Fokk!

Í allri þeirri þjóðernisgrillveislu sem einkenndi sjálfstæðisbaráttuna og meðfylgjandi hreinsun í íslensks máls láðist mönnum að huga að hinu grófasta í tungumálinu, yrkja þann part og varðveita. Í sjálfu sér er það skiljanlegt enda var nítjánda öldin tímabil kurteisis og pípuhatta. Því miður hafa afleiðingarnar orðið orðið skelfilegar.

Ungt fólk blótar ekki á íslensku! Ein ástæðan getur verið sú að skort hefur á góðar innlendar fyrirmyndir sem krakkar eru að byrja að blóta feta litið upp til. Þá hafa þýðingar bíómynda alltaf farið fram á ritmáli og einkennst af fullmiklum pempíuskap.

Skoplegt er að sjá sjá harðjaxla í Hollywoodmyndum plaffa niður tíkarsyni með Andrésarandar-upphrópunum: “Farðu, bölvaður!” eða “Jemin eini!” Blóðþyrstur Bruce Willis fer að hljóma eins og gömul kona sem man ekki hvert hún setti gleraugun.

Vissulega býr íslenskan yfir sterkum blótsyrðum. Orðin “serða” eða “böllur” eru t.d. ólíkleg til birtast í leiðara Moggans á næstunni, nema fyrirsögn á borð við “Völlurinn verði áfram” mundi klúðrast verulega. Hins vegar hefur tekist að henda þessum orðum út úr daglegu, töluðu máli, þannig að til þeirra að sjaldan gripið þegar undrun eða hneykslan ber skyndilega að garði.

Niðurstaðan er því orðin sú að gamla fólkið blótar á einhverri kirkjudönsku en við hin, á ensku. Því þarf að breyta. Einnig held ég að allir kennarar séu sammála mér um þörf þess að finna nýtt íslenskt orð til að lýsa kynmökum svo kennsluhæft verði í 9. bekk þegar Gíslasaga er tekinn fyrir.

Enska blótsyrðið fuck hefur nú náð töluverði útbreiðslu í íslensku máli og hefur það hingað til verið borið fram og stafað fokk. Íslenskulegra væri að gera smávægilega breytingu á framburði orðins og notast við “fok!” héðan í frá. Þannig fengist líka heimaræktuð merking í frasann: sá sem hann notar óskar þess að viðmælandinn eða skoðanir hans bókstaflega fjúki út buskann!

Þó er ákveðin hætta að orðið leiti aftur í upprunarlegu myndina enda eðli upphrópana að sérhljóðar þeirra styttast. Til að sporna við þessu væri hægt að breikka sérhljóðann og tala þá um fók, jafnvel þá sem hluti af fullburða sögn: fóka, fauk, fukum, fokið.

Við slíka breytingu mundu tækifæri manna til að vera klúrir í kveðskap sem auðvitað er árangur út af fyrir sig. Hvað er fegurra en setningar eins og: “Haukur fauk Auði milli baukanna.” eða, “Best fókar sá sem brók skortir.”?

Þriðja útgáfa Íslensku orðabókarinnar var að mörgu leiti útgáfa glataðra tækifæra. Uppgjöf var valinn fram yfir nýsköpun! Er ekki bara málið að fóka þá bók?

Ríðum út í helgina með jákvæðu hugarfari!

Leave a Reply

Your email address will not be published.