Gefist upp á þéttingu byggðar

Tvíhliða viðskiptasamningur milli Póllands og Sovétríkjanna:

1. grein

Pólverjar skulu láta af hendi til Sovétríkjanna helming allrar sykurrófu- og kartöfluframleiðslu sinnar.

2. grein

Á móti skulu Sovétríkin fá sent helminginn af öllum þungavélum og landbúnanaðartækjum sem framleidd eru í Póllandi.

Ofannefndur samningur var reyndar aldrei til, nema sem brandari í kaldastríðssamkvæmum . Hann er hins vegar ekki svo langt frá því sem raunverulegt var, enda orðinn „tvíhliða“ og „samningur“ algjör rangnefni yfir þau skjöl sem gengu milli Risans í austri og leppríkja hans. Furðulegt að vera í varnarbandalagi sem ræðst inn sjálft sig, en það er önnur saga.

Óneitanlega varð mér þó hugsað til samningsins hér að ofan þegar tilkynnt var um daginn að „samkomulag“ hefði tekist um milli Ríkisins og Reykjavíkurborgar um byggingu svokallaðrar samgöngumiðstöðvar fyrir flugið í Vatnsmýrinni. Samkomulag þetta þýðir í grófum dráttum það að flugvöllurinn verður í Reykjavík að eilífu. Samkomulag þetta gengur þvert á vilja Reykvíkinga sem ákváðu í atkvæðagreiðslu um að flugvöllurinn skuli fara. Þessa niðurstöðu taldi fyrrverandi borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún, vera siðferðislega bindandi, en sú binding hélt nú greinilega ekki lengi.

Í einhverri örvæntingarfulltri tilraun til að fela það að hún hafi svikið reykvíska kjósendur fór Steinunn Valdís að bulla eitthvað um flugvöll með eina flugbraut, hugmynd sem Samgönguráðherra var fljótur að þvertaka fyrir. Hve mikið er hægt að láta niðurlægja sig? Ríkið fékk allt sem það vildi, en borgarstjórinn fékk ekki einu sinni að halda andlitinu!

Hvers vegna gátu aumingjarnir í R-listanum ekki a.m.k. slugsað jafnmikið hér og annars staðar? Gátu þeir ekki tekið sér jafngóðan tíma og við mislægu gatnamótin við Kringluna eða Sundabraut? Staðreyndin er sú að þrátt fyrir ýmsar speisaðar hugmyndir sem halda ímyndunaraflinu gangandi þá hefur R-listinn rekið ömurlega skipulagsstefnu. Flugvöllinn burt, sporvagn í Fossvoginn, göng undir Skólavörðuholtið! Allt hugmyndir sem finna sér leið inn í aðalskipulög einungis vegna þess að þau eru gerð til 20 ára og öruggt er að á þeim tíma verður einhver annar farinn að stýra málum. Einhver siðferðilega óbundinn af flippinu manns.

Því á endanum þá er skipulagstefna R-listans bara sama gamla góða flatkökugerðin. Grafarholt. Úlfarsfell. Maður þakkar fyrir að við höfum ekki enn sameinast Kjósarhreppi: „Reykjavíkurborg kynnir: lóðauppboð í hinu nýja Botnahverfi, í Hvalfirði.“

Í miðbænum eru menn síðan að flytja götu. Þó þannig að sú gamla verður áfram. Gott að þétta eitthvað. Ef ekki byggð þá a.m.k. vegakerfið. Til gamans læt ég fylgja hluta úr nýlegu RÚV-viðtali við Dag B. Eggertsson, þar sem hann ræðir vegtengingar fyrir nýja HR-svæðið:

Í nánustu framtíð þá mun hin nýja Hringbraut tengjast við svæði Samgöngumiðstöðvar með Hlíðarfæti svonefndum og síðan inn í framtíðina þá sjá menn fyrir sér göng í gegnum Öskjuhlíðina.

