Oft en óvíðar

Brátt tekur gildi nýtt leiðakerfi Strætó tekur gildi 23. júlí næstkomandi. Um gjörbyltingu er að ræða og kannski ekki vanþörf á eins og nýtingin á kerfinu hefur verið. En almenningssamgöngum í hinni gisnu Reykjavík yfirhöfuð viðbjargandi?

Í stuttu máli er um ákveðna grundvallarbreytingu á hugmyndarfræðinni að ræða. Netið sjálft verður í raun gisnara, en miðað er að því að auka til muna ferðatíðni eftir stofnbrautum eins og Miklubraut. Á háannatímum eiga farþegar á leið frá Kringlunni niður í bæ aldrei að þurfa að bíða lengur en 2-3 mínútur eftir næsta vagni.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessar breytingar munu leggjast í borgarbúa, eða öllu heldur það brotabrot þeirra sem yfirleitt afskrifar ekki almenningsamgöngur sem ferðakost. Óneitanlega er hættan sú að þeir sem missa strætóinn sem eitt sinn stoppaði fyrir framan heimilsdyrnar munu endanlega gefast upp, á meðan aðrir munu kannski ekki selja Lexusinn eða Toyotuna þrátt fyrir að strætósamgöngur í þeirra hverfi hafi aukist. Mikill hluti Íslendinga er nefnilega gríðarlega strætófælinn, hver svo sem ástæðan fyrir því er.

En í allri umræðunni um almenningssamgöngur á Íslandi, sem oftast er neikvæð enda stýrt af fólki sem heyrt hefur um strætóferðir af frásögnum annarra er kannski við hæfi að segja nokkur orð til varnar þeim sem sjá um að halda þeim uppi. Í fyrsta lagi er strætókerfið í Reykjavík ekki „ótrúlega lélegt“. Það er raunar furðugott miðað við hve dreifð byggðin er og þar af leiðandi farþegarnir fáir. Sá sem þetta skrifar notaði þetta kerfi í fjöldamörg ár og átti sjaldnast í vandræðum með að vera mættur á réttum tíma, öfugt við marga bíleigendur í kunningjahópnum.

Sömuleiðis er kerfið síður en svo dýrt. Rauða kortið sem gildir í 3 mánuði kostar litlar 10.500 kr. sem þýðir að samgöngukostnaður einstaklings er um 40. þús kr. árlega sem er margfalt ódýrara en bílrekstur og talsvert ódýrari en fyrir notkun almenningssamgangna „í löndunum í kringum okkur“.

Þó er auðvitað margt sem betur mætti fara. Til dæmis er það algjörlega óþolandi að enn sé ekki hægt að komast inn í vagninn öðruvísi en með því að hafa við hendin nákæmlega 220 krónur í mynt. Leigubílar hófu að taka greiðslukort fyrir mörgum árum síðan, svo ekki sé minnst á það að gefa viðskiptavinum sínum til baka.

Margar aðrar hugmyndir hafa einnig verið þróaðar í stórborgum erlendis sem vert væri að skoða. Til dæmis geta farþegar í Berlín beðið bílstjórann um að panta handa sér leigubíl á tiltekna stoppistöð og einnig stoppa næturvagnar, að beiðni farþega, hvar sem er á leiðinni, ekki bara á stoppistöðunum. Þetta var oft í reynd raunin í íslensku næturvögnunum sálugu og hefði kannski verið góð hugmynd að markaðssetja hana sem slíka.

Margar af þeim breytingum sem nú er verið að leggja út í eru til mikils batnaðar. Til dæmis mun aldrei verða löng bið eftir næsta vagni fyrir þá sem komast vilja frá Hlemmi niður á Lækjartorg, vögnunum er nú dreift mun betur á klukkutímann. Þar munu vagnarnir nú fara á kvöldin 00, 06, 12, 18 og 24 mínútum eftir heila tímann, sem er mikil breyting frá því sem nú var þegar þeir keyrðu í halarófu hver á eftir öðrum, í kringum heila tímann.

