Aumingja við!

Vorið 1999 fékk ég í fyrsta skipti að kjósa í Alþingiskosningum. Það var mikið fjör. Ég ákvað að gera sem mest úr þessu, þræddi allar kosningaskrifstofurnar í Reykjavík, ræddi við frambjóðendur og sníkti kók og smákökur.

Þegar ég gekk inn á Framsóknarheimilið á Hverfisgötunni tók á móti mér einhver brosmild kona í háu sæti (3. eða 4.) á lista flokksins í Reykjavík. („Ungur kjósandi, ungur kjósandi! Ég má ekki fara á taugum!“) Hún spurði hvort mig langaði eitthvað að fræðast um flokkinn eða stefnu hans.

Ég svaraði: „Já, ég er svona bara frekar ánægður með Ríkisstjórnina, er að kjósa í fyrsta skipti og mundi langa að vita hver væri helsti munur á ykkur og Sjálfstæðisflokknum.“

Ótti færðist yfir andlit hennar, hún sneri við og kallaði örvæntingarfullt yfir salinn:

„Finnuuuur!“

Finnur Ingólfsson trítlaði yfir og var allur hinn indælasti. Hann gaf sér góðan tíma til að tala við mig meðan ég tróð niður ljúffengum rækjusamlokunum, hverri á eftir annarri. Finnur reyndi að höfða til minna félagslegu gilda, sem voru þá af skornum skammti, og komst lítt áleiðis. Hann talaði um Framsóknarflokkinn sem afl sem veitti ríkisstjórninni aðhald í félagslegum málum og kæmi í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn innleiddi hér frumskógarlögmálin. Svo komu pælingarnar um milljarðana í forvarnir, barnakortin og hvað það nú var.

En að lokum komu nú skemmtilegustu og framsæknustu rökin. Að ef engin myndi kjósa Framsóknarflokkinn þá myndu þeir ekki treysta sér í stjórnarsamstarf. Þetta voru svipuð rök og þau sem beitt var í seinustu kosningabaráttu flokksins: „Við erum búnir að standa okkur svona helvíti fínt, en samt vill engin kjósa okkur, því við erum svo púkó. Vorkennið okkur!“

Þröngt mega sáttir sitja. Sumir Framsóknarmanna á myndinni eru meira að segja þingmenn.

Framsóknarflokkurinn tapaði 4 þingmönnum í þessum kosningum. Hann lét samt beygja sig til stjórnarsamstarfs að nýju og helmingur þingflokksins var píndur til ráðherradóms. Það gerðist þó í fyrsta skipti í langan tíma að Framsóknarflokkurinn var ekki lengur annar stærsti flokkurinn á þingi. Samfylkingin vildi fá þingflokksherbergi Framsóknar. „Herbergið þeirra.“

Ég veit það ekki, kannski er ég bara fáviti sem ekkert er heilagt en mér finnst krafan um að næststærsti flokkurinn fái næststærsta herbergið alls ekki fráleit. Ef þeir fara t.d. niður í tíu þingmenn? Eða sjö, eins og nýjustu kannanir benda til? Hve fáir þurfa Framsóknarmenn á Alþingi að vera orðnir til að einhver taki af þeim allt þetta rými?

Framsóknarflokkurinn missti þarna af ákveðnu tækifæri til að afla sér virðingar, virðingar minnar að minnsta kosti. Ég varð eiginlega fyrir vonbrigðum. Menn láta nefnilega alveg plata sig. Menn fara alveg að vorkenna Framsókn stuttu fyrir kosningar, og kenna brjóstum um þessi „saklausu grey“. En daginn eftir kosningar birtist mönnum svo sama gamla framsóknaríhaldið, íhaldið sem vill ekki missa herbergið „sitt“ því þeim þykir svo vænt um það. Herbergið þeirra.

Það kemur reyndar alveg merkilega á óvart hve hörundsárir flestir Framsóknarmenn eru af stjórnmálamönnum að vera. Fyrir seinustu kosningar talaði Halldór sorgmæddur á svip að „hart hefði verið að þeim sótt“. Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hafi farið vægast sagt mjúkum höndum um flokkinn. Sömuleiðis þá finnst forsætisráðherranum hrikalega illa fram komið við sig með ásökunum vegna aðkomu hans að Íraksstríðinu. Það virðist sem það megi ekkert um það mál segja án sjálfkrafa sé „ráðist persónulega“ á Halldór Ásgrímsson með „ómaklegum hætti.“

Framsóknarflokkurinn líkt og aðrir flokkar á rétt á því að verk þeirra séu metin af kjósendum. En það er hálfasnalegt að flokkurinn geti grátið sig inn í hjörtu kjósenda, kosningar eftir kosningar, með rökum á borð við þau að „hart sé að þeim sótt“, af mönnum sem vilja „taka af þeim fylgið“, beiti til þess „persónulegum árásum á Halldór Ásgrímsson“ og vilji „hrifsa til sín“ þingflokksherbergið.

