Fáviti aldarfjórðungsins

Ólympíuleikunum lauk á sunnudag. Venju samkvæmt er maraþonhlaup ein seinasta frjálsíþróttagrein leikanna. Þegar um 6 kílómetrar voru eftir ruddist snaróður maður inn á brautina, öskraði einhverjar heimsendaþvælur og ýtti Brasilíumanninum sem var í forustu út í áhorfendaskarann. Sá náði sér aldrei almennilega eftir þetta og endaði í þriðja sæti.

Maraþonhlaup er 42.195 metrar. Að hlaupa slíkt hlaup er mikil þrerkraun og að baki hverju hlaupi liggur mikill undirbúningur. Þetta á auðvitað við um flestar íþróttir. En í fáum íþróttagreinum fá íþróttamennirnir jafnfá tækifæri til að láta ljós sitt skína. Bestu maraþonhlaupararnir hlaup í mesta lagi tvö keppnishlaup á ári, eitt á vorinn og annað á haustin. Þegar hlaupið ber svo á miðju sumri (eins og ólympíuhlaupið) er líklegt að hlauparnir fái ekki önnur tækifæri á árinu.

Það var því einkar sorglegt að sjá margra mánaða undirbúning Brasilíumannsins fara í súginn. Sérstaklega þegar horft er til þess að hann mun líklegast aldrei fá annað tækifæri til að vinna Ólympíugull. Það er einnig sorglegt að hugsa til þess að maðurinn sem svipti hann gullverðlaununum hefur frammi fyrir lögunum ekki gerst sekur um annað en að trufla íþróttaviðburð, sem telst smáafbrot. Hefði hann hrækt á öryggisvörð, hefði hann eflaust verið í verri málum.

Fram hefur komið í fréttum að umræddur aðili sé fyrrverandi prestur og hafi spáð fyrir heimsendi. Hvort það sé nóg til að hann teljist ósakhæfur vegna geðveilu skal ósagt látið, enda hafa heilu stóru trúsöfnuðirnir verið byggðir í kringum svipaða speki. Hins vegar þykir ljóst að til að fljúga sérstaklega til Aþenu, fara í þjóðbúning og trufla íþróttaatburð með milljarðaáhorf þarfnast grunsamlega mikillrar útsjónarsemi þótt það þurfi auðvitað ekkert með geðheilsu að gera.

En utan við allar lögfræðilegar skilgreiningar og umræðu um klúður skipuleggjenda stendur auðvitað íþróttamaðurinn sem missti af gullinu, stærsta tækifæri lífs síns.

Það hvort sá sem stal af honum hafi verið fáviti í hinni gömlu eða nýju merkingu þessa orðs, skiptir kannski ekki svo miklu máli.

Sérstaðan

Einhvern tímann sagði einn kunningi minn mér frá því að þegar hann ungur og uppgötvaði tilvist útlanda. Honum fannst það reyndar mjög magnað að til væru mörg útlönd en aðeins eitt Ísland. Í þessu fólst auðvitað að Ísland væri sérstakt, öðruvísi, einstakt.

Ég hef aldrei heyrt neina betri skýringu á því í hverju hin margumtalaða sérstaða Íslands fælist, sérstaðan sem er notuð sem skýring fyrir því að við bönnum suma hluti sem aðrir leyfa og veitum öðrum, sem öðrum þjóðum þykja lítt merkilegar, óþarflega mikla athygli. „Við erum við því hinir eru það ekki.“

Stundum tína menn reyndar til hluti eins og mannfjölda, landfræði eða þjóðarheimsku sérstöðunni til stuðnings. Þegar einhver saklaus sála spyr hvers vegna þurfi heila sjónvarpsstöð til að sýna leiðinlegt sjónvarpsefni er henni tjáð að það þurfi vegna þess að við séum svo fá. Þegar hún spyr hvers vegna hún megi ekki koma með búvörur inn í landið er það rökstutt með því að við búum á eyju og þegar hún veltir því fyrir sér hvers vegna henni sé óheimilt að versla vín á fleiri stöðum er það til að hún mundi ekki drekka öllu frá sér.