Önnur athyglisverð útfærsla er að stofnleiðirnar munu nú keyra til kl. 2 yfir miðnætti um helgar sem er mjög jákvæð breyting og vonandi að sem flestir nýti sér hana svo þessum ferðum verði haldið við.

Auðvitað er það þó þannig að almenningssamgöngur í Reykjavík munu eiga erfitt uppdráttar þangað til að byggð hér þéttist. Það er staðreynd sem þeir sem mest gagnrýna skipulag þeirra átta sig oft ekki á.

Framsæknir þingmenn – afturhaldsþjóðir?

Á Íslandi og víðar koma andstæðingar beins lýðræðis oftast úr röðum íhaldsmanna meðan frjálslyndir vinstrimenn eru því hvað mest fylgjandi. Í þessu felst ákveðin þversögn enda sýnir reynsla annarra þjóða að mun erfiðara sé að koma á breytingum í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu en þing.

Eitt af þeim ríkjum þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru tiltölulega tíðar er Ástralía. Ég hitti nýlega ástralskan laganema og ræddi við hana um ýmis mál, m.a. um evrópurétt. Hún sagðist öfunda Evrópu af Mannréttindadómstólnum. Ég spurði þá hvort Ástralía hefði engan slíkan dómstól og þá svaraði hún mér: „Það eru engin mannréttindi í Ástralíu.“

Þegar Stjórnarskrá Ástralíu var samin um aldamótin 1900 þótti engin ástæða til að setja inn í hana mannréttindakafla. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar tilraunir til að bæta slíkum kafla við en þær allar mistekist, til dæmis árið 1988 þegar Ástralíubúar kusu um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort þeir vildu setja hann inn. Tillaga var felld með um 70% atkvæða.

Af þeim 43 þjóðaratkvæðagreiðslum sem haldnar hafa verið í Ástralíu á seinustu öld hafa einungis átta endað með jái. Svipaða sögu er að segja frá öðrum löndum þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru tíðar, t.d. Sviss og Bandaríkjum, alls staðar eiga jáin erfitt uppdráttar. Jáin, tillögur sem miða að breytingum á núverandi ástandi, verða helst að mælast með yfir 65% fylgi áður en kosningabaráttan hefst til að eiga einhverja möguleika.

Stjórnmálamenn virðast almennt nýjungagjarnari en fólkið sem þá kýs. Tökum Evrópumálin sem dæmi. Líklegast var öruggur þingmeirihluti fyrir inngöngu Norðmanna inn í Evrópusambandið í bæði skiptin sem ESB-aðildin var felld þar í landi. Sömuleiðis hefðu þjóðþing Dana og Svía ekki átt í minnstum vandræðum með að samþykkja upptöku Evrunnar. Jafnvel breska þingið gæti líklegast samþykkt Evruaðild Breta, þrátt fyrir að engar líkur eru fyrir því að meirihluti verði fyrir slíkri ákvörðun meðal Bretanna sjálfra á næstu áratugum.

Margir íhaldsmenn virðast óttast það að með beinu lýðræði muni „þjóðin“ gjörsamlega fríka út og kjósa yfir sig hvert flippfrumvarpið á fætur öðru. Miðað við reynslu erlendis frá mundi slíkt kerfi frekar hægja á breytingum en hitt. Á sama hátt er ljóst að mörg stefnumál „frjálslyndra vinstrimanna“ ættu síst meiri möguleika í beinni kosningu meðal landsmanna en í atkvæðagreiðslu á Þingi.

Hins vegar gefa þær fáu beinu atkvæðagreiðslur sem farið hafa fram hér á landi ekki til kynna að hér sé sérstaklega erfitt að koma málum í gegn. Íslendingar kusu með vínbanni, með sambandslögunum, gegn þegnskylduvinnu, með áfnámi vínbands [skemmtilegt] og með sjálfstæði. Síðan hafa Reykvíkingar með flutningi flugvallarins, mörg sveitarfélög kusu á sínum tíma með opnun áfengisútsölu og flestir íbúar sveitarfélaga kjósa iðulega með sameiningu þeirra (þótt stuðningsmennirnir séu reyndar hlutfallslega fæstir í fámennustu sveitarfélögunum sem skýrir hve brösulega gengur stundum að sameina þau).

