Sviss stendur í stað

Svissneskir íhaldsmenn víðsýnir að vanda.

Í kosningum um helgina felldu Svisslendingar tillögur Ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um ríkisborgararétt. Svissnesku lögin eru einhver þau íhaldsömustu á byggðu bóli. Það er til dæmis ekkert sem tryggir að fólk sem hefur búið alla ævi í Sviss, eða jafnvel börn þeirra, fái ríkisborgararétt.

Valdið til að veita fólki Ríkisfang liggur hjá yfirvöldum á hverjum stað fyrir sig. Krafist er 12 ára búsetu en reynslan sýnist það er næstum því aldrei nóg, sérstaklega þegar um er að ræða fólk frá Balkanskaga eða Norður-Afríku. Umsóknum þessa fólks er oft hent frá þrátt fyrir að það fullnægi öllum lagalegum skilyrðum.

Í frétt frá BBC fyrir helgina var sagt frá Fötmu Karademir, 23 ára gamallri konu sem búið hefur í Sviss alla sína ævi. Umsókn hennar var nýlega hent frá og henni sagt að hún þyrfti að bíða í 10 ár a.m.k. áður en hægt væri að meta hana almennilega. Fatma sagði enn fremur að þegar að því kæmi mundi hún vera spurð spurninga um hvort hún hlustaði á svissneska tónlist, gæti hugsað sér að giftast svissneskum strák, eða með hverjum hún myndi halda ef Sviss og Tyrkland mættust í fótbolta.

Það er auðvitað gríðarlega frústrerandi að búa í landi beins lýðræðis, þar sem borgararnir fá að segja skoðun sína á næstum því hverju sem er, en eygja ekki neina von um lýðræðislega þátttöku. Tillögur ríkisstjórnarinnar fólu í sér sjálfkrafa veitingu ríkisfangs handa „3. kynslóð“ (barnabörn innflytjenda!) og auðveldara ferli handa annarri kynslóð. Báðar tillögurnar voru felldar.

Auglýsing andstæðinga tillagnanna sýnir að andstaðan snerist ekki um andstöðu við auki vald alríkisins. Svartar hendur sjást teygja sig í svissnesk vegabréf í kassa. Myndmálið gæti ekki verið skýrara.

Að venju voru það hinar íhaldssömu þýskumælandi kantónur sem felldu tillögurnar á meðan hinar frönskumælandi voru fylgjandi. Ekki má gleyma að Svisslendingar hafa áður verið íhaldsamir þegar kemur að því að stækka þann hóp sem fær að kjósa. Konur í Sviss fengu ekki kosningarétt fyrr en á áttunda áratug. Það er raunar ótrúlegt að land sem á sér jafnglæsta sögu af samlífi ólíkra þjóðarbrota skuli ekki sýna meiri þroska þegar kemur að málefnum innflytjenda. Vonandi að þessu takist að breyta og hin stranga innflytjendalöggjöf mun dag einn þykja jafnfáranleg og lögin sem bönnuðu konum að kjósa.

Öryggi Pútins eykst til muna

Í skjóli ótta og hræðslu er hægt að þrýsta í gegn mörgum ákvörðunum sem annars hefðu aldrei fengist samþykktar. Dæmi um þetta er til dæmis skemmtiskokk Bandaríkjanna í átt til lögregluríkis í kjölfar 11. september. Aðgerðir Pútins í kjölfar nýjustu atburða eru einnig gott dæmi.

Viðbrögð Rússlandsstjórnar við ódæðisverkunum í Beslan hafa því miður ekki hlotið mikla athygli fjölmiðla eða fólks á Vesturlöndum. Er þetta væntanlega hluti af þeirri tilhneygingu margra að líta á Rússland sem sirkus fullan af drykkfeldum og djúprödduðum trúðum en ekki fullgilt land sem fólk býr í.

En í stuttu máli máli eru viðbrögðin nákvæmlega þau sem búast mátti við af núverandi valdaklíku Kremlar; og reyndar einnig þeirri klíku sem sat þar í 73 ár áður en hún sú sem nú ríkir komst til valda: Að reka aðila sem bera enga ábyrgð á því sem gerðist og auka völd sín.

Hvernig væri það til dæmis ef að Bush Bandaríkjaforseti hefði notað tækifæri í kjölfarið á hryðjuverkunum í New York til að reka alla borgarstjórnina, lögreglustjórann, slökkviliðsstjórann, Hillary öldungardeildarþingmann og lagt niður beina kosningu á ríkisstjórum allra fylkjanna?

