Að fanga dag

Les einhver netið á aðfangadag? Varla klukkan 10 um kvöldið þegar þessi greyið pistill mun loks birtast. Hugsanlega mun einhver lesa hann á jóladag eða að þessari jólahelgi liðinni. Þá verður hann orðinn númer tvö eða þrjú í röðinni.

Það gerir kannski engin kröfu um að neinn skrifi neitt merkilegt á aðfangadag. Vefþjóðviljinn reyndi að nota daginn í dag til að gagnrýna fjölmiðla fyrir fréttaflutning frá Ísrael og pólitískar jólakveðjur félagasamtaka í Ríkisútvarpinu. En jafnvel hinir staðföstu gáfust upp.

Það er samt í raun alveg heilmargt til að fjalla um. Nýr forseti Póllands tók við embætti í gær. Hann boðar nýja stjórnarskrá þar sem, hver skyldi halda, vægi forsetans er aukið. Ný ríkisstjórn flokks hans er að keyra í gegn eingreiðslur vegna barneigna og breytt fjölmiðlalög sem eiga meðal annars að efla „siðgæði“ fréttamanna og tryggja Útvarpi Maríu, öfgakaþólskri útvarpsstöð fleiri tíðnir.

Svo var Kjaradómur að dæma. Það er algjör óþarfi að láta Kjaradóm úrskurða um laun alþingismanna og ráðherra. Þeir ættu að gera það sjálfir. Auðvitað eru dómar kjaradóms oftast ekkert nema leið fyrir þingmenn til að forðast það að taka ábyrgð á sínum eigin launahækkunum. En fyrst að raunin er sú þeir geta snúið við dómum með lagasetningu þá þýðir það auðvitað að þeir bera ábyrgð. Í dag taka þingmenn við flestum kjarabótum dómsins en leika þó alþýðuhetjur af og til þegar dómar hans valda ólgu í þjóðfélaginu.

Annars virðast ekki margir hafa áhyggjur af því að Forsætisráðherra skyldi skrifa dómendum bréf nú og krefjast skýringa. Í öryrkjamálinu þótti þetta hinn versta hegðan. Mér finnst þetta hins vegar dæmi um skjaldbökupopúlisma hans Halldórs í embætti. Alltaf voða áhyggjufullur og með nefið í öllum málum. Davíð var meira eins og strangi skólastjórinn sem allir voru hræddir við. En þegar á líður man maður meira eftir stranga skólastjóranum en unga, hressa gaurnum sem sá um félagslífið.

Jafnvel meðan ekkert alvarlegt er að virðist Halldór ekki geta varist einföldustu árásum og virðist sár og leiður yfir hverri þeirri gagnrýni sem á hann kemur. Slíkur maður væri illa til þess fallinn að stjórna skútunni ef vindar breyttust.

Það voru mistök hjá Sjálfstæðismönnum að gefa eftir forsætisráðherraembættið og þeir ættu að drífa sér í því að ná því aftur. Það að þeir reyni það er raunar álíka líklegt og að þessi pistill muni valda ólgu í pólitíska sviðinu. Það er nefnilega ekki mikið tekið eftir því hvað skrifað er á aðfangadag.

Allt er fiskur

Hæfileiki Frjálslyndra til að troða kvótamálum í allar umræður er hreint ótrúlegur. Seinasta þriðjudag (20.12) ritaði Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, grein í Morgunblaðið um skipan Hæstaréttardómara. Nú mætti halda að þetta væri stórt og mikið mál sem borið gæti heilan pistil. En nei! Auðvitað þurfti þingmaðurinn að koma fiskveiðistjórninni að og hnýta í Hafró í leiðinni.

Í fyrsta hluta greinarinnar „Er útlenskt merkilegra?“, ræðir Sigurjón um nýútkomið álit mannréttindastjóra Evrópuráðsins varðandi skipan Hæstaréttardómara og undrast um leið að meiri umræða hafi skapast um það álit en álit Umboðsmanns Alþingis. Síðan dregur hann í efa að Björn Bjarnason muni bregðast við gagnrýni Umboðsmannsins líkt og Björn segist ætla gera og segir Björn forhertari en Bush í þessum efnum.