Veltum reyndar mannfæðarrökunum aðeins betur fyrir okkur. Hvers vegna er ekki hægt að reka sjónvarpsstöð með dýralífsþáttum einungis? Eða sápuóperum? Eða heimildarþáttum? Hvers vegna þarf ríkisrekna sjónvarpsstöð? Jú, við erum svo fá segir einhver. En hvers vegna er litið á það sem eitthvað lögmál?

Eitt sinn mátti hver sem vildi flytja til Íslands og þá fjölgaði fólki mest. Fólk á flótta undan yfirvaldi lagði hér að og kom á sæmilegri stjórnskipan. En síðan mettaðist landið, byggðin þróaðist ekki og einveldi konunga gerði skemmdi enn meira fyrir. Nú gat ekki hver sem vildi sest hér að í leit að betra lífi. Reyndar, ef litið er til þátta eins og veðurfars, einokunarverslunar og vistarbandsins, mætti halda að eina ástæðan fyrir að menn hafi ekki flúið land í hrönnum var að þeir höfðu ekki ráð á eða vissu ekki betur.

Það kemur því á óvart að nú þegar fólk vill loksins á ný flytja til Íslands gerum við hvað sem í okkar valdi stendur til að gera því það sem erfiðast. Sérstaklega í ljósi þess að öflugustu þjóðfélög heims voru einmitt byggð af slíku fólki.

Það er auðvitað ekkert lögmál að Íslendingar séu svona fáir. Frelsi dregur að fólk. Því ber að varast að rökstyðja höft með mannfæð, þar sem aukin höft einmitt fæla fólk frá. Við eigum að leyfa frelsinu að flæða frá fjallstindum til stranda og leyfa sem flestum að njóta. Það er sérstaða sem ég get auðveldlega fallist á.

Stærri dreka!

Í súrrealískri vísindasmásögu eftir pólska rithöfundinn Stanislaw Lem er sagt frá risastórum dreka sem orðið hafði til við stærðfræðilega tilraun. Drekinn hafði búið um sig á tunglinu þar sem hann óx með hverju kvöldi og ógnaði öryggi jarðarinnar.

Menn stóðu ráðþrota gagnvart ógninni en ákváðu að ræsa til verks stærstu ofurtölvu sem þeir höfðu til að sjá hvaða ráð hún hefði. Eftir margra vikna útreikninga kom ofurtölvan loksins með svarið: „Búið til nýjan dreka sem er stærri en sá sem fyrir er og látið þá takast á.“

Þetta gerði mannfólkið af samviskusemi, reiknaði sig upp í nýjan dreka og sendi hann í átt til tunglsins. Þar drap nýi drekinn þann gamla, tók sér stöðu hans á tunglinu, óx með hverju kvöldi og ógnaði öryggi jarðarinnar. Ráðþrota spurðu menn aftur ofurtölvuna um ráð og væntanlega geta lesendur Deiglunnar getið sér til hvert svar hennar hafi orðið í þetta skipti.

Nú er langt síðan að ég las þessa sögu og man ekkert hvernig þessi spírall hafi að lokum endað, enda kannski aukaatriði. Boðskapurinn með sögunni er öllum ljós: ekki er vænlegt til langtíma að ætla sér að eyða vondu með enn verra.

Í ljósi þessa er ótrúlegt hve oft tilfinningar manna eða jafnvel utanríkisstefnur heillra þjóða byggjast á hugmyndum á borð hugmyndina með stærri drekann. Þegar glæpamenn deyja í uppgjörum glæpagengja hugsar venjulegt fólk oft, „Jæja, nú eru þrjóti minna eftir í heiminum.“ Líkt og dauði alræmds mafíósa þýði nokkuð annað en að þeir sem eftir eru séu enn öflugri.

Bin Laden er dreki. Saddam Hussein er dreki. Vonandi að mönnum gangi nú vel að láta eyða þeim burt af yfirborði jarðarinnar, (með hjálp annarra dreka). Um daginn sáum við myndband frá áður óþekktum samtökum í Írak sem hótuðu „hæstráðanda“ al-Kaída þar í landi öllu illu. Gott efni í nýjan og stærri dreka sýnist manni.

