Treystum við ekki lögreglunni?

Það hefur verið sagt að frelsið glatist sjaldnast allt í einu. Vegur frá lýðræðisríki til lögregluríkis sé samsettur úr mörgum litlum skrefum sem öll virðast ásættanleg þótt áfangastaðurinn sé eitthvað sem enginn vildi fyrir fram enda í.

Það var nú hins vegar annað uppi á teningnum þegar Lögreglustjórinn í Reykjavík kynnti hugmyndir sínar um tölvukubb sem setja ætti í alla bíla. Hér má segja að ákveðið hafi verið að sleppa litlu skrefunum og taka frelsið, eins og það leggur sig. Með því að troða staðsetningartæki inn í langalgengasta ferðamáta landans eru rauninni fá skref í viðbót sem hægt er að stíga önnur en að græða GPS-tæki og blóðmæli inn í alla landsmenn, til að lögreglumenn sjái hvað menn hafi verið að bralla, ekki aðeins seinasta klukkutímann heldur einnig „það sem á undan hefur gengið.“

En nú kemur einhver og spyr: „En treystir fólk ekki lögreglunni?“ Við viljum að okkur sé treyst og við viljum treysta öðrum traust er gott. Með því að opinbera tortryggni sína í garð Lögreglunnar verða menn því á einhvern hátt tortryggilegir sjálfir. „Þeir hljóta að hafa eitthvað að fela,“ hugsar fólk.

Lögreglan safnar að sér hvers kyns viðkvæmum upplýsingum. Séu menn til dæmis farþegar í bíl sem er stoppaður vegna gruns um einhvern glæp þá eru nöfn þeirra skráð í skýrslu, alveg óháð því hvort menn þeir sjálfir séu grunaðir um refsivert athæfi eða ekki. Þeir vita það sem t.d. hafa verið sumarstarfsmenn hjá Lögreglunni að aðgangur að slíkum upplýsingum er á engan hátt flókinn, með öðrum orðum hver sem vill kemst í þær.

Sömuleiðis kannast margir við sögur frá starfsmönnum Lögreglunnar um að þegar einhver fallegur aðili af gagnstæðu kyni slysast inn á stöð þá „fletti menn upp á honum“. Bara svona til að tjekka. Þótt slíkt séu kannski lítilsháttar brot sem komi til vegna forvitni og aðgerðarleysis starfsfólks, þá sýna þau samt hve fáranlegt sé að halda fram að Lögreglan sé ávallt fullkomlega fagleg og starfsmönnum hennar í hvívetna treystandi.

Treystum við ekki Lögreglunni? Já og nei. Ef ég sé lögreglumann á vappi á Austurstræti hef ég engar ástæður til að halda að hann sé á leiðinni að þyggja mútur eða að leita uppi svertingja sem hann getur barið. En auðvitað mun engin starfsstétt vera nokkurn tímann laus við svarta sauði og að auki þá á vald það til að spilla fólki. Nýlega voru tveir lögreglumenn dæmdir fyrir alvarlega misbeitingu á valdi sínu. Er gott til þess að vita að þeir hafi örugglega „flett upp“ brotaþolanum og komist að því hver hann væri og með hverjum og hvar hann byggi? Eða öðrum viðkvæmari upplýsingum? Og hefði verið betra ef þeir hefðu getað flett upp ferðum hans undanfarið ár? Til að sjá „hvað á undan hafi gengið“?

Ég hef þó um það léttan grun að þeir sem mest mótmæla því að tölvukubbar séu settir í bíla séu þeir sem einfaldlega vilji stunda hraðakstur óáreittir og rökstyðji það fyrir sjálfum sér með miðaldaeðlisfræði og ranghugmyndum um eigin ökutækni. Slíkt má þó ekki blinda okkur sýn. Það er allt í lagi að notast við nútímatækni til að hafa uppi á lögbrjótum. En fyrr má nú aldeilis vera.

