Babelfiskurinn

Líkt og ég fjallaði um í pistli seinasta sunnudag vefjast tungumál mannanna enn mjög fyrir tölvum. Ef sjálfvirk þýðingarforrit eru látin glíma við einföldustu texta verður niðurstaðan oft æði skopleg. En það er fyrst þegar kemur að alvörukveðskap sem þetta fer að vera verulega fyndið.

Once did you dress,

threw you thus finely the beatniks a groschen in your highest perfection, not you?

People’d call we say „fit doll, you are jumped, in order to fall“

you thought up the fact that they were everything kiddin ‘ you,

which did not tend you to laugh over everyone which hangin ‘ from

now you does not speak was, thus loud

seemed now you over having for your

following meal scrounging so proudly.

How does it believe

how it believes,

in order to be without a house

like a complete unknown

like a role stone?

Glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir að umræddur texti líkist að einhverju leyti texta lagsins „Like a Rolling Stone“ eftir Bob Dylan. Það var hann líka einhvern tímann en Babelfish þýðing yfir á þýsku og tilbaka sýndi honum enga miskunn.

Hér læt ég upprunarlega textann fylgja með, lesendum til fróðleiks.

Once upon a time you dressed so fine

You threw the bums a dime in your prime, didn’t you?

People’d call, say, „Beware doll, you’re bound to fall“

You thought they were all kiddin’ you

You used to laugh about

Everybody that was hangin’ out

Now you don’t talk so loud

Now you don’t seem so proud

About having to be scrounging for your next meal.

How does it feel

How does it feel

To be without a home

Like a complete unknown

Like a rolling stone?

Það er þó ekki þannig að þýðingarforrit séu alfarið gagnslaus. Þau koma sér til dæmis að heilmiklum notum þegar snara þarf saman pistli á stuttum tíma.

Þótt viðtengingarhátturinn fer

Að undanförnu hefur töluverð umræða farið fram um stöðu íslensks máls og líkt og venjan er íslenskukunnáttu ungmenna. Hver á eftir öðrum hafa íslenskufræðingarnir birst í fjölmiðlum og kvartað undan því að viðtengingarhátturinn sé að hverfa og samfellan í ritmálinu að rofna. En er það endilega svo slæmt?

Tungumál eru flókin fyrirbæri. Það hversu flókin þau eru sést til dæmis á því hve slöpp flest þýðingarforrit eru enn. Eftir áratugaþróun er enn meira gaman en gagn að flestum þeirra. Til dæmis ef vefsíðan BabelFish er notuð til að þýða heimasíðu þýska Jafnaðarmannaflokksins, SPD, yfir á ensku verður niðurstaðan þessi:

„Wir have clearly zusammengefunden“, summarized the SPD chairman of the party Matthias place-hits a corner the executive committee examination of the SPD in Mainz. Social justice remains the political cardinal question of the SPD, underlined place-hits a corner.

With the resolution of the executive committee secure „Wir Germany Zukunft“ itself the SPD for the „Dreiklang“ wants; modern social nationalness begin. The goals are „mehr of children, better education and strong Familie“, thus place-hit a corner.

Já, tungumál láta illa að stjórn. Tungumálafræðingar hafa reynt að koma böndum á ringulreiðina og búið til þess hugtök á borð við föll, tíðir og orðflokka. En eins og flestir vita hlaupa undantekningarnar í slíkum kerfum á hundruðum. Íslensk málfræði er þar gott dæmi.

Það er kannski gott að átta sig aðeins á einu: Málfræðikerfi eru smíðuð af mönnum og lýsa stöðu málsins á þeim tíma sem þau eru smíðuð. Það að sögnin „að hlakka“ sé persónuleg og það að segja eigi „mig langar“ en ekki „mér langar“ eru engin heilög boðorð. Þær reglur lýsa einungis því sem þótti eðlilegt mál á þeim tíma sem málfræðireglurnar voru samdar. Eða jafnvel því sem þeim sem sömdu reglurnar þótti vera eðlilegt mál.

Þetta hefur mér sem raunvísindamanni alltaf þótt dalítið undarlegt við (suma) íslenskufræðinga. Þegar veðurspár eða fiskilíkön bregðast þá reyna menn að bæta kerfin svo þau endurspegli betur raunveruleikann. Þegar opinber málfræðikerfi fjarlægast talmál fólks þá gera menn allt vitlaust og krefjast þess að tíma og fjármunum verði eytt til að fleiri læri að tala í samræmi við þau líkön sem þegar er búið að semja!

Nærtækara væri auðvitað að uppfæra smám saman íslenska málfræði svo hún falli betur að því tungumáli sem fólk raunverulega notar. Ef viðtengingarhátturinn víkur, líkt og hann gert í öðrum norrænum málum, verðum við að horfast í augu við þann veruleika í stað þess að berja höfðinu við steininn. „En verður málið ekki fátæklegra?“ gæti einhver spurt. Jú, hið opinbera mál verður það vissulega. En á móti kemur að það er líka hættulegt ef hið opinbera mál og málið sem raunverulega er talað verða of ólík. Þá er hætta á því að íslenskan verði einkaeign fámennar menntastéttar.

Að lokum vil ég víkja að svokallaðri samfellu í íslensku máli sem einhverjir vilja meina að sé nú að hverfa. Með því er átt við að unglingar á áttunda áratugnum áttu auðveldara með að skilja Íslendingasögurnar þegar búið var að skrifa þær nútímastafsetningu og bæta við orðskýringum, en unglingar í dag gera. Sú samfella er þó líklegast þegar löngu horfin því tilhneyging manna til að „hreinsa“ tungumálið undan dönskum áhrifum þýðir að íslensk skjöl frá 17. öld geta verið nútímanni mjög torskilinn.

Íslendingasögurnar eru vissulega merkileg ritverk. En stundum verður þjóðremban og geðshræringin í kringum þær slík að menn missa vitið. Það væri til dæmis mun skynsamlegra að bæta orðskýringarnar í grunnskólaútgáfu Íslendingasagna og gera málið ef til vill nútímalegra fremur en að eyða tíma og fé í að láta sem flesta táninga skilja 13. aldar ritmál. Og eiga um leið á hættu að hin opinbera tunga verði eign nokkurra íslenskufræðinga sem fáir aðrir þora að tjá sig á.

Er hægt að kaupa manneskju?

Í lokasenu hinnar stórgóðu myndar „The Truman Show“ stendur aðalsöguhetjan fyrir vali. Honum er boðið að halda áfram að lifa nægjusömu og öruggu lífi innan Truman-þáttarins, en um leið lífi sem er skrifað handa honum. Lífi sem hann stýrir ekki sjálfur. Truman opnar hurð á hvelfingunni sem þátturinn er tekinn upp í og hleypur út í hinn sanna heim. Sál hans var ekki til sölu.

Sem betur fer er sá tími þegar kóngar og prinsar stjórnuðu Evrópu liðinn. Í dag er það fólkið sjálft, en ekki einvaldurinn, sem ákveður framtíð sína og þar sem kóngafólk er enn þá til hefur það einungis táknrænu hlutverki að gegna. Á hásætunum sitja þá einhverjir valdalausir vesælingar sem þurfa að brosa, klippa borða og láta taka myndir af sér allt sitt líf, bara fyrir það eitt að hafa fæðst inn í ákveðna fjölskyldu.

Í dag fékk nokkurra mánaða gamall danskur drengur úthlutað fjórum fornöfnum meðan danska þjóðin fylgdist með í sjónvarpi. Foreldrum hans virðist sama þótt hann muni vaxa og þroskask á síðum slúðurblaðanna. Kannski vegna þess að þau sjálf þekkja ekkert annað. Þeim er líka alveg sama þótt að búið sé að velja handa honum lífsleið. Reyndar ágætlega þægilega og vellaunaða lífsleið, en fyrirframákveðna engu að síður. Í samfélagi þar sem börn verkamanna geta orðið læknar og börn lækna þurfa ekki endilega að verða læknar líka, þekkist það enn að faðerni manna ákveði framtíðarhlutskipti þeirra.

Þáttastjórnandinn í Truman-þættinum hafði rétt fyrir sér að einu leyti. Veruleikinn er ekki alltaf jafnfagur og kvikmyndirnar. Því þótt Truman í kvikmyndinni hafi hlaupið út hvelfingunni sem var hans hlýja og rúmgóða fangelsi virðast „Trúmanar“ raunveruleikans ekki hafa áhuga á að yfirgefa sínar stóru hallir og taka ábyrgð á eigin lífi. Þeim finnst fínt að fá pening fyrir að leyfa ellilífeyrisþegum fylgjast með sínu fyrirframákveðna lífshlaupi. Þau afsala sér kosningaréttinum og málfrelsinu fyrir frægð og þægindi. Þau taka ekki í handfangið. Þau hlaupa ekki út. Sál þeirra er til sölu.

Hefnd flöskustráksins

Ýmsar svokallaðar launþegahreyfingar hafa að undanförnu staðið í mikillri og pólitískri baráttu fyrir því að vatnsveitur verði ríkisreknar. Þetta hefur verið gert undir þeim formerkjum að skilgreina þurfi aðgang að vatni sem „mannréttindi“. En áður nýjum mannréttindum er bætt við, væri þá ekki ágætt ef löggjafinn kysi loksins að vernda mannréttindi þeirra launþega sem vilja standa utan stéttarfélaga?

Í vikunni kom dæmdi Mannréttindastóll Evrópu í máli fyrrverandi lagarstarfsmanns sem var rekinn fyrir að vilja ekki vera í stéttarfélagi. Málið er sigur þá sem vilja að félagafrelsi sé virt, en jafnframt ósigur fyrir þá sem græða á núverandi fyrirkomulagi, þ.e.a.s. formenn og stjórnendur félaga með nauðungaraðild.

Það er auðvitað alveg frábært fyrir fólk sem stýrir félagi ef að stór hluti þjóðarinnar þarf að greiða til þess pening. Það mundi eflaust hjálpa Deiglunni mikið ef allir Íslendingar væru skyldaðir til að greiða pening til eins vefrits, helst ef allir Íslendingar væru skyldaðir að greiða pening til Deiglunnar. En auðvitað er það þingmanna að sjá til þess að verja þjóðina gagnvart slíkri hugsanlegri græðgi ritstjórnar Deiglunnar. Hugsanlega er þetta jafnvel mál fyrir dómara við Hæstarétt ef svo óheppilega skyldi til að einhverjir nautheimskir þingmenn myndu fallast á kröfur vefritsins um nauðungaraðild að sjálfu sér.

Eftir því sem ég best veit geta opinberir starfsmenn kosið að standa utan stéttarfélags eins og staðan er núna en þeir greiða víst engu að síður félagsgjöld til þess! Tillaga að lagabreytingum um þessi efni hefur verið lögð fram á Pétri H. Blöndal nokkrum sinnum en aldrei náð fram að ganga. Og líkt og við mátti búast hafa mannréttindavinirnir Ögmundur Jónasson og Össur Skarphéðinsson verið duglegastir við að andmæla þessum hugmyndum Péturs.

Fyrir meira en aldarfjórðungi síðan hófst skipulögð barátta gegn kommúnismanum í Póllandi með stofnum óháðra verkalýðsfélaga. Á þeim tíma varð ein krafan einmitt sú að fólk gæti ákveðið hvaða stéttarfélagi það vildi vera í og hvort yfirhöfuð. Svo fór reyndar að kommúnistarnir féllust á þessar kröfur. Það er kominn tími til að íslensk stjórnvöld geri það líka.

Annars þarf einhvern nöldursegg sem mundi fara með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Slíkt mundi eflaust taka nokkur ár en eins og dómurinn í máli danska flöskustráksins hljómar ætti sigur í því máli að vera tiltölulega öruggur.

Við Fischer

Ég ferðast oft með strætó. Mér finnst það þægilegur valkostur og þrátt fyrir að vera kannski ekki eins hraður og einkabíllinn virðist mér engu að síður að fólk sem notar strætó að staðaldri sé almennt jafnvel stundvísara en hinir. Kannski vegna þess að menn vita að þeir verða að vera mættir út á stöð á fyrirfram ákveðnum tíma og skipuleggja sig þar með betur. Akandi vinir mínir eru oft svona korteri seinir. Ætla sér aðeins svona að skjótast með spólu fyrst eða aðeins að koma við í Hafnafirði á leiðinni.

Ég veit hins vegar að ég er ekki í meirihluta. Langt því frá. Langflestir Reykvíkingar hugleiða ekki einu sinni strætó sem valkost. Ef bíllinn bilar og menn fá ekki far, þá er bara ekki farið. Strætónotkun er þannig álitinn merki um verulega sérvisku ef ekki hreina geðveilu notandans. Nýlega birtist t.d. á visi.is frétt um Bobby Fischer og ferðavenjur hans í hér í borginni:

Skáksnillingurinn sérlundaði Bobby Fisher[sic] sem fluttist hingað til lands síðasta vor hefur verið lítið í sviðsljósinu að undanförnu. Farþegar hjá strætisvögnum Reykjavíkur hafa þó orðið töluvert varir við hann því nýverið keypti Fisher sér rauða kortið sem veitir honum greiðan aðgang að hvaða strætisvagni sem er.

Þrátt fyrir að vera vel stæður virðist Fisher ekki hafa áhuga á að aka eigin bíl eða kaupa leigubíl fyrir ferðalög sín um höfuðborgarsvæðið og þykir mörgum þetta bera vott um sérvitringshátt hans.

Dómur fjórða valdsins er skýr: Við Fischer erum geðsjúklingar.

Sjálfum líður mér eiginlega bara vel með það að Fischer sé ekki að keyra.

En hvað sem allri geðveiki notenda strætó líður þá er ljóst að margt verður að breytast ef þróunin eigi að vera önnur en sú að menn verði læstir inn á hæli fyrir að sjást stíga um borð í stóru gulu bílana. Staðreyndin er reyndar sú að hönnun borgarinnar hefur gert það að verkum að almenningssamgöngur eiga erfitt uppdráttar. Þær eru raunar furðugóðar miðað við hve gisin byggðin er. En það er margt annað sem bæta þyrfti. Í nýlegum pistli hér á deiglunni var fjallað um það hve mikið PR klúður nýja leiðakerfið hefur verið. Sömuleiðis er óþolandi að ekki sé enn hægt að borga með kortum í strætó og ljóst er að það fyrirkomulag kosti bæjarsamlagið viðskipti á degi hverjum.

Síðast en ekki síst er það dæmi um ákveðin skort á framtíðarsýn að nýlega hafi verið ákveðið að 12-18 ára unglingar skuli í framtíðinni þurfa borga 250kr., líkt og fullorðnir, fyrir að ferðast með strætó. Ég held að 12 ára unglingur muni hugsa sig vel um áður en hann fleygir jafnvirði tveggja súperdósa niður baukinn. Þess í stað mun hann án efa frekar nöldra í móður sinni um að sækja sig og skutla. Það er miður að Strætó bs. skuli sjá sig knúna til að fæla frá heila kynslóð notenda.

Ritskoðun?

Hún er afskaplega kjánaleg, tilkynningin sem Fréttablaðið hefur kosið að birta á síðu 2 undanfarnar vikur. Þar er sagt frá því að vegna lögbanns sem sett hefur verið á birtingar tölvupósts Jónínu Ben. geti blaðið ekki fjallað um þau mál eins vel og það hefði kosið. Þessi tilkynning er birt undir fyrirsögninni „Ritskoðun“.

Pistlahöfundur þekkir það vel hvernig ýmsar reglur réttarríkisins geta heft sköpunargleðina. Málfrelsi er, eftir allt saman, rétturinn til að segja það sem manni finnst og sá réttur er víða brotinn. Tökum nokkur dæmi:

Fátt er meira fullnægjandi fyrir pistlahöfund en að gera hneyksli opinbert. Til dæmis gæti ég birt frétt hér á Deiglunni um það dóp- og kynsvall væri stundað í gríð og erg á ritstjórnarskrifstofum Fréttablaðsins. Jafnvel að ritstjórn blaðsins leikstýrði þar svæsnum klámmyndum sem fréttamenn blaðsins og fastir dálkahöfundar léku í. Vandinn við þessa opinberun væri að pistlahöfundur gæti verið kærður fyrir meiðyrði og mundi líklegast tapa málinu (enda, ja, uppspuni frá upphafi til enda). Ritskoðun!

Önnur leið væri hægt að brjótast inn á heimili frægra einstaklinga og taka myndir af þeim sofandi og selja til slúðurblaðanna. Líklegast mundi þetta þó þykja brot á friðhelgi einkalífsins og almennum hegningarlögum. En á almenningur ekki rétt á að vita hverjir sofa naktir og hverjir ekki? Jú, auðvitað! Þetta eru fyrirmyndir barnanna okkar! Ritskoðun!

Oft gefst ekki langur tími til að skrifa pistil eða frétt. Ein hugmynd væri þá að fara á Múrinn, afrita grein þaðan, skipta á orðunum „fríverlsun“ og „alþýða“ og birta undir eigin nafni. Og sumar greinar á Andríki eru jafnvel þannig að gaman væri að gera þær að sínum. En það má ekki! Væri víst kallað ritstuldur! En er það pistlahöfundi að kenna að aðrir menn hafa orðið fyrri til að tjá eitthvað með nákvæmlega þeim orðum sem hann sjálfur hefði viljað nota? Nei, auðvitað ekki! Ritskoðun! Ritskoðun!

Nei, með fullri alvöru! Það hafa verið til ríki og eru enn, þar sem opinberir starfsmenn lesa yfir allt sem birtist á prenti og fangelsa menn og jafnvel drepa fyrir ummæli sem stjórnvöldum þóknast illa. En Ísland er ekki eitt þeirra ríkja. Að fólk geti kært hvort annað fyrir ummæli sem það telur meiðandi eða ólögleg hefur ekkert með ritskoðun að gera.

Það er Fréttablaðinu í sjálfu sér í sjálfvald sett hve lengi það kýs að minna lesendur sína á dómsmál sem það hefur tapað. En þrátt fyrir að það bæti hugsanlega stemninguna á Fréttablaðinu að minna starfsmenn sífellt á hve kúgaðir þeir eru, eru slíkar daglegar áminningar um „ritskoðun“ kjánalegar og þreytandi fyrir lesendur. Vissulega er þessi fyrirsögn flottari en ef þar stæði „Lögbann“ eða „Fréttablaðið kært“, en hún verður ekkert réttari fyrir vikið.

Fréttablaðið ætti einfaldlega að hætta þessu daglegu stælum sínum og snúa sér að öðru. Þeir getur notað dómskerfið til að skera út um hvort þau bréfaskrif sem blaðið komst yfir eigi erindi til almennings. En þeir eiga hlífa okkur lesendum fyrir daglegum tilkynningum um meinta allsherjarkúgun Fréttablaðsins. Sjálfsvorkun er nefnilega ekkert sérstaklega heillandi eiginleiki. Hvorki hjá fréttamönnum né öðrum.