Fæstir sjá kannski beina tengingu milli lýðræðis á lægri stjórnsýslustigum og ódæðisverkum eins og þeim sem áttu sér stað í Beslan. Það gerir Vladímir Pútin hins vegar. Á fundi með ríkisstjórn og fulltrúum a sambandslanda Rússlands lagði Pútin til að héðan í frá mundu ríkisstjórarnir ekki vera kosnir beint, eins og áður, heldur tilnefndir af Ríkisstjórn Rússlands og staðfestir af sambandsþingunum. Pútin sagði á fundinum eitthvað á þá leið að fólkið ætti rétt á „skilvirkri stjórnsýslu sem það skilur og getur treyst“. Ekki verður deilt á þessa þarfagreiningu Pútíns þó lausnirnar séu heldur hæpnar.

Flestir ríkisstjórar rússnesku sambandslandanna hafa fagnað þessari umstokkun Pútins líkt og þeir fagna öllum hans umstokkunum, sér í lagi þeim sem takmarka völd þeirra. Rétt er þó að geta þess að líklegast er meirihluti þjóðarinnar sáttur við þessar kerfisbreytingar enda er meirihluti Rússa enn sáttur við Pútin.

Það fæst engan veginn séð hvernig þær hreinsanir og breytingar Pútin er nú að þrýsta í gegn muni minnka hryðjuverkahættu í Rússlandi eða auka öryggi Rússa. Ef einhver verður öruggari í kjölfar þeirra þá er það Pútín og hans hirð. Þeirra staða er nú nokkuð „safe“.

11. september þeirra Dana

Í gær ákváðu tveir einstaklingar sem ég nenni ekki einu sinni að fletta upp nöfnunum á að ganga hvor sinn veg. Þetta var danskur „prins“ og barnsmóðir hans. Fréttin um skilnaðinn barst eins og eldur um sinu hér í Danmörku í gær og í dag voru slúðurblöðin bara helvíti hress. „Hvað fór úrskeiðið? 19 síðna aukablað.“

Liðinu sem skrifaði þessar „samantektir“ hlýtur að líða eins og manni sjálfum við ritgerðaskrif í grunnskóla.

600 orð, ég þarf 600 orð. Breyti „og“ í „enn fremur“ alls staðar. Skeyti merkingalausu bulli eins og „nú er skemmst frá því að segja“ fremst á allar setningar. Og „af því að talið er“ aftan á þær. Stækka letrið. Auka línubilið. Fitla við spássíður. Tel nafnið mitt og titilinn með. Skrifa út allar tölur í orðum. Nítján hundruð fjörutíu og fjögur er svo miklu lengra en bara 1944. Já, og ekki gleyma að setja, „á því herrans ári“ framan við hvert ártal. Fjögur orð í hreinan bónus.

Blöðunum verður varla um kennt. Þau framleiða þetta fóður þar sem til eru skepnur sem éta það. Já, til er fólk sem virkilega er til að lesa endursagnir gamallra frétta í andlagi. Með „eins og eflaust flestir lesendur muna frá árinu nítján hundruð níutíu og sex“ framan á öllum setningum og runu af viðurlögum aftan á.

Ég er nú gestur í Danmörku og stunda þar nám. Menn ættu auðvitað að fara varlega í að gera grín að gestgjafanum þegar þeir eru í heimsókn. En þegar gestgjafinn er virkilega að æsa sig yfir fjölskyldulífi fólks sem hefur ekkert gert neitt merkilegta annað en að fæðast í einhverja fjölskyldu þá ættu menn nú að fá tímabundið skotleyfi á hann.

Þegar ein stúlka sagði mér í partýi í gær frá því að „prinsinn“ og kona hans væri ég að skilja, sagði ég í gríni: „Hey, frábært þýðir það að konungsveldið er loksins á enda?“ og fékk nú næstum andlitshögg til baka. Skömmu áður hafði sú hin sama manneskja reyndar verið að leiða okkur um stúdentagarðana okkar og tilkynnti okkur m.a. að Eyrarsundskollegíð gæti ekki mögulega brunnið, því það væri byggt úr steypu.

