Útfærsla þýska kerfisins fyrir Ísland

Fyrir seinustu Alþingiskosningar var í fyrsta skipti kosið eftir nýrri kjördæmaskipan sem var afrakstur af starfi þverpólítskrar nefndar. Sú lausn fólst í grófum dráttum í sameingu landsbyggðarkjördæma og skiptingu Reykjavíkur í tvennt. Þær breytingar voru að mörgu leiti ágætlega unnar en eins og alltaf þegar um málamiðlun er að ræða var engin í raun ánægður með niðurstöðuna.

Margir hafa ýjað að því að nú þegar kjördæmin eru orðin svona stór er aðeins tímaspursmál hvenær skrefið verður “stigið til fulls” og landið allt gert að einu kjördæmi. Sú lausn hefur vissulega ýmsa kosti. Til að mynda er slík lausn varanleg og slíkt kosningakerfi er mjög einfalt í framkvæmd. Hins vegar verður að segjast að hún er alveg skelfilega leiðinleg. Að auki þá útilokar hún næstum því algjörlega persónukjör því í þannig kerfi verða flest þingsæti fyrir fram ákveðin flokkunum og í raun aðeins kosið um nokkur “baráttusæti”.

Mun skemmtilegri leið felst í svokölluðu þýsku kerfi. Í því kerfi er kosið um helming þingsæta í einmenningskjördæmum en síðan er tekið inn fólk af landslistum flokkanna til að ná fram jöfnuði í landsvísu. Þýska kerfið tryggir þannig nálægð þingmanna við kjósendur en um leið tryggir að allar alvarlegri stjórnmálahreyfingar eigi sér fulltrúa á þingi.

Umrædd leið var reifuð í nefndinni við seinustu endurskoðun kosningalaga en ekki tókst að ná sátt um hana. Sjálfur tel ég hins vegar að þýska kerfið sé mjög athyglisverð hugmynd sem gæti hentað vel fyrir Ísland, stuðlað að meiri tengslum kjósenda við fulltrúa sína og gert kosningarnar skemmtilegri. Hér fyrir neðan er tillaga að útfærslu þessa kerfis fyrir Ísland, ætluð lesendum Deiglunnar til fróðleiks.

Stuðst var við tölur frá Hagstofu Íslands og Borgarvefsjá. Miðað var við íbúafjölda fremur en kjósendafjölda þar sem þau gögn voru auðfengnari. Heildarfjöldi þingmanna er áfram sá sami eða 63. Þar af eru 31 kosnir með beinum kosningum í einmenningskjördæmum en 32 af landslista.

Meðalíbúafjöldi á hvert kjördæmi er við núverandi aðstæður 9371 íbúar. Nú voru gerð þau viðmið að munur á stærð fámennasta og fjölmennasta kjördæmis mætti ekki vera meiri en 1:2. Þetta þýðir að íbúar í hverju kjördæmi gátu verið á bilinu frá 6247 til 12494.

Miðast var við að kjördæmin fylgdu mörkum sveitarfélaga eftir því sem mögulegt væri (undantekning frá þessu var Seltjarnarnes). Einnig var tekin sú stefna að kjördæmin mynduðu helst landfræðilegar og sögulegar heildir, fremur en að keppast við sem mestum jöfnuði enda hefur sú viðleitni oft leitt til fáranlegra kjördæmaskrípa, t.d. í Bandaríkjunum.

Kjördæmi á landsbyggðinni

Kjördæmi 1

Akranes og svæðið milli Hvalfjarðar og Borgarfjarðar.

Kjördæmi 2

Borgarfjörður, Snæfellsnes og Dalir.

Kjördæmi 3

Vestfirðir.

Kjördæmi 4

Húnaflói og Skagafjörður.

Kjördæmi 5

Siglufjörður, Eyjafjörður án Akureyrar.

Kjördæmi 6

Akureyri Norður.

Kjördæmi 7

Akureyri Suður. (Mætti t.d. skipta eftir Glerá).

Kjördæmi 8

Þingeyjarsýslur og Hérað.

Kjördæmi 9

Austfirðir og Hornarfjörður.

Kjördæmi 10

Vestmannaeyjar, Vestur-Skaftafellssýsla, Rangarvallasýsla.

Kjördæmi 11

Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Gaulverjabæjarhreppur, Hraungerðishreppur, Villingaholtshreppur, Hrunamannahreppur og Sveitarfélagið Árborg.

Kjördæmi 12

Mosfellsbær, Grímsnes- og Grafningshreppur, Bláskógabyggð og Kjósarhreppur.

Kjördæmi 13

Reykjanesbær.

Kjördæmi 14

Grindavík, Sandgerði, Gerðahreppur, Vatnsleysustrandarhreppur, Hveragerði og Sveitarfélagið Ölfus.

Kjördæmi á Höfuðborgarsvæðinu.

Kjördæmi 15

Seltjarnarnes og Grandar.

Kjördæmi 16

Vesturbær.

Kjördæmi 17

Miðbær og Hlíðar.

Kjördæmi 18

Háteighverfi og Laugarnes.

Kjördæmi 19

Háaleiti, Laugardalur, Heimar og Vogar.

Kjördæmi 20

Kringlan og Fossvogur.

Kjördæmi 21

Rimar, Borgir , Víkur, Engi, Staðir og Kjalarnes.

Kjördæmi 22

Hamrar, Foldir, Hús og Grafarholt.

Kjördæmi 23

Árbær.

Kjördæmi 24

Seljahverfi og Neðra-Breiðholt.

Kjördæmi 25

Efra-Breiðholt.

Kjördæmi 26

Kópavogur – Austur.

Kjördæmi 27

Kópavogur – Vestur.

Kjördæmi 28

Kópavogur – Salir og Lindir.

Kjördæmi 29

Álftanes og Garðabær.

Kjördæmi 30

Hafnarfjörður – Norður.

Kjördæmi 31

Hafnarfjörður – Suður.

Fámennasta kjördæmið verður þannig Kjördæmi 1 með um 6700 íbúa á meðan Vesturbær og Neðra-Breiðholt eru stærst með yfir 12000 íbúa. Skipting Hafnarfjarðar og Kópavogs er ekki nákvæm þar sem ekki fundust nákvæm gögn um íbúatölu eftir hverfum í þeim bæjum.

Ef kosningar færu fram eftir þessu kerfi mundu flokkarnir bjóða fram einum frambjóðanda í hverju kjördæmi (ásamt hugsanlega varamanni). Sá sem flest atkvæði hlýtur í hverju kjördæmi kemst á þing. Síðan eru lögð saman atkvæði flokkanna á landsvísu (t.d. þeirra sem fá yfir 5% atkvæða) og reiknað með landinu sem einu kjördæmi, nema að þau þingsæti sem flokkur vinnur í einmenningskjördæmum dragast frá. Ef flokkur t.d. á rétt á 24 þingmönnum en sigraði í 15 kjördæmum fær hann 9 þingmenn af landslista.

Ljóst er að langt þyrfti að líða þangað til að kosið væri eftir þeirri leið sem hér er nefnd jafnvel þótt fullkomin sátt væri um hana. Þá þyrfti jafnvel örugglega að beita annars konar kjördæmaskiptingu sökum þróunar á íbúafjölda. Þessi tillaga sem hér er sett fram er því ætluð til að sýna að útfærsla þýska kerfisins er bæði möguleg og meira að segja skemmtileg. Vonandi að sú leið verði skoðuð nánar í framtíðinni.

Leave a Reply

Your email address will not be published.