Auðvitað er það ljóst að styrkur hryðjuverkasamtaka felst ekki í þeim persónum sem stýra þeim hverju sinni. Menn munu koma í manna stað. Að því sögðu segi ég ekki að ég hafi neina hugmynd um hvernig sigrast skuli drekum, stórum eða litlum. Ég er víst ekki einn um það miðað við hve gjarnan menn grípa til þeirra aðferða sem ofurtölvan í súrrealísku vísindasmásögunni eftir Stanislaw Lem lagði til.

Lýðræði í vanda

Það fyrsta sem frambjóðandi sem er hvorki Repúblikani né Demókrati þarf að gera til að geta yfir höfuð hafið kosningabaráttu er að koma sér á kjörseðil. Hér skal taka fram að kosningareglur eru mjög misjafnar milli ríkja, svo að varast ber að alhæfa um of. Hins vegar er sú tilhneyging mjög ríkjandi að kosningalögunum er ætlað að takmarka möguleika þriðju framboða til að koma í veg fyrir að þeir „skemmi fyrir alvöruframbjóðendum“, eins og það er orðað (sk. spoiler effect).

Í annan stað þarf frambjóðandi að berjast fyrir því að koma fram undir merki þess flokks sem hann býður sig fram fyrir. Algengt er að tiltölulega auðvelt er að fara fram sem óháður frambjóðandi en leiðin til framboðs undir merkjum sérstaks flokks er þyrnum stráð. Til dæmis er tekið fram að aðeins stærri flokkar (e. Major Party) megi birta nafn flokks við hlið nafns frambjóðandans og skilgreiningin á „stærri flokkum“ er látin falla að stóru flokkunum tveimur einungis.

Algengasta leið til að halda utan um hvaða flokkar teljist „stórir“ flokkar er með skráningu kjósenda. Athygli vekur að í um helmingi fylkja er það ríkið sjálft sem heldur utan um hvaða flokki kjósendur tilheyra. Þegar menn skrá sig til kosninga tilgreina þeir um leið flokk sinn og fjöldi skráðra kjósenda bak við hvert framboð sem ákveður lagalega stöðu flokks.

Síðan er það auðvitað svo að þegar nýir kjósendur í þeim fylkjum skrá sig þá þeir lista af flokkum sem þeim býðst að tilheyra. Á þeim lista eru aðeins, alvöruflokkar birtir, sem gerir stöðu nýrra framboða en erfiðari.

Í þessum dæmum kristallast ákveðinn vandi lýðræðisins. Þeir sem sitja við völd eru óneitanlega í betri aðstöðu en þeir eru í stjórnarandstöðu þegar kemur að kosningum. Ekki aðeins geta þeir beitt áhrifum sínum til að taka popúlískar ákvarðanir stuttu fyrir kjörið heldur ráða þeir einnig heilmiklum tækjum til að hafa áhrif á framkvæmd kosninganna og nýta þau sér í vil.

Gegnum tíðina hafa einnig komið fram ýmsar hugmyndir um hvernig takmarka skuli fjárstreymi til stjórnmálaflokka frá einkaaðilum. Þær hugmyndir eru ítrekað settar fram í anda þess að minnka spillingu og ítök hagsmunahópa inn í stjórnmálalífið. Settar eru reglur sem banna ákveðnum fyrirbærum að styðja stjórmálaöfl eða setja þök á hámarksstuðning til þeirra.

Slíkar hömlur eru að sjálfsögðu mjög slæmar fyrir ný framboð. Rótrónir flokkar hafa þegar komið sér upp húsnæði og mannskap og geta því komist af með minni fjármuni. Slíkan munað geta nýliðar ekki leyft sér.

Til að lýðræðið sé virkt þarf að tryggja að núverandi valdhafar og rótgrónir flokkar geti ekki misnotað aðstöðu sína og að kosningareglur gildi jafnt um alla. Það kemur manni svo sífellt á óvart hve langt sumir eru tilbúnir að ganga til að koma í veg fyrir einhvers konar lýðræðisleg „slys“. Sem felast í því að þeir sjálfir missi völdin.

Hvað fengu þeir sér?

