Menntun og skattsvik

Það var athyglisverð samlíking sem kom fram hjá Jóhönnu Sigurðardóttur í fréttum Stöðvar tvö nýlega og þótti nógu merkileg til að verða tilefni fréttar sem spunnin var upp úr gagnrýnislausu viðtali við hana. Samlíkingin var sú að sú upphæð sem tapaðist vegna skattsvika, væri á við þá fjármuni sem færi í rekstur menntakerfisins. Með fréttinni fylgdi mynd af unglingum að leysa prófverkefni.

Vissulega er það rétt að sú upphæð sem nefnd er í skýrslu fjármálaráðuneytisins um umfang skattsvika er svipuð þeirri sem Íslendingar eyða til menntamála á ári hverju. Þetta má auðvitað nefna til að fólk geri sér grein fyrir stærðargráðunni en vonandi að þetta verði ekki gert í það miklum mæli að einhver haldi virkilega að upphæðirnar séu á einhvern hátt tengdar.

35 milljarðar geta nefnilega dugað í margt. Til dæmis gæti upphæðin verið notuð til að fjórfalda framlög til íslensks landbúnaðar. Eða sexfalda umfang utanríkisþjónustunnar. Sama upphæð ætti einnig auðveldlega að dugað til að byggja upp þann her sam flestir haukar landsins gætu verið stoltir af, þá yrði loksins mögulegt að þjálfa íslensks ungmenni í að skríða í drullu og myrða fólk; og senda þau síðan út í eyðimörkina til að slást við vígamenn og terrorista.

Fáir mundu birta frétt um að skattsvik komi í veg stofnun íslensks hers, eða hindri það að meira fé sé notað í stuðning við óhagkvæmar atvinnugreinar. Slíkt yrði ekki líklegt til að skapa þann múgæsing sem nauðsynlegur er til að menn gerist tilbúnir til að fórna persónufrelsi og réttindum sínum.

Það er auðvitað heppilegt fyrir þá sem vilja sjá “auknar heimildir” skattrannsóknarfólks til að fara inn á bankareikninga fólks og “fylgjast með millifærslum” að benda á jákvæðan hlut eins og menntakerfi til að vinna hugmyndum sínum stuðning. Hins vegar er það auðvitað ekki þannig að peningarnir sem auðjöfrarnir stinga í vasann tengist menntamálum á nokkurn hátt annan en þann að vera af svipaðri stærðargráðu.

Hér er ekki reynt að verja þá sem stunda skattsvik. Auðvitað snýst það bæði um peninga og réttlæti að reynt sé að innheimta það fé í skattinum beri. Fólk sem fer að lögum á rétt því að aðrir hagnist ekki á hinu gagnstæða. Hins vegar er alltaf varasamt að stórauka heimildir hins opinbera til eftirlits með fólki. Og ýja einhvern veginn að því að hagnaðurinn muni renna óskipt til góðra og óumdeildra málefna.

Leave a Reply

Your email address will not be published.