Íraksstríði kennara frestað

Kennaraverkfallinu hefur verið frestað. Atkvæði verða greidd um miðlunartillögu Ríkissáttarsemjara í næstu viku. Líkt og eftir hverja einustu deilu sem endar (vonandi) með lausn spyr maður sig hinnar augljósu spurningar: „Hvers vegna var ekki hægt að gera þetta strax?“

Kennarar hafa gegnum tíðina notið samúðar almennings í deilum sínum við hið ríkið. Hér eins og annars staðar hafa þeir lengi þurft að sætta sig við lægri laun en fólk með sambærilega menntun, dæmigert fyrir fjölmenna kvennastétt á framfæri hins opinbera.

Ég hef hins vegar sjaldan haft jafnlitla samúð með kennurum og í þessu verkfalli.Til að byrja með var verkfallið boðað aðallega til að sýna að „kennurum væri full alvara“. Líkt og einhver efaðist um það, með hliðsjón af reynslu seinustu áratuga, að kennarar þorðu í verkföll.

Þetta verkfall var því álíkamikið neyðarúrræði og þegar Bush ræðst inn í land til að „senda skýr skilaboð“. Þrátt fyrir allt tal og klisjur um að „engan langi í verkfall“ var tilfinningin allt önnur, nefnilega sú að kennurum leiddist og langaði í smá hasar. Á verkalýðsmáli kallast þetta að hugur hafi verið í mönnum.

Reyndar er þetta alls ekki vandamál einskorðast við kennara. Verkföll hafa fylgt sumum stéttum lengi og menn geta dæmt sjálfum hve miklu þau hafi skilað. Auðvitað væri meira frelsi og samkeppni mun heppilegri leið til að hækka laun kennara og útrýma verkföllum. Hver mundi vilja hafa börnin í skóla sem alltaf væri lokaður?

Ég, líkt og aðrir íslenskir launamenn, hef gegnum tíðina þurft nauðugur að borga félagsgjöld að ýmsum verkalýðsfélögum sem hafa stefnu sem ég er ósammála og berjast fyrir henni með aðferðum sem mér er illa við. Lifi félagafrelsið.

Forseti ASÍ var endur(sjálf)kjörinn um daginn. Það kom nú álíka mikið á óvart og þegar Kastró vinnur kosningar. Almennt virðist gilda sama regla um smákóngana sem stýra verkalýðsfélögum og aðalritara Kommúnistaflokksins og aðra einræðisherra. Þeir hætta ekki nema þeir ákveði að hætta eða deyi.

Núverandi ástand er algjörlega óviðunandi og engum dytti örugglega í hug að koma því á ef það í dag. Að fullorðnir menn geti horft framhjá jafnmikilvægum hlut félagafrelsi til að auka völd sín og þægindi er óskiljanlegt. Kjaraviðræður eftir kjaraviðræðir reka þeir síðan þegna sína út í tilgangslítil verkföll til þess eins að minna á sig.

Ég hef mjög gaman af því að kenna. Því miður get ég ekki hugsað mér að starfa við kennslu meðan að ástandið er eins og það er. Á 3-5 ára fresti er menntun sett á hilluna og menn fara að eltast við einhverja pólitíska vitleysu. Að menn séu neyddir í félög sem reka stefnu sem þeir eru ósammála er út í hött. Að mönnum sé bannað að vinna þótt þeir vilji eru mannréttindabrot.

Endurskoða þarf nauðsynlega lagaumhverfi stéttarfélaga. Þingmenn eru líklegast of miklar gungur til að takast á við verkalýðsforustuna, enda koma stjórnir og fara en forsetar ASÍ sitja í hálfa öld. Fýsilegt væri því að menn sem ofbýður núverandi kerfi mundu bindast sannarlega frjálsum samtökum, semja sjálfir um laun sín og reyna á rétt sinn fyrir dómi hér á landi og erlendis, ef þarf.

Endurunnar tilvitnanir

Stuðningsmenn og áhangendur frambjóðenda beita ýmsum brögðum til að ná koma auka fylgið og bæta stemninguna í kringum framboð. Ein þeirra er auðvitað að láta andstæðinginn líta út eins og fávita. Ein leið til þess er að dreifa heimskulegum tilvitnunum sem eiga að vera frá honum komnar.

