Kreml & Mafían vs. Úkraína

Jafnvel mánaðarlangar herferðir gegn stjórnarandstöðunni í úkraínskum ríkisfjölmiðlum voru ekki nóg til að fá þjóðina til að velja frambjóðandi stjórnarinnar. Því var gripið þess að falsa kosningarnar með svívirðulegum hætti. Næstu tímar munu leiða í ljós hve langt hin mafíu- og rússlandsstudda valdastétt verður tilbúin að ganga til að halda sér lifandi.

Samkvæmt opinberum úrslitum kosninganna sigraði Janukovits, núverandi forsætisráðherra hin vesturhneigða Viktor Jústénko með 49% gegn 47%.

Gleymum því í bili að opinberar sjónvarpsstöðvar hafi verið notaðar með svívirðilegum hætti í þágu Janúkovits. Gleymum því að þær hafi sýnt myndbrot þar sem Jústénko hafi verið sýndur sem nýnasisti og stjórnleysingi. Gleymum því að sjónvarpssendingar óháðra sjónvarpsstöðva hafi verið truflaðar. Gleymum því að fyrir þremur vikum hafi hundrað manna þumbahópur ruðst inn á fjölmennan kosningafund Jústénko og hafið að kasta grjóti í opinberar byggingar. Gleymum því líka að mannfjöldinn hafi yfirbugað mennina sem reyndust sumir bera skilríki úkraínsku öryggislögreglunnar.

Gleymum því að Pútin forseti hafi farið í sérstaka kosningaferð um Úkraínu stuttu fyrir fyrri umferðina til að leggja litlausa leppnum sínum lið. Gleymum því að stjórnvöld hafa undanfarnar vikur gert allt til að neyða menn til að kjósa “rétt”. Allt frá því að ofsækja stúdenta niður í það að gera það að skilyrði fanga sem fara fram á reynslulausn að þeir fylli út utankjörfundarseðil og láti embættismanni í té.

Gleymum öllum ofsóknunum og ranglætinu sem þýddu að stjórnandstaðan átti fyrir fram við ramman reip að draga. Gleymum þeim. Hugsum bara um kosningarnar sjálfar. Það er nefnilega merkileg staðreynd að þrátt fyrir að hafa alla stjórnsýslu ríkisins á móti sér, þrátt fyrir allt svínaríið tókst, Jústénko engu að síður að fá fleiri atkvæði en andstæðingi hans. Og vel fleiri.

Útgönguspá sem gerð var á yfir 30.000 manna úrtaki sýndi að Jústénko var með 54% atkvæða en Janúkévits aðeins 43%. Í þeirri könnun var fólk beðið um að krossa við á eyðublaði og setja í kjörkassa. Önnur könnun sem byggð var á viðtölum sýndi Jústénko með 4% forskot. En þegar “talið” hafði verið upp úr kössunum vildi aðalkjörstjórn meina að Janúkovits hafði unnið með 49% gegn 47%.

30.000 manna úrtak er eiginlega öruggt tölfræðilega séð. Skekkjumörk miðað við 99% vissu eru um minni en 1%. Þetta þýðir að lýkurnar á því að fylgi Jústénkos hafi verið á bilinu 53%-55% eru yfir 99%. Í Bandaríkjunum notast menn við úrtök á bilinu 2 til 3 þúsund í hverju fylki. Slíkar útgönguspár hafa hingað til reynst mjög vel. Vissulega getur munað hálfu prósenti en slík tugprósentasveifla, sem við sáum hér er útilokuð. Hvað þá að hún eigi sér stað tvisvar í röð! Sama var nefnilega upp í teningnum fyrir 3 vikum, í fyrri umferð kosninganna. Útgönguspár sýndu 8% forskot Jústénkos en niðurstaðan var sú að frambjóðendur urðu næstum hnífjafnir.

Þessar kosningar snerust ekki bara um það í hvora áttina Úkraínubúar vildu horfa. Þær snerust líka að mörgu leyti um ajálfstæði Úkraínu. Mjög margir Úkraínubúar eru rússneskumælandi og líta á sig sem Rússa.´Nýlendustefna Sovétmanna hefur loksins borgað sig. Þrátt fyrir að sambandið hafi liðast í sundur búa allir aðfluttu Rússarnir enn í gömlu sovétlýðveldunum og annað hvort stjórna öllu eða eru sterkt pólitískt afl. Það er því alveg ljóst að heilmikið af rússneskumælandi Úkraínumönnum vildi eflaust að Janúkovits yrði forseti. En þeir voru bara mun færri.

Hins vegar bættu þeir það upp með að kjósa aðeins oftar. Algeng brella var til dæmis að úthluta farandkjörbréfum til námuverkamanna sem ferðuðust um í rútum og kusu á mörgum stöðum. Með þessu móti var kjörsókn í tveimur austustu héruðum um 97%! Þetta er meira en gerist hjá ríkjum þar sem sektir liggja við heimasetu og yfir 20% aukning frá fyrri umferð kosninga!

Allar alþjóðlegar stofnanir sem fylgdust með kosningum gáfu þeim falleinkun. Erlendar ríkisstjórnir hafa lýst yfir miklum efasemdum með lögmæti þeirra. Hundruðir þúsunda mótmæla nú á götum borga í Vestur og Norður-Úkraínu. Menn vonast þannig til að endurtaka leikinn frá Serbíu og Georgíu. Fráfarandi forseti sagði undir kvöld að öryggissveitirnar byggju yfir nægilegum styrk til að stöðva “lögleysuna”. Sem sagt menn munu skjóta á fólkið ef þess þarf.

Við þessarar aðstæður bárust fyrstu heillaskeytin til Janúkovits. Frá Pútin, auðvitað. Eitthvað segir mér að þau verði nú ekki ýkja fleiri.

Leave a Reply

Your email address will not be published.