„Að hætta með reisn“

Af vef Alþingis.

Guðmundur Árni studdi einn þingmanna stjórnarandstöðunnar umdeilt eftirlaunafrumvarp sem stöðva átti sókn útbrunninna stjórnmálamanna í opinberar stöður. Hann fékk sendiherrastól að launum.

Ég sat einu sinni í árshátíðarnefnd í menntaskólanum mínum. Það var skemmtileg reynsla. Rekstur skólafélaga gekk þá að mörgu leyti út á pizzur og það var hreint með ólíkindum hverju hægt var að koma í verk með þeim einum sem gjaldmiðli. Menn settu upp skólablöð, skreyttu nemendaaðstöðu og gættu ölvaðra jafningja sinna á böllum… allt fyrir pizzur.

Og þótt ein pizza kosti nú bara þúsundkall þá voru þær metnar mun hærra en það. Hver ætti sjálfur efni á því að borða pizzur í öll mál? Verðlaun fyrir þátttöku í félagsstarfi voru því lykill að ákveðnum lífstíl. Pizzulífstílnum.

Ferðlalög til útlanda hafa á seinustu árum orðið ódýrari og einfaldari. Samt hafa þær enn svipuðu hlutverki að gegna í hugum fólks og pizzur gerðu hjá okkur. Menn líta það á það sem gríðarlegan kost við starf ef í því felast tíðar utanlandsferðir. Jafnvel svo að menn sætta sig við verulega lægri laun en ella.

Þessi hugsunarháttur finnst eflaust víða þótt hann sé hvergi greinilegri en hjá hinu opinbera, enda eru viðskiptaferðir ekki sama djamm og þær voru með tilkomu lággjaldafluggfélaga sem gera engar furðulegar kröfur um að menn „nái sunnudeginum“.

Auðvitað er utanríkisráðuneytið vinsælasta ráðuneytið til að hafa í ríkisstjórn. Pizzuráðuneytið. Duglegir flokkshestar og gamlir ráðherrar fá stjórnmálaferilinn launaðan með sendiherrastarfi í Brussel, Osló eða Ottawa. Hvernig á okkur hinum eiginlega að líða? Æðsta umbun fyrir störf í þágu Íslands er flugmiði burt!

Það eru merkileg rök að þegar búið er að sóa fjármunum í marga áratugi með því að ráða uppgjafarpólitíkusa í stjórnunarstöður, einungis til að pumpa upp eftirlaun þeirra, að nú þurfi að sóa enn meiru fé til að koma í veg fyrir að svona miklu fé verði sóað. (Væri ekki betra að hætta bara að sóa þeim?) Engu að síður voru þetta rökin þegar umdeilt eftirlaunafrumvarp var samþykkt nýlega. Nú átti að leyfa stjórnmálamönnum að „hætta með reisn“ og „koma í veg fyrir sókn þeirra í opinber embætti“.

Upprunalega stóðu allir flokkar á Alþingi að breytingunum. Góð stéttarsamvinna þar á ferð. Hins vegar datt stjórnarandstöðunni í hug að sniðugt væri að skora svolítið út á óánægju með þeirra eigið frumvarp og lögðust svo gegn frumvarpinu.

Guðmundur Árni studdi þó frumvarpið til loka. Að launum var hann gerður að sendiherra í Stokkhólmi. Loksins fær Guðmundur að komast til útlanda! Ætli hann þiggi tvöföld laun næstu árin líkt og aðrir?

En það nú ágætt stjórnmálamennir okkar séu loksins farnir að „hætta með reisn“.

Textum íslenskt sjónvarpsefni!

Miðað við tæknina sem til staðar er er ljóst að þjónusta við heyrnarlausa sjónvarpsáhorfendur hér á landi mætti vera mun betri. RÚV sýnir daglega einhverjar „Táknmálsfréttir“ þar sem karlar og konur veifa höndunum í fimm mínútur án þess að sýndar séu nokkur myndskeið, skýringarit eða neitt sem hugsanlega gæti skýrt fréttina betur. Þetta er álíka góð notkun á myndmiðli og ef íþróttafréttir í sjónvarpi fælust einungis í því að sýna Samúel Örn lesa úrslit leikja upphátt.