Þarna hafði Sigurjóni Þórðasyni, þingmanni Frjálslynda flokksins, tekist að skrifa niður um 300 orð án þess að „fiskur“ kæmi fyrir neinu þeirra. En til allrar hamingju tókst Sigurjóni að gera bót þar á:

Það er lenska stjórnvalda að þegar þau eru lent í vandræðum á að kalla til svokallaða „óháða“ erlenda sérfræðinga. Nú á að kalla einhvern sérfræðing frá útlöndum til að lesa gegnum tvær skýrslur um stöðu öryrkja. Hafró kallar reglulega til „óháða“ erlenda sérfræðinga þegar spár þeirra hrynja mjög reglulega um svokallaða uppbyggingu fiskistofna [sic].

Mjúk færsla úr dómstólum yfir í fiskveiði. Glæsilegt hjá Sigurjóni. Í lok greinarinnar segir þingmaðurinn svo loks:

Ef menn vilja sjá breytingar á skipan hæstaréttardómara, hlut eldri borgara réttan og árangursríka fiskveiðistjórn liggur beinast við að styðja Frjálslynda flokkinn.

Ég man enn hvernig Frjálslyndum tókst að bókstaflega að skemma seinustu kosningabaráttu með endalausu kvótaþrasi. Allir spjallþættirnirnir í sjónvarpinu, kjördæmaþættirnir og leiðtogaumræðurnar snerust um fisk. Gott og vel, vissulega skiptir sjávarútvegurinn máli en fyrr má nú aldeilis vera! Ég man eftir að þáttastjórnandi spurði eitt sinn fulltrúa flokksins um hvort þeir höfðu engin önnur stefnumál, t.d. í menningarmálum. Fulltrúinn vildi meina að svo væri. Þeir styddu blómlega menningu á landsbyggðinni en til þess þurfti byggð og byggð getur ekki þrifist án… getið þið hvað… kvóta!

Einsmálaflokksflokkar munu alltaf skjóta upp kollinum með reglulegu millibili. En það er nákvæmlega það og ekkert annað sem Frjálslyndir eru. Stefnumál þeirra í öðrum málaflokkum eru nefnilega annað hvort ekki til staðar eða í besta falli handahófskennd. Enda skipta önnur stefnumál kannski ekki miklu máli. Fiskur skal það vera! Ef umræðurnar snúast um eitthvað annað þá skal samt talað um fisk. Fiskur, fiskur, fiskur!

Dæmi um þessa fiskáráttu tillaga Frjálslyndra um að allir Íslendingar myndu hafa rétt á að stunda veiðar á krókbát. Hvaða heimi lifir þetta fólk í? Er þetta það sem skiptir okkur mestu máli? Næsta skref væri hjá Frjálslyndum væri að skylda alla Íslendinga til að stunda fiskveiðar. Þarmeð mundi draumur þeirra rætast. Fiskur yrði sannarlega á allra vörum.

Námslán betri en styrkir

Fyrir tveimur mánuðum rakst ég á skemmtilega grein í dönsku blaði. „Snjallir stúdentar sleppa því að taka námslán,“ var fyrirsögnin. Í greininni var stutt viðtal við danskan nema sem kvartaði yfir því að námslánin væru of há.

„Það er ömurlegt að geta ekki ákveðið hve mikil námslán maður tekur,“ kvartaði stúdentinn. „6000 danskar krónur á mánuði er einfaldlega allt of mikið.“ Þetta sýnir kannski hve ólíkar væntingar námsmenn í mismunandi löndum geta haft til tilverunnar.

Í kringum umræðuna um styttingu framhaldsskólans hafa nokkrir andstæðingar breytinganna bent á að í Danmörku séu menn að jafnaði ekkert fljótari með nám, þrátt fyrir að framhaldsskólinn sé styttri. Þessar upplýsingar er skemmtilegur fróðleikur en eiga lítið erindi inn í umræðuna. Það er út í hött að ýja að því að íslensk ungmenni muni að jafnaði ekki komast fyrr í háskóla eftir breytingarnar, bara út af því að Dönum hafi almennt gengið illa að fá fólk ungt fólk til að taka nám sitt föstum tökum.

Fyrir því eru nokkrar ástæður. Í Danmörku fá allir allir danskir námsmenn 18 ára og eldri, svo kallaðan SU-styrk, sem er vasapeningur frá ríkinu til námsmanna. Styrkurinn er u.þ.b. 40. þúsund íslenskar krónur á mánuði og greiðist þangað til viðkomandi hættir í námi eða nær ákveðnum aldri.

