Áhyggjufullir trúnaðarmenn

Talsmenn nauðungarfélags opinberra starfsmanna lýstu á dögunum miklum áhyggjur yfir því að kjör félagsmanna væru að batna til jafns við aðra landsmenn, með skattalækkunum. Þetta er enn ein ályktunin þar sem menn framarlega í verkalýðsfélagi kjósa að nota félagið til að leggja lóð á vogaskálar pólitískrar baráttu sinnar fremur en að halda sér við málefni sem skipta máli.

Á fundi SFR fyrir rúmri viku síðan samþykktu brúnaþungir trúnaðarmenn ályktun þar sem skattalækkunartillögur Ríkisstjórnarinnar voru gagnrýndar:

Trúnaðarmannaráð SFR hefur áhyggjur af þeim skattalækkunum sem nú hafa verið boðaðar, þar sem líkur eru á að með þeim hagnast hinir best settu mest, en hinir tekjulægstu minnst. Boðaðar aðhaldsaðgerðir hins opinbera samfara þessari skattalækkun geta bara þýtt tvennt: að almannaþjónusta mun verða dregin saman og að gjaldtaka fyrir nauðsynlega almannaþjónustu verði aukin. Því er dregið úr samfélagslegri ábyrgð og samhjálp um leið og misrétti í þjóðfélaginu er aukið. Skattalækkanir á þenslutímum geta virkað eins og olía á eld og stóraukið hættuna á verðbólgu, en í kjölfarið mun greiðslubyrði almennra lántakenda þyngjast.

Hvað stéttarfélag starfsmanna ríkisins er að álykta um svona lagað er erfitt að segja. Hér er verið að lýsa ákveðinni pólitískri, fremur vinstrisinnaðri skoðun, sem erfitt er að sjá hvernig snertir starfsmenn Ríkisins, nema að því leyti að hún mótmælir kjarabótum þeirra. Það er nefnilega afar hæpið að allir starfsmenn Ríkisins haldi vöku af áhyggjum vegna komandi skattalækkana. Það er jafnvel afar hæpið þeir séu meirihluta.

Það væri því mun heiðarlegra ef menn skráðu sig einfaldlega í þann vinstriflokk sem þeim stæði næst hjarta eða stofnuðu enn einn og þrumuðu þaðan út hverri þeirri ályktun sem þeim sýndist, fremur en að nota til þess félög sem engin getur sagt sig í eða úr. Menn verða bara að gjöra svo vel og að greiða félagsgjaldið og hlusta svo á það hvaðeina sull sem frá félaginu kemur. Og Ögmundur kemur upp í pontu á þingi og segir: „Sjáið hvað ég er snjall, jafnvel BSRB er sammála mér!“

Það er hins vegar alveg merkilegt að þrátt fyrir að SFR telur það jaðra við íkveikju á þjóðarskútunni að taka minni upphæð af fólki ár hvert sér félagið ekkert athugavert við það að peningarnir renni milli handanna á ríkinu og svo aftur inn í vasa öreiganna í formi stórhækkandi launa. Launakröfur SFR eða annarra stéttarfélaga eru nefnilega sjaldan „olía á eld“, þar sem einungis er verið að „leiðrétta laun“ eða biðja um „sambærilegar hækkanir og þær sem aðrir hafa fengið“.

Af einhverjum ástæðum virðast næstum því allir sem hafa eitthvað að segja í verkalýðsmálum á Íslandi vera vinstrimenn. Það er auðvitað kannski lítið hægt að sakast við þá. Menn einfaldlega velja sér það framapot sem mest heillar. Hins vegar væri þess óskandi að meiri barátta yrði um toppstöður í verkalýðsfélögum þannig að fólk sem trúir á einkaframtakið og frelsi einstaklings hefði þar sína málsvara. Vonandi mundi þá gæta meira jafnvægis í umfjöllun félaganna um pólitísk dægurmál.

Kreml & Mafían vs. Úkraína

Jafnvel mánaðarlangar herferðir gegn stjórnarandstöðunni í úkraínskum ríkisfjölmiðlum voru ekki nóg til að fá þjóðina til að velja frambjóðandi stjórnarinnar. Því var gripið þess að falsa kosningarnar með svívirðulegum hætti. Næstu tímar munu leiða í ljós hve langt hin mafíu- og rússlandsstudda valdastétt verður tilbúin að ganga til að halda sér lifandi.

Samkvæmt opinberum úrslitum kosninganna sigraði Janukovits, núverandi forsætisráðherra hin vesturhneigða Viktor Jústénko með 49% gegn 47%.

Gleymum því í bili að opinberar sjónvarpsstöðvar hafi verið notaðar með svívirðilegum hætti í þágu Janúkovits. Gleymum því að þær hafi sýnt myndbrot þar sem Jústénko hafi verið sýndur sem nýnasisti og stjórnleysingi. Gleymum því að sjónvarpssendingar óháðra sjónvarpsstöðva hafi verið truflaðar. Gleymum því að fyrir þremur vikum hafi hundrað manna þumbahópur ruðst inn á fjölmennan kosningafund Jústénko og hafið að kasta grjóti í opinberar byggingar. Gleymum því líka að mannfjöldinn hafi yfirbugað mennina sem reyndust sumir bera skilríki úkraínsku öryggislögreglunnar.

Gleymum því að Pútin forseti hafi farið í sérstaka kosningaferð um Úkraínu stuttu fyrir fyrri umferðina til að leggja litlausa leppnum sínum lið. Gleymum því að stjórnvöld hafa undanfarnar vikur gert allt til að neyða menn til að kjósa „rétt“. Allt frá því að ofsækja stúdenta niður í það að gera það að skilyrði fanga sem fara fram á reynslulausn að þeir fylli út utankjörfundarseðil og láti embættismanni í té.

Gleymum öllum ofsóknunum og ranglætinu sem þýddu að stjórnandstaðan átti fyrir fram við ramman reip að draga. Gleymum þeim. Hugsum bara um kosningarnar sjálfar. Það er nefnilega merkileg staðreynd að þrátt fyrir að hafa alla stjórnsýslu ríkisins á móti sér, þrátt fyrir allt svínaríið tókst, Jústénko engu að síður að fá fleiri atkvæði en andstæðingi hans. Og vel fleiri.

Útgönguspá sem gerð var á yfir 30.000 manna úrtaki sýndi að Jústénko var með 54% atkvæða en Janúkévits aðeins 43%. Í þeirri könnun var fólk beðið um að krossa við á eyðublaði og setja í kjörkassa. Önnur könnun sem byggð var á viðtölum sýndi Jústénko með 4% forskot. En þegar „talið“ hafði verið upp úr kössunum vildi aðalkjörstjórn meina að Janúkovits hafði unnið með 49% gegn 47%.

30.000 manna úrtak er eiginlega öruggt tölfræðilega séð. Skekkjumörk miðað við 99% vissu eru um minni en 1%. Þetta þýðir að lýkurnar á því að fylgi Jústénkos hafi verið á bilinu 53%-55% eru yfir 99%. Í Bandaríkjunum notast menn við úrtök á bilinu 2 til 3 þúsund í hverju fylki. Slíkar útgönguspár hafa hingað til reynst mjög vel. Vissulega getur munað hálfu prósenti en slík tugprósentasveifla, sem við sáum hér er útilokuð. Hvað þá að hún eigi sér stað tvisvar í röð! Sama var nefnilega upp í teningnum fyrir 3 vikum, í fyrri umferð kosninganna. Útgönguspár sýndu 8% forskot Jústénkos en niðurstaðan var sú að frambjóðendur urðu næstum hnífjafnir.

Þessar kosningar snerust ekki bara um það í hvora áttina Úkraínubúar vildu horfa. Þær snerust líka að mörgu leyti um ajálfstæði Úkraínu. Mjög margir Úkraínubúar eru rússneskumælandi og líta á sig sem Rússa.´Nýlendustefna Sovétmanna hefur loksins borgað sig. Þrátt fyrir að sambandið hafi liðast í sundur búa allir aðfluttu Rússarnir enn í gömlu sovétlýðveldunum og annað hvort stjórna öllu eða eru sterkt pólitískt afl. Það er því alveg ljóst að heilmikið af rússneskumælandi Úkraínumönnum vildi eflaust að Janúkovits yrði forseti. En þeir voru bara mun færri.

Hins vegar bættu þeir það upp með að kjósa aðeins oftar. Algeng brella var til dæmis að úthluta farandkjörbréfum til námuverkamanna sem ferðuðust um í rútum og kusu á mörgum stöðum. Með þessu móti var kjörsókn í tveimur austustu héruðum um 97%! Þetta er meira en gerist hjá ríkjum þar sem sektir liggja við heimasetu og yfir 20% aukning frá fyrri umferð kosninga!

Allar alþjóðlegar stofnanir sem fylgdust með kosningum gáfu þeim falleinkun. Erlendar ríkisstjórnir hafa lýst yfir miklum efasemdum með lögmæti þeirra. Hundruðir þúsunda mótmæla nú á götum borga í Vestur og Norður-Úkraínu. Menn vonast þannig til að endurtaka leikinn frá Serbíu og Georgíu. Fráfarandi forseti sagði undir kvöld að öryggissveitirnar byggju yfir nægilegum styrk til að stöðva „lögleysuna“. Sem sagt menn munu skjóta á fólkið ef þess þarf.

Við þessarar aðstæður bárust fyrstu heillaskeytin til Janúkovits. Frá Pútin, auðvitað. Eitthvað segir mér að þau verði nú ekki ýkja fleiri.

Minni og minni tími!

Sumar setningar hljóma svo oft að þær verða að óumdeildanlegum sannleik. Hver kannast til dæmis ekki við fullyrðingar á borð við „tíminn líður hraðar í dag en nokkru sinni fyrr“ eða „fólk hefur minni tíma en áður.“

Það er erfitt að segja hvaðan sú fullyrðing að menn hafi minni tíma fyrir sjálfa sig en áður sé komin. Kannski var einhver sem hélt þessu fram í spjallþætti eða ræðukeppni og öllum leist svo vel á þeir ákváðu að stökkva á þetta. Svo fór boltinn að rúlla menn öpuðu þetta hver eftir öðrum og áður en langt um leið voru skyndilega allir sannfærðir um að líf þeirra væri að farast úr hraða.

Enda er þetta fullkomin afsökun fyrir nánast hverju sem er. Hvers vegna nennir fólk ekki að elda, kaupir skyndibita og fitnar ár frá ári? Hvers vegna sinnir fólk ekki börnunum sínum sem skyldi? Hvers vegna er hjónaskilnuðum að fjölga? „Jú, sjáið til,“ segir einhver, „fólk hefur minni tíma til umráða í samfélagi þar sem tíminn líður sífellt hraðar.“

Kannski byggjast ranghugmyndir manna um minni sem þeir hafa til að sinna hinum og þessum verkum á því að það er ekki svo langt síðan og sköpunargáfu heils kyns var spanderað matargerð, tiltektir og bleyjuskiptingar. Vissulega höfðu konur meiri tíma til að sinna „heimilinu“ þegar þær sinntu engu öðru. En þessar væmnu hugmyndir manna um gömlu, góðu tímana, þegar fjölskyldur höfðu sko tíma til að slappa vel af saman, eiga ekki mikið skylt við veruleikann.

Lénstímabilið, iðnbyltingin, heimstyrjaldirnar, það voru sko tímar! Þá höfðu menn sko tíma fyrir sjálfa sig! Eða hvað. Fjörutíu stunda vinnuvika og fimm vikna frí á ári ættu svo sannarlega að gefa manni tímann sem þarf til að sinna því sem sinna verður. Svo er hins vegar annað mál hvort menn geri það.

Staðreyndin er sú að allt þetta fólk sem kvartar undan litlum frítíma notar þann frítíma sem það hefur til að troða sér í önnur skylduverkefni. Til dæmis eru mjög margir kennarar sem nota hóflega sumarfríið sitt til að vinna aðrar vinnur. Vissulega er vinna oft gefandi og sumum einfaldlega leiðist það að sitja á rassinum. En ef menn kjósa það að vera fararstjórar eða blaðamenn á sumrin í stað þess að nota þriggja mánaða leyfið sitt til að elda og hanga með börnunum þá er nú varla hægt að kenna „aukningu tímahraðans“ um, eða hvað?

Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum gefa það engan veginn til kynna að fólk hafi minni tíma en áður. Samkvæmt rannsókn Bandarísku atvinnumálastofnunar á vinnutíma fólks 1964 og 1999 má sjá að meðalvinnuvikan hefur styst um 4 tíma á því tíma, eða niður í 34,7 á viku. Ýmsar aðrar bandarískar rannsóknir benda einnig til þess að frítími fólks þar hefur aukist.

Það hljóta allavega teljast langt frá því augljós sannindi að menn í dag hafi minni tíma til umráða nú en áður. Í öllu falli ættu menn að varast að útskýra allar samfélagslegar meinir með einhverju sem fáar rannsóknir styðja. Þrátt fyrir að sjónvarpsseríurnar hafi sannfært okkur um að við séum öll stressaðir farsímabissnessmenn með engan tíma aflögu er veruleikinn oftast annar.

Láttu eins og þú sért heima hjá mér

Hér í Danmörku eru gefin út sérstök sjúkratryggingarskírteini. Þessi gulu myndalausu, plastspjöld með áletruðrum persónueinkennum eru sannkallaður lykill að samfélaginu. Gangi þeim vel sem heldur að hann geti leigt sér spólu án þeirra.

Til að koma smá jafnvægi á pistilinn skal fyrst birta smá lof um heiðarleika danskrar þjóðar. Undirritaður (tilgerðarleg leið til að segja „ég“) týndi veskinu sínu (mínu) á skemmtistað fyrir nokkru síðan. Eftir að hafa gefið upp vonina opnaði ég pósthólfið mitt 4 dögum síðar og, viti menn, óskilamunadeild lögreglunnar hafði sent mér veskið til baka. Með kortunum og öllu óhreifðu. Peningana þurfti ég reyndar að sækja til þeirra enda víst óheimilt að senda þá með pósti.

Þessi atburður opnaði þó augun mín og ég hef nú ákveðið að ganga ekki nema með það allra nauðsynlegasta í veskinu, í stað þess að dæla inn í það hverju því einasta plasti sem mér áskotnast. Meðal þess sem geng ekki lengur með er danska sjúkratryggingaskírteinið, enda dýrt að gera nýtt ef menn týna því. Svo mundi maður líka halda að þess skírteinis væri ekki þörf nema í samskiptum við lækna. En nei.

Ég fór að leigja vídjóspólu í gær. Auðvitað gekk til þess ekkert annað en að vera með bölvað sjúkratryggingarskírteinið. Stúdentaskírteinið mitt með ljósmynd, heimilisfangi og kennitölu mátti sig lítils gegn kröfunni um gula plaststykkið. Ég trítlaði heim á leið.

Hverju það breytir fyrir myndbandaleigu að vita að maður sé vel tryggður er ekki gott að vita. Hins vegar er þetta dæmi um óþolandi heimahugsunarhátt. Auðvitað truflar það innfædda ekkert að þurfa að sýna eitthvað kort sem allir eiga. Á sama hátt og það truflar ekki hina innfæddu og miðasjálfsalarnir í almenningsamgöngur taka bara við dönsku klinki eða dönskum debetkortum. En segjum að einhver sé staddur í landinu í einn mánuð sem farandverkamaður. Hann verður þá að vesenast í að þurfa skipta seðlum í klink og getur auðvitað gleymt því að hann fái að leigja sér spólu.

Þetta er auðvitað ekki sérstök gagnrýni á Dani enda ganga flestar þjóðir með nefið í naflanum þegar kemur að sambærilegum hlutum. Þegar ég fyrir nokkrum millilenti í Frankfurt, á einum stærsta tengiflugvelli heims. Ég sá röð af handfarangurskerrum sem allar kröfðust eins þýsks marks í pant svo þær keyrðu.

Íslenska kennitölugleðin hefur örugglege leitt af sér svipaðar sögur. En þetta truflar okkur auðvitað ekkert mikið. Við tökum lítið eftir slíkri skriffinnsku. Ekki fremur en aðrir, sem eru heima í heiminum.

Fækkun þingmanna?

Á Íslandi eru 63 þingmenn. Margir eru þeir sem vildu gjarnan sjá þá tölu lækka aðeins, t.d. niður í 51 eða 25. Þannig vonast menn til að ná niður kostnaði. En er fækkun þingmanna endilega frábær bara út af því að hún hefur færri stöðugildi í för með sér? Með þeim rökum væri langbest að hafa bara einn, alráðandi, þingmann. Eða engan bara ef því ber að skipta.

Þeir sem leggja til fækkun þingmanna niður í einhverja ákveðinna tölu hljóta að þurfa að hafa einhver rök fyrir því að sú tala sé betri en aðrar. Annars er ekkert því til fyrirstöðu að við höldum bara áfram að rýma til í Alþingishúsinu þangað til að jafnvel Guðjón Arnar getur sest niður án þess að hálf þriðja röðin þurfi að trítla út á undan.

Hve margir eiga þingmenn að vera? Reynslan hefur sýnt að þingmannatala lýðræðisríkja virðist vaxa eins og þriðja rót af íbúafjölda. Þetta er auðvitað misjafnt eftir löndum en virðist allavega vera ákveðin regla.

Það sem meira er má færa stærðfræðileg rök fyrir því að þetta sé besta talan. Ímyndum okkur að í ákveðnu landi búin P íbúar og að þar séu s þingmenn. Starf þingmanns felst í tvennu. Hann þarf að eiga samskipti við kjósendur og taka þátt í umræðum á þinginu. Reynum nú að telja allar samskiptarásirnar sem þingmaður þarf að halda utan um:

Ef við gerum ráðu fyrir að íbúarnir dreifist jafnt niður á þingmenn þá þarf hver þeirra að tala við P/s kjósendur að meðaltali.

Til að taka þátt í umræðum þarf þingmaðurinn að halda utan um samskipti sín við aðra þingmenn og einnig samskipti þeirra á milli. Það verða s*(s-1)/2 samskiptarásir. Við nálgum þessa stærð með s^2/2.

Heildarfjöldi samskiptarása verður því:

P/s+s^2/2

Við getum beitt stærðfræðigreiningu til að lágmarka þessa stærð og komist að því að hún verður einmitt lægst þegar s er jafnt þriðju rótinni af P, íbúafjöldanum. Menn geta nú dundað sér við að bera saman líkanið við raunveruleikann. Til dæmis ætti Danmörk að hafa 176 þingmenn samkvæmt líkaninu en þeir eru 179. Almennt gefur jafnan oft furðunákvæmar niðurstöður þótt vissulega eru til ríki, t.d. Svíþjóð eða Kúba, sem eru algjörlega úti að aka hvað þetta varðar.

Ef menn nú beita áðurnefndri jöfnu á íbúafjölda Íslands kemur í ljós að við ættum að hafa 66 þingmenn. Enn og aftur furðunákvæm niðurstaða. Samkvæmt líkaninu ætti því að ekki að fækka þingmönnum heldur fjölga þeim um þrjá. Annað sem kemur í ljós miðað, ef við tökum þetta líkan bókstaflega, er að sveitarstjórnir á Íslandi eru verulega undirmannaðar. Reykjavík ætti þannig að hafa vel yfir 40 borgarfulltrúa en hefur aðeins 15. Enda er það verulega skrýtið að fleiri Reykvíkingar séu um hvern borgarfulltrúa en þingmann.

Auðvitað á ekki að taka ofannefnt líkan bókstaflega. Menn ættu í raun að geta margfaldað þriðju rótina með heppilegum fasta, allt eftir því hvert þeir telja að eigi að vera eðlileg hlutföll milli kjördæmapots og þingrifrilda í starfi hvers þingmanns. En í öllu falli bendir útleiðslan til að eðlilegt er að þingmannafjöldi vaxi í takt við íbúafjöldann. Menn ættu því ekki að lækka þingmannafjöldann eða festa niður um aldur og ævi einungis til að ná fram sparnaði. Ef við á annað borð höfum fulltrúalýðræði á það að geta staðið fyrir sínu.

Morðóði diplómatinn

Ég horfði bandarískan spennuþátt nýlega. Plottið í þættinum gekk út á eftirfarandi: Lögreglumenn voru að eltast við siðspilltan morðingja sem var sonur einhvers merkismennis í þriðja heims smáríki, á ræðismannspassa og þar með ósnertanlegur.

Þegar á leið þáttinn birtist alvarlegur alríkisgaur sem fór að hóta lögreglumönnunum öllu illu ef þeir hættu ekki við rannsóknina. Í ljós kom að ekki var hægt að reka gaurinn úr landi vegna þess að, takið nú eftir, ríkið sem hann kom frá tók að sér að pynta íraska hryðjuverkamenn fyrir Bandaríkjamenn. En bandarísk herinn má ekki pynta fanga þannig að þeir þurftu á velvild þessa þriðja heims ríkis að halda.

Já, einmitt, Írak var stútfullt af hryðjuverkamönnum við innrásina, Bandaríkjamenn pynta ekki stríðsfanga og, já, einmitt, Bandaríkjamenn mundu láta vanþróað smáríki kúga sig vegna þess að alþjóðalög eru þeim heilagri en allt annað.

Vissulega eru sjónvarpsþættir oftast skáldskapur. En skáldskapurinn á réttardrama á að koma fram í efnisatriðum málanna sjálfra en ekki hlutum eins og lagaumhverfi eða frostmarki vatns. Það er ágætt að hafa góða sjálfsmynd en stundum verður er ekki laust við að kjánahrollur fari um mann þegar brengluð sjálfsmynd þjóða birtist manni á sjónvarpsskjánum.

Nú veit ég að vestanhafs er engin opinber ritskoðunarmiðstöð sem leggur handritshöfundum línurnar. Hins vegar gerist það auðvitað að menn segi og skrifi bara það sem þeim er þægilegast þótt þeir viti að sannleikurinn sér annar. Slík innri ritskoðun er ekki síður hættuleg en hin opinbera.

Ég er ekki að segja að allt sjónvarpsefni í Ameríku sé eins og ofannefndur þáttur. En hins vegar er ljóst að hann er ekkert einsdæmi. Morðóðir, ósnertanlegir diplómatar eru ákveðið þema í bandarísku sjónvarpi. Þeir hlaupa um og plaffa fólk niður með skammbyssu í annarri og sendiráðspassann í hinni. Hlæja upp í opið geðið á réttarkerfinu. Muahahaha! Bíræfir sameinuðuþjóðarbastarðar!

Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðalög eru Evrópusamband þeirra Bandaríkjamanna. Engin nýstofnaður hægrisinnaður, skotvopnaelskandi, biblíubeltisflokkur verður stofnaður án þess að hafa úrsögn úr SÞ á stefnuskránni. Rökin hljóma kunnuglega. Sameinuðu þjóðirnar eru óskilvirkt skriffinnskubákn sem skerðir sjálfstæði Bandaríkjanna. Þátttakan kostar allt of mikið og ekkert fæst til baka.

Alþjóðasamningar um friðhelgi diplómata voru ekki sett af ástæðulausu. Það er auðvitað gríðarlega svekkjandi að friðhelgi sé hægt að nota til að komast undan glæp augljóslega tengist ekki pólitískum ofsóknum. En heimaríkið getur þá svipt friðhelginni af umræddum manni og ef ekki er þó a.m.k. alltaf hægt að reka hann úr landi.

Menn standa því ekki algjörlega varnarlausir gagnvart sendiráðsþrjótum og bandarískur sjónvarpseiginleiki vill vera af láta. Stundum er þó hægt að fá það á tilfinninguna að það séu þættir sem þessir sem gera andstöðu við alþjóðasamninga að jafnmiklu máli í bandarískum stjórnmálum.

En svo er alltaf þessi spurning. Um hænuna og eggið.

Hillary Clinton 2008?

Fljótt á litið virðist sem næsta skref í áætlun Hillary um að verða forseti Bandaríkjanna eftir 4 ár hafi gengið eftir. Tap John Kerry þýðir að eftir fjögur ár verða tvö ný nöfn á kjörseðlunum. Líklegast tekst Hillary að ná endurkjöri til Öldungardeildar eftir tvö ár og getur þá notað feril sinn þar sem stökkpall inn í Hvíta húsið.

En á hún einhvern möguleika? Og hver er ástæðan fyrir því að hún er svo oft nefnd í sambandi við forsetaembættið?

Í fyrsta lagi er eflaust um að ræða söknuð til forsetatíðar Clintons. Við frjálslyndir Norðurlandabúar eigum erfitt með að ná utan um siðferðislegan þankagang Bush. En erfiðara finnst okkur að skilja að sá þankagangur teljist honum til tekna vestanhafs.

Hinn afslappaði Clinton var mönnum mun meira skapi en hinn guðhræddi Bush. Hann varpaði samt sprengjum á Afganistan og Írak. Nöfn sem hljóma kunnuglega? En þetta voru samt bara svona „lítil“ stríð. Og Clinton er svo næs gæi. Auðvelt að fyrirgefa honum.

Önnur og ekki síðri ástæða þess hve oft nafn Hillary ber á góma er algjör skortur á öðrum nöfnum á Demokratamegin. Bandarískt samfélag hefur færst mjög til hægri að undanförnu og flokkurinn hefur því átt erfitt uppdráttar. Eina sem gæti gengið fyrir Demokrata væri einhver rokkstjarna eins og Bill Clinton var. Seinasta prófkjörsbarátta sýndi engan slíkan.

Heldur einhver að Al Gore fái að reyna aftur? Maðurinn sem tók með sér í kosningabaráttuna mesta hagvaxtaskeið sögunnar og vinsælann forseta, gat ekki einu sinni unnið sitt heimafylki.

Hillary Clinton er metnaðarfull kona sem kemur vel fyrir. Hún væri því eflaust ekki án möguleika ef hún sóttist eftir embættinu. En hins vegar ætti menn þó ekki að gera sér of miklar vonir. Reynslan sýnir að ríkisstjórum vegnar betur en þingmönnum. Þeir geta komið fram sem menn fólksins í landinu gegn hirðinni í Washington. Hillary ætti eflaust eitthvað þokkaforskot á Dick Cheney en gæti hún stolið senunni gegn karismafyllri frambjóðanda eins og Condoleezu Rice, eða sjálfum Arnold?

Hver veit hvað Hillary er að hugsa. Kannski hefur hún metnað, kannski líður henni bara vel þar sem hún er í dag. Ef til vill mun næsti frambjóðandi vera einhver vinsæll ríkisstjóri sem enginn kannast við í dag. Tíminn mun svo leiða í ljós hvort sá frambjóðandi, hver sem það verður, muni eiga einhvern séns.

Heim klukkan tíu!

Það er ótrúlegt hve fljótir menn verða að gleyma hve íþyngjandi ýmsar aldurstengdar reglugerðir verða um leið og aldrinum er náð. Hvaða fertugur maður æsir sig ekki út af hvaða bannmerkingar eru settar á bíómyndir. Eins eru flestir sem ná áfengiskaupaaldri frelsinu fegnir og vilja ekki skemma móralinn á foreldrafundinum með því að vera á öndverðum meiði.

Vissulega er það oft þannig að börn og unglingar vita ekki hvað sé því sjálfu fyrir bestu. En stundum þegar menn segja hluti á borð við „þú hefur gott af því að læra dönsku“ er ekki ljóst hvort menn eigi virkilega við „þú hefur gott af því að læra dönsku“ eða „Ég hata dönsku þú, þarft að líða sömu kvalir og ég gerði“.

Menn eiga auðvelt með að stjórna lífi hinna réttlausu. „Ég kalla dansleikinn í kvöld af.“ „Þessi grein fer ekki í blaðið.“ „Ekkert kók í frímínútunum.“ Þar sem unga fólkið þekkir ekki rétt sinn gefur það oftast eftir, jafnvel þegar það er órétti beitt.Og auðvitað eru það löghlýðnustu lúðarnir, sem þurfa að líða fyrir allt.

Til að geta neytt dópista á aldrinum 16-18 ára í meðferð var ákveðið að hækka sjálfræðisaldurinn. Á þeim tíma var það gert í nafni þess að samræma ýmis réttindi. Einu réttindin sem hefði þurft að færa niður til 18 ára aldur voru réttindi til að kaupa áfengi. Átta árum síðar eru þau lög en óbreytt. Enda alltaf auðveldast að samræma réttindi með að taka þau fremur en með því að veita þau.

92. gr. Útivistartími barna

Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.

Ég skal ekki taka afstöðu til þess hvort útivistarreglur eigi rétt á sér eða ekki. Hið minnsta á að vanda beri til slíkra laga eins eins og annarra. Hvaða lög er það sem gefa aðeins upphafstíma á útvistarbanni en ekki hvenær því lýkur? Mega krakkar vakna klukkan 4:20 og fara í körfubolta? En klukkan 5 eða 6?

Börn og unglingar hafa líka mannréttindi. Ekki aðeins umhyggjumannréttindi eins og rétt til menntunar og ofbeldislauss umhverfis. Ungt fólk á líka rétt á hefðbundnum mannréttindum: tjáningarfrelsi og félagafrelsi. Stöðu sinnar vegna eru börn og unglingar oftast háð fullorðnum og þessi réttindi. Það er því afar mikilvægt að menn sem hafi til þess afstöðu virði viðkvæm mannréttindi unglinga og meini þeim ekki þau nema þegar mestu nauðsyn ber að.

Lýðræðinu lífsnauðsynlegt

Í aðdragaganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum hafa fjölmiðlarnir verið gjörsamlega að drukkna í skoðanakönnunum. Frá 1. september hafa fyrirtæki og stofnanir gert um 1000 skoðakannanir. Eru þá aðeins kannanir frá „virtum“ aðilum taldar. Það er því skondið að þrátt fyrir allan þennan fjölda kannana, munum við setjast að skjánum í kvöld án þess að geta fullyrt nokkuð um hver fari með sigur af hólmi.

Á heimasíðu sem býður fólki að spá fyrir um ákveðna fréttaatburði seldust bréfin í sigri Bush á 51 dollara í gærkvöldi og höfðu hrunið úr um 70 dollurum fyrir aðeins viku síðan. Þetta þýðir að markaðurinn telji líkur á sigri Bush vera 51%. (Fyrir hvern hlut fást greiddir 100 dollarar ef Bush vinnur.) Spennan er því í algleymingi.

En aftur að skoðanakönnunum. Ætla mætti að ef slíkur hliðstæður fjöldi skoðakannana mundi dynja á Íslendingum færu alvörufullir þáttastjórnendur að spyrja gesti sína hvort ekki ætti að setja einhver lög um þetta eins og gert hefði verið í öðrum löndum. Svona svo að fólkið fengi frið til að gera upp sinn hug.

Af svipuðum toga eru hugmyndir um að leyfa ekki auglýsingar á kjördag, eða jafnvel nokkru áður. Slíkt er auðvitað algjörlega óþörf hindrun og tjáir, að mínu mati, fullhátíðlega sýn fólks á lýðræðið. Staðreyndin er að partý og pylsur ýta upp kjörsókn og ef einhver vill fá frið til að ákveða sig þá getur hann alveg slökkt á sjónvarpinu og farið í heitt bað, án þess að þurfi að setja lög honum til aðstoðar.

Það skal viðurkennast að fátt er skelfilegra en þegar heilu kosningabarátturnar fara að snúast um skoðanakannanir eingöngu. Annað hvort um það hvort þær séu of margar (sjá einnig: „Fer jólaverslunin óvenjusnemma af stað í ár?“) eða hvað viðkomandi stjórnmálaleiðtogi lesi í útkomu framboðs síns.

Síðarnefndar spurningar eru dæmi verstu tegund uppfyllingarfréttaefnis. Auðvitað mun sá sem hækkar finna mikinn meðbyr, sá sem stendur vera sáttur við stöðugt fylgi og sá sem tapar draga sannleiksgildi þeirra í efa eða svekkja sig yfir tilveru annara stjórnmálaflokka. („Hart var að okkur sótt!“)

Eins og að spyrja: „Ertu bjartsýnn fyrir hönd íslenskrar knattspyrnu, Eggert?“ eða „Heldur þú, Kári, að fyrirtæki þitt muni halda áfram að falla í verði og verða á endanum gjaldþrota?“

Nei, vandinn liggur ekki í gerð og birtingu skoðanakannana. Ef umræðan verður þunn og snýst um skoðanakannanirnar sjálfar einungis þá er um að kenna metnaðarleysi fjölmiðla eða einfaldlega því að ekkert er til að kjósa um eins og t.d. í íslensku forsetakosningunum 1996.

Að lokum má nefna að skoðanakannanir eru mikilvægt tæki til að koma upp um kosningasvindl. Á sunnudaginn fór fram fyrsta umferð úkraínsku forsetakosninganna. Þrátt fyrir að tvær óháðar útgönguspár hafi sýnt að frambjóðanda stjórnarandstöðunnar með meira fylgi eru opinberu tölurnar á þá leið að frambjóðandi stjórnvalda hafi sigrað með um 5% mun. Því miður er erfitt að segja hvernig fylgið hafi þróast seinustu tvær vikurnar en þá tók gildi bann við birtingu skoðanakannana.

Þeir sem fylgst hafa með þeim tveim vikum vita að friður og næði kjósenda til ákvarðanatöku eru ekki orðin sem lýsa þeim best.