Uppsögn EES?

Hagfræðingurinn Ragnar Árnason hélt því nýlega fram í viðtali við Viðskiptiptablaðið að Íslendingar ættu að íhuga það sterklega að segja upp EES-samningnum. Rök hans fyrir því voru að við gætum hugsanlega plummað okkur án hans.

Vissulega eru til lönd, t.d. Ástralía, Kanada og Nýja-Sjáland, sem búa við ágætisvelmegun, án þess að vera aðilar að EES-samningnum. Þá hefur Sviss einnig að mestu sloppið við hungursneyðir og faraldra, þrátt fyrir að standa utan við hann. Staðreyndin er auðvitað sú að ríki á Vesturlöndum eru þannig stemmd nú um stundir að þau munu finna sér viðeigandi stjórnskipulegar ráðstafanir til að gera flutninga fólks og peninga auðveldari.

Það er einfaldlega krafa borgara þeirra ríkja.

Það er staðreynd EES-samningurinn hefur reynst okkur Íslendingum vel. Að segja upp alþjóðasamningi er ekki eins og að segja upp tímariti. Við þyrfti að taka langt og strangt ferli þar sem samið yrði upp á nýtt. Um hvað? Frjálst flæði fólks og fjármagns? Aftur? Hver tryggingin fyrir því að þeir samningar yrðu betri?

„If it ain’t broken, don’t fix it,“ eins og segir á útlensku.

Eða á nú að fara spegla vitleysunni yfir á hina hliðina? Sumir vilja fara í ESB-viðræður til að tékka á stemmningunni hinum megin við borðið. Eigum við þá í staðinn að segja upp EES samningnum, til að „tékka á hvað gerist“?

EES-samningurinn veitir Íslendingum frelsi til að búa og vinna í öðrum Evrópuríkjum. Það er réttur sem mikilvægt er að standa um og yrði án efa reynt að gera þótt EES-samningurinn hyrfi. Hins vegar óttast ég að í slíkum tvíhliða viðræðum færu menn að setja inn einhverjar kröfur um viðbótarhömlur á flutninga fólks til Íslands, með vísan til „sérstöðunnar“ margumræddu.

Það er nefnilega mikilvægt að menn fái ekki allt of bjagaða mynd af sjálfum sér. Ísland er ekki lítið frjálshyggjuríki sem sífellt býður stóra skrifstofubákninu birginn. Íslendingar læstu eins og skot landamærum sínum fyrir íbúum nýrra aðildaríkja ESB. Landbúnaðarkerfið íslenska er alveg jafn steinúrelt og það evrópska og svo framvegis.

Vissulega væri bara best ef að Íslendingar afnæmu einhliða alla tolla og hömlur á flutninga fólks og vara til og frá landinu. En það mun bara aldrei gerast. Þess vegna eigum við að halda í EES-samninginn þar sem hann virkar fínt og er sanngjarn. Hver veit svo hvaða vitleysum og undanþágum ráðamönnum tækist að troða inn í nýjan samning á þeim áratug sem tæki að semja hann.

Viðsnúningar

Orð eru ofmetin. Orð eru bara hljóð sem við gefum frá okkur til að tákna ákveðin hugtök. Ég hef með tímanum æ minni þolinmæði fyrir mönnum sem af kyni viðkomandi nafnorðs eða segja að skortur á íslenskri þýðingu á orðinu „identity“ skýrist af því að við erum svo fá að aldrei þarf að velta vöngum yfir hver viðkomandi sé.

Ég skil ekki að menn skyldu sökkva sér inn í einhverjar orðmyndir og uppbyggingu setninga til að komast að einhverjum niðurstöðum sem eru svo hæpnar að jafnvel talnaspekingur mundi segja: „Nei, bíddu nú hægur, vinur!“

Sömuleiðis ofmeta menn vald og mátt orðanna. Orðið „innflytjandi“ er neikvætt, notum „nýbúi“ í staðinn. Síðan „nýr Íslendingur“ og svo koll af kolli. Helst eitthvað fimm orða óþjálft hugtakasafn sem erfitt er að koma fyrir í slagorði og fátt rímar við.

Einu sinni var talað um fávita. Síðan voru þeir kallaðir vangefnir, síðan þroskaheftir. Það virðist litlum máli skipta hve mörg nýyrði menn smíða á þennan hóp, alltaf munu sjoppustúlkur með tyggjó geta gert hann að níðyrði.

„Díses! Ert’ eitthva’ vængefin?“

Samtök ungra Gyðinga í Varsjá gáfu fyrir nokkrum árum út rit sem hét „Zydek“ (ísl: litli Júðinn). Þessi hugmynd lýsir svolítið annari hugmynd í orðapólitík. Ístað þess að fordæma notkun orðs voru vopn slegin úr höndum níðinga og orðið gert að „sínu“.