Annar staður þar sem pottur er brotinn er hinn óskiljanlega tíska að taka erlendar heimildarmyndir, henda út upprunarlega þulinum og láta í staðinn einhvern Íslending svæfa áhorfendur: „Ljónið eltir antílópuna uppi, hún missir jafnvægið og fellur til jarðar.“ Hvílík og önnur eins sóun á mannauði! Ekki nóg er að oft er fyrir vikið verið að „losa sig við“ þuli eins og til dæmis John Cleese sem margir væru til að heyra, heldur er peningum sóað í talsetningu og hluti þjóðarinnar getur ekki notið þáttanna fyrir vikið.

Margir íslenskir þættir eru reyndar textaðir á síðu 888. Sjálfum fyndist mér í raun ekkert að því að allt íslenskt efni yrði einfaldlega sent út textað, það myndi létta heilmörgum lífið, ekki aðeins þeim sem eiga við heyrnarvandamál að stríða. Til dæmis mundi þetta hjálpa útlendingum við íslenskunám, en þeir sem lært hafa erlend tungumál vita hve erfitt er fyrir byrjendur að skilja talmál, meðan ritmálið reynist mörgum léttara. Einnig er það oft ágætiskostur að geta horft á sjónvarpið hljóðlaust, til dæmis á krám sem spila háa tónlist eða heima seint á kvöldin þegar annað heimilisfólk sefur. Textað, þögult sjónvarpsefni er þeim nefnilega þeim jákvæðu eiginleikum gætt að trufla aðeins þá sem með því fylgjast en ekki alla aðra sem staddir eru á sama stað.

Farsælast held ég að væri að leggja niður sérstakar táknmálsfréttir og texta einfaldlega aðalfréttatímann. Auðvitað kostar þetta allt peninga en tökum eftir því að stærstur hluti frétta er tilbúinn fyrirfram svo að einungis þyrfti að hafa nokkra sekúndna töf á útsendingunni til að tæknimaðurinn hefði tóm til að slá inn setningar eins og „Jæja, Adolf, Hvað er að frétta af íþróttaheiminum?“

Auðvitað verður maður að gefa RÚV kredit fyrir það sem þeir eru að gera. Stöð tvö textar til dæmis ekki sitt íslenska efni, né heldur Sýn, SkjárEinn eða PoppTíví. Æ meira virðist vera textað á síðu 888 á seinustu árum og textar fréttanna eru nú aðgengilegar á netinu, svo að mörgu leiti hefur staðan batnað.

Hins vegar held ég að menn ættu að setja sér þau markmið að allt íslenskt sjónvarpsefni skuli í framtíðinni vera textað. Jafnvel væri allt í lagi að sú textun færi fram í almennri útsendingu þangað til að stafrænt sjónvarp nær fullri útbreiðslu hér á landi með öllum þeim möguleikum og valfrelsi áhorfenda sem slíkri tækni fylgja.

Sökkt sér í sósíalismann

Ekki er langt síðan að BSRB sá ástæðu til að mótmæla skattalækkununaráformum Ríkisstjórnar sérstaklega, sem er merkilegt útspil hjá launþegahreyfingu. Áfram heldur stjórn BSRB að drulla út úr sér félagshyggjukreddum á kostnað nauðungarfélagsmanna sinna. Nú telur bandalagið lífsnauðsynlegt að eignaréttur á vatnsveitum skuli vera ákveðinn í Stjórnarskrá Lýðveldisins.

Já, BSBR, vill að réttur til drykkjarvatns verði skilgreindur sem mannréttindi og að eignarréttur á vatnsbólum verði jafnan samfélagslegur.

(Hægri)manni fallast auðvitað hendur yfir svona bulli. Slagorð á borð við „Vatn er mannréttindi, ekki söluvara!“ eiga heima sem öskur í þingræðum Ögmundar Jónassonar en ekki í Stjórnarskrá Íslands. En matur, rafmagn, bíllinn og bensínið á hann? Eru það ekki mikilvæg mannréttindi líka? Og verða þau best tryggð með því að banna öðrum en opinberum aðilum að sjá dreifingu á þeim?