Kannski eru Íslendingar þá upp til hópa meira Já-fólk en aðrar þjóðir? Um það er erfitt að fullyrða meðan fleiri og nýlegri gögn (úrslit atkvæðagreiðsla liggja ekki fyrir). Allavega næst þegar við lesum að 60% þjóðarinnar vilji breyta hinu eða þessu atriði, sem engin umræða hefur farið fram um, þá skulum við hafa í huga að þetta þýðir að líklega yrðu sambærileg tillag felld í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef til hennar kæmi.

McSlæða

Um daginn keypti undirritaður sér kaffi á Aðaljárnbrautastöðinni í Kaupmannahöfn. Eins og sönnum fjölmenningarsinnuðum kapítalista sæmir var kaffið keypt í McDonalds. Þótt kaffið hafi verið ágætt var það þó höfuðklæðnaður starfstúlkunnar sem gladdi hjarta undirritaðs. Þetta var blá höfuðslæða með kunnuglegum gulum „M“-um á víð og dreif.

Slíkar vinnustaðaslæður eru ekki einsdæmi hér í Danmörku. Árið 2000 vann ung írösk stúlka mál gegn Magasin í Óðinsvéum. Hún hafði verið rekin fyrir að neita taka af sér hijab-slæðuna. Dómsmálið hafði auðvitað mikið fordæmisgildi, héðan í frá þurfa fyrirtækin að taka tillit til þess, ef konur hafa þessar tilteknu ósk um höfuðklæði.

Nokkur stærri fyrirtæki hafa brugðist við með því að búa til sérstakar fyrirtækjahöfuðslæður, þannig geta kvenkyns starfsmenn McDonald’s nú valið milli McDonald’s derhúfunnar eða McDonald’s slæðunnar. Reyndar þegar litið er á þessa valkosti verður ljóst hve mikið bull allt tal um slæðu sem kúgunartákn kvenna er. Hvaða kona klæðist gulblárri derhúfu ótilneydd?

Reyndar hef ég, líkt og eflaust einhverjir aðrir, blendnar tilfinningar til dómsmála svipaðra þeim sem og hér var minnst á að ofan. Vissulega finnst mér forkastanlegt að einhver skuli reka starfsmann einungis fyrir að bera saklausan fatnað sem hvorki truflar neinn né skaðar. Hins vegar er alltaf spurning hvað dómstólum komi það við hver og af hverju er ráðinn eða rekinn hjá einkafyrirtækjum. En þá kemur næsta spurning: Hversu mikið fífl má einhver vera í nafni frelsisins? Værum við sáttir ef einhver neitaði lituðu fólki um afgreiðslu? Og væri þá fyrir okkur, neytendur, að sniðganga viðkomandi aðila, eða þarf aðkomu dómsstóla til.

Í öllu falli þá held ég að vænlegast til árangurs sé ef fyrirtækins sjálf sýni gott frumkvæði, áður en þau eru rassskelld af yfirvöldum. McDonald’s til dæmis mótaði sína stefnu í slæðumálum vel hálfu ári áður en ofannefndur Magasin-dómur féll. Eins og áður sagði sér fyrirtækið þeim kvenstarfsmönnum sínum sem það vilja fyrir sérstökum McDonald’s slæðum sem þær geta borið í stað derhúfanna ljótu.

Þetta framtak McDonald’s er auðvitað til fyrirmyndar. Fyrirtækinu tókst þannig að koma til móts við menningalega sérstöðu sumra starfsmanna sinna án þess að gera þeim þó hærra undir höfði en öðrum. Skyndibitakeðjan var þannig eitt fyrsta stórfyrirtækið í Danmörku til að stíga þetta jákvæða skref.