Fyrir nokkrum árum þótti hommi ljótt orð. Í dag þykir ekki lengur tiltökumál að vera kallaður slíkur. Hefði verið betra ef menn hefðu haldið að skálda ný orð? Gauragaurar? Mannamenn? Viðsnúningar?

Nú eru liðinn sex ár síðan síðan ég hélt kosningabaráttu til embættis hringjara Menntaskólans í Reykjavík undir slagorðinu „Slavann í skítverkin!“ Líklegast væri það stórfelld sögufölsun að halda því fram að miklar málpólitískar ástæður hafi þar legið að baki. Fyrst og fremst var ég að reyna að vera fyndinn og vinna kosningarnar. Sem tókst.

Spurning um að endurnýta þetta einhvern tímann.

„Pawel Bartoszek hefur gefið kost á sér til embættis Forseta Íslands. Við viljum alvöru sameiningartákn og mann sem Íslendingar geta treyst. Pawel á Bessastaði! Kjósum Slavann í Skítverkin!“

Stærðfræði og kerlingar

Maður má nú ekkert segja lengur þá er maður orðinn rasisti, fasisti, kvenhatari eða eitthvað annað og verra. Fólk sem þó þorir að kalla hlutina sínum réttu nöfnum þarf síðan undantekningarlaust að klóra sér út úr hlutunum með því að segja að „orð þess hafi verið slitinn úr samhengi“ eða að það hafi skyndilega séð að sér og sé nú búið að skipta um skoðun.

„Já, gamalt fólk tryggir gott flæði umferðar á álagstímum, ég sé það núna.“

Nýlega þurfti rektor Harvard háskóla einmitt að þola slíkan eldregn rétttrúnaðar eftir að hafa tjáð þá skoðun sína að hugsanlega væri náttúrlegur munur milli kynjanna ástæðan fyrir hve fáar konur ná langt í stærðfræði og raunvísindum. Þetta er auðvitað staðreynd sem löngum hefur verið þekkt. Hver sem vill getur prófað og beðið kærustuna sína um að reikna þýtt meðaltal fyrstu n staka í Fibonacci rununni. Líklegast verður fátt um svör.

Það er í raun ekkert skrýtið að konur séu verri í stærðfræði en strákar. Heili kvenna er að meðaltali um 10% minni en heili karla, svo það er fullkomlega eðlilegt að eitthvað verði útundan. Það er í raun stórmerkilegt hve lítið konur standi mönnum að baki á mörgum sviðum sem þarfnast hugsunar.

Auðvitað verða menn þó að passa sig að draga ekki hæpnar ályktanir af hlutum eins og þessum. Vel getur verið að heilamassi hafi engin áhrif á stærðfræðiþekkingu, viðbótarheilamassi karlmannsins sé til dæmis einungis nýttur þegar grípa á hlut sem til hans er kastað eða gleyma merku tímamóti.

Svo getur auðvitað vel verið eins bent hefur verið á að ástæðan fyrir mismunandi þátttöku kynjanna í raunvísindum sé sú að framsetning stærðfræðinnar hafi hingað til verið of karllæg og lítið mið tekið af reynsluheimi kvenna. Þessu var til dæmis haldið fram af jafnréttisfulltrúa HÍ um árið og vakti sú skoðun óverðskuldaða neikvæða athygli.

Hér á eftir fylgja nokkrar tillögur um hvernig hægt væri að setja fram þekktar stærðfræðireglur til að þær vektu eftirtekt stúlkna og ungra kvenna.

1. Þú ert á útsölu og ert búin að finna þennan fína kjól en hann er aðeins til í small og large en ekki medium sem er stærðin þín. Pirrandi! Þá getur verið huggun að vita að að samfelld föll á lokuðu og takmörkuðu bili taka öll gildi milli sérhverra tveggja talna sem gefið er að liggi í varpmenginu! Bara ef Sautján væri lokað og takmarkað bil!

2. Þú ert að vaxa á þér fótleggina og það er geðveikt vont alveg. Þá getur verið skemmtilegt að vita að skúffuregla Dirichlets segir að til eru tvær konur í heiminum með nákvæmlega jafnmörg hár á fótunum þ.a. einhver veit nákvæmlega hvernig þér líður.

3. Það strákur að reyna við þig í skólanum sem er alveg ógeðslega square. En hér er einmitt rétti tíminn til að rifja upp að summa flatarmála ferninga sem reistir eru á skammhliðum rétthyrnds þríhyrnings er jöfn flatarmáli fernings sem reistur er á langhlið hans.

4. Þú hefur aldrei fengið fullnægingu þegar þið og kærastinn þinn hafið sofið saman. Þegar vinkona þín spyr þig hvað þú ert lengi að meðaltali að fá það verðurðu geðveikt rauð í framan. Ástæðan fyrir að þú roðnar er að þú veist að það er rangt að deila með núlli.

