Einum vitleysingi meira

Bobby Fischer: Hey Eugene, what’s the difference between a good Jew and a bad Jew?

Eugene Torre: Yeah. What’s the difference between a good Jew and bad Jew?

Bobby Fischer: The good Jew fucks you slower.

Já, þjóðin getur svo sannarlega verið stolt af nýjasta Íslendingnum, Robba Fischer. Robbi karlinn getur reyndar ekki opnað á sér kjaftinn án þess að minnast á eitthvað málefnalegt eins og „Those goddamned Jews are stealing all my money. Fuck them!“ en við fyrirgefum Robba karlinum það nú alveg. Hann er jú, svo andskoti klikkaður.

Enda var Alþingi nú ekki að koma karlinum til bjargar. Umræðurnarnar voru slegnar inn og út á uppboðstempói, fyrsta, önnur og þriðja og allir voru voða sammála. Nú er bara að vona að karlinn geti komið til Íslands sem fyrst, og það hefur jafnvel heyrst að kærastan hans ætlaði að koma með. Vonandi að hún sé orðin 24 ára.

Ég er líklegast af þeirri kynslóð sem skilur ekki alveg hvers vegna þessi ríkisborgararéttur sé svona góð hugmynd. Ég óttast óneitanlega nokkra hluti. Ég óttast það til dæmis að Fischer fái miðopnuviðtöl í DV á mánaðarfresti eins og þar væri á ferð maður sem hefði frá einhverju vitrænu að segja. Engar sómasamlegar vestrænar fréttastofur taka viðtöl við mann sem fagnar árásunum 11. september, því „nú hafi gyðingarnir loksins fengið að finna fyrir því.“ Ég óttast það líka að íslenska utanríkisþjónustan muni þurfa að standa í endalausu stappi og skjótast með Sæma Rokk á einkaþotu til að draga Fischer út úr skítnum hér og þar.

Ég skil að einhverjum þyki Fischer hafi komið Íslandi á kortið, vilja gjalda honum greiðan og um leið fá sínar 15 mínútur í heimspressunni. Sjálfur er mér eiginlega nokk sama, ég hefði eflaust setið miskunnarlaust hjá eins og framsóknarparið, væri ég á þingi. Ég óttast bara frekari upphafningu á persónu Fischers og ég óttast þá ranghugmynd manna um að hér hafi lítil þjóð gert einhvern ótrúlegan hlut á alþjóðavettvangi.

Menn þurfa nefnilega að hafa verulega „valhaltan“ þankagang til að líkja þessum atburði við það þegar Ísland viðurkenndi fyrst þjóða sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Sú ákvörðun var viðurkenning á lýðræðisþrá milljóna manna í þremur ólíkum ríkjum. Ákvörðunin í gær var hins vegar vinagreiði við skeggjaðan vitfirring.

Metnaðarfull leiðindi

Ríkisreknar sjónvarpsstöðvar standa alltaf frammi fyrir ákveðnum vanda. Hvort eiga þær að að sýna nákvæmlega það sama og einkareknu stöðvarnar eða einbeita sér að svokallaðri „metnaðarfullri“ dagskrá, þ.e.a.s. dýrum, óhagkvæmum þáttum sem allt of fáir nenna að horfa á?

Þegar maður er námsmaður kemur það fyrir að maður sé heima hjá sér um miðjan dag, á þeim tíma sem flest venjulegt fólk þarf að vinna; og þótt miðdegisdagskráin hér á landi sé ótrúlega fátækleg samanborið við lönd þar sem atvinnuleysi og almenn leti er útbreiddari mátti nú við slíkar ástæður alltaf treysta beinar útsendingar Alþingis.

Hins vegar varði fjörið ekki að eilífu. Því miður fyrir okkur, áhugamenn um almenn leiðindi, rofnaði útsendinginn klukkan 5. Þá var skorið á Kidda Sleggju í miðri setningu og sápuóperan Leiðarljós sett í gang. Við fengum aldrei að vita hvort ráðherra mundi heita því að athuga að verja fé til kaupa á skólaskipi eða einungis að lofa því málið yrði skoðað frá öllum hliðum. Hvers áttum við, spennufíklar, að gjalda?

Nú væri auðvitað hægt að fussa og frussa vel yfir þessari dæmisögu og segja að hún í hnotskurn sýni hvernig RÚV sé að bregðast hlutverki sínu sem almannaútvarp. Staðreyndin er hins vegar sú að eflaust eru þeir mun fleiri sem vilja fylgjast með Leiðarljósi en störfum þingsins, og er niðurdrepandi að reka sjónvarpsstöð sem engin nennir að horfa á. Þess vegna er þingið sett út í kuldan, þess vegna fella menn niður barnaefnið þegar íþróttaviðburðir dragast á langinn og þess vegna skera menn fréttirnar niður og troða inn í leikhlé þegar HM stendur yfir.

Þetta er auðvitað vandi sem allar ríkisstöðvar standa frammi fyrir. Það er ekki af ástæðulausu sem sumt sk. „metnaðarfullt“ sjónvarpsefni er óhagkvæmt, fólk nennir nefnilega ekki að horfa á það. Eða of fátt fólk að minnsta kosti. Dagskrá opinbera sjónvarpsins verður á endanum svipað því sem gerast mundi í einkageiranum, bara aðeins leiðinlegra og aðeins óhagkvæmara. Oftar en ekki verður niðurstaðan svo sú að stofnaðar eru fleiri ríkisstöðvar til að geta rúmað bæði það efni sem fólk virkilega fylgist með, og hitt, metnaðarfulla efnið, sem allir leggja blessun yfir en fáir raunverule horfa á.

