Sameinaðir föllum vér

Nú um helgina var kosið um fjölmargar sameingartillögur og voru langflestar þeirra kolfelldar. Þegar félagsmálaráðherra lagði af stað í þetta ferðalag fyrir um tveimur árum bjóst hann væntanlega við að meira biði sín á leiðarenda en stækkun Fjarðabyggðar og hugsanleg sameining Dalasýslu í eitt sveitarfélag. Niðurstaðan er því án efa mikill ósigur fyrir hann.

Annars er væri skemmtilegt ef við borgarbúar fengjum að kynnast betur umræðunni sem fram fer um sameiningarmál í sveitum landsins. Ég var eitt sinn á ferðalagi um Austurland þar sem nýverið höfðu þrjú sveitarfélög sameinast í Fljótsdalshérað. Þó vantaði Fljótsdalshrepp inn í þennan hóp, hreppinn sem Kárahnjúkavirkjun lendir í.

Mér var sagt að Landsvirkjun hafi komið sér upp upplýsingamiðstöð í félagsmiðstöð hreppsins sem var sérstaklega stækkuð af þessu tilefni. Heimamenn fá því stærri samkomustað þegar framkvæmdunum lýkur. Því hafi mönnum ekki dottið í hug að fara sameinast.

Nú þegar þeir voru komnir með þessa fínu félagsmiðstöð og hreppurinn á grænni grein.

Að öllu gamni slepptu þá eru ekkert óeðlilegt að menn hafi skiptar skoðanir um þessi sameiningarmál. Ef einhver býr í vel reknum, skuldlausum hreppi er ekkert óeðlilegt að hann vilji ekki taka á sig skuldir nágrannasveitunga. Sömuleiðis eru áhyggjurnar af því að “stjórnsýslan færist frá fólkinu” einnig indælar, þótt mörgum útlendingum þætti eflaust merkilegt að heyra af fólki sem óttast að mál litla mannsins muni gleymast í fjölmennum þusund manna sveitarfélögum.

Hvað sem öllu líður er ljóst að núverandi tilraun til stórsameininga hefur gjörsamlega farið út um þúfur. Í raun er stærðargráða þessa afhroðs merkileg í ljósi þess hve vel í raun hefur gengið að sameina sveitafélög á undanförnum árum, en fjöldi þeirra er nú kominn undir hundrað. Ljóst er íbúum líkaði ekkert sérstaklega vel þessi samhæfða kosning á landsvísu. Meira að segja íbúar Akureyrar felldu felldu sameiningu Eyjafjarðar, en hingað til hafa það aðallega verið íbúar minni hreppanna sem verið hafa “til vandræða” meðan bæirnir hafa tekið stækkun á áhrifasvæði sínu fagnandi hendi.

En hvað á þá að gera? Á að leyfa hinni hægfara en sáttalíklegri leið frjálsra sameininga að halda áfram? Það er einlæg skoðun þess sem þetta ritar að einhvers konar lagasetning verði að koma til álita. Það er einfaldlega erfitt að búa til heildstæða áætlun um úthlutun verkefna til sveitarfélaga þegar íbúar þeirra minnstu eru 0,05% af íbúum þeirra stærstu. Í öðrum löndum veigra menn sér ekki við að sameina sveitarfélög með lögum enda auðveldara að ná hagkvæmni og skilvirkni með því móti.

Á hinn bóginn verður auðvitað að skoða hvernig sameiningar það eru sem við viljum. Það ætti til dæmis vera ljóst að hagkvæmara er að sameina héruð eins og Borgarfjörð, sem hefur hvort sem er eina náttúrlega svæðismiðstöð fremur en t.d. Eyjafjörð þar sem stjórnsýslan þyrfti hvort sem er að vera dreifð á nokkra þéttbýliskjarna í sameinuðu sveitarfélagi.

Leave a Reply

Your email address will not be published.