Sniðgöngum íslenskan landbúnað

Fyrir nokkru var fór ég í sund og rakst á bunka af ólesnum Bændablöðum sem einhver vingjarnleg sál hafði skilið eftir handa sundlaugargestum. Í blaðinu var heilmikið af bændakyns greinum en þó rakst ég á eina sem augljóslega var meira extróvert en aðrar. Yfirbragð greinarinnar var „hvað getur ÞÚ gert til hindra að smitsjúkdómar berist til landsins“. Og svarið var auðvitað „ekki flytja inn hrátt kjöt frá útlöndum.“

Nú veit ég lítið um smitsjúkdóma. Ég get því lítið sagt um hvort það sé raunveruleg hætta að lúxemburgískar nautaflensur sem sem koma inn í landið með kjöti farþega, BANG, smeygi sér inn í íslenska kúastofninn. Einhvern veginn grunar mig þó að sjúkdómavarnir séu aðeins seinasta leið til að afsaka landbúnaðarlöggjöf sem íslenskum neytendum ofbýður æ meira.

Eða hvað? Eru þá einnig til sérstakir mjólkursjúkdómar sem smita íslenska mjólk? Voru þá til einhverjir erlendir ostasjúkdómar sem smitað gátu í íslensku ostana en hættu skyndilega að vera til fyrir nokkrum árum? Eða banvænir útlendir grænmetissjúkdómar sem voru aðeins hættulegir á þeim tíma sem íslenskt grænmeti var á markaði?

Íslendingar eru auðvitað ekki einir um það að viðhalda landbúnaðarstefnu sem er út í hött. En auðvitað eru það engin rök. Það algjörlega á skjön við þá reynslu sem við venjulega höfum af íslenskum embættismönnum að þurfa að bíða með öndina í hálsinum þegar labbað er framhjá tollvörðunum á Keflavíkurflugvelli. Menn vita aldrei. Innflutningur á óunnum kjötvörum er t.d. ekki heimilaður. Það virðist svo hins vegar vera háð geðþótta framsóknarlöggunnar hverju sinni í hvoran flokk hvers kyns spægipylsur falla. Stundum sleppa þær, stundum ekki.

Nýlega var ákveðið að mjólkurvörur skyldu halda áfram tilheyra miðstýrðum búskap um ókomna tíð. Það sem meira er, Guðni Ágústsson notaði tækifærið til að lofa þá markaðstegund sérstaklega. Hér væru sko allir búðareigendur loksins jafnir og tryggt var að bændur fengu „sanngjarnt verð“ fyrir vöruna og þetta tryggði svo líka að „verðmæt þekking flyttist ekki úr landi“. Ótrúlegt að hægt hafi verið að troða jafnmiklu kjaftæði í eitt viðtal en þetta hefur Guðna tekist.

Heppilegast væri að grípa til þess eina vopns sem við sem neytendur höfum: sniðganga íslenskar landbúnaðarvörur. Við getum t.d. byrjað á mjólkinni og lanbakjötinu. Lambakjötinu blessaða. Ókosturinn við þá aðferð er að líklegast verði þessar vörur keyptar, í okkar nafni, engu að síður. Eins og venjan hefur verið þegar markaður með einhverja landbúnaðarvöru hefur hrunið.

Hverning undanþágur?

Hin nýstofnaða þverpólitíska Evrópunefnd forsætisráðherra er löngu tímabær hugmynd. Það er ljóst að þrátt fyrir að ólíklegt sé að nefndin geti náð „sameiginlegri niðurstöðu“ um Evrópumál verði vonandi þó hægt að mynda almennilegan ramma utan um ESB-umræðuna á Íslandi. Eitt af því sem löngu tímabært er að skoða til enda er hvaða leiðir eru færar ef til þess kæmi að semja um málefni hafsins.

Tíðrætt hefur verið um að sjávarútvegsstefna ESB gott sem útiloki aðild Íslands að sambandinu. Allir helstu talsmenn ESB-aðildar hafa því gefið til kynna að aðild geti ekki átt sér stað nema Íslendingum verði veitt undanþága frá sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni. Í hverju þessi undanþága ætti felast er svo annað mál. Þær reglur sem snúa að aðkomu útlendinga að greininni, t.d. varðandi eignarhald á sjávarútvegsfyrirtækjum, eru eitthvað sem við gætum aldrei fengið varanlega undanþágu frá, enda ættum við heldur alls ekki sækjast eftir því.