Umræddur peningur er auðvitað ekki nóg til að lifa af, dugar oftast rétt svo fyrir leigunni. Hins vegar er hægt að taka námslán með eða, eins og flestir kjósa að gera, vinna með námi, enda eru dönsku námslánin óhagstæðari en þau íslensku, og fólk vill skiljanlega vera skuldlaust að námi loknu ef kostur er.

Þetta hefur hins vegar þær afleiðingar að margir kjósa að taka einungis 70 % tilskildra eininga á hverri önn eða gera reglulega hlé á námi sínu. Meðaltími sem það tekur danska nemendur að ljúka meistaragráðu er þannig 6,5 ár, einu og hálfu ári lengur en það sem „eðlileg“ getur talist.

Íslenska námslánakerfið er þannig mun meira hvetjandi en það danska. Það er hagkvæmt fyrir fólk að ljúka námi sínu sem fyrst, því öfugt við það sem gerist í Danmörku fá námsmenn á Íslandi ekki gefins pening í hverjum mánuði. Raddir um að breyta SU-styrknum alfarið í námslán hafa vissulega heyrst hér í Danmörku en en frá pólitísku sjónarhóli er afar ólíklegt að þær hugmyndir verði að veruleika.

Vissulega þurfa námslánin að vera í sífelldri endurskoðun og vafalaust margt í íslenska kerfinu sem mætti betur fara. En ef hugmyndin er að hvetja fólk til að taka námið föstum tökum er íslenska kerfið allavega mun betra en það danska.

Gleymum ekki enskunni

Danir hafa löngum áttað sig á mikilvægi enskunnar og þeim mannauði sem felst í góðri enskukunnáttu þjóðar. Í háskólum hér í Kaupmannahöfn er mjög mikið framboð af námi á ensku enda ólíklegt að ásókn útlendinga í námið yrði mikil annars. En það kemur reyndar í ljós að ákveðin hópur Dana á erfitt með að fóta sig í þessu alþjóðlega umhverfi.

Undanfarin tvö ár hef ég verið við nám í Danmörku. Einn af þeim kúrsum sem ég tek nú í Kaupmannahafnarháskóla fjallar um kennslufræði raunvísinda og er kenndur á ensku, vegna þess að tveir skiptinemar, sem kunna ekki dönsku, eru meðal þátttakenda. Þetta hefur reyndar þýtt það að nokkrir aðrir nemendur hafa mætt illa, enda telja þeir sig lítið geta tekið þátt í umræðum í hálfhúmanísku fagi á öðru máli en dönsku.

Flestir í þeim hóp, reyndar ekki allir, eru svokallaðir „Nýdanir“, þ.e.a.s. Danir af erlendum, oft miðausturlenskum, uppruna. Allir þeir eru flugmæltir á dönsku fínt skrifandi á því máli, en eiga í miklum erfiðleikum með að tjá sig á ensku. Einhvern veginn er hún ekki jafnmikill hluti af þeirra menningu og annarra Dana.

Það kemur því í ljós að eftir margra ára herferð fyrir bættri dönskukunnáttu innflytjenda og afkomenda þeirra, er eins og það hafi gleymst að góð enskukunnátta er ekki síður mikilvæg til að geta tekið virkan þátt í dönsku samfélagi. Fólk sem hefur fæðst á Nörrebro, búið þar alla ævi og hefur dönsku að móðurmáli á erfitt með að stunda anám í dönskum háskólum. Vegna slakrar enskukunnáttu.

Samkvæmt nýjum tillögum svokallaðrar Velferðarnefndar, sem skoða átti ýmsa þætti velferðarkerfisins danska, er gert ráð fyrir að í framtíðinni fái útlendingar í Danmörku ótímabundið dvalarleyfi ef þeir hafa verið í vinnu í tvö ár, staðist próf í dönsku og ensku. Sömuleiðis hyggjast Danir auka enn vægi enskunnar í grunnskólum landsins og þá sérstaklega bæta enska ritun danskra nemenda.

Í viðtali við Jyllands-Posten í gær segir Bertel Haarder, menntamálaráðherra, einfaldlega: „Enskan er okkar annað móðurmál og ef við viljum hafa gott menntakerfi er mikilvægt að leggja rækt við hana.“

Það er kannski enn þá svolítið í að íslenskur menntamálaráðherra tali svona hreint út, en ljóst er að flest það sem á við í Danmörku á við á Íslandi. Enginn vafi er á að enskukunnátta er nauðsynleg til virkrar þátttöku í íslensku samfélagi og það er heldur engin vafi á að Íslendingar hafa mikinn potential (það skilja mig vonandi allir) til að gera enskukunnáttu þjóðarinnar að sannkallaðri auðlind.

