Tunglinu stolið

Fjögurra vikna kosningamaraþoni í Póllandi er lokið með fullnaðarsigri þeirra Kaczynski bræðra. Þeir sitja nú með pálmann í höndunum eftir sigur Lech Kaczynski í forsetakosningunum í gær, mánuði eftir að flokkur þeirra sigraði í þingkosningunum. Guð hjálpi okkur öllum.

Fyrir þá sem ekki þekkja eru þeir Kaczynski bræður eineggja tvíburar sem hafa verið áberandi á ytri hægrivæng pólskra stjórnmála í þrjá áratugi. Þeir urðu reyndar fyrst frægir á hvíta tjaldinu þegar þeir léku í barnamyndinni „„Um tvo bræður sem stálu tunglinu.“

Lengst framan af kosningabaráttunni leit út fyrir að sigur Kaczynski bræðra væri álíka líklegur og tunglþjófnaður einmitt. Því þrátt fyrir að hinn þjóðerniskaþólski boðskapur á sér þónokkurn hljómgrunn meðal pólverja gæti þessi háværi og uppreisnargjarni þjóðarfjórðungur varla nægt til sigurs, hvað þá í forsetakosningum, þar sem hreins meirihluta er krafist.

Lengst af leit út sem Borgaravettvangur, helsti andstæðingur bræðranna á hægrivængnum væri með örugga forystu. Þeim tókst hins vegar að tapa henni niður viku fyrir kosningar. Sömu sögu er að segja um forsetakapphlaupið nema að hér var sveiflan en hraðari. Einungis ein skoðanakönnun, tveimur dögum fyrir kosningar sýndi Lech Kaczynski með ívið meira fylgi en Donald Tusk, ólíkt viðkunnalegri og hófsamari frambjóðanda. Samt sigraði Lech með næstum því 9 prósentustigum!

Hér má tína til ýmsar skýringar. Ein þeirra er sú að „menntavinstrið“ sem undir venjulegum kringustæðum hefði átt að kjósa Tusk, var ekki mikið að láta sjá sig á kjörstöðum nú um helgina. En einnig tókst Kaczynski að höfða til hefðbundinna vinstri- og bændaflokkakjósenda með áróðri gegn því „að Pólland yrði fært frjálshyggjumönnum á silfurfati,“ en stefna hans í efnahagsmálum er mun vinstrisinnaðri. Það verður reyndar fróðlegt að sjá hvernig honum muni takast að halda ýmsum félagslegum kosningaloforðum sem hann slengdi fram á seinustu stundu.

Kannski verður Lech Kaczynski ekki alslæmur forseti. Vonandi mun hin vafasama tillaga bræðranna að nýrri stjórnarskrá sem sniðin er utan um Lech Kaczynski sem forseta og inniheldur guðleg óp í annarri hverri línu aldrei verða að veruleika. Vonandi mun þeim ekki takast að koma of mörgum hatursfullum og íhaldssömum hugmyndum sínum í verk.

Í Varsjá, þar sem Lech Kaczynski hefur verið borgarstjóri í 3 ár fékk Donald Tusk tvo þriðju atkvæða.

Sameinaðir föllum vér

Nú um helgina var kosið um fjölmargar sameingartillögur og voru langflestar þeirra kolfelldar. Þegar félagsmálaráðherra lagði af stað í þetta ferðalag fyrir um tveimur árum bjóst hann væntanlega við að meira biði sín á leiðarenda en stækkun Fjarðabyggðar og hugsanleg sameining Dalasýslu í eitt sveitarfélag. Niðurstaðan er því án efa mikill ósigur fyrir hann.

Annars er væri skemmtilegt ef við borgarbúar fengjum að kynnast betur umræðunni sem fram fer um sameiningarmál í sveitum landsins. Ég var eitt sinn á ferðalagi um Austurland þar sem nýverið höfðu þrjú sveitarfélög sameinast í Fljótsdalshérað. Þó vantaði Fljótsdalshrepp inn í þennan hóp, hreppinn sem Kárahnjúkavirkjun lendir í.

Mér var sagt að Landsvirkjun hafi komið sér upp upplýsingamiðstöð í félagsmiðstöð hreppsins sem var sérstaklega stækkuð af þessu tilefni. Heimamenn fá því stærri samkomustað þegar framkvæmdunum lýkur. Því hafi mönnum ekki dottið í hug að fara sameinast.

Nú þegar þeir voru komnir með þessa fínu félagsmiðstöð og hreppurinn á grænni grein.

Að öllu gamni slepptu þá eru ekkert óeðlilegt að menn hafi skiptar skoðanir um þessi sameiningarmál. Ef einhver býr í vel reknum, skuldlausum hreppi er ekkert óeðlilegt að hann vilji ekki taka á sig skuldir nágrannasveitunga. Sömuleiðis eru áhyggjurnar af því að „stjórnsýslan færist frá fólkinu“ einnig indælar, þótt mörgum útlendingum þætti eflaust merkilegt að heyra af fólki sem óttast að mál litla mannsins muni gleymast í fjölmennum þusund manna sveitarfélögum.

Hvað sem öllu líður er ljóst að núverandi tilraun til stórsameininga hefur gjörsamlega farið út um þúfur. Í raun er stærðargráða þessa afhroðs merkileg í ljósi þess hve vel í raun hefur gengið að sameina sveitafélög á undanförnum árum, en fjöldi þeirra er nú kominn undir hundrað. Ljóst er íbúum líkaði ekkert sérstaklega vel þessi samhæfða kosning á landsvísu. Meira að segja íbúar Akureyrar felldu felldu sameiningu Eyjafjarðar, en hingað til hafa það aðallega verið íbúar minni hreppanna sem verið hafa „til vandræða“ meðan bæirnir hafa tekið stækkun á áhrifasvæði sínu fagnandi hendi.

