Sýndarfólkið

Dæmigerður dagur í miðbænum.

Á undanförnum árum hafa þeir arkítektar sem keppa í opinberum samkeppnum uppgötvað það trikk að bæta við fólki inn á tölvugraffíkina. Myndirnar verða með því móti hlýlegri og vinalegri. Menn horfa á myndband af nýjum tónlistarhúsum, bankahöfuðstöðvum eða háskólabyggingum, sjá allt þetta fólk og hugsa með sér: “Þetta er nú bara svolítið kósý!”

Vissulega virkar þetta. Það truflar ekki marga að sjá konu með barnavagn á einhverju furðulegu ferðalagi meðfram bankabyggingu hjá Kirkjusandi. Eða uppklæddann bisnesskarl með skjaltösku á harðahlaupum meðfram ströndinni hjá nýja tónlistarhúsinu. Allir rosa vel dreifðir um svæðið og hver að labba í sína átt.

Auðvitað yrði það ekki vænlegt til árangurs ef í stað stjörnubjarts himins og sólarlags hefðu hönnuðir nýja tónlistarhússins sýnt það með grámygluð ský í bakgrunni og kannski skipt öllum mannfjöldanum út fyrir hvítan plastpoka sem vindhviður hefðu fangað í einu horni hússins. Eða einmana máv sem reynir að fljúga á brott með allt of stóra, hálfétna pítsusneið. Og er sífellt að missa hana.

Að sjálfsögðu reyna menn að kynna sínar tillögur þannig að okkur, almenningi, líki þær og hugmyndin um iðandi stórlíf finnst okkur heillandi. Evrópsk. Svona viljum við vera.

Vandinn er hins vegar sá margt og margt annað þarf að gerast til meira líf færist yfir miðbæinn. Fallegar byggingar fyrir fólk til að labba í kringum eru ekki nóg. Fólkið sjálft er ekki síður nauðsynlegt.

Þetta verður nefnilega því miður sjaldnast eins og tölvugraffíkin lofaði. Á göngustígnum meðfram Öskju, Náttúrufræðihúsi HÍ, eru sjaldnast margir listamenn eða eða sölubásar með framandi grænmeti. Staðreyndin er því miður sú að flesta daga ársins og á flestum stöðum í borginni er það meira undantekning en regla að fólk sé á ferli. Við ættum því stundum að staldra við og reyna að sjá það fyrir hvernig hitt og þetta mannvirki mundi líta út á öðrum dögum en 17. júní. Í grámyglunni og suðvestanáttinni.

Leave a Reply

Your email address will not be published.