Hentihommar

Með nýlegum breytingum á Útlendingalögunum var ákveðið að Ríkið mundi héðan í frá “meta” hjónabönd ákveðinna útlendinga til að ganga úr skugga um að um alvöruhjónabönd væri að ræða en ekki eitthvað plat. Í öllum skilyrðunum sem talin eru upp sem eitthvað sem heilbrigt blómstrandi hjúskapur eigi að uppfylla (þekking á atburðum úr í lífi hvor annars, tungumálakunnátta o.fl.) vantar þó eitt skilyrði, skilyrði sem höfundarnir virðast samt hafa bak við eyrað. Hér er átt við kröfuna um ást.

Stór hluti fólks hefur tilhneygingu til að para sig saman. Þessu hafa þjóðfélög brugðist við með því að búa til sérstakan lagaramma um samband tveggja einstaklinga. Þeir erfa eigur hvor annars, geta samnýtt persónuafsláttinn og flutt til heimalands annars þeirra án mikillra vandkvæða.

En jafnframt finnst mörgum ekki ganga að annað fólk nýti sér þennan lagaramma til að bæta sinn hag. Án þess að vera blússandi ástfangið. Þannig hefur löggjafinn nýlega ákveðið að búa til hugtakið “hentihjónaband” og bregðast svo við því. Hentihjónabönd eru þó, enn, aðeins vandamál þegar útlengingar koma við sögu.

Svokölluð hentihjónabönd eru endahnykkur á spíral vitleysu sem hefst með tortryggni í garð annarra þjóða. Ef við værum ekki tortryggin í garð annarra þjóða mundum við ekki gera alla þessa hluti til að halda þeim frá. Ef við mundum ekki hafa lög sem gerðu fólki mjög erfitt að flytja til landsins væri ekki þörf á sérstökum undartekningum þegar kemur að pörum. Og ef pör nytu engra yfirnáttúrlega forréttinda þegar kæmi að dvalarleyfi væru slík “hentihjónabönd” ekki til staðar.

Þegar ég heimsótti Danmörku fyrir nokkru heyrði ég dæmi um stráka sem skráð höfðu sig í staðfesta sambúð, án þess þó að vera hommar. Þannig gat til dæmis einn leigt hjá hinum á svörtu án þess að skatturinn væri að ónáða þá. Ég heyrði um fleiri en eitt dæmi af slíku.

Nú er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að sama gerist hér á landi enda íslensk lög svipuð. Jafnvel að menn samnýti sér persónuafsláttinn og fái sameiginlega ferðatryggingu á Interrail, án þess þó að vera “alvöruhommar”.

Hvert verður þá næsta skref Dómsmálaráðuneytisins? Munu menn setja homma landsins í “mat”? Athuga hvort þeir tali sama tungumál og makinn, þekki vel til atburða úr lífi hvor annars, deili rúmi eða hyggi á barneignir? Hvort þeir hagi sér hommalega, hlusti á hommalega tónlist eða klæðist hommalegum fötum?

Er ekki brýnt að koma í veg fyrir að lög um staðfesta samvist samkynhneigðra séu ekki misnotuð af “hentihommum”?

Vandinn er auðvitað sá að erfitt er setja lög um “ást” og framfylgja þeim. Halda menn að erfitt verði fyrir útlendinga í “hentihjónandi”, nú þegar þeir þekkja til reglugerðarinnar, að laga sig að henni? Ýta dýnunum saman og leggja á minnið á hvaða vikudegi hinn aðilinn er fæddur? Nei, auðvitað ekki.

Tilraunir til að búa til slík lög eru því alltaf dæmdar til að mistakast auk þess sem þær valda löghlýðnu fólki óþarfa þjáningum. Slík lög eru aldrei góð.

Leave a Reply

Your email address will not be published.