En hvað á þá að gera? Á að leyfa hinni hægfara en sáttalíklegri leið frjálsra sameininga að halda áfram? Það er einlæg skoðun þess sem þetta ritar að einhvers konar lagasetning verði að koma til álita. Það er einfaldlega erfitt að búa til heildstæða áætlun um úthlutun verkefna til sveitarfélaga þegar íbúar þeirra minnstu eru 0,05% af íbúum þeirra stærstu. Í öðrum löndum veigra menn sér ekki við að sameina sveitarfélög með lögum enda auðveldara að ná hagkvæmni og skilvirkni með því móti.

Á hinn bóginn verður auðvitað að skoða hvernig sameiningar það eru sem við viljum. Það ætti til dæmis vera ljóst að hagkvæmara er að sameina héruð eins og Borgarfjörð, sem hefur hvort sem er eina náttúrlega svæðismiðstöð fremur en t.d. Eyjafjörð þar sem stjórnsýslan þyrfti hvort sem er að vera dreifð á nokkra þéttbýliskjarna í sameinuðu sveitarfélagi.

Menntaskólinn við Austurvöll

Almennt held ég að það yrði skemmtilegt að setjast á Alþingi. Miðað við þann fjölda sem reynir slíkt gegnum prófkjör og Alþingiskosningar eru fleiri á svipaðri skoðun. Enda minnast margir framhaldsskólans sem skemmtilegs tíma og Alþingi virðist á margan hátt svipa til framhaldsskóla.

Þegar við vorum í grunn- og framhaldsskóla var alls staðar í kringu var fólk að brýna fyrir okkur að læra alltaf jafnt og þétt yfir önnina: lesa heima fyrir tímann, skrifa niður spurningar, fletta upp orðum sem við skildum ekki og reikna öll dæmin samviskusamlega. Þau stjörnumerktu líka.

En auðvitað hlustaði engin, nema kannski einstaka tússlitastelpur. Jú, menn sprettu kannski af stað fyrstu vikuna, en misstu fljótt dampinn og lágu í leti til loka nóvember. Þýskustílar og efnafræðidæmin voru bara göldruð fram í frímínútunum fyrir viðkomandi tíma. Ekki var hafist handa við nein stærri skiladæmi, ritgerðir eða skýrslur nema í fyrsta lagi daginn áður, helst seint að kvöldi. Og svo var bara vakað ef þess þurfti.

Þegar fór að koma að prófum voru það oft ekki aðeins nemendur sem voru með allt niðr’ um sig. Sumir kennarar voru þá kannski töluvert á eftir áætlun og redduðu sér með því að skella upp mörgum tugum glæra í hverjum tíma. Nemendurnir sátu með handkrampa og skrifuðu. Aðrir einfaldlega hentu í fólk fjölrituðum glósum og tilkynntu að „þetta væri til prófs.“ Þessu oft mótmælt því „það væri svo illa búið að fara í þetta“ (eins og okkur hafi ekki verið sama) og kennarinn bakkaði stundum með því að gefa til kynna að þáttur viðkomandi efnis á lokaprófinu yrði rýr.

Það var kannski fyrst þegar lesið var undir próf sem vitur ráð kennara, foreldra og námsráðgjafa rifjuðust upp. „Ef ég bara hefði verið duglegur alla önnina! Ef ég bara hefði lært fyrir hvern tíma og nennt að lesa yfir glósurnar mínar um þegar heim var komið! Ef ég hefði sannarlega lesið ensku smásögurnar, en ekki bara spurt einhvern sem var búinn að því! Ó, hve auðveldari yrði þá þessi prófalestur.“ Svo var því lofað að næsta önn yrði tækluð af krafti. Það loforð entist heldur ekki lengur en fyrstu vikuna.

Nú þegar þingið er komið í gang er gaman að fylgjast með hve mikill skólabragur er á þessu hjá þingmönnunum okkar og ráðherrum. Framan af þingi dunda menn sér klukkutímum saman í umræðum um útflutning hrossa, eflingu iðnnáms, heimaframleiðslu vína og kaup á skólaskipi. Þingmennirnir keppast við að spyrja ráðherrana um áhugamál sín og annarra, í von um nokkrar mínútur í fréttatíma. Þingstörfum lýkur vel fyrir kvöldmat. Suma daga er frí eftir hádegi.

En síðan fer að koma desember og ekkert búið að gera: fjárlög ósamþykkt, banki óseldur, framhaldsskóli óstyttur, eignaskattur óaflagður og búvörusamningur óendurnýjaður. Allt í rugli. Hvert stórmálið á eftir birtist út úr ráðuneytinum og skýst í gegnum nefnd í kvöldmatarhléi. Rætt í annari og þriðju umræðu með korters millibili. Stjórnarandstæðan stundum með múður og fær frestun á einhverjum málum gegn því að vera sæmilega samvinnuþýð í hinum.

Þegar leið á skólaferil kom það oftar og oftar upp að ekki var lengur nóg að byrja læra undir próf eða hefja vinnu við ritgerð kvöldið áður. Sum verkefni voru einfaldlega of víðamikil til þess. Þannig uxu menn smám saman út úr þessum framhaldsskólavinnuaðferðum. Það er tímabært að þingheimur geri það líka.