Morðóði diplómatinn

Ég horfði bandarískan spennuþátt nýlega. Plottið í þættinum gekk út á eftirfarandi: Lögreglumenn voru að eltast við siðspilltan morðingja sem var sonur einhvers merkismennis í þriðja heims smáríki, á ræðismannspassa og þar með ósnertanlegur.

Þegar á leið þáttinn birtist alvarlegur alríkisgaur sem fór að hóta lögreglumönnunum öllu illu ef þeir hættu ekki við rannsóknina. Í ljós kom að ekki var hægt að reka gaurinn úr landi vegna þess að, takið nú eftir, ríkið sem hann kom frá tók að sér að pynta íraska hryðjuverkamenn fyrir Bandaríkjamenn. En bandarísk herinn má ekki pynta fanga þannig að þeir þurftu á velvild þessa þriðja heims ríkis að halda.

Já, einmitt, Írak var stútfullt af hryðjuverkamönnum við innrásina, Bandaríkjamenn pynta ekki stríðsfanga og, já, einmitt, Bandaríkjamenn mundu láta vanþróað smáríki kúga sig vegna þess að alþjóðalög eru þeim heilagri en allt annað.

Vissulega eru sjónvarpsþættir oftast skáldskapur. En skáldskapurinn á réttardrama á að koma fram í efnisatriðum málanna sjálfra en ekki hlutum eins og lagaumhverfi eða frostmarki vatns. Það er ágætt að hafa góða sjálfsmynd en stundum verður er ekki laust við að kjánahrollur fari um mann þegar brengluð sjálfsmynd þjóða birtist manni á sjónvarpsskjánum.

Nú veit ég að vestanhafs er engin opinber ritskoðunarmiðstöð sem leggur handritshöfundum línurnar. Hins vegar gerist það auðvitað að menn segi og skrifi bara það sem þeim er þægilegast þótt þeir viti að sannleikurinn sér annar. Slík innri ritskoðun er ekki síður hættuleg en hin opinbera.

Ég er ekki að segja að allt sjónvarpsefni í Ameríku sé eins og ofannefndur þáttur. En hins vegar er ljóst að hann er ekkert einsdæmi. Morðóðir, ósnertanlegir diplómatar eru ákveðið þema í bandarísku sjónvarpi. Þeir hlaupa um og plaffa fólk niður með skammbyssu í annarri og sendiráðspassann í hinni. Hlæja upp í opið geðið á réttarkerfinu. Muahahaha! Bíræfir sameinuðuþjóðarbastarðar!

Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðalög eru Evrópusamband þeirra Bandaríkjamanna. Engin nýstofnaður hægrisinnaður, skotvopnaelskandi, biblíubeltisflokkur verður stofnaður án þess að hafa úrsögn úr SÞ á stefnuskránni. Rökin hljóma kunnuglega. Sameinuðu þjóðirnar eru óskilvirkt skriffinnskubákn sem skerðir sjálfstæði Bandaríkjanna. Þátttakan kostar allt of mikið og ekkert fæst til baka.

Alþjóðasamningar um friðhelgi diplómata voru ekki sett af ástæðulausu. Það er auðvitað gríðarlega svekkjandi að friðhelgi sé hægt að nota til að komast undan glæp augljóslega tengist ekki pólitískum ofsóknum. En heimaríkið getur þá svipt friðhelginni af umræddum manni og ef ekki er þó a.m.k. alltaf hægt að reka hann úr landi.

Menn standa því ekki algjörlega varnarlausir gagnvart sendiráðsþrjótum og bandarískur sjónvarpseiginleiki vill vera af láta. Stundum er þó hægt að fá það á tilfinninguna að það séu þættir sem þessir sem gera andstöðu við alþjóðasamninga að jafnmiklu máli í bandarískum stjórnmálum.

En svo er alltaf þessi spurning. Um hænuna og eggið.

Leave a Reply

Your email address will not be published.