Margir hafa eflaust eflaust rekist á heimasíður með heimskulegum ummælum núverandi forseta Bandaríkjanna eða annarra stjórnmálamanna. Þrátt fyrir að margt að því sem þar stendur sé fyndið og sumt jafnvel satt ber þó auðvitað að varast að taka það sem þar stendur alvarlega.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að netið hafi alið af séð fleiri hrekki, svindl og lygasögur en nokkur annar miðill eru enn margir sem eru ótrúlega trúgjarnir á það sem þeir lesa á vefnum. Það er nóg að setja gæsalappir á setningu og nafn fyrir aftan til að fólk gleypi við lyginni. Ef menn bæta svo dagsetningu og heimild aftan á setninguna þá eru nú fáir eftir sem munu efast.

„The problem with the French is they don’t have a word for `Entrepreneur`.“

– George W. Bush – in an interview with a French journalist in October 2003

Umrædd tilvitnun er til dæmis uppspuni, líkt og nokkrar aðrar sem ganga manna á milli. Stórir fjölmiðlar hafa einnig oft gleypt við sambærilegu djóki svo menn ættu í raun að varast að trúa nokkru nema þeir virkilega heyri hljóðbrot eða sjái myndskeið með viðkomandi tilvitnun.

Segja má að sú hefð að safna kjánalegum tilvitnunum stjórnmálamanna hafi hafist af alvöru með Dan Quayle varaforseta í forsetatíð George Bush eldri. Það kom öllum á óvart þegar Bush valdi þennan unga og lítt þekkta þingmann með sér á kjörseðilinn. Það væri kannski fullharkalegt að kalla hann Dan heimskan, en hitt er ljóst að hann var afar slappur ræðumaður og óreyndur og með því má skýra flesta af hans gullmolum.

Hér eru nokkrir þeirra sem hafa reyndar gengið aftur gegnum tíðina og verið eignaðir fjölmörgum öðrum:

„Republicans understand the importance of bondage between a mother and child.“

„Welcome to President Bush, Mrs. Bush, and my fellow astronauts.“

„Mars is essentially in the same orbit . . . Mars is somewhat the same distance from the Sun, which is very important. We have seen pictures where there are canals, we believe, and water. If there is water, that means there is oxygen. If oxygen, that means we can breathe.“

„The Holocaust was an obscene period in our nation’s history. I mean in this century’s history. But we all lived in this century. I didn’t live in this century.“

„I believe we are on an irreversible trend toward more freedom and democracy – but that could change.“

„One word sums up probably the responsibility of any vice president, and that one word is ‘to be prepared.'“

„I have made good judgments in the past. I have made good judgments in the future.“

„The future will be better tomorrow.“

„We’re going to have the best-educated American people in the world.“

„I stand by all the misstatements that I’ve made.“

„We have a firm commitment to NATO, we are a part of NATO. We have a firm commitment to Europe. We are a part of Europe.“

„I love California, I practically grew up in Phoenix.“

„We are ready for any unforeseen event that may or may not occur.“

„For NASA, space is still a high priority.“

„[It’s] time for the human race to enter the solar system.“

Þessi listi er fengin af www.snopes.com sem er heimasíða sem í fjölmörg ár hefur haft það að markmiði að meta sannleiksgildi kjaftasaga. Þar geta menn einnig skoðað eftirfarandi best of best-of myndband (5.8 Mb) af kappanum.

Litla prófið mitt

Í pólitískri umræðu miða menn oft alla umræðuna út frá því sem er. Þeir sem leggja til breytingar þurfa að útskýra hvað það er við núverandi ástand sem sé svona slæmt. Ég held að öllum væri hollt að leggja fyrir sjálfa sig lítið próf og spyrja: „Ef málunum væri öfugt háttað, mundi ég vilja skipta til baka?“

Ef áfengi yrði selt í verslunum, mundi einhver í hinnu sýnilega litrófi stjórmálanna leggja til að þessi vöruflokkur yrði tekin þaðan út og seldur í sérstökum, illa merktum dýflissum? Nei, auðvitað ekki. Dæmin frá nágrannalöndunum sýna það. Jafnvel í mjög „félagslega þenkjandi“ ríkjum eins og Danmörku er engin hreyfing í þá átt. Frjáls sala á áfengi er einfaldlega mun eðlilegra ástand.