Talandi um steypu. Nú eru einveldin á Norðurlöndunum búinn að redda málum þannig að það er ekki lengur elsti sonurinn sem fær krúnuna heldur elsta barnið. Húrra fyrir jafnréttinu! Já, gott fólk! Það var það sem var vandamálið. Ekki það að embætti á vegum ríkisins erfist, heldur að þau erfist ekki jafnt á milli karla og kvenna í einhverri ætt. Álíka stórt skref í jafnréttisbaráttunni og jöfnun kynjahlutfalls á dauðadeild.

En hvað um það. Kannski að það sé ágætt að einhver hópur venjulegra brauðæta hafi tekið það að sér að verða miðdepill hnýsni heillrar þjóðar. Á meðan fá kjörnir fulltrúar, athafnamenn, leikarar og aðrir framtakssamir borgarar kannski meira andlegt svigrúm en ella. En maður getur nú samt ekki annað en vorkennt þessu greyið fólki sem borðar, makast, skítur og klæðir sig öðrum til skemmtunar. Það versta við þetta er að þau sjálf virðast sátt við þessu hlutskipti hálaunaðra fjölmiðlatrúða. Fyrir það eitt hef ég takmarkaða trú á því að þau séu jafnindæl, elskuleg og gáfuð og sumir vilja af láta.

Þvingunar er þörf

Eftir því sem vegalengdir hafa styst og sveitarfélögum verið færð aukin verkefni hefur krafan um sameiningu orðið háværari. Í raun má sjá ákveðið ferli. Sýslurnar eru að koma aftur, nú í formi sveitarfélaga. Þannig er næstum því allur Skagafjörðurinn kominn undir sama hatt og svipaða strauma má skynja víðar.

Aukin verkefni krefjast stærri eininga. Þetta er ferli hefur verið að eiga sér stað á öllum Norðurlöndum undanfarna áratugi. Þó hefur hvergi annars staðar einungis verið treyst á óþvingaðar og spontanískar sameiningar líkt og hér. Alls staðar annars staðar hafa stærstu skrefin verið stigin með því að því að breyta skipulaginu með lögum.

Af einhverjum ástæðum hafa menn verið einkar hræddir við að „þvinga“ sveitarfélög til að sameinast. Það stóð til dæmis til nýlega að breyta lögum um sameiningar sveitarfélaga á þann hátt að aðeins einfaldan meirihluta allra íbúa í viðkomandi sveitarfélögum (en ekki hverju þeirra fyrir sig) hefði þurft til að samþykkja sameiningartillögu. Hætt var við þetta og þess í stað ákveðið að endurtaka kosningarnar þar sem tillagan var felld. En þessu móti tókst mönnum að halda í hinn heilaga „sjálfákvörðunarrétt sveitarfélaga“.

Já, engin vill „þvinga“ greyið sveitarfélögin til eins eða neins. En því má ekki gleyma að sveitarfélög sjálf eru þvinguð upp á íbúa sína. Menn geta ekki ráðið því hvort þeir hvort þeir kosti eitt að kostnað annars og njóti þjónustu þess í staðið. Sveitarfélög eru því ekki eins og Valur og KR. Þau eru hluti af opinberu kerfi og fjárhagur þeirra tengist með sérstökum Jöfnunarsjóði. Af þeim ástæðum ættu menn að hafa hugrekki til að skipuleggja rekstur þeirra á stærri skala.

Sumum gæti fundist sem hér sé verið að nota almenn rök gegn lýðræði. „Hvers vegna að láta fólk kjósa um eitthvað sem einn maður gæti ákveðið?“ Núverandi leið sameininga hefur vissulega verið fremur klaufaleg og dýr, en er hún ekki betri en ráðherraeinræði? Og munu ekki einhver „tengsl rofna“ í stærri sveitafélögum?

Smá sveitarfélög þurfa að nota stærstan hluta tekna í rekstur sem er sameiginlegur með öðrum. Það væri skýrara fyrir kjósendur ef t.d. gengi skólamála réðust aðeins af ákvörðunum sinna eigin fulltrúa en ekki fulltrúa fimm ólíkra hreppa. Einnig er oft fátt um alvörukosti í fámennum kosningum. Annað hvort er sjálfkjörið eða að engin nennir að bjóða sig fram. Raunar væri heppilegast að fjölga talsvert í sveitarstjórnum ef þær sameiningar sem nú fara af stað verða verulegar. En það er efni í annan pistil.