Sömuleiðis er ljóst að margir telja sig helvíti spræka í enskunni (og vissulega rétt að Meðal-Íslendingur geti örugglega bjargað séð sæmilega í talmálinu) er langt því frá að við séum einhverjir heimsmeistarar í málinu, sérstaklega þegar ritmálið er annars vegar.

Það væri góð hugmynd að hefja enskunám mun fyrr, til dæmis strax á fyrsta ári grunnskólans. Þrátt fyrir meintan rembing margra Evrópuþjóða eru flestir raunar að stíga skref í sömu átt. Meira að segja Þjóðverjar byrja að læra ensku 2-3 árum fyrr en Íslendingar og krafan um enskukennslu frá 1. bekk er orðin algeng þar í landi.

Minn John Lennon

Bítlarnir voru snar þáttur af mínum uppvexti. Þeir voru raunar fyrsta hljómsveitin sem ég „fílaði“. Yfir nokkra ára tímabil safnaði ég að mér tónlist frá Bítlunum á ýmsu formi. Flest var þetta reyndar á ólöglegum sjónræningjakasettum sem keyptar voru í Póllandi skömmu eftir hrunið. Ein kasetta kostaði þá u.þ.b. 10.000 gömul pólsk zloty eða ca. tuttugukall á íslensku verðlagi.

Þegar maður kynnist hljómsveit sem er hætt, er ferlið auðvitað allt annað en þegar um starfandi tónlinstarmenn er að ræða. Tímalínan var auðvitað öll í ruglinu enda plöturnar keyptar í einhverri handahófskenndri röð. Annað sem einkenndi þetta ferli er að maður hlustaði á sömu spóluna viðstöðulaust í vikur eða jafnvel mánuð. Alveg þangað til að maður þekkti hverja einustu gítarinnkomu, hóst eða suð. Svo nokkru seinna þegar löglegu útgáfurnar voru keyptar gat ég auðveldlega komið auga á hluti eins og að sum lög voru aðeins lengri (köttað hafði verið yfir eitt erindi eða feidað út þegar mínúta var eftir í þeim „útgáfum“ sem ég hafði átt).

Já, maður hlustaði á þetta allt. Tónlistarsmekkur manns var fremur ómótaður og maður vissi ekki hvað væri gott eða slæmt, frægt eða gleymt. Ég hlustaði á hina almennt lágt metnu plötu „The Beatles – For Sale“, jafn mikið og allar aðrar. Mér fannst „Eight Days a Week“ bara helvíti fínt lag.

Hold me *klapp klapp*

love me *klapp klapp*

hold me *klapp klapp*

love me *klapp klapp*.

Áhugi á sögu hljómsveitarinnar fylgdi auðvitað í kjölfarið og loks fór ég að skoða söguna um morðið á John Lennon.Ég hafði raunar einhvern veginn alltaf vitað að einn í hljómsveitinni væri dáinn. Minnir að pabbi hafi sagt mér það þegar ég var mjög ungur. Ég man að ég skildi ekki hvers vegna hljómsveit gat ekki komið saman þótt einhver einn væri dauður. Er ekki hægt að finna einhvern annan í staðinn?

Og ég man vel hve reiður ég var, og stundum er enn, manninum sem skaut John Lennon. Ekki bara fyrir að hafa drepið goðið mitt, heldur fyrir að hafa gert dauða Lennons í svona ómerkilegan. John Lennon var ekki skotinn fyrir að vera friðarsinni. Hann var ekki skotinn fyrir að hafa sagst vera stærri en Jesús. Hann var skotinn því annar maður vildi vera frægur. Seinustu orð Johns voru „I’ve been shot“. Fyrstu orð morðingjans eftir drápið voru „I shot John Lennon“. Kannski einkennandi fyrir hve einvíður þessi atburður var. Og eins og allir aðrir Bítlaaðdáendur fannst mér að morðinginn skuldaði mér eitthvað meira, einhverja mystík.

