Hvað fengu þeir sér?

Í Morgunblaðinu í dag var fjallað um allsérstakan fund sem átti sér stað fyrir norðan. Hvorki meira né minna en fimm norrænir forsætiráðherrar hittust til að ræða sín á milli samstarf um norræna drykkju. Eins og það sé ekki nógu slæmt að Íslendingar hafi tekið þátt í þessari vitleysu þá fengum við að vita að frumkvæðið hafi verið okkar.

Einhvern veginn tókst flestum miðlum að láta rök Íslendinga og annarra Skandínava hljóma fyrirgefanleg, jafnvel skynsöm. Í stuttu máli snýst málið um þetta: Áfengisskattar á Norðurlöndum eru mun hærri en annars staðar í Evrópu. Eftir því sem auðveldara er fyrir fólk að ferðast milli landa og versla áfengi þar sem skattar eru lægri hafa tekjur af áfengissölu minnkað og erfiðara hefur reynst að reka sjálfstæða áfengisstefnu.

Rökin með háum áfengissköttum eru tvíþætt. Í fyrsta lagi er um að ræða “lúxusvöru” sem fólk getur auðveldlega komist af án. Í öðru lagi er vonast til að hærra verð muni minnka neyslu og neikvæðar afleiðingar hennar fyrir þjóðfélagið.

En jafnvel ef við gefum grænt ljós á slíka neyslustýringu, eins og flestir virðast vera að gera, þá þýðir það ekki að við getum haft verð á áfengi bara eins hátt og okkur sýnist. Væri þá ekki hægt að tífalda verðið á bjór? Eða hundraðfalda? Nei, það er ekki hægt að ýta neyslustýringarrökum upp í óendanleikann og þegar við blasir að 90% af verði öls renna til hins opinbera þá er einfaldlega of langt gengið.

Auðmjúkir sögðu ráðherrarnir að lítill skilningur væri fyrir því að áfengisskattar á Norðurlöndunum væru miklu hærri en annars staðar í Evrópu og að ríkin væru undir sífellt meiri þrýstingi að lækka þá. En einhvern veginn gleymdist að minnast á að það eru oftast þeirra eigin neytendur, en ekki einhver Evrópuaðall, sem eru svona skilningslausir og þrýstandi.

Kannski væri “Innri markaður ESB virkar, menn ósáttir” því heppilegri fyrirsögn á fréttir af umræddum fundi.

Vonandi að allt hafi farið vel fram norðan heiða. Ef lágir áfengisskattar gera út af heil þjóðfélög með aukinni neyslu, hvaða áhrif hefur þá algjörlega frír vínandi eins og venjan er í opinberum veislum? Fimm stórir strákar með áhuga á stjórnmálum hittast og drykkir í boði hússins. Þetta getur ekki endað vel.

Leave a Reply

Your email address will not be published.