Ég get fallist á það að aðgengi að vatni teljist til mannréttinda, þótt reyndar sjái ég ekki að þörf sé á sérstöku ákvæði sem fjallar um það og það einungis. En hins vegar er auðvitað fráleitt og gott aðgengi sé tryggt með opinberum rekstri. Ef svo væri þá hefði aðgengi manna að mat átt að vera best í þeim löndum þar sem framleiðsla og dreifing þess var einmitt „samfélagsleg“, en sagan sýnir að þannig var það ekki. Í þeim löndum var það hins vegar þannig að matur og vatn voru vissulega sjaldnast söluvara, heldur skömmtunarvara, og aðgengi að þeim líkt mannréttindum að því leiti að vera frekar takmarkað og háð duttlungum stjórnvalda.

Stjórnarskrár ríkja tryggja borgurunum oft ákveðin réttindi. Við því má búast að þeim réttindum fjölgi eftir því sem skilningur manna á því hvað „sómasamleg lífsskilyrði“ eru breytist. En stjórnarskrár ættu auðvitað að fjalla aðallega um takmörk en ekki leiðir. Eiga hægrimenn að krefjast þess að setja þar inn bann við því að Ríkið reki banka, skóla og sjúkrahús? Nei, við eigum að leyfa fólkinu að ráða því sjálfu í kosningum fremur en að binda hendur fulltrúa þeirra með slíkum boðum.

Að lokum, áður en réttindakaflinn verður frekar blásinn út, væri gott að þau réttindi sem þar eru fyrir verði virt. Þar á meðal eru réttur fólks til að láta peninga sína fara í annað en pólitískar krossferðir Ögmundar Jónassonar. Litlar líkur eru þó á því að BSRB beiti sér fyrir lagabreytingum þess efnis að fólki verði frjálst að velja sitt eigið stéttarfélag eða kjósa að standa utan þeirra. Fáir vilja styðja breytingar sem minnka völd og fjárstreymi til þeirra sjálfra.

Slæðan er tákn um frelsi kvenna

Nýlega settu Frakkar undarleg lög sem banna mörgum múslimskum konum og stúlkum að klæðast eins og þær eru vanar. Þetta er dæmi um kúgun meirihlutans á minnihlutanum af verstu sort. Hve yfirborðskenndar geta hugmyndir manna um kvenréttindi verið, ef þeir halda að þeir séu að gera einhverjum greiða með slíkri lagasetningu?

Hér í Danmörku er reyndar töluvert um svona „slæðukonur“ sem minna mann á kúgun kvenna í arabaríkjunum eða hitt og heldur. Um daginn gekk ég um Vesterbro ásamt unnustu minni og sá þar arabíska fjölskyldu í körfubolta, föður ásamt tveimur sonum og einni dóttur. Börnin voru svona 10-14 ára og var stúlkan þeirra yngst. Hún var með slæðu. En samt í körfubolta! Vá!

Getur ein dæmisaga verið sönnun um það staða kvenna í öllum löndum íslam sé frábær? Auðvitað ekki. En þegar dæmunum fjölgar, og rekist er á konur að skokka með slæðuna, konur að reykja fyrir utan skólann með slæðuna, konur saman í bíó með slæðuna þá verður mönnum auðvitað æ ljósara að þetta tiltekna fat segir ekkert til um stöðu viðkomandi kvenna, eða „kúgunarstig“ þeirra.

Enda hefur orðið „yfirborðskennt“ sjaldan átt betur við þegar kemur að skoðunum margra okkar um umræddan klæðaburð. Auðvitað er auðveldast að einblína á eitthvað sem við sjáum. Einblína á eitthvað sem við höldum að sé „tákn“ fyrir einhverja kúgun. En jafnvel þó svo væri virkilega að slæðan væri „tákn um kúgun kvenna í íslam,“ væri þá ekki meira vit í því að leggja krafta okkar i það að útrýma kúgunni, fremur en tákninu?

