka persónuagsláttinn og bjóða út innlenda dagskrárgeð, eru reyndar allrar athygli verðar en kannski ólíklegt að þær eigi möguleika, a.m.k. enn um sinn.

En aftur af nefskattinum. Ástæða fyrir því að menn kjósa þá leið til að fjármagna rekstur RÚV, fremur en að setja það á fjárlög, er væntanlega sú að menn óttast sjálfstæði stofnunarinnar verði hún háð duttlungum stjórnmálamanna um fjármuni. Gott og vel, en er RÚV mikilvægari en Hæstiréttur? Seðlabankinn? Eða Forsetaembættið? Allar þessar stofnanir þurfa að starfa eftir fjárlögum. Og það er hlutverk fólksins sem við kjósum á nokkurra ára fresti til að fara með peningana okkar að sjá til þess að þær svelti ekki. Ef þeim mistekst getum við alltaf afturkallað þetta umboð.

En það er nú kannski ekki það versta við frumvarpið. Það versta er án efa þau fáranlegu áhrif sem það hefur á skattkerfið, nefnilega þau að fólk verður fyrir töluverðri tekjuskerðingu við það að tekjur þess hækka yfir 80.000 á mánuði. Þetta er algjörlega fáranlegt og ætti aldrei að gerast en því miður eru svona “af eða á” ákvæði vinsæl meðal stjórnmálamanna og verið að skapa holur í reglugerðum í aldaraðir.

Deilur milli hægri- og vinstrimanna um skattamál snúast oft um hve miklu jöfnunarhlutverki skattkerfið eigi að gegna. Vinstrimenn hallast oft að því að það hlutfall sem viðkomandi greiðir í skatt eigi að vaxa með auknum tekjum til að auka tekjujöfnunaráhrifin meðan hugmyndir um svo kallaða flata eða línulega skatta er vinsælar meðal hægrimanna. En jafnvel hörðustu hægrimenn mundu seint fallast á að skynsamlegast sé að fjármagna ríkisrekstur með nefskatti, þannig að allir greiði sömu upphæð í skatt, óháð tekjum.

Framkvæmdarsjóður aldraðra er þegar fjármagnaður með nefskatti. Ef við leyfum ríkinu að bæta við öðrum er hætta á að allt verði morandi í hvers kyns nefsköttum eftir nokkur ár sem éta muni upp skattalækkanirnar. Hér er komið kjörið tækifæri fyrir alla stjórnmálasenuna til að sameinast. Hægrimenn geta barist gegn þeirri bjögum sem nefskatturinn muni skapa í skattkerfinu, og vinstrimenn geta barist gegn honum á þeim forsendum að hann skerði kjör þeirra verst stöddu hlutfallslega mest.

Mikilvægi orðanotkunar í pólitík er óumdeilt. Nú hafa andstæðingar styttingar náms til stúdentsprófs kosið að kalla hana “skerðingu náms til stúdentsprófs”, sem er eflaust ágætisstrategía að þeirra hálfu. Hugsanlega ættu andstæðingar nefskatta líka taka upp annað nafn á þeim. Kannski eitthvað sem kennt er við ljótari líffæri.

Leave a Reply

Your email address will not be published.