Þannig upplifði ég morðið á John Lennon í fyrsta skipti, sirka tólf árum eftir að það var framið. Ég mann líka þegar ég uppgötvaði að það hafði átt sér stað í desember 1980, tveimur og hálfum mánuði eftir að ég fæddist. Af einhverjum ástæðum fannst mér alveg gríðarleg huggun og léttir að vita að ég hafi verið uppi á sama tíma og hann. Kannski hallærislegt en þannig var það samt. Og ef ég verð einhvern tímann spurður um morðið á forsprakka Bítlanna af tuttugustu-og-fyrstu-aldar-táningi, mun ég stoltur og hrærður segja.

„Ég var mjög ungur þegar þetta gerðist.“

Öryrkjar í plati?

Á dögunum kom út skýrsla „Örorka og velferð á Íslandi“ eftir Stefán Ólafsson. Flestir fjölmiðlar kynntu skýrsluna með fyrirsögnum á borð við „Skattbyrði öryrkja hefur aukist“. Ágætisfyrirsögn en segir því miður ekki neitt. Skattbyrði eykst með auknum tekjum, þannig að ef tekjur öryrkja hefðu t.d. fjórfaldast á seinasta áratug þá hefði það þýtt aukna skattbyrði þeirra en varla verið mjög slæmt.

Aðalniðurstaða Stefáns var hins vegar sú að tekjur öryrkja hafi dregist aftur úr öðrum launum, þ.e.a.s. hækkað hlutfallslega minna. Til dæmis segir í lokakafla skýrslunnar:

Heildartekjur öryrkja í hjúskap eða sambúð voru árið 2004 um 66% af

meðaltekjum hjúskaparfólks í landinu almennt. Sá munur hafði verið 73% árið

1995.

Stærsti galli skýrslunnar er reyndar hve oft þar eru bornir saman hlutir sem ekki eru sambærilegir. Til dæmis segir í sama kafla:

Heildartekjur einhleypra öryrkja voru árið 2004 um 53% af heildartekjum framteljenda á aldrinum 25-65 ára að jafnaði. Árið 1995 hafði munurinn verið

56%.

Hvernig væri að bera saman tekjur einhleypra 25-65 ára öryrkja við sama aldurshóp einhleypra ekki-öryrkja? Áðurnefndur samanburður segir því miður fátt.

En annars er skýrslan þó fróðleg lesning og ljóst að margt mætti gera til að staða umrædds hóps yrði betri en hún er. Fyrr á árinu kom reyndar út önnur skýrsla um svipað efni, unnin af Tryggva Þór Herbertssyni. Það er skemmtilegt að bera þessar tvær skýrslur. Þær eru reyndar nokkuð sammála um flestar ástæður fyrir fjölgun öryrkja. Báðar telja þær að skýra megi þróunina með a) því að Íslendingar séu að eldast b) því að fólk með geðræn vandamál sé í auknum mæli skráð sem öryrkjar c) (að einhverju leiti) breyttum örorkustaðli sem tók gildi 1999.

Í einu atriði greinir höfundana tvo hins vegar verulega á. Tryggvi telur að skýra megi hluta fjölgunarinnar með því að hagkvæmt sé fyrir láglaunafólk og atvinnulausa að „gerast“ öryrkjar og sömuleiðis óhagkvæmt fyrir öryrkja að fara aftur á vinnumarkaðinn. Tryggvi styður þessa skoðun með nokkrum dæmum um hvernig öryrkjar geta lækkað verulega í launum við það að fá sér vinnu. Stefán telur hins vegar af og frá að hagkvæmt sé fyrir fólk að leggjast í leti undir merkjum örorku og styður þetta með tölfræðilegum gögnum sem sýna að meðalheildartekjur öryrkja séu lægri en lágmarkslaun. Einnig bendir hann á að almennt sé leti ekki litinn góðum augum í þjóðfélaginu sem fælir fólk frá umræddri hegðun.

Þetta tiltekna atriði er tvímælalaust þess virði að skoða nánar. Tryggva skortir þannig tölfræðigögn til bakka upp tilgátur sínar, þ.e.a.s. þrátt fyrir að hagkvæmt gæti orðið að „verða“ öryrki, er ekkert víst um að fólk geri það. Hins vegar er Stefán einnig á frekar hálum ís enda sýnir hann einungis að óhagkvæmt sé fyrir „meðalverkamann“ að verða að „meðalöryrkja“. Einnig skortir hann rök fyrir tilgátu sinni um að almenn vinnugleði Íslendinga hljóti að fæla fólk frá því að sækjast eftir örorkubótum.

