Þegar Lúxemburg gleymdist

Það er vandasamt verk að búa til kosningakerfi. Því miður er það allt of algengt að það sé gert af nefndum stjórnmálamanna og lögfræðinga og án samráðs við stærðfræðimenntaða sérfræðinga. Í besta falli koma þeir að ferlinu seint og þá sem álitsgjafar. Þetta er álíka viturlegt og ef menn hefðu látið þingforseta teikna viðbyggingu við Alþingi og síðan leyft verkfræðingum og arkítektum að senda inn athugasemdir.

Best væri ef samhliða endurskoðun kosningakerfa yrðu starfræktar nefndir sérfræðinga í kosningastærðfræði sem yrðu stjórnmálamönnum til aðstoðar, líkt og nú er gert með sérstakri sérfræðinganefnd lögfræðinga í tengslum við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þannig væri hægt að forðast mörg þeirra kosningakerfaslysa sem orðið hafa um veröld alla í tímans rás.

Á árunum 1958-1972 voru 6 ríki í ESB, eða hvað það hét nú þá. Kosningarnakerfið í ráðherraráðinu var með þeim hætti að hvert ríki hafði ákveðinn atkvæðafjölda, en 12 atkvæði þurfti til að koma málum í gegn. Atkvæðin skiptust með eftirfarandi hætti.

Þýskaland 4

Frakkland 4

Ítalía 4

Holland 2

Belgía 2

Lúxemburg 1

Fljótt á litið getur einhverjum virst sem Lúxemburg sé að koma nokkuð vel út úr þessari skiptingu. Landið fær 1/4 af atkvæðavægi Þýskalands þrátt fyrir að íbúar þess síðarnefnda séu 200 sinnum fleiri. Þetta er hins vegar blekking. Til að atkvæði Lúxemburg réði úrslitum í einhverri atkvæðagreiðslu hefðu hinir stuðningsmenn gefinnar tillögu þurft að safna 11 atkvæðum. Það er auðvitað ekki hægt þar sem atkvæðafjöldar hinna þjóðanna eru allt sléttar tölur! Lúxemburg hafði þannig í raun ekki nema sýndarkosningarrétt, því afstaða þess skipti aldrei máli.

Það er því mikilvægt að átta sig á að atkvæðafjöldi er ekki sama og atkvæðavægi. Ímyndum okkur að í 15 manna sveitarstjórn sætu 3 flokkar, tveir þeirra með 7 sæti en sá þriðji með einungis eitt. Þrátt fyrir ólíkan atkvæðafjölda hafa allir flokkarnir sama vægi því hverjum þeirra nægir samkomulag við einn hinna til að koma máli í gegn.

Að sama skapi hafa D-listinn og F-listinn ekkert vægi í borgarstjórn Reykjavíkur því atkvæði þeirra skipta aldrei máli. Vægi R-listans er aftur á móti 100%.

Vægi atkvæða (manns eða flokks) er þannig skilgreint sem líkur á því að afstaða viðkomandi munu ráða úrslitum í atkvæðagreiðslu. Það má sýna fram á að vægi eins kjósanda í atkvæðagreiðslu þar sem kosið er um tvo kosti fylgir formúlunni

þar sem N er fjöldi þeirra sem kjósa. Til gamans má geta að þetta þýðir að vægi hvers kjósanda í kosningum til Stúdentaráðs sem fara fram í dag er um 1%, sem er mun meira en fólk gerir sér grein fyrir.

Sem sagt: líkurnar á því að því að atkvæði hinna kjósenda skiptist jafnt milli meirihluta og minnihluta og þitt atkvæði muni ráða úrslitum eru 1%! Það er því svo sannarlega ekki tilgagnslaust að kjósa.

Í nýrri stjórnarskrá ESB er gert ráð fyrir að til að ýta máli í gegn í ráðherraráðinu þurfi sk. tvöfaldan meirihluta, ríkja og samanlags íbúafjölda þeirra. Því miður er þetta kerfi ekki nógu sanngjarnt þar sem það gefur íbúum stórra og smárra ríkja meira vægi en íbúum ríkja af miðlungsstærð og koma Pólland og Spánn verst út úr þeim samanburði.

Samkvæmt reglu sem Penrose sannaði um miðja seinustu öld er heppilegast að láta atkvæðafjölda í kosningum þar sem einn aðili t.d. ríkisstjórn ráðstafar öllum atkvæðum hvers ríkis, vera kvaðratrót af íbúafjölda. Það er einmitt slík tillaga sem tveir pólskir stærðfræðingar lögðu fram nýlega og fjölmargir evrópskir vísindamenn hafa stutt. Fyrir þá sem hafa meiri áhuga á efninu má nálgast grein þeirra hér.

Leave a Reply

Your email address will not be published.