Það getur varla verið af hinu vonda að fá erlent fjármagn inn í einhverja atvinnugrein. Að gera kröfu um að engin veiði á Íslandi nema hann sé Íslendingur, eigi íslenska foreldra, búi á Íslandi og tilheyri íslensku skipi sem sé í eigu íslensk Íslendings, er ekkert nema nett þjóðernishyggja. Eins og réttilega var bent fyrir seinustu kosningar er sjávarútvegur atvinnugrein, en ekki sérstækt tæki til sem nota á í þágu byggðaþróunar og eflingu þjóðmennigar.

Allar undanþágur ættu því fyrst og fremst að snúast um réttinn til stýra nýtingu fiskistofna í kringum Íslandsmiðin, að úthlutun aflaheimilda færi fram á Íslandi en ekki einhvers staðar annars staðar. Hér tel ég að töluverðir möguleikar séu fyrir hendi. Helsta tromp Íslendinga er það að íslenskur sjávarútvegur hefur staðir undir sér og þurfi því ekki á styrkjum að halda. Á þeim forsendum væri hægt að fara fram á svæðisbundna fiskveiðistjórnun í kringum landið.

Hve raunhæfur möguleiki þetta sé verður einhver annar en ég að ganga úr skugga um. Þrátt fyrir að nýting sjávarauðlinda sé skilgreind sem eitt af því sem sé á forræði ESB í hinni nýju stjórnarskrá sambandsins hefur sambandið væntanlega heimild til að veita heimamönnum til að framkvæma einstaka þætti hennar, svo lengi sem jafnræðis milli allra ESB-þegna sé gætt að öðru leyti. Reynslan sýnir að þrátt fyrir það sem oft er haldið fram er ESB tilbúið að fara mjög langt í því að beygja sig undir sérvisku einstakra aðildarríkja.

Takist Íslendingum að semja um slíka svæðisbundna lausn á málefnum sjávarútvegs eru það lítið annað en þjóðbúningarök og hálfupplognar skriffinnskumýtur sem standa í vegi fyrir aðild.

Útfærsla þýska kerfisins fyrir Ísland

Fyrir seinustu Alþingiskosningar var í fyrsta skipti kosið eftir nýrri kjördæmaskipan sem var afrakstur af starfi þverpólítskrar nefndar. Sú lausn fólst í grófum dráttum í sameingu landsbyggðarkjördæma og skiptingu Reykjavíkur í tvennt. Þær breytingar voru að mörgu leiti ágætlega unnar en eins og alltaf þegar um málamiðlun er að ræða var engin í raun ánægður með niðurstöðuna.

Margir hafa ýjað að því að nú þegar kjördæmin eru orðin svona stór er aðeins tímaspursmál hvenær skrefið verður „stigið til fulls“ og landið allt gert að einu kjördæmi. Sú lausn hefur vissulega ýmsa kosti. Til að mynda er slík lausn varanleg og slíkt kosningakerfi er mjög einfalt í framkvæmd. Hins vegar verður að segjast að hún er alveg skelfilega leiðinleg. Að auki þá útilokar hún næstum því algjörlega persónukjör því í þannig kerfi verða flest þingsæti fyrir fram ákveðin flokkunum og í raun aðeins kosið um nokkur „baráttusæti“.

Mun skemmtilegri leið felst í svokölluðu þýsku kerfi. Í því kerfi er kosið um helming þingsæta í einmenningskjördæmum en síðan er tekið inn fólk af landslistum flokkanna til að ná fram jöfnuði í landsvísu. Þýska kerfið tryggir þannig nálægð þingmanna við kjósendur en um leið tryggir að allar alvarlegri stjórnmálahreyfingar eigi sér fulltrúa á þingi.

Umrædd leið var reifuð í nefndinni við seinustu endurskoðun kosningalaga en ekki tókst að ná sátt um hana. Sjálfur tel ég hins vegar að þýska kerfið sé mjög athyglisverð hugmynd sem gæti hentað vel fyrir Ísland, stuðlað að meiri tengslum kjósenda við fulltrúa sína og gert kosningarnar skemmtilegri. Hér fyrir neðan er tillaga að útfærslu þessa kerfis fyrir Ísland, ætluð lesendum Deiglunnar til fróðleiks.

Stuðst var við tölur frá Hagstofu Íslands og Borgarvefsjá. Miðað var við íbúafjölda fremur en kjósendafjölda þar sem þau gögn voru auðfengnari. Heildarfjöldi þingmanna er áfram sá sami eða 63. Þar af eru 31 kosnir með beinum kosningum í einmenningskjördæmum en 32 af landslista.