Í Morgunblaðinu í dag var fjallað um allsérstakan fund sem átti sér stað fyrir norðan. Hvorki meira né minna en fimm norrænir forsætiráðherrar hittust til að ræða sín á milli samstarf um norræna drykkju. Eins og það sé ekki nógu slæmt að Íslendingar hafi tekið þátt í þessari vitleysu þá fengum við að vita að frumkvæðið hafi verið okkar.

Einhvern veginn tókst flestum miðlum að láta rök Íslendinga og annarra Skandínava hljóma fyrirgefanleg, jafnvel skynsöm. Í stuttu máli snýst málið um þetta: Áfengisskattar á Norðurlöndum eru mun hærri en annars staðar í Evrópu. Eftir því sem auðveldara er fyrir fólk að ferðast milli landa og versla áfengi þar sem skattar eru lægri hafa tekjur af áfengissölu minnkað og erfiðara hefur reynst að reka sjálfstæða áfengisstefnu.

Rökin með háum áfengissköttum eru tvíþætt. Í fyrsta lagi er um að ræða „lúxusvöru“ sem fólk getur auðveldlega komist af án. Í öðru lagi er vonast til að hærra verð muni minnka neyslu og neikvæðar afleiðingar hennar fyrir þjóðfélagið.

En jafnvel ef við gefum grænt ljós á slíka neyslustýringu, eins og flestir virðast vera að gera, þá þýðir það ekki að við getum haft verð á áfengi bara eins hátt og okkur sýnist. Væri þá ekki hægt að tífalda verðið á bjór? Eða hundraðfalda? Nei, það er ekki hægt að ýta neyslustýringarrökum upp í óendanleikann og þegar við blasir að 90% af verði öls renna til hins opinbera þá er einfaldlega of langt gengið.

Auðmjúkir sögðu ráðherrarnir að lítill skilningur væri fyrir því að áfengisskattar á Norðurlöndunum væru miklu hærri en annars staðar í Evrópu og að ríkin væru undir sífellt meiri þrýstingi að lækka þá. En einhvern veginn gleymdist að minnast á að það eru oftast þeirra eigin neytendur, en ekki einhver Evrópuaðall, sem eru svona skilningslausir og þrýstandi.

Kannski væri „Innri markaður ESB virkar, menn ósáttir“ því heppilegri fyrirsögn á fréttir af umræddum fundi.

Vonandi að allt hafi farið vel fram norðan heiða. Ef lágir áfengisskattar gera út af heil þjóðfélög með aukinni neyslu, hvaða áhrif hefur þá algjörlega frír vínandi eins og venjan er í opinberum veislum? Fimm stórir strákar með áhuga á stjórnmálum hittast og drykkir í boði hússins. Þetta getur ekki endað vel.

Sjálfbært vefrit

Múrinn er nógu skitsó nú um stundir án þess að landflótta hægrimenn bætist þar við. Úr Fréttablaðinu.

Það væri nú hellt í bakkafullan lækinn að ætla að stofna til ritdeilu við Múrinn þessa dagana. Múrverjar hafa að undanförnu verið fullfærir um það sjálfir og tekist kröftulega á, án utanaðkomandi aðstoðaðar. Er Múrinn fyrsta sjálfbæra vefritið?

Nýlega birti Múrinn lesendabréf þar sem færð voru rök fyrir því hvers vegna dóp væri betra en nauðgun. Þeim skrifum var svarað kröftulega. Af Múrnum.

Eins og þetta væri nú ekki nógu kjánalegt þá birtist skömmu síðar svo enn eitt svar við annarri aðsendri grein. Eða, ja, grein. Heilum greinabálki sem bar hinn girnilega titil „Nokkur atriði í stefnuumræðu fyrir íslenska byltingarsinna.“

Eitt, tvö og þrjú.

Slíkar stefnumótunartrílógíur birtast af og til á hinum og þessum vefmiðlum. Þær er, eflaust, skemmtilegt að skrifa en leiðinlegt að lesa. Ég er enn að ná mér eftir Framtíð Reykjavíkurlistans I-III eða Stjórnmálahorfur á miðju sumri I-III á Maddömunni eða Framtíð Samfylkingarinnar I-XXI á Kreml og hvað þetta allt nú hét.