Þegar mig dreymir um skipulagsmál, þá er það sirka hér sem ég vakna öskrandi og kófsveittur. Samgöngumiðstöð. Hlíðarfótur. Svei mér þá þetta er einhver viðurstyggileg skipulagsmartröð. Allt þetta fólk sem kosið hefur R-listann út af skipulagsmálum hefur verið illa svikið. En það þarf alvöru mótleik við þessum svikum meirihlutans. Það gengur ekki bara að mótmæla „kúvendingu borgarstjóra“ án þess að hafa stefnu sjálfur. Það er auðvelt að skipta aldrei um stefnu ef menn eru ekki að fara neitt.

RÚV sýni klám á nóttunni

Marey Carey, klámstjarna og fyrrverandi pólitíkus.

Þrátt fyrir að sumir virðast halda að klámvæðing tröllríði íslensku þjóðfélagi vita þeir sem betur þekkja til að við Íslendingar stöndum öðrum Evrópuþjóðum langt að baki þegar kemur að sora. Tökum sem dæmi aðgengi að klámi í sjónvarpinu. Vissulega eru til einhverjar sérhæfðar læsta sjónvarpsstöðvar sem standa hinum útvöldu til boða en er það merki um einhverja „væðingu“? Mundi vera talað um „internetvæðingu“ ef veraldarvefurinn væri opin einhverjum auðmönnum frá miðnættis til klukkan 3 um helgar?

Það hefur löngum sannast að íslenskar einkastöðvarn eru ekki vandanum vaxnar þegar kemur að fullorðinsskemmtun. Stöð tvö þurfti að láta deigan síga og sömuleiðis SkjárEinn. Sýn sýnir, jú, enn þá einhverjar léttbleikar gamanmyndir af og til en bæði er framboðið lítið, myndirnar látnar víkja fyrir íþróttum og, eins og áður sagði, efnið aðeins á færi hinna ríkustu.

Hver svo sem ástæðan er þá skortir einkaaðila í sjónvarpsrekstri annaðhvort þrek eða hugrekki til að sjá íslenskum áhorfendum fyrir viðunandi magni af klámi. Hugsanlega óttast menn viðbrögð auglýsenda, sem finnast nauðbeygðir af fámennum en háværum þrýstihópum. Einnig getur verið að þeir óttist að lenda í málaferlum sambærilegum þeim sem Stöð 2 lenti í. Einnig gæti það verið að það einfaldlega borgi sig ekki að sýna klám á Íslandi. Ef svo er, þá er undirritaður loksins búinn að finna „sérstöðuna“ margumræddu. (En það er víst fyrirbæri sem gerir okkur Íslendinga svo frábrugðna öðru fólki að við þurfum að búa við ýmsar skrýtnar reglugerðir.)

Hér er loksins kominn tími til að RÚV, þessi staðnaða stofnun taki af skarið og bylti íslenskum sjónvarpsveruleika. Skrefið væri í rauninni rökrétt framhald í þeirri viðleitni Ríkissjónvarpsins að auka hlut erlendrar afþreyingar á kostnað íslensks efnis. Hvar eru íslensku sittkommin? Sápuóperurnar? Sakamálaþættirnir? Spurningaþættirnir? Líklegast yrði það þó þannig að tekjur RÚV af uppátækinu yrðu slíkar að hægt væri að hætta við öll afnotagjöld og nefskatta og blása samt lífi í innlenda dagskrárgerð.

Dæmin erlendis frá sýna að sambærilegar aðgerðir geta svo sannarlega bjargað rekstri vonlausra sjónvarpsstöðva. Hugsanlega myndu tekjurnar þó skerðast þegar fleiri íslenskar stöðvar eltu frumvæðið. Í versta falli væri hægt að veitar Sjónvarpinu einkaleyfi til klámsýninga á ákveðnum tímum. Menn gætu kallað þetta skatt ef þeir vildu og jafnvel kennt hann við einhver líffæri.

Önnur en nef.