Öryggi Pútins eykst til muna

Í skjóli ótta og hræðslu er hægt að þrýsta í gegn mörgum ákvörðunum sem annars hefðu aldrei fengist samþykktar. Dæmi um þetta er til dæmis skemmtiskokk Bandaríkjanna í átt til lögregluríkis í kjölfar 11. september. Aðgerðir Pútins í kjölfar nýjustu atburða eru einnig gott dæmi.

Viðbrögð Rússlandsstjórnar við ódæðisverkunum í Beslan hafa því miður ekki hlotið mikla athygli fjölmiðla eða fólks á Vesturlöndum. Er þetta væntanlega hluti af þeirri tilhneygingu margra að líta á Rússland sem sirkus fullan af drykkfeldum og djúprödduðum trúðum en ekki fullgilt land sem fólk býr í.

En í stuttu máli máli eru viðbrögðin nákvæmlega þau sem búast mátti við af núverandi valdaklíku Kremlar; og reyndar einnig þeirri klíku sem sat þar í 73 ár áður en hún sú sem nú ríkir komst til valda: Að reka aðila sem bera enga ábyrgð á því sem gerðist og auka völd sín.

Hvernig væri það til dæmis ef að Bush Bandaríkjaforseti hefði notað tækifæri í kjölfarið á hryðjuverkunum í New York til að reka alla borgarstjórnina, lögreglustjórann, slökkviliðsstjórann, Hillary öldungardeildarþingmann og lagt niður beina kosningu á ríkisstjórum allra fylkjanna?

Fæstir sjá kannski beina tengingu milli lýðræðis á lægri stjórnsýslustigum og ódæðisverkum eins og þeim sem áttu sér stað í Beslan. Það gerir Vladímir Pútin hins vegar. Á fundi með ríkisstjórn og fulltrúum a sambandslanda Rússlands lagði Pútin til að héðan í frá mundu ríkisstjórarnir ekki vera kosnir beint, eins og áður, heldur tilnefndir af Ríkisstjórn Rússlands og staðfestir af sambandsþingunum. Pútin sagði á fundinum eitthvað á þá leið að fólkið ætti rétt á “skilvirkri stjórnsýslu sem það skilur og getur treyst”. Ekki verður deilt á þessa þarfagreiningu Pútíns þó lausnirnar séu heldur hæpnar.

Flestir ríkisstjórar rússnesku sambandslandanna hafa fagnað þessari umstokkun Pútins líkt og þeir fagna öllum hans umstokkunum, sér í lagi þeim sem takmarka völd þeirra. Rétt er þó að geta þess að líklegast er meirihluti þjóðarinnar sáttur við þessar kerfisbreytingar enda er meirihluti Rússa enn sáttur við Pútin.

Það fæst engan veginn séð hvernig þær hreinsanir og breytingar Pútin er nú að þrýsta í gegn muni minnka hryðjuverkahættu í Rússlandi eða auka öryggi Rússa. Ef einhver verður öruggari í kjölfar þeirra þá er það Pútín og hans hirð. Þeirra staða er nú nokkuð “safe”.

Leave a Reply

Your email address will not be published.