En til að vera bara svona temmilega ósanngjarn þá er ljóst að ég er ekki rétti maðurinn til að dæma greinarbálkinn „Nokkur atriði í stefnuumræðu fyrir íslenska byltingarsinna“ af fagmennsku. Greinar sem hefjast á orðunum „Höfuðandstæðingur okkar er íslenskt einokunarauðvald. Hinumegin stendur íslensk alþýða og verkalýðsstéttin þar fremst“ eru augljóslega ekki stílaðar inn á lífsvillta frjálslynda hægrimenn. Kannski ættu þeir því að halda sig til hlés og láta uppreisnarhvatningar sér sem vind um eyru þjóta.

En eins áður sagði voru það ekki bara einokunar- og auðvaldssinnar eins og ég sem voru skeptískir á efni umræddra Múrpistla. Sverrir Jakobsson sá allavega ástæðu til að svara greinabálknum. Á Múrnum.

Já, það er ekki hægt annað en að brosa út í bæði þegar byltingarsinnar og umbótasinnar úr röðum íslenskra sósíalista deila á síðum víðlesins vefrits árið 2004. Skemmtileg „retró“ tilfinning. Ég sem hélt að þessi umræða hefði verið kláruð fyrir þó löngu síðan. (En þori að segja hvenær af ótta við að vera besservisseraður niður í gólf.)

Það vita það allir pistlahöfundar að það er gaman að fá viðbrögð við því sem menn skrifa. Jafnvel þótt um gagnrýni sé að ræða. Kannski eru Múrverjar að peppa hver annan upp með því að búa til svör við pistlum sem annars yrðu fljótir að gleymast. Hver veit, kannski mun þessi helgarpistill líka kalla á viðbrögð frá Múrnum?

Ef þeir verða uppiskroppa með eigið efni til að andmæla.

Höldum EM kvenna

Árangur íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu í undankeppni EM lofar góðu fyrir komandi ár. Þegar Íslendingar eiga einn leik eftir og flest önnur lið tvo eru stelpurnar þegar komnar í umspil. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem lansliðið kemst í umspil um laust sæti á stórmóti en litlu munaði að stelpurnar kæmust á HM fyrir ári síðan þegar þær töpuðu naumlega fyrir Englendingum.

Þetta er lengra en karlalandsliðið hefur nokkru sinni komist. Árangur kvennanna er þeim mun merkilegri fyrir það að kvennamótin eru almennt fámennari en karlamótin. Þannig spila aðeins 8 lið í úrslitakeppni EM og 16 á HM (sbr. 16 og 32 hjá körlunum). Ef staða Íslands í karlaboltanum væri því í einhverjum samanburði við það sem hún er í kvennaknattspyrnu væri Ísland fastagestur á stórmótum.

Það er vonandi að allt gangi upp hjá stelpunum okkar og við fáum að sjá þær spila meðal þeirra bestu á Englandi á næsta ári. En um leið má líka velta fyrir sér hvort við Íslendingar séum ekki í stakk búnir til að fylgja eftir uppgangi íslenskrar kvennaspyrnu með því að halda sjálfir úrslitakeppni EM-kvenna. Líklegast er rétti tíminn til þess einmitt núna. Áður er langt um líður mun keppnin líklega verða orðin stærri, liðin verða fleiri og sömuleiðis áhorfendurnir. Mun erfiðara verður þá fyrir litla Ísland að sækjast eftir heiðrinum.

En auðvitað er þessi heiður ekki fenginn frítt. Til að geta haldið keppni þarf knattspyrnuvelli og þeir eru ekki margir hér á landi sem eru í hæsta gæðaflokki. Ef litið er á gamlar Evrópukeppnir kemur í ljós að úrslitakeppni kvenna krefst um 5 knattspyrnuvalla. Eitthvað er á reiki um kröfur varðandi fjölda sæta á völlum á þeim völlum en þó ber að geta þess að þegar keppnin var haldin í Þýskalandi var fámennt á flestum leikjum öðrum en gestgjafanna.