Í nýlegum umræðuþætti á fréttastöðinni BBC World var rætt við nokkrar íslamskar konur og var umræðuefnið vitanlega málefni kvenna í löndum múslima. Sumar konurnar voru klæddar „vestrænt“, aðrar báru slæður og ein þeirra var með andlitsblæju. Ein þeirra sagði að henni fyndist hræðilegt að víða í Evrópu væri rætt um banna slæðuna, sem þær svo mikið þurft að berjast fyrir að fá að bera. Víða áður þurftu konur nefnilega að bera mun meira íþyngjandi klæðnað heldur en einhverja fislétta hárskýlu. Konur í Íran berjast nú til dæmis fyrir því að fá að bera slæðuna í stað andlitsblæjunnar.

Annars eiga margir erfitt með að opna fyrir þann möguleika að hugsanlega vilji einhverjir múslimar dætrum sínum ekki endilega illt. Nú þegar æ fleiri múslimskar konur á Vesturlöndum stunda háskólanám er því fleygt fram það sé eitthvað sem feðurnir geri bara til að „gera þær að betri kvenkostum“. Auðvitað mundu þeir aldrei vilja dóttur sinni vel – þeir eru múslimar.

Staða kvenna í mörgun löndum heims er afar bágborin, það er rétt. En höfum við einhvern rétt til að setja okkur á háan hest gagnvart ríkjum sem eru á svipuðum stað og við vorum fyrir kannski 70 árum síðan? Sérstaklega þegar flestir virðast meiri áhyggjur hafa af því að klæðnaður einhvers raski ekki skjannahvítri tilveru þeirra, fremur en raunverulegum vandamálum kvenna í þessum samfélögum.

Ósanngjörn kosningakerfi?

Í umfjöllun um bresku kosningarnar sem fram fóru nýlega kom iðulega fram að mörgum þótti það kosningakerfi sem við lýði væri í Bretlandi „fáranlegt,“ „ósanngjarnt“ eða í besta falli „verulega sérstakt“. Rökin voru oftast á þessa leið: „Frjálslyndir Demókratar fá 20% atkvæða en einungis 10% þingsæta: Þess vegna er breska kosningakerfið ekki sanngjarnt.“

Vandinn er sá að ekkert kosningakerfi er laust við einhvers konar „mótsagnir“, þ.e.a.s. niðurstöður sem einhverjum þykja ekki í samræmi við það sem rökrétt megi virðast. Það er finna slík dæmi er ekki sérstök sönnun fyrir „ósanngirni“ kosningakerfisins. Í hlutfallskerfi eins og því sem við búum við hér á landi fá menn vissulega oftast þingmenn í hlutfalli atkvæðafjölda, það leiðir hins vegar til þess að vægi smærri framboða „óeðlilega hátt“ þrátt fyrir að þingmannafjöldi þeirra sé lítill.

Til að mynda hefur Framsóknarflokkurinná Alþingi jafnmikið vægi og Samfylkingin eða Sjálfstæðiflokkurinn þrátt fyrir að hafa verulega færri þingmenn. Þannig getur það auðveldlega gerst að flokkurinn sem fái flest atkvæði í kosningum komist ekki í stjórn, eða jafnvel að stjórnin hafi ekki meirihluta kjósenda að baki sér. Þetta segir auðvitað ekkert um hvort kosningakerfið okkar sé „sanngjarnt“ eða ekki, heldur einungis um að það uppfylli ekki þessi einu skilyrði.

Við rannsóknir á ólíkum kosningakerfum leitast menn við að svara ólíkum spurningum á borð við: Geta menn skemmt fyrir frambjóðanda með því að kjósa hann (einhalla skilyrðið)? Ef einhver fær meirihluta atkvæða, vinnur hann þá kosningarnar (meirihlutaskilyrðið)? Ef allir sem kusu flokk A hefðu kosið flokk B og öfugt mundi þingmannafjöldi þeirra víxlast líka (samhverfuskilyrðið)? Síðan þarf að taka ákvörðun um hverju menn vilja fórna og búa til kerfi sátt er um og tekur mið af pólitískum veruleika hverrar þjóðar.

Þeir sem halda því fram að breska kosningakerfið sé ósanngjarnt vegna þess dæmis sem nefnt var í upphafi, setja einfaldlega milli samasemmerki milli orðanna „sanngjarnt“ og „hlutfallskosning“. Þar með er inntakið í rökum þeirra orðið það „að breska kerfið sé ekki hlutfallskosning“, sem er var auðvitað alla tíð augljóst.