Svona mætti halda áfram og bera upp fleiri spurningar:

Ef hommar og lesbíur mættu giftast og eignast börn, væri ég fylgjandi því að svipta þau þeim réttindum?

Ef að 18 ára menn og konur mættu versla áfengi, mundi ég leggja til að þeim yrði það bannað?

Ef ekki væri rekið hér ríkissjónvarp, mundi ég leggja til að farið yrði út í slíkan rekstur?

Ef engin trú væri „opinber“ trú á Íslandi, mundi ég leggja til að einhver ein trú mundi hljóta slíka stöðu?

Ef landið mitt hefði forseta mundi ég vilja leggja til að það embætti yrði lagt niður og í staðinn tekið upp þjóðhöfðingjaembætti sem gengur í erfðir? (Á, sem betur fer, ekki við hérlendis)

Og bara svo að það sé ljóst að litla prófið mitt virki í báðar áttir, ef við hefðum ekkert almennilegt heilbrigðistryggingakerfi, mundi einhver leggja til að það yrði tekið upp? Þeir sem fylgjast með bandarískum stjórnmálum geta séð að svo yrði, þótt andstæðingarnir séu álíka margir ef ekki fleiri en þeir sem fylgjandi eru. Raunar má sjá, af samanburði yfir Atlantshafið, að mun meiri sátt er um að hafa opinbert heilbrigðistryggingakerfi en að hafa það ekki.

Ég legg til að menn taki sig til og skoði stundum afstöðu sína til hlutanna út frá áður títtnefndri spurningu. Ég er ekki að segja að allir þurfi að komast að sömu niðurstöðu, en a.m.k. er gott fyrir þá að vita hvort afstaða þeirra mótist af einhverju öðru en ótta við breytingar.

Slíkt hefði t.d. geta forðað þeim sem vildu ekki leyfa bjórinn eða einkarekið útvarp frá töluverðri skömm.

Hentihommar

Með nýlegum breytingum á Útlendingalögunum var ákveðið að Ríkið mundi héðan í frá „meta“ hjónabönd ákveðinna útlendinga til að ganga úr skugga um að um alvöruhjónabönd væri að ræða en ekki eitthvað plat. Í öllum skilyrðunum sem talin eru upp sem eitthvað sem heilbrigt blómstrandi hjúskapur eigi að uppfylla (þekking á atburðum úr í lífi hvor annars, tungumálakunnátta o.fl.) vantar þó eitt skilyrði, skilyrði sem höfundarnir virðast samt hafa bak við eyrað. Hér er átt við kröfuna um ást.

Stór hluti fólks hefur tilhneygingu til að para sig saman. Þessu hafa þjóðfélög brugðist við með því að búa til sérstakan lagaramma um samband tveggja einstaklinga. Þeir erfa eigur hvor annars, geta samnýtt persónuafsláttinn og flutt til heimalands annars þeirra án mikillra vandkvæða.

En jafnframt finnst mörgum ekki ganga að annað fólk nýti sér þennan lagaramma til að bæta sinn hag. Án þess að vera blússandi ástfangið. Þannig hefur löggjafinn nýlega ákveðið að búa til hugtakið „hentihjónaband“ og bregðast svo við því. Hentihjónabönd eru þó, enn, aðeins vandamál þegar útlengingar koma við sögu.

Svokölluð hentihjónabönd eru endahnykkur á spíral vitleysu sem hefst með tortryggni í garð annarra þjóða. Ef við værum ekki tortryggin í garð annarra þjóða mundum við ekki gera alla þessa hluti til að halda þeim frá. Ef við mundum ekki hafa lög sem gerðu fólki mjög erfitt að flytja til landsins væri ekki þörf á sérstökum undartekningum þegar kemur að pörum. Og ef pör nytu engra yfirnáttúrlega forréttinda þegar kæmi að dvalarleyfi væru slík „hentihjónabönd“ ekki til staðar.