Tveir þessara valla þyrftu að vera í stærri kantinum til að hægt verði að leika undanúrslitaleikina á þeim samdægurs. Stækkaður Laugardalsvöllur dugar sem einn þeirra og síðan mætti með hóflegri íþróttaheimtufrekju krefjast þess að byggður yrði annar stórvöllur á Höfuðborgarsvæðinu sem hugsaður væri til fótboltaiðkunnar eingöngu og gæti létt af Laugardalsvellinum á sumartíma. Síðan er hvort sem er þörf á að bæta knattspyrnuaðstöðu á Akureyri, Grindavíkurvöllur tekur þegar 1500 í sæti og með endurbótum á Kaplakrika, Víkinni eða ÍA-vellinum væri hægt að klára dæmið.

Það er auðvitað augljóst að slíkur atburður yrði mikil lyftistöng fyrir íslenska knattspyrnu, jafnt kvenna sem karla ef af yrði. Mannvirkin mundu nýtast mörg ár fram í tímann og ferðaþjónustan mundi auðvitað njóta góðs af einnig. Það er svo auðvitað annarra að ákveða hvað gert verður við þessa hugmynd mína. Ég tel einungis að hún sé framkvæmanleg ef til staðar verður verulegur áhugi og auðvitað verulega, verulega mikið fjármagn.

Fréttir í plastumbúðum

Í undirblaði Fréttablaðsins „Öllu“ birtast stundum stuttar kynningargreinar um hinar og þessar áfengistegundir. Hverjum sem rýnir í þessar „greinar“ má þykja ljóst að þær eru kostaðar af umboðsaðilum viðkomandi drykkja. Þannig hefur greinastúfurinn um Egils Pilsner, ódýrasta bjórinn í Ríkinu, birst tvisvar að minnsta kosti, eflaust oftar. Hins vegar má segja að menn hafi nú sett nýtt met með kynningar“grein“ sem birtist í blaðinu fyrir helgi.

Óháð því hvaða álit menn hafa á áfengisauglýsingabanninu hljóta menn hið minnsta að fá nettan kjánahroll þegar menn lesa eftirfarandi orð birtast á prenti í stærsta dagblaði landsins:

Pilsner í plastflöskum

Í júní kom á markaðinn Pilsner 4,5% bjór á plastflöskum, með skrúfuðum tappa. Bjórinn er seldur í átta flösku pakkningum í stað sex sem menn eiga að venjast. Umbúðirnar eru nettar og léttar og átta plastflöskur taka svipað pláss og sex dósir í pakkningu. Plastflöskurnar tryggja 16 vikna geymsluþol

vörunnar og eru gerðar úr þriggja laga plasti sem varðveitir ferskleika og gæði vörunnar. Með plastflöskunum er verið að koma til móts við neytendur og hafa viðtökurnar verið mjög góðar. Hægt er að fullnýta vöruna við öll tækifæri. Með skrúfuðum tappa er hægt að loka flöskunni og varðveita gæði og ferskleika bjórsins. Plastflöskurnar hvorki beyglast né brotna og henta því vel fyrir ferðalög af hvaða tagi sem er. Hægt er að leggja bjórinn frá sér á víðavangi án þess að óttast að hann hellist niður. Fín lausn fyrir íslenskir[sic] ferðalanga um þessa miklu útivistarhelgi. Pilsner í 0,5L plastflöskum er með ódýrustu bjórum í Vínbúðum, líkt og Pilsner í dós sem verður að sjálfsögðu áfram fáanlegur.

Fáum dylst að núverandi bann við áfengisauglýsingum er tímaskekkja. Fyndin útúrsnúningur á slíku banni getur verið jafnt góð auglýsing sem og heppileg leið í baráttunni fyrir breytingu á lögunum. Tilgangur með slíkum útúrsnúningum ætti þó fyrst og fremst að vera að snúa á lögin sjálf fremur en að blekkja neytendur. Það hefur sjaldnast skilað miklu ef neytendunum sjálfum finnst þeir vera hafðir að fíflum.

Hvergi er hægt að sjá annað en að umræddar greinar séu hluti af venjulegu efni blaðsins. Hvergi er minnst á að um aðkeyptar greinar sé að ræða sem auðvitað hlýtur að vera nema ef vera skyldi að Fréttablaðið hafi ráðið til sín einhvern stjarnfræðilega gagnrýnislausan sumarstarfsmann til að skrifa lofgreinar um bjórtegundir.