Báða skortir raunar annaðhvort tölfræði eða áþreifanleg dæmi um það að fólk kýs eða kýs ekki að „gerast“ öryrkjar til að hækka / lækka ekki tekjur sínar. Athuga þarf betur umfang þess að fólk reyni að „lifa á kerfinu“. Ef í ljós kemur að margir geri slíkt þarf hugsanlega að gera endurbætur en annars ekki. Óþarfi er að leggja meiri þjáningar á þorra öryrkja til að ná nokkrum svörtum sauðum.

Ljóst er að það þarf að vinna að því að auka tekjur íslenskra öryrkja, helst með því að auka atvinnutekjur sem flestra þeirra. Þess vegna er auðvitað fáranlegt að menn geti skert tekjur sínar við það að fara út á vinnumarkaðinn eins og dæmi í skýrslu Tryggva sýna og samkvæmt Stefáni er atvinnuþátttaka íslenskra öryrkja lægri en í nágrannalöndum, sem er auðvitað áhyggjuefni einnig.

Þessir feitu Bandaríkjamenn

Sá ánægjulegi atburður átti sér stað nýlega að nýtt mjólkurfyrirtæki tók til starfa sem hyggst framleiða osta í minna samstarfi við landbúnaðarráðuneytið en venja hefur verið hingað til. Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherran sem sumum þykir sniðugur, lét sig ekki vanta á opnunina og flutti þar ræðu. Á einum stað í ræðunni minntist hann á (meintan) útflutning íslenskra landbúnaðarvara vestur um haf:

Og við heyrum kallið frá Bandaríkjunum að íslenskar mjólkurvörur eru taldar þær bestu: smjörið fegurst á litinn, best til baksturs og einstakt að gæðum. Og þeir eru farnir að teiga skyrdrykkinn til þess að megra sig, þessir feitu Bandaríkjamenn.

[Úr Fréttum NFS, feitletrun er höfundar.]

Svona ummæli á ráðherra ekki að láta út úr sér. En samt er þetta alveg Guðna líkt. Látum vera stöðugar lygar landbúnaðarráðherra um stöðu íslensks landbúnaðar á erlendum mörkuðum. Látum vera endalausar staðleysur um að erlendis séu menn „á einu máli“ um að íslenska lambakjötið eða mjólkin séu fremst að gæðum. Þær eru kannski ekki verri en hvert annað pólitískt hjal sem menn láta út úr sér til að stappa stáli í sitt fólk og styrkja um leið stöðu sína. En er það ráðherra virkilega sæmandi að láta út úr sér slíka fordómafroðu: „Þeir eru farnir að teiga skyrdrykkinn til þess að megra sig, þessir feitu Bandaríkjamenn?“

Nei. Vegna þess að það er fáum sæmandi. Hvorki grunnskólakennarum, verkstjórum, tannlæknum né neinum öðrum. Hvað þá mönnum í opinberum stöðum. Þeir síst af öllum ættu að dreifa staðalímyndum um feita Bandaríkjamenn, gráðuga gyðinga, þjófótta sígauna eða drykkfellda Rússa.

Ég þori að fullyrða að ef háttsettur stjórnmálamaður í öðru Evrópulandi léti slíkt út úr sér sem Guðni nú á dögunum yrði eftir því tekið. Hvort sem það yrði um Bandaríkjamenn eða aðra þjóð. Ég veit ekki hvers vegna mönnum finnst eitthvað sniðugt við Guðna, sem gerir það að verkum að hans kemst upp með þetta. Sjálfur hef ég sjaldan haft húmor fyrir honum og ekki finnst mér hann neitt sniðugri eftir þetta seinasta uppátæki hans.

Framsóknarmenn ættu að sjá sóma sinn í því að krefjast þess að Guðni annaðhvort biðjist afsökunar eða segi af sér fyrir að láta út úr sér slíka þvælu. Mín skoðun er sú að hann ætti að gera hvort tveggja. Ráðherrar eiga ekki að haga sér eins og fífl.

Breiðfylking um leiðindi

Svo virðist sem þverpólitísk sátt sé að nást á Íslandi um að hér verði komið á heimsins leiðinlegasta kosningakerfi. Að mörgu leiti er það skiljanlegt enda eru íbúar höfuðborgarsvæðisins orðnir þreyttir á því að vera undirmannaðir á Þingi. Hins vegar má vel jafna atkvæðavægi án þess að gera landið að einu, hundleiðinlegu, kjördæmi.