Meðalíbúafjöldi á hvert kjördæmi er við núverandi aðstæður 9371 íbúar. Nú voru gerð þau viðmið að munur á stærð fámennasta og fjölmennasta kjördæmis mætti ekki vera meiri en 1:2. Þetta þýðir að íbúar í hverju kjördæmi gátu verið á bilinu frá 6247 til 12494.

Miðast var við að kjördæmin fylgdu mörkum sveitarfélaga eftir því sem mögulegt væri (undantekning frá þessu var Seltjarnarnes). Einnig var tekin sú stefna að kjördæmin mynduðu helst landfræðilegar og sögulegar heildir, fremur en að keppast við sem mestum jöfnuði enda hefur sú viðleitni oft leitt til fáranlegra kjördæmaskrípa, t.d. í Bandaríkjunum.

Kjördæmi á landsbyggðinni

Kjördæmi 1

Akranes og svæðið milli Hvalfjarðar og Borgarfjarðar.

Kjördæmi 2

Borgarfjörður, Snæfellsnes og Dalir.

Kjördæmi 3

Vestfirðir.

Kjördæmi 4

Húnaflói og Skagafjörður.

Kjördæmi 5

Siglufjörður, Eyjafjörður án Akureyrar.

Kjördæmi 6

Akureyri Norður.

Kjördæmi 7

Akureyri Suður. (Mætti t.d. skipta eftir Glerá).

Kjördæmi 8

Þingeyjarsýslur og Hérað.

Kjördæmi 9

Austfirðir og Hornarfjörður.

Kjördæmi 10

Vestmannaeyjar, Vestur-Skaftafellssýsla, Rangarvallasýsla.

Kjördæmi 11

Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Gaulverjabæjarhreppur, Hraungerðishreppur, Villingaholtshreppur, Hrunamannahreppur og Sveitarfélagið Árborg.

Kjördæmi 12

Mosfellsbær, Grímsnes- og Grafningshreppur, Bláskógabyggð og Kjósarhreppur.

Kjördæmi 13

Reykjanesbær.

Kjördæmi 14

Grindavík, Sandgerði, Gerðahreppur, Vatnsleysustrandarhreppur, Hveragerði og Sveitarfélagið Ölfus.

Kjördæmi á Höfuðborgarsvæðinu.

Kjördæmi 15

Seltjarnarnes og Grandar.

Kjördæmi 16

Vesturbær.

Kjördæmi 17

Miðbær og Hlíðar.

Kjördæmi 18

Háteighverfi og Laugarnes.

Kjördæmi 19

Háaleiti, Laugardalur, Heimar og Vogar.

Kjördæmi 20

Kringlan og Fossvogur.

Kjördæmi 21

Rimar, Borgir , Víkur, Engi, Staðir og Kjalarnes.

Kjördæmi 22

Hamrar, Foldir, Hús og Grafarholt.

Kjördæmi 23

Árbær.

Kjördæmi 24

Seljahverfi og Neðra-Breiðholt.

Kjördæmi 25

Efra-Breiðholt.

Kjördæmi 26

Kópavogur – Austur.

Kjördæmi 27

Kópavogur – Vestur.

Kjördæmi 28

Kópavogur – Salir og Lindir.

Kjördæmi 29

Álftanes og Garðabær.

Kjördæmi 30

Hafnarfjörður – Norður.

Kjördæmi 31

Hafnarfjörður – Suður.

Fámennasta kjördæmið verður þannig Kjördæmi 1 með um 6700 íbúa á meðan Vesturbær og Neðra-Breiðholt eru stærst með yfir 12000 íbúa. Skipting Hafnarfjarðar og Kópavogs er ekki nákvæm þar sem ekki fundust nákvæm gögn um íbúatölu eftir hverfum í þeim bæjum.

Ef kosningar færu fram eftir þessu kerfi mundu flokkarnir bjóða fram einum frambjóðanda í hverju kjördæmi (ásamt hugsanlega varamanni). Sá sem flest atkvæði hlýtur í hverju kjördæmi kemst á þing. Síðan eru lögð saman atkvæði flokkanna á landsvísu (t.d. þeirra sem fá yfir 5% atkvæða) og reiknað með landinu sem einu kjördæmi, nema