Ég ætla ekki að gera eins og svo margir og krefjast þess að eitthvað opinbert vald grípi inn í og stöðvi þessar greinar. En ég vona hins vegar að Fréttablaðið sjálft hætti að verða sér til minnkunar. Eða allavega geri það með aðeins lúmskari hætti.

Hlutverkaleiknum lokið

Í kringum umræðu um fjölmiðlafrumvarpið tókst jafnvel vinstrigrænum að beita fyrir sér frjálshyggjurökum af og til. Nýlegar yfirlýsingar Árna Þórs í fjölmiðlum, varðandi Austurbæjarbíó og strandsiglingar Eimskipafélagsins sýna svo ekki sé um villts að þeim stutta hlutverkaleik er lokið.

Fyrst ber að nefna Austurbæjarbíó. Forsagan verður ekki rakin hér en alla vega þá virðist Árni Þór vera búinn að taka þá ákvörðun upp á sitt að banna eigendum hússins að rífa það og reisa þar nýtt í staðinn. Rökin sem Árni Þór og aðrir íhaldsmenn hafa fyrir þessari ákvörðun sinni eru sannkölluð þungavigtarrök: „Húsið á sér merka sögu.“

Það voru einkaaðilar sem byggðu húsið. Það voru einkaaðilar sem áttu og ráku húsið. Það eru svo einkaaðilar vilja rífa það. Þetta snýst ekki um hvað okkur finnst flott og hvað ekki. Til að koma í veg fyrir að lögmætir eigendur geti ráðstafað eign sinni, þarf alvörurök en ekki væmni eða fegurðarskyn. Í Stjórnarskránni er allavega talað um „almannahagsmuni“ en ekki tilfinningarök í kringum sviptingu eignarréttar.

Svo við gleymum nú því ekki að Sjálfstæðisflokkurinn virðist stefna á að miskunnarlausa hjásetu í þessu máli eins og svo mörgum öðrum. Þeir líka falla í þá gryfju að láta sem Borgarráð sjálft muni senda jarðýtur á lóðina við Snorrabraut. Hegðun Borgarfulltrúanna minnihlutans í þessu og öðrum málum,að halda má að álíka áhrifamikið væri, frá frelsissjónarmiðum séð, að henda atkvæði sínu ofan í brunn og að kjósa D-listann.

En það eru ekki bara byggingarverktakar sem þurfa að hafa fegurðarmat og siðferðisvitund Árna Þórs í huga þegar þær taka viðskiptaákvarðanir. Eimskipafélagið tók nýlega þá ákvörðun að hætta strandsiglingum innanlands enda telur fyrirtækið landflutinga hagkvæmari lausn. Árni Þór taldi sig hafa ástæðu til að tjá sig um málið í Fréttum Sjónvarpsins og kom hann þar fram fyrir hönd Hafnarsambands sveitarfélaga.

Síðan má auðvitað velta því fyrir sér hvort það sé endilega sjálfgefið að einstök stórfyrirtæki sem að stunda flutninga, að það sé þeirra einkamál hvernig flutningum og samgöngum í okkar samfélagi er háttað og ég tel að stjórnvöld, að þau eigi að bregðast við þessu með einhverjum hætti, þau eigi að leggjast yfir þessa stöðu, þessa þróun mála og Hafnarsamband sveitarfélaga er tilbúið að taka þátt í þeirri vinnu með Ríkisstjórn og Alþingi.

Hvað Árni Þór er nákvæmlega að fara með þessum pælingum væri gaman að vita. Sjálfur mundi ég telja að það væri ekki vitlaus hugmynd að láta vegfarendur í auknum mæli greiða fyrir afnot af vegum sem byggðir yrðu í einkaframkvæmd og væru hagkvæm viðbót við núverandi vegakerfi. En væntanlega hefur Árni einhverjar félagslega réttlátari leiðir en ég í huga. Gaman væri ef íslenskir fjölmiðlar spurðu Árna að þessu. Gaman væri ef íslenskir fjölmiðlar stæðu vörð um eignarrétt annarra af helmingi þess ákafa sem þeir nota til að verja eiginn.