Einkastöðvarnar á Íslandi hafa sýnt að þær eru færar um að framleiða góða íslenska þætti. Floppin eru hugsanlega fleiri, t.d. á SkjáEinum, en menn eru líka fljótir að kippa í taumanna, aflýsa heilum þáttaröðum eða reka óhæfa þáttastjórnendur ef hlutirnir eru ekki að ganga upp. Hver hefði haldið að hægt væri að sýna 70 mínútna kvöldþátt 4 kvöld í viku en PoppTíví tókst það. RÚV hefði örugglega látið hann vera 10 sinnum dýrari, þátturinn væri tekinn upp „live“ með hljómsveit og áhorfendum.

Það er ekki svo að ekkert gott hafi frá Ríkissjónvarpinu komið gegnum tíðina. Hins vegar er engin vafi á að það góða sem þaðan hefur komið hefði örugglega geta orðið til annars staðar, ef duglegt fólk hefði fengið tækifæri til að blómstra á öðrum, óháðum sjónvarpsstöðvum.

… sem kunna ekki íslensku

Margir virðast hafa áhyggjur af því að útlendingar á Íslandi kunni ekki og vilji ekki læra íslensku. Slíkar ályktanir byggjast oft á fordómum og skilningsleysi í garð þess að íslenska er erfitt tungumál sem Íslendingarnir sjálfir leggja sig ekki allt of mikið fram við að kenna.

Íslenskukennsla er nokkuð sem þarfnast samstarfs. Vissulega er það útlendinganna að læra tungumálið: skrifa óreglulega sögn á framhlið minnisspjalds og beyginguna á bakhliðina, horfa á Gísla Martein og hlusta Spegilinn til að kynnast óbeisluðu afli talmálsins og lesa DV til að byggja upp orðaforðann, hins vegar er ekki hægt að krefjast krefjast þess af nýbúunum að þeir sjálfir taki að sér kennsluna. Það er Íslendinganna að gera það.

Oft kvarta menn sáran undan leti hinna og þessara kvista þegar kemur að því að ná tökum á íslenskunni. „Margir búa hérna í mörg ár án þess að að læra hvorki staf né hljóðung,“ má heyra sagt. Þeger slíkt er sagt gerir fólk sér sjaldnast grein fyrir að til skamms tíma var framboð íslenskunáms vægast sagt grátlegt. Flest kennsluefni var frá dögum zetunnar og var meira stílað inn á málfræðinörda en fólk sem ætlaði að nota tungumálið í daglegu lífi. Íslensku var síðan varla hægt að læra nema í Háskólanum, nánast ekkert var um námskeið og alls ekki fyrir utan Reykjavík.

Sem betur fer hefur nú ýmislegt breyst til batnaðar. Enn er þó enn langt því frá að framboð náms og umgjörð þess séu eitthvað fyrir menn til að verða stolta af. Algjörlega vantar upp á samstarf milli Ríkis, sveitarfélaga og þeirra sem kenna. Það er í raun ótrúlegt hve samhæfingin er lítil miðað við hve fáir það eru sem sjá um þessa þjónustu.

Nýlega var sett í lög að íslenskukunnaátta (eða öllu fremur þátttaka í íslenskunámskeiði) væri forsenda dvalarleyfis. Eftir í mesta lagi sex ár munu allir íbúar ESB, þ.m.t. Pólverjar, geta dvalið hér án verulegra hindrana. Þeir munu ekki þurfa dvalarleyfi og því munu skyldunámið lítið gagn gera. Skylda til íslenskunáms mun þá að öllum líkindum eiga við um 40% allra innflytjenda.

Það er auðvitað jafngagnlegt fyrir alla, Norðmenn, Kanadamenn, Pólverja eða Kínverja að læra tungumál þess ríkis sem þeir vilja búa í. Mun gagnlegra væri því að búa til góðan ramma utan um íslenkunámið og opna það öllum áhugasömum, búa til almennilega námskrá, sérmennta kennara og búa til stöðluð próf sem nemendur gætu tekið nokkru sinnum á ári.

Á vegum Evrópuráðsins hafa verið gefnir út viðmiðunarstaðlar (Common European Framework of Reference for Languages) fyrir stöðupróf í tungumálum. Ramminn gerir ráð fyrir 6 stigum kunnátt: A1-C2. Æ fleiri ríki hafa nú lagað sín stöðluðu tungumálapróf að rammanum. Með því móti fæst góð leið til vita hvað hægt sé að ætlast af viðkomandi. T.d. á aðili með B1 próf að geta notað tungumálið vel sem ferðamaður og tjáð sig um flest málefni sem snúa að daglegu lífi, meðan að C1 á að duga til að stunda háskólanám í öllu nema hugvísindum (þar þarf C2).

Það væri góð hugmynd að koma á slíku íslenskuprófi t.d., á B1 stigi, sem hægt væri að taka tvisvar á ári. Slíkt próf gæti virkað sem hvatning fyrir nemendur og enn fremur búið til aðferð til að bera saman ólíka tungumálaskóla. Það er vonandi að þeir sem hafa einhverju um þetta ráða beiti sér fyrir að slíkum prófum verði komið á í náinni framtíð.