5. Þú ert á leið á árshátíð með stelpunum og færð geðveika túrverki. Minnumst þess að lotubundin föll hafa og lokað og takmarðað varpmengi. Þetta getur því ekki orðið óendanlega vont. Hjúkket.

Nú er bara að vona námsgagnastofnun taki sig til og gefi nokkrar bleikar stærðfræðibókaseríur. Árangur gert vart látið á sér standa…

Vondir útlenskir peningar

Nýlega birtu Samtök verslunar og þjónustu ályktun um framtíð fríhafnarinnar í Leifstöð. Samtökin telja m.a. að tímabært sé að ríkið dragi sig úr rekstri fríhafnarinnar auk þess sem samtökin lögðu til að rekstri komuverslunar verði hætt þar sem hún er í beinni samkeppni við verslanir innanlands.

Vel má taka undir það með samtökunum að heppilegra væri ef einkaðilar tækju að sér verslunarrekstur á flugvöllum. Annað mál er að sú hugmynd að flugvellir séu gerðir að sérstökum skattaparadísum fyrir ferðamenn auðvitað gríðarlega ósanngjörn í garð þeirra verslunarmanna sem ekki eru þar. Litlar líkur eru þó á að kerfinu verður breytt í bráð og munu ríki heims væntanlega halda áfram að keppast við að niðurgreiða áfengi og rettur fyrir þegna hvor annars.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. sá allavega ástæðu til að svara yfirlýsingu SVÞ á heimasíðu sinni. Líkt og alltaf þegar opinberir starfsmenn hella sér inn í hringiðu stjórnmálaumræðna til að standa vörð um eigin stóla og völd varð niðurstaðan frekar skopleg. Svarið er í sex liðum og hver og einn þeirra getur iljað áhugamönnum um rök fyrir höftum og einokun um hjartarætur. Grípum til að mynda í eftirfarandi setningu úr fjórða tölulið:

[…]Komuverslunin er til þæginda fyrir ferðamenn og meira að segja má færa rök fyrir því að hún spari flugfélögum eldsneyti með því að selja vörur hér heima sem ferðafólk myndi ella hafa í farangri sínum á leiðinni og þyngja flugvélarnar sem því nemur!

Noh! Fríhöfnin bara að spara eldsneyti fyrir flugfélögin! Ætli allar þær vörur sem fríhöfnin selur séu settar saman á Íslandi úr íslenskum hráefnum einungis? Ætli það þurfi að ekki að fljúga neinum þeirra til landsins? Ætli það sé síðan sérstakt kappsmál flugfélaganna að flytja sem léttastar vélar milli landa? Helst bara galtómar, þannig eyða þær minnstu eldsneyti.

Botninn tekur samt úr í öðrum tölulið herlegheitanna þar sem höfundum tekst að grípa til tortryggni í garð útlendinga til að sannfæra SVÞ um ágæti þess að fríhöfnin verði áfram í höndum ríkisins.

Ef fríhafnarreksturinn yrði boðinn út í heild sinni eru líkur á að sérhæfð, erlend verslunarfélög myndu hreppa hnossið í krafti stærðar sinnar og reynslu af sambærilegri starfsemi á flugvöllum annars staðar. Hugnast Samtökum verslunar og þjónustu slík framtíðarsýn betur, fyrir hönd umbjóðenda sinna, en núverandi rekstarfyrirkomulag?

Enn og aftur fáum við mynd af vondum útlenskum auðmönnum sem munu koma hingað með sína vondu útlensku peninga og fara að reyna græða eitthvað á litlu þjóðinni í norðri. Hvaða vitleysa er þetta? Eru útlendingar bara fégráðug svín á meðan að íslenskir viðskiptajöfrar stýrast í einu og öllu af velferð almennings? Ekki sýna dæmin um samráð olíufélaga það.

Árlega eyðum við fé til að prenta plaköt og bæklinga og höldum fræðslufundi til að sporna gegn rasisma meðal barna og unglinga. Rekin er sérstök stofnum (Alþjóðahúsið) sem hefur þetta sem eitt af hlutverkum sínum. En vandinn er að óttinn við útlendinga brýst ekki aðeins fram í hefðbundnum rasisma. Ofannefndur ótti við fjárfestingar útlendinga er ekki síður slæmur. Það er algjörlega óþolandi þegar opinberar vefsíður eru notaðar til að ala á tortryggni í garð erlendra aðila til huga að þröngum hagsmunum starfsmanna viðkomandi stofnunar.

Við eigum að gefa fólki séns sama hvaðan það kemur. Einu máli gildir hvort það vilji afgreiða í búð, eða reka hana.