Auðvitað munu danskir alterglóbalistar og aðrir ekki hætta að hatast við McDonald’s þrátt fyrir þetta eða önnur jákvæð tilþrif í þágu starfsmanna sinna. Áfram munu einhverjir róttæklingar brenna fána þessa fyrirtækis sem virðist hafa helst það til saka unnið að vera bandarískt og skila hagnaði. Enginn brennir enn þá fána Magasin.

Kannski þykir enn í lagi að vera í eigu Íslendinga.

Apa í borgarstjórastólinn!

Stuart Drummond – Borgarstjóri Hartlepool.

Segja má að margir þeirra sem sækjast eftir að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í borginni eru svona menn gamalla tíma. Eða aðallega að þeir séu menn. Karlmenn. Og það er ekkert meira „last-year“ en að vera karlmaður í stjórnmálum í dag. Mér er reyndar alveg sama, í xilljón ár voru karlmenn við völd bara út af því að þeir voru karlmenn, getum við ekki gefið konum einn svona „rebound“-áratug? Og svo þegar búið verður að breyta rauða krossinum í íslenska fánanum í bleikan, þá getum við loksins farið að meta fólk eftir einhverju öðru en hvernig það losar þvag.

En hvaða eiginleikum viljum við að sá sem stýrir borg sé gæddur? Í þessu samhengi er fróðlegt að líta til reynslu annarra borga. Þá í „nágrannalöndunum“ alræmdu.

Borgin Hartlepool í Norður-Englandi hefur svipaðan íbúafjölda og Reykjavík (um 88 þús.) Fyrir þremur árum stóðu íbúar þess ágæta bæjar einmitt fyrir svipaðri spurningu og þeirri sem nú nagar Reykvíkinga. „Hvaða framsýni einstaklingur á að stýra bænum okkar inn í tuttugustuogfyrstu öldina?“

Þeir völdu manninn í apabúningnum.

Þeir sem fylgdust með kosningavöku fyrir bresku þingkosningar tóku eflaust eftir ýmsum fuglum í framboði. Sumt af þessu fólki var einfaldlega geðveikt, annað vildi nota tækifæri til að kynna sig og eitthvað tiltekið málefni. Dæmi um þetta eru svona „Björgum spítalanum“-flokkurinn, eða „Enga hraðbraut í gegnum varpsvæðið“-framboðið.

Það var eflaust blanda af hvoru tveggja, almennri geðveikri og þörf fyrir athygli sem ýtti Stuart Drummond, þá betur þekktum sem „H’Angus the Monkey“ út í baráttu um borgarstjórastól Hartlepool. Apinn H’Angus var nefnilega lukkudýr bæjarliðsins Hartlepool FC. Og apanum H’Angusi datt í hug að borgarstjóraframboð sitt væri góð kynning fyrir Hartlepool FC. Hans eina málefni var að öll grunnskólabörn í Harlepool skulu fá gefins einn banana á dag.

Skemmst er frá því að segja að i Apinn H’Angus sigraði í kosningunum með 600 atkvæða mun.

Vitrir stjórnmálafræðingar mátu það svo að kosning apa í þetta embætti endurspeglaði ákveðna þreytu fólks í garð hefðbundinna stjórnmálaflokka. (Nó sjitt)

Það sem er enn ótrúlegra er að Apinn H’Angus/Stuart Drummond hefur staðið sig ágætlega sem borgarstjóri Hartlepool. Hann sótti námskeið í stjórnun og myndaði einhver þverpólitísk bandalög sem gerðu honum kleift að stýra bænum. Glæpatíðni í bænum hefur lækkað um 20% á seinustu þremur árum og yfirvöld gefa stjórnsýslu bæjarins toppeinkun.

Nú er spurning hvaða lærdóm megi draga af þessari sögu. Ætli hann sé ekki sá að hvaða idjót sem er getur stýrt bæjarfélagi með hæfilegum undirbúningi. Er þá bara málið senda Skuldahalann á kvöldnámskeið í stjórnun og opinberri stjórnsýslu og horfa á hann rúlla upp kosningunum?

Í maí síðastliðnum var kosið aftur í Hartlepool. Stuart Drummond náði endurkjöri með um 10.000 atkvæða mun.

Heimild: SocietyGuardian