Þingflokksherbergið þeirra.

Ári síðar

Í dag er liðið eitt ár síðan Pólland og níu önnur ríki gengu í Evrópusambandið. Á slíkum tímamótum er við hæfi að líta yfir farinn veg og skoða hvernig til hefur tekist. Skemmst er frá því að segja að allar spár bölsýnismanna úr röðum ESB-andstæðinga rættust ekki.

Fyrsti pistillinn sem ég skrifaði á Deigluna, Tvær hliðar ESB-andstöðu, fjallaði um það hvernig pólskir ESB-andstæðingar og aðrir haga málflutningi sínum með ólíkum hætti eftir því hverja þeir ræða við. Út á við tala þeir líkt og þeir vilji einungis ekki loka sig innan tollamúra ESB heldur vilji líta á allan, ja, jafnvel alheiminn, sem markað. Þeirra raunverulega stefna sem grasrótin er fóðruð með er ekkert annað en gamaldags útlendingahatur.

Það sama gilti um spár ESB-andstæðinga varðandi það sem gerast mundi ef Pólland fengi aðild. Inn á við var reynt að höfða til lægstu hvata mannsins með bullspám á borð við þær að Pólverjar mundu glata sérstöðu sinni eða Vestur-Pólland yrði keypt upp af Þjóðverjum og innlimað inn í Þýskaland. Sannleiksgildi slíkra spáa verður seint rannsakað með vísindalegum aðferðum og því lítið um þær að segja. Hinar spárnar, þessar sjónvarpsvænni og skörungslegri er auðveldar a að eiga við, en þeir gengu heldur ekki eftir.

Því var til dæmis haldið fram að Pólverjar myndu, allavega fyrst um sinn, borga meira í ESB en þeir fengu til baka. Þetta átti að vera vegna þess að pólsk stjórnsýsla mundi ekki vera í stakk búinn til að sækja allan þennan pening úr styrkjakerfinu. Þessi spá gekk ekki eftir og nemur munurinn rúmlega 3000 kr. á hvert mannsbarn seinasta árið.

Einhvers konar smækkuð útgáfa af þessari mýtu átti að fela það í sér að pólskir bændur mundu ekki geta nýtt sér evrópska styrki vegna þess að kerfið væri svona flókið (og þeir svo vitlausir). Sú spá brást algjörlega. Til að mynda sóttu 90,7% allra bænda í Podkarpackie-sýslu í Suðaustur-Póllandi um styrki fyrsta árið. Þetta er met á landsvísu sem er raunar svolítið skondið því það voru einmitt bændur í þeirri sýslu sem mest voru á móti til að byrja með.

Útflutningur á landbúnaðarvörum til annara ESB-ríkja stórjókst þrátt fyrir spár um að ómögulegt yrði fyrir pólskan landbúnað að laga sig að heilbrigðiskröfum og öðrum stöðlum Evrópusambandsins. Um 100 þús. Pólverjar réðu sig til vinnu í Bretlandi, Írlandi og Svíþjóð en þau lönd settu engar hömlur á frjálst flæði verkafólks. Fjölmargir Pólverjar sem höfðu verið að vinna í öðrum löndum gátu einnig nýtt tækifærið til að hætta að vinna á svörtu og ráðið sig löglega.

En hvað finnst Pólverjunum sjálfum? Skoðanakannir fyrir ári síðan sýndu að 61% Pólverja studdu ESB aðild. Í dag mælist stuðningur við Evrópusambandsaðild 75%. Eins hefur hlutfall andstæðinga ESB-aðildar minnkað úr 28% í 18%. Mest munar þar um bændur, á einu ári hefur stuðningur bænda við aðild vaxið úr 22% í hvork meira né minna en 61%! Einn þeirra sagði í nýlegu viðtali: „Hvað á maður að segja, maður finnur alveg fyrir þessum peningum.“

Það virðist því vera sem stækkun Evrópusambandsins hafi gengið framar vonum. Í því felst auðvitað mikill sigur fyrir ESB á tímum þegar aðildaríkin ströggla við að selja borgurum sínum nýju Evrópsku stjórnarskrána. Enn og aftur kemur hins vegar það í ljós að það sem þetta „skrifstofubákn“ tekur sér fyrir hendur, hvort sem það er sameiginlegur gjaldmiðill, afnán landamæra eða inntaka fátækari ríkja, heppnast nær undantekningarlaust vel.