Íraksstríði kennara frestað

Kennaraverkfallinu hefur verið frestað. Atkvæði verða greidd um miðlunartillögu Ríkissáttarsemjara í næstu viku. Líkt og eftir hverja einustu deilu sem endar (vonandi) með lausn spyr maður sig hinnar augljósu spurningar: “Hvers vegna var ekki hægt að gera þetta strax?”

Kennarar hafa gegnum tíðina notið samúðar almennings í deilum sínum við hið ríkið. Hér eins og annars staðar hafa þeir lengi þurft að sætta sig við lægri laun en fólk með sambærilega menntun, dæmigert fyrir fjölmenna kvennastétt á framfæri hins opinbera.

Ég hef hins vegar sjaldan haft jafnlitla samúð með kennurum og í þessu verkfalli.Til að byrja með var verkfallið boðað aðallega til að sýna að “kennurum væri full alvara”. Líkt og einhver efaðist um það, með hliðsjón af reynslu seinustu áratuga, að kennarar þorðu í verkföll.

Þetta verkfall var því álíkamikið neyðarúrræði og þegar Bush ræðst inn í land til að “senda skýr skilaboð”. Þrátt fyrir allt tal og klisjur um að “engan langi í verkfall” var tilfinningin allt önnur, nefnilega sú að kennurum leiddist og langaði í smá hasar. Á verkalýðsmáli kallast þetta að hugur hafi verið í mönnum.

Reyndar er þetta alls ekki vandamál einskorðast við kennara. Verkföll hafa fylgt sumum stéttum lengi og menn geta dæmt sjálfum hve miklu þau hafi skilað. Auðvitað væri meira frelsi og samkeppni mun heppilegri leið til að hækka laun kennara og útrýma verkföllum. Hver mundi vilja hafa börnin í skóla sem alltaf væri lokaður?

Ég, líkt og aðrir íslenskir launamenn, hef gegnum tíðina þurft nauðugur að borga félagsgjöld að ýmsum verkalýðsfélögum sem hafa stefnu sem ég er ósammála og berjast fyrir henni með aðferðum sem mér er illa við. Lifi félagafrelsið.

Forseti ASÍ var endur(sjálf)kjörinn um daginn. Það kom nú álíka mikið á óvart og þegar Kastró vinnur kosningar. Almennt virðist gilda sama regla um smákóngana sem stýra verkalýðsfélögum og aðalritara Kommúnistaflokksins og aðra einræðisherra. Þeir hætta ekki nema þeir ákveði að hætta eða deyi.

Núverandi ástand er algjörlega óviðunandi og engum dytti örugglega í hug að koma því á ef það í dag. Að fullorðnir menn geti horft framhjá jafnmikilvægum hlut félagafrelsi til að auka völd sín og þægindi er óskiljanlegt. Kjaraviðræður eftir kjaraviðræðir reka þeir síðan þegna sína út í tilgangslítil verkföll til þess eins að minna á sig.

Ég hef mjög gaman af því að kenna. Því miður get ég ekki hugsað mér að starfa við kennslu meðan að ástandið er eins og það er. Á 3-5 ára fresti er menntun sett á hilluna og menn fara að eltast við einhverja pólitíska vitleysu. Að menn séu neyddir í félög sem reka stefnu sem þeir eru ósammála er út í hött. Að mönnum sé bannað að vinna þótt þeir vilji eru mannréttindabrot.

Endurskoða þarf nauðsynlega lagaumhverfi stéttarfélaga. Þingmenn eru líklegast of miklar gungur til að takast á við verkalýðsforustuna, enda koma stjórnir og fara en forsetar ASÍ sitja í hálfa öld. Fýsilegt væri því að menn sem ofbýður núverandi kerfi mundu bindast sannarlega frjálsum samtökum, semja sjálfir um laun sín og reyna á rétt sinn fyrir dómi hér á landi og erlendis, ef þarf.

Leave a Reply

Your email address will not be published.