Sögukennari einn sagði mér einu sinni að stjórnarskrárbreytingar á Íslandi verið framkvæmdar af þremur ástæðum: til að auka réttindi borgaranna, auka sjálfstæði gagnvart Dönum eða minnka völd Framsóknarflokksins. Hið mikla fylgi Framsóknar í dreifbýli hefur nefnilega oftast nýst flokknum vel í þeim kosningakerfum sem við lýði hafa verið hér á landi.

Af einhverjum ástæðum hefur það víst alltaf þótt sjálfsagt, eða a.m.k. pólitískt mest framkvæmalegt, að landsbyggðin fengi fleiri þingmenn en Reykjavík. Og þrátt fyrir ástæðan væri alltaf sú að þetta væri Framsóknarmönnum hagstætt hafa menn í gegnum tíðina reynt að finna aðrar og „betri“ ástæður.

Ein þeirra var sú að þingmenn dreifbýlis ættu erfiðara með að ferðast um í kjördæminu sínu og spjalla við kjósendur. Vondir vegir og svona. Þetta er hiklaust skásta ástæðan en réttlætti þó að sjálfsögðu ekki fimmfaldan þingstyrk Vestfjarða miðað við Reykjanesið, eins og þetta var þangað til nýlega. Önnur ástæða átti að vera sú að lágt þjónustustig út á landi réttlætti á einhvern hátt fleiri þingmenn. Enn ein: fiskur er veiddur út á landi; og íslenska þjóðin lifir á fiski.

Og svo var fólki sagt að í raun skipti þetta engu máli. Því út af jöfnunarþingsætum væri landið í raun þegar eitt kjördæmi. Reyndar er það rétt að pólitískur styrkur á Alþingi er nú í samræmi við fylgi á landsvísu. Það er bara spurning hvers vegna Reykvíkingar og Hafnfirðingar þurfa að kjósa Austfirðinga og Vestfirðinga sem fulltrúa sína á þing í stað þess að velja þangað Reykvíkinga og Hafnfirðinga. Sérstaklega í ljósi þess hve duglegir þingmenn landsbyggðarinnar eru að sinna málefnum kjördæma sinna (en ekki málefnum Reykvíkinganna sem komu þeim á þing).

En samt hafa fáar þjóðir kosið að gera land sitt að einu kjördæmi; Írak er stærsta dæmið sem ég þekki. Helsti galli við kosningar í stórum kjördæmum er hve erfitt er að búa til kerfi sem gerir persónukjör mögulegt. Flest slík kerfi eru annaðhvort mjög flókin eða „ósanngjörn“. Ef því kerfi sem Danir nota í sveitarstjórnarkosningum yrði t.d. komið á á Íslandi væri líklegt að flokksformenn fengju tugi þúsunda atkvæða á landsvísu meðan aðrir næðu inn á þing með minna en 50 atkvæðum.

Það hníga öll rök að því jafna beri atkvæðavægi og skiljanlegt að margir keppi að því gera landið að einu kjördæmi, sannfærðir um að önnur kerfi verði alltaf bjöguð, á kostnað íbúa suðvesturhornsins. Við eigum auðvitað að jafna atkvæðavægi, en sú lausn sem menn stefna að er, í sannleika sagt, steingeld og hundleiðinleg. Jafnvel á norðurevrópskan mælikvarða.

Viðauki

Lítið mál er að láta fjölda þingmanna í kjördæmum einfaldlega vera í samræmi við íbúafjölda. Þá væri reyndar góð hugmynd að skipta stærsta núverandi kjördæmi Suðvesturkjördæmi í tvennt: Hafnarfjörður, Garðabær og Álftanes yrðu í einum hluta en Kópavogur, Seltjarnarnes og Mosfellsbær í hinum (þetta mætti skv. stjórnarskrá). Þingmenn myndu þá skiptast niður á kjördæmin með eftirfarandi hætti:

Reykjavík-N 12

Reykjavík-S 12

Kragi norður 8

Kragi suður 7

Norðvesturkj. 7

Norðausturkj. 9

Suðurkj. 8

Kannski er hér ekki um draumakosningakerfi allra barna að ræða, en kosturinn við það er sá því tekst að jafna atkvæðavægi næstum því fullkomlega og það mætti koma því á strax í næstu kosningum, því stjórnarskrárbreytingar er ekki krafist til að koma á umræddri breytingu.