Stjórnmálamenn hafa raunar tilhneygingu til að grufla hressilega kosningalögunum til að ná fram einhverju sem þeir telja æskilegt. Til að mynda hafa margar þjóðir reynt að sporna við „óæskilega“ háu vægi smáflokka með því að setja þröskuldi á hve mikið fylgi þeir þurfi að hafa til að komast á þing. Sem er ekkert allt of straumlínulöguð lausn frá stærðfræðilegu sjónarmiði.

Svipað dæmi um slíkt er svokölluð trygging sem frambjóðendur í Bretlandi þurfa að greiða þegar þeir bjóða sig fram. Á kosninganótt mátti oft sjá einhverja rasista og lúða fagna af krafti þrátt fyrir að vera langt frá því að sigra. Þetta voru menn sem höfðu náð 5% lágmarkinu og gátu fengið 500 pundin sín tilbaka.

Þetta var eflaust sett á fót til að koma í veg fyrir bullframboð. Án þessa kerfis hefði kjósandi enga ástæða til að kjósa 5% smáflokk, aðra en sína eigin sérvisku. En nú hefur atkvæði hans fjárhagslega þýðingu flokk hans. Enn og aftur hefur grufl stjórnmálamanna í kosningakerfum haft svolítið öfug áhrif en þeir héldu.

Efri deildin

Í mörgum lýðræðisríkjum starfa þing í tveimur deildum. Aðallöggjafarstarfið fer fram í neðri deild meðan efri deildin sér aðallega um að yfirfara lög og laga augljósa vankanta. Íslendingar lögðu niður efri deild sína snemma á tíunda áratug liðinnar aldar. Eða hvað?

Ef vel er að gáð er það orðið þannig að Ríkisstjórnin hefur tekið við hlutverki neðri deildarinnar meðan að Alþingi er orðið einhvers konar efri deild íslenskrar löggjafar. Lög eru samin af ráðherrum og starfsmönnum ráðuneyta. Þó geta þingmenn stundum frestað afgreiðslu þeirra eða komið með smávægilegar breytingartillögur við hugmyndum ríkisstjórnar.

Alþingi hefur þó mjög sjaldan veruleg áhrif á lagasetningu. Ef mér skjátlast ekki var einungis eitt þingmannafrumvarp sem varð að lögum á seinasta þingi, sem væri í sjálfu sér ágætt ef Alþingi væri raunveruleg efri deild. Langflest frumvörp sem verða að lögum í vestrænum lýðræðisríkjum verða til í neðri deildum þjóðþinga. Frumvörpin í efri deildum eru sett fram til að „koma af stað umræðu“ eða eitthvað svipað klisjukennt.

Já, þrískipting valdsins er þannig orðin ekkert nema orðin ein. Í raun höfum við einhvers konar tvískiptingu þess, dómsstólarnir geta enn pirrað ráðamenn með einhverjum dómsúrskurðum meðan að löggjafarvaldið er nánast einungis í höndum ráðherra. Vald þingmanna snýst um að stimpla tillögum ríkisstjórnarinnar og að koma með einhverjar fyrirspurnir til að vekja athygli á sjálfum sér.

Við sem á fjögurra ára fresti kjósum einhverja menn til ráðstafa atkvæði okkar á hinu háa Alþingi sjaldnast að vita hvernig þeir hinir sömu ráðstafa atkvæði sínu í málum sem skipta okkur einhverju máli. Eða þoldu „Lög um skipan ferðamála,“ „Lög um Landbúnaðarstofnun,“ eða „Lög um útflutning hrossa (hámarksaldur útflutningshrossa)“ virkilega enga bið? Hefði ekki verið skemmtilegra að vita hver afstaða hins eða þessa væri til lækkunar áfengiskaupaaldurs, afnáms fyrningarfrests á kynferðisbrot gegn börnun, banns við umskurði kvenna eða afnáms einkaleyfis Ríkisins á smásölu á áfengi?

Þrátt fyrir að vissulega væri einfaldara ef að einn og sami aðili semdi lög, kæmi þeim í verk og dæmdi um framkvæmd þeirra er samt ástæða fyrir að flest vestræn ríki reyna að dreifa þessu valdi á þrjá óháða aðila. Á Íslandi hefur löggjafarvaldið því miður færst til. Fyrir þann sem vill koma í gegn ákveðnum breytingum á lögum skiptir mun meira máli að hafa stuðning viðkomandi ráðherra en að hafa meirihluta þingsins bakvið tillögurnar.

Ef að hlutverk Alþingis á að vera svipað og annarra evrópskra efri deilda, þ.e.a.s. að það verði valdalítil stimpilstofnun, þá er spurning hvort ekki sé best að „stíga bara skrefið til fulls,“ og leggja niður neðri deildina líka?

Láta svo formenn stjórnarflokkanna bara ráða þessu öllu saman.

Aðalnámsskrá Evrópusambandsins

Um helgina gaf franskur almenningur stjórnarskrárdrögum Evrópusambandsins falleinkunn. Ef helstu rök andstæðinga stjórnarskrárinnar í ýmsum löndum eru borin saman verður æ ljósara hve erfitt, jafnvel ómögulegt, verkefni það er að búa til eitthvað heilsteypt, virðulegt skjal sem meirihluti Evrópubúa getur sætt sig við.

Stjórnarskrá ESB og umræðan umhverfis hana er svipuð umræðunni í kringum þær aðalnámsskrár sem Ríkið gefur út. Þegar ég var í MR og nýjasta námsskráin birtist okkur var það altalað meðal nemenda að hún miðaði fyrst og fremst að þörfum áfangaskólana. Íslenska: 3.5 ár. Hvernig ætlarðu að ná því innan bekkjarskólakerfis?

Þegar ég spurði MH-vini mína um sömu námsskrá kom eitthvað þveröfugt á daginn. Þetta var þá víst eitthvað sem skrifað hafði verið af MR-ingum fyrir MR-inga.

Upp’í ráðuneyti.

Líkt og stjórnarskrá ESB er aðalnámsskrá aldei skrifuð af einhverjum manni nástöddum, heldur manns versta óvini. Pólverjar segja að Þjóðverjar hafi skrifað hana. Frakkar segja að hún sé verk Breta og öfugt. Múslimahatararnir í ESB láta sem hún hafi verið samið af Tyrkjum gagngert til að klófesta Jesús og tryggja inngöngu Tyrklands inn í Evrópusambandið.

Annað aðalnámsskrárlegt einkenni nýjustu stjórnarskrár ESB er að allir telja sín áhugamál hafi orðið eftir. „Of lítil íslenska!“ segja íslenskufræðingarnir. „Of lítil stærðfræði!“ segja raunvísindanördarnir.

Þannig vilja íslenskir og breskir hægrimenn ekki sjá umrætt plagg vegna meints sósíalisma meðan að Múrinn heldur því fram að „frjálshyggjukafli“ þess sé nóg til að gefa henni falleinkunn.

Hvar „frjálshyggjukafla“ þessa miðjumoðs sem ESB-stjórnarskráin er er að finna skal ósagt látið. Niðurstaða kosninganna og skoðanir „Nei“-manna hér og þar um Evrópu gefa það skýrt til kynna að Evrópa er ekki til í sameiginlega stjórnarskrá.

Ljóst að drögin sem felld voru um helgina munu aldrei óbreytt verða að stjórnarskrá Evrópusambandsins. Það er því erfitt að skilja þær fyrirætlanir margra ríkisstjórna Evrópu að láta borgara sína áfram fíflast í einhverjum atkvæðagreiðslum til að geta sagt hver við aðra: „Ég er evrópskari en þú!“ Rödd venjulegra Evrópubúa verður að heyrast.

Vonandi munu menn leyfa lýðræðinu að tala. Rödd þess fólks sem vill fara sér hægt í hinum pólitíska Evrópusamruna verður að fara heyrast. Þeir aðilar eru í meirihluta í mörgum aðildarríkjum ESB eins og er. Kannski leiðir það til þess að þegar Evrópa ákveður svo, eftir nokkur ár, að halda á braut sameiningar muni sú skoðun hennar vera einlæg.