Sökkt sér í sósíalismann

Ekki er langt síðan að BSRB sá ástæðu til að mótmæla skattalækkununaráformum Ríkisstjórnar sérstaklega, sem er merkilegt útspil hjá launþegahreyfingu. Áfram heldur stjórn BSRB að drulla út úr sér félagshyggjukreddum á kostnað nauðungarfélagsmanna sinna. Nú telur bandalagið lífsnauðsynlegt að eignaréttur á vatnsveitum skuli vera ákveðinn í Stjórnarskrá Lýðveldisins.

Já, BSBR, vill að réttur til drykkjarvatns verði skilgreindur sem mannréttindi og að eignarréttur á vatnsbólum verði jafnan samfélagslegur.

(Hægri)manni fallast auðvitað hendur yfir svona bulli. Slagorð á borð við “Vatn er mannréttindi, ekki söluvara!” eiga heima sem öskur í þingræðum Ögmundar Jónassonar en ekki í Stjórnarskrá Íslands. En matur, rafmagn, bíllinn og bensínið á hann? Eru það ekki mikilvæg mannréttindi líka? Og verða þau best tryggð með því að banna öðrum en opinberum aðilum að sjá dreifingu á þeim?

Ég get fallist á það að aðgengi að vatni teljist til mannréttinda, þótt reyndar sjái ég ekki að þörf sé á sérstöku ákvæði sem fjallar um það og það einungis. En hins vegar er auðvitað fráleitt og gott aðgengi sé tryggt með opinberum rekstri. Ef svo væri þá hefði aðgengi manna að mat átt að vera best í þeim löndum þar sem framleiðsla og dreifing þess var einmitt “samfélagsleg”, en sagan sýnir að þannig var það ekki. Í þeim löndum var það hins vegar þannig að matur og vatn voru vissulega sjaldnast söluvara, heldur skömmtunarvara, og aðgengi að þeim líkt mannréttindum að því leiti að vera frekar takmarkað og háð duttlungum stjórnvalda.

Stjórnarskrár ríkja tryggja borgurunum oft ákveðin réttindi. Við því má búast að þeim réttindum fjölgi eftir því sem skilningur manna á því hvað “sómasamleg lífsskilyrði” eru breytist. En stjórnarskrár ættu auðvitað að fjalla aðallega um takmörk en ekki leiðir. Eiga hægrimenn að krefjast þess að setja þar inn bann við því að Ríkið reki banka, skóla og sjúkrahús? Nei, við eigum að leyfa fólkinu að ráða því sjálfu í kosningum fremur en að binda hendur fulltrúa þeirra með slíkum boðum.

Að lokum, áður en réttindakaflinn verður frekar blásinn út, væri gott að þau réttindi sem þar eru fyrir verði virt. Þar á meðal eru réttur fólks til að láta peninga sína fara í annað en pólitískar krossferðir Ögmundar Jónassonar. Litlar líkur eru þó á því að BSRB beiti sér fyrir lagabreytingum þess efnis að fólki verði frjálst að velja sitt eigið stéttarfélag eða kjósa að standa utan þeirra. Fáir vilja styðja breytingar sem minnka völd og fjárstreymi til þeirra sjálfra.

Leave a Reply

Your email address will not be published.