Þegar ég heimsótti Danmörku fyrir nokkru heyrði ég dæmi um stráka sem skráð höfðu sig í staðfesta sambúð, án þess þó að vera hommar. Þannig gat til dæmis einn leigt hjá hinum á svörtu án þess að skatturinn væri að ónáða þá. Ég heyrði um fleiri en eitt dæmi af slíku.

Nú er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að sama gerist hér á landi enda íslensk lög svipuð. Jafnvel að menn samnýti sér persónuafsláttinn og fái sameiginlega ferðatryggingu á Interrail, án þess þó að vera „alvöruhommar“.

Hvert verður þá næsta skref Dómsmálaráðuneytisins? Munu menn setja homma landsins í „mat“? Athuga hvort þeir tali sama tungumál og makinn, þekki vel til atburða úr lífi hvor annars, deili rúmi eða hyggi á barneignir? Hvort þeir hagi sér hommalega, hlusti á hommalega tónlist eða klæðist hommalegum fötum?

Er ekki brýnt að koma í veg fyrir að lög um staðfesta samvist samkynhneigðra séu ekki misnotuð af „hentihommum“?

Vandinn er auðvitað sá að erfitt er setja lög um „ást“ og framfylgja þeim. Halda menn að erfitt verði fyrir útlendinga í „hentihjónandi“, nú þegar þeir þekkja til reglugerðarinnar, að laga sig að henni? Ýta dýnunum saman og leggja á minnið á hvaða vikudegi hinn aðilinn er fæddur? Nei, auðvitað ekki.

Tilraunir til að búa til slík lög eru því alltaf dæmdar til að mistakast auk þess sem þær valda löghlýðnu fólki óþarfa þjáningum. Slík lög eru aldrei góð.

Breytingar á kjörmannakerfinu í Colorado?

Samhliða forsetakosningunum nú í nóvember munu íbúar í Colorado kjósa um athyglisverða breytingu á úthlutun kjörmanna í fylkinu. Tillagan gerir ráð fyrir að kjörmönnum fylkisins verði úthlutað með hlutfallskosningu.

Kosningakerfi vestanhafs kemur okkur hinum furðulega fyrir sjónir. Kosningarnar eru í raun óbeinar. Sá sem vinnur tiltekið fylki fær alla kjörmenn þess. Það eru síðan kjörmennirnir sem kjósa forsetann. Kerfið getur t.d. leitt til þess að sá sem fær fleiri atkvæði á landsvísu, tapi samt kosningunum, líkt og gerðist seinast.

Færri vita það hins vegar að það er ekkert í stjórnarskránni sem segir að þetta „allt eða ekkert“ kerfi þurfi að vera við lýði. Þar segir einfaldlega að þessi úthlutun sé í höndum fylkjanna. Nýlega hafa Nebraska og Maine breytt lögum sínum þannig að hvert einmenningskjördæmi kjósi sinn kjörmann og þeir tveir kjörmenn sem eftir eru koma í hlut þess vinnur fylkið.

Í raun er það raunar athyglisverð staðreynd að hægt væri að koma á einfaldri meirihlutakosningu innan ramma núverandi stjórnarskrár. Kjörmenn ellefu fjölmennustu fylkjanna duga samanlagt til að kjósa forseta. Ef þau fylki mundu öll úthluta sínum kjörmönnum til þess frambjóðanda sem sigrar á landsvísu væri í reynd búið að breyta kerfinu í átt til þess sem það er hér á landi.

Tökum eftir því einnig að ellefu stærstu fylkin gætu ákveðið að úthluta sínum kjörmönnum í samræmi við vilja meirihlutans í þeim fylkjum samanlagt. Þar með væru íbúar hinna fylkjanna orðnir algjörlega atkvæðalausir, og það í fullu samræmi við stjórnarskrána.

Slík atburðarás er hins vegar ólíkleg. Það eru flokkarnir tveir en ekki fylkin sem eru aðalleikarar á sviði bandarískra stjórnmála. Stjórnir hvers fylkis sjá sér lítinn hag í því að þynna út völd fylkisins og minnka möguleika síns frambjóðenda á sigri. Það er afar ólíklegt að Demokratar í Californíu leggi til einhverjar breytingar á kerfi sem tryggir þeim alla þingmenn fylkisins.

Andmælendur tillögunnar í Colorado hafa bent á að með breytingunni verði hún samþykkt muni menn bítast um eitt baráttusæti í stað átta eða níu áður. Þannig muni áhugi frambjóðenda á Colorado minnka. Repúblíkanar stjórna í Colorado og búast við að vinna fylkið eins og síðast. Hefðu umrædd lög verið í gildi þá hefði Gore orðið forseti.

Það skemmtilega við tillöguna er að hún á að taka gildi strax, en ekki eftir fjögur ár. Verði hún samþykkt er líklegt að reyna muni á nýju lögin fyrir dómstólum. Ef tæpt verður geta 4 kjörmenn skipt sköpin í baráttunni um Hvíta húsið. Það gæti því jafnvel farið svo að úrslitin ráðist, aftur, í Hæstarétti Bandaríkjanna.

Afnám forsetaembættis

Pétur Blöndal hefur nú lagt fram frumvarp um afnám forsetaembættisins. Þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á stjórnarskránni eru flestar í anda þeirrar stjórnsýsluhefðar sem hefur skapast hér á landi, t.d. að forsætisráðherra tilnefni ráðherra o.s.frv. (eða hafði áður en til neitunar forsetans á fjölmiðlalögunum kom).

Sjálfur mundi ég ekki gráta það þótt forsetaembættið yrði lagt niður. Á sama hátt og tilvera þess nú fer ekki sérstaklega í taugarnar á mér. Ég er fylgjandi þeirri hugmynd að gera færa stjórnarskrána nær raunveruleiknanum, sem mér sýnist vera hugmyndin með áðurnefndu frumvarpi. Hins vegar á þetta ekki að snúast um að spara fjármuni enda er ólíklegt að slíkt verði raunin ef svo ólíklega yrði til að hugmyndirnar yrðu að veruleika.

Stór hluti af þeim fjármunum sem fara í að reka forsetaembættið mundu ekki strikast út þótt embættið yrði lagt niður. Áfram þyrfti að halda Bessastöðum við, bjóða hinum og þessum í heimsókn. Áfram þyrfti einhver til að gróðursetja tré og opna meðferðarheimili. Þótt vinnan mundi dreifast á marga einstaklinga er ekki víst að heildarumfang hennar mundi minnka.

Það er full vinna að vera forseti. Langstærstur hluti hennar er auðvitað ekki að ákveða hvaða frumvörp verða að lögum eða annað eins. Forseti Íslands þarf sífellt að vera viðstaddur, opnanir, ráðstefnur, boð; vera verndari íþróttaviðburða og safnana í þágu góðra málefna. Dagskrá hans er þéttsetinn. Forsetinn gegnir, á þann hátt, svipuðu hlutverki og, til dæmis, forsetafrú Bandaríkjanna.

Það er alveg ljóst að áfram verðum þörf á embættismönnum sem sinnt geta hátíðadagskrám þó embættið sem slíkt verði lagt niður. Áfram þarf einhver að vera viðstaddur opnun nýrra leikskóla og sinna útlönskum börnum þegar þau heimsækja jafnaldra sína hér á landi.

Menn hafa nefnt þann möguleika í kringum afnám forsetaembættisins að þingforseti taki við þessu hlutverki forsetans. Það eru ákveðnir ókostir við slíka hugmynd. Til dæmis er það ekki heppilegt að yfirmaður einnar stoðar ríkisvaldsins þurfi of mikið að sinna slíkum verkum. Slíkt hlýtur óneitanlega að koma niður á stjórnun þingsins. Að því leiti er þægilegt að hafa sérstakt puntembætti sem þarf einungis að sinna slíkri formalískri vitleysu.

Framkomnar tillögur um afnám forsetaembættis eru athyglisverðar en eiga auðvitað engan möguleika. Hins vegar væri það gott ef fleiri myndu setja fram tillögur til að breytinga á Stjórnarskránni þannnig að innihald hennar mundi endurspegla íslenskan veruleika en ekki aðeins vera útgangspunktur fyrir umræðu meðal sérfræðinga í stjórnskipunarmálum.