Menntun og skattsvik

Það var athyglisverð samlíking sem kom fram hjá Jóhönnu Sigurðardóttur í fréttum Stöðvar tvö nýlega og þótti nógu merkileg til að verða tilefni fréttar sem spunnin var upp úr gagnrýnislausu viðtali við hana. Samlíkingin var sú að sú upphæð sem tapaðist vegna skattsvika, væri á við þá fjármuni sem færi í rekstur menntakerfisins. Með fréttinni fylgdi mynd af unglingum að leysa prófverkefni.

Vissulega er það rétt að sú upphæð sem nefnd er í skýrslu fjármálaráðuneytisins um umfang skattsvika er svipuð þeirri sem Íslendingar eyða til menntamála á ári hverju. Þetta má auðvitað nefna til að fólk geri sér grein fyrir stærðargráðunni en vonandi að þetta verði ekki gert í það miklum mæli að einhver haldi virkilega að upphæðirnar séu á einhvern hátt tengdar.

35 milljarðar geta nefnilega dugað í margt. Til dæmis gæti upphæðin verið notuð til að fjórfalda framlög til íslensks landbúnaðar. Eða sexfalda umfang utanríkisþjónustunnar. Sama upphæð ætti einnig auðveldlega að dugað til að byggja upp þann her sam flestir haukar landsins gætu verið stoltir af, þá yrði loksins mögulegt að þjálfa íslensks ungmenni í að skríða í drullu og myrða fólk; og senda þau síðan út í eyðimörkina til að slást við vígamenn og terrorista.

Fáir mundu birta frétt um að skattsvik komi í veg stofnun íslensks hers, eða hindri það að meira fé sé notað í stuðning við óhagkvæmar atvinnugreinar. Slíkt yrði ekki líklegt til að skapa þann múgæsing sem nauðsynlegur er til að menn gerist tilbúnir til að fórna persónufrelsi og réttindum sínum.

Það er auðvitað heppilegt fyrir þá sem vilja sjá „auknar heimildir“ skattrannsóknarfólks til að fara inn á bankareikninga fólks og „fylgjast með millifærslum“ að benda á jákvæðan hlut eins og menntakerfi til að vinna hugmyndum sínum stuðning. Hins vegar er það auðvitað ekki þannig að peningarnir sem auðjöfrarnir stinga í vasann tengist menntamálum á nokkurn hátt annan en þann að vera af svipaðri stærðargráðu.

Hér er ekki reynt að verja þá sem stunda skattsvik. Auðvitað snýst það bæði um peninga og réttlæti að reynt sé að innheimta það fé í skattinum beri. Fólk sem fer að lögum á rétt því að aðrir hagnist ekki á hinu gagnstæða. Hins vegar er alltaf varasamt að stórauka heimildir hins opinbera til eftirlits með fólki. Og ýja einhvern veginn að því að hagnaðurinn muni renna óskipt til góðra og óumdeildra málefna.

Fokk!

Í allri þeirri þjóðernisgrillveislu sem einkenndi sjálfstæðisbaráttuna og meðfylgjandi hreinsun í íslensks máls láðist mönnum að huga að hinu grófasta í tungumálinu, yrkja þann part og varðveita. Í sjálfu sér er það skiljanlegt enda var nítjánda öldin tímabil kurteisis og pípuhatta. Því miður hafa afleiðingarnar orðið orðið skelfilegar.

Ungt fólk blótar ekki á íslensku! Ein ástæðan getur verið sú að skort hefur á góðar innlendar fyrirmyndir sem krakkar eru að byrja að blóta feta litið upp til. Þá hafa þýðingar bíómynda alltaf farið fram á ritmáli og einkennst af fullmiklum pempíuskap.

Skoplegt er að sjá sjá harðjaxla í Hollywoodmyndum plaffa niður tíkarsyni með Andrésarandar-upphrópunum: „Farðu, bölvaður!“ eða „Jemin eini!“ Blóðþyrstur Bruce Willis fer að hljóma eins og gömul kona sem man ekki hvert hún setti gleraugun.

Vissulega býr íslenskan yfir sterkum blótsyrðum. Orðin „serða“ eða „böllur“ eru t.d. ólíkleg til birtast í leiðara Moggans á næstunni, nema fyrirsögn á borð við „Völlurinn verði áfram“ mundi klúðrast verulega. Hins vegar hefur tekist að henda þessum orðum út úr daglegu, töluðu máli, þannig að til þeirra að sjaldan gripið þegar undrun eða hneykslan ber skyndilega að garði.

Niðurstaðan er því orðin sú að gamla fólkið blótar á einhverri kirkjudönsku en við hin, á ensku. Því þarf að breyta. Einnig held ég að allir kennarar séu sammála mér um þörf þess að finna nýtt íslenskt orð til að lýsa kynmökum svo kennsluhæft verði í 9. bekk þegar Gíslasaga er tekinn fyrir.

Enska blótsyrðið fuck hefur nú náð töluverði útbreiðslu í íslensku máli og hefur það hingað til verið borið fram og stafað fokk. Íslenskulegra væri að gera smávægilega breytingu á framburði orðins og notast við „fok!“ héðan í frá. Þannig fengist líka heimaræktuð merking í frasann: sá sem hann notar óskar þess að viðmælandinn eða skoðanir hans bókstaflega fjúki út buskann!

Þó er ákveðin hætta að orðið leiti aftur í upprunarlegu myndina enda eðli upphrópana að sérhljóðar þeirra styttast. Til að sporna við þessu væri hægt að breikka sérhljóðann og tala þá um fók, jafnvel þá sem hluti af fullburða sögn: fóka, fauk, fukum, fokið.

Við slíka breytingu mundu tækifæri manna til að vera klúrir í kveðskap sem auðvitað er árangur út af fyrir sig. Hvað er fegurra en setningar eins og: „Haukur fauk Auði milli baukanna.“ eða, „Best fókar sá sem brók skortir.“?

Þriðja útgáfa Íslensku orðabókarinnar var að mörgu leiti útgáfa glataðra tækifæra. Uppgjöf var valinn fram yfir nýsköpun! Er ekki bara málið að fóka þá bók?

Ríðum út í helgina með jákvæðu hugarfari!

1500 – talan sem lækkar

Í hvert skipti sem líður nær forsetakosningum á Íslandi og ákveðinn rugludallur stefnir á framboð verða þær raddir sterkari að hækka beri þann fjölda undirskrifta sem frambjóðendum ber að safna. Til eru margir hlutir í stjórnarskránni þarfnast breytinga en umrætt atriði er ekki eitt þeirra.

Við stofnun lýðveldis þurfti frambjóðandi að hafa 15 manns sem hver um sig safnaði 100 undirskriftum honum til stuðnings. Í dag þarf frambjóðandi að hafa 15 manns sem hver um sig safnar handa honum 100 undirskriftum. Það er því erfitt að sjá að söfnun undirskrifta sé orðinn eitthvað auðveldari nú en áður.

Það er jafnerfitt að ná í 10 vatnsfötur úr Tjörninni og úr Atlantshafinu. Engu máli skiptir þá Atlantshafið sé mun stærra, svo lengi sem bæði eru töluvert stærri en það magn sem við viljum sækja. Á sama hátt verður það ekkert mikið auðveldara að safna 1500 undirskriftum í dag en fyrir 10 eða 20 árum.

Auk þess er það einhver fjarstæða að ekkert mál sé að safna t.d. 2000 undirskriftum, sem er eflaust lágmark ef menn vilja vera vissir um að fólk sem mann ekki hvernig kennitala þess endar svipti mann ekki draumnum. Hver af þeim sem les þetta getur til dæmis haldið því fram að það væri „ekkert mál“ fyrir hann að safna yfir 2000 undirskriftum? Ég öfunda þann mann af vinamergð eða pólítísku baklandi.

Margra vikna smölun tveggja tveggja framboða í seinustu Heimdallarkosningum þarsem tugir manna lögðu hönd á plóg afrekaði helming af þeirri tölu. Fylking í stúdentaráði hefur aldrei fengið yfir 2000 atkvæði. Þeir sem hafa tekið þátt í slíkri baráttu vita að 2000 manns er ekki bara einhver fjöldi sem maður fer í Kringluna og sækir.

Hvers vegna á að vera erfiðara að bjóða sig fram í það að verða kokteilboðafulltrúi íslensku þjóðarinnar en til dæmis til setu á Alþingi eða í Borgarstjórn? Völdin þar eru, jú, töluvert meiri.

Það er erfitt að sjá hvers vegna það ætti að vera sérstakt markmið að sem fæstir geti boðið sig fram í kosningum. Þau rök að nauðsynlegt sé að hafa töluna miklu, miklu hærri til að ákveðnir óæskilegir einstaklingar geti ekki boðið sig fram eru andlýðræðisleg. Mega þeir bara ekki bjóða sig fram og tapa ef þeir eru svona ómögulegir. Hver er hættan?

Er takmarkið þá að koma í veg fyrir að „mjög margir séu í framboði“? Hvaða máli skiptir það að margir séu í framboði? Að fylgið dreifist mjög jafnt á marga og einhver með fá atkvæði verði forseti? Bíddu vorum við ekki að tala áðan um einhverja fylgislausa jólasveina sem þvælast bara fyrir á kjörseðlinum, en ekki menn sem eru að fá alvöru fylgi?

Sú tilhneyging að láta tölu nauðsynlegra undirskrifta elta íbúafjölda hefur náð miklum vinsældum í Bandaríkjunum, þá sem hluti af viðleitni stóru flokkanna til að útiloka aðra frambjóðendur frá þátttöku í kosningum. Þetta haft ýmis fáranleg áhrif. Flokkar detta inn og út af kjörseðlum degi fyrir kosningar vegna þess t.d. að Demokrötum tókst að skrá inn marga nýja kjósendur. Sums staðar er miðað hlutfall af þeim sem kusu í seinustu kosningum og detta þá flokkar inn og út á tveggja ára fresti enda kjósa mun fleiri þegar kosið er til forseta en í sk. „mid-term elections“.

Sama hvað menn reyna að halda öðru fram þá er talan 1500 ekkert lægri nú en hún var fyrir 60 árum. Vissulega hefur hlutfallið lækkað. En tilgangur undirskriftasöfnunar er ekki að mæla hlutfallslegt fylgi við frambjóðendur. Til þess höfum við önnur tæki: Kosningar.