Þótt viðtengingarhátturinn fer

Að undanförnu hefur töluverð umræða farið fram um stöðu íslensks máls og líkt og venjan er íslenskukunnáttu ungmenna. Hver á eftir öðrum hafa íslenskufræðingarnir birst í fjölmiðlum og kvartað undan því að viðtengingarhátturinn sé að hverfa og samfellan í ritmálinu að rofna. En er það endilega svo slæmt?

Tungumál eru flókin fyrirbæri. Það hversu flókin þau eru sést til dæmis á því hve slöpp flest þýðingarforrit eru enn. Eftir áratugaþróun er enn meira gaman en gagn að flestum þeirra. Til dæmis ef vefsíðan BabelFish er notuð til að þýða heimasíðu þýska Jafnaðarmannaflokksins, SPD, yfir á ensku verður niðurstaðan þessi:

“Wir have clearly zusammengefunden”, summarized the SPD chairman of the party Matthias place-hits a corner the executive committee examination of the SPD in Mainz. Social justice remains the political cardinal question of the SPD, underlined place-hits a corner.

With the resolution of the executive committee secure “Wir Germany Zukunft” itself the SPD for the “Dreiklang” wants; modern social nationalness begin. The goals are “mehr of children, better education and strong Familie”, thus place-hit a corner.

Já, tungumál láta illa að stjórn. Tungumálafræðingar hafa reynt að koma böndum á ringulreiðina og búið til þess hugtök á borð við föll, tíðir og orðflokka. En eins og flestir vita hlaupa undantekningarnar í slíkum kerfum á hundruðum. Íslensk málfræði er þar gott dæmi.

Það er kannski gott að átta sig aðeins á einu: Málfræðikerfi eru smíðuð af mönnum og lýsa stöðu málsins á þeim tíma sem þau eru smíðuð. Það að sögnin “að hlakka” sé persónuleg og það að segja eigi “mig langar” en ekki “mér langar” eru engin heilög boðorð. Þær reglur lýsa einungis því sem þótti eðlilegt mál á þeim tíma sem málfræðireglurnar voru samdar. Eða jafnvel því sem þeim sem sömdu reglurnar þótti vera eðlilegt mál.

Þetta hefur mér sem raunvísindamanni alltaf þótt dalítið undarlegt við (suma) íslenskufræðinga. Þegar veðurspár eða fiskilíkön bregðast þá reyna menn að bæta kerfin svo þau endurspegli betur raunveruleikann. Þegar opinber málfræðikerfi fjarlægast talmál fólks þá gera menn allt vitlaust og krefjast þess að tíma og fjármunum verði eytt til að fleiri læri að tala í samræmi við þau líkön sem þegar er búið að semja!

Nærtækara væri auðvitað að uppfæra smám saman íslenska málfræði svo hún falli betur að því tungumáli sem fólk raunverulega notar. Ef viðtengingarhátturinn víkur, líkt og hann gert í öðrum norrænum málum, verðum við að horfast í augu við þann veruleika í stað þess að berja höfðinu við steininn. “En verður málið ekki fátæklegra?” gæti einhver spurt. Jú, hið opinbera mál verður það vissulega. En á móti kemur að það er líka hættulegt ef hið opinbera mál og málið sem raunverulega er talað verða of ólík. Þá er hætta á því að íslenskan verði einkaeign fámennar menntastéttar.

Að lokum vil ég víkja að svokallaðri samfellu í íslensku máli sem einhverjir vilja meina að sé nú að hverfa. Með því er átt við að unglingar á áttunda áratugnum áttu auðveldara með að skilja Íslendingasögurnar þegar búið var að skrifa þær nútímastafsetningu og bæta við orðskýringum, en unglingar í dag gera. Sú samfella er þó líklegast þegar löngu horfin því tilhneyging manna til að “hreinsa” tungumálið undan dönskum áhrifum þýðir að íslensk skjöl frá 17. öld geta verið nútímanni mjög torskilinn.

Íslendingasögurnar eru vissulega merkileg ritverk. En stundum verður þjóðremban og geðshræringin í kringum þær slík að menn missa vitið. Það væri til dæmis mun skynsamlegra að bæta orðskýringarnar í grunnskólaútgáfu Íslendingasagna og gera málið ef til vill nútímalegra fremur en að eyða tíma og fé í að láta sem flesta táninga skilja 13. aldar ritmál. Og eiga um leið á hættu að hin opinbera tunga verði eign nokkurra íslenskufræðinga sem fáir aðrir þora að tjá sig á.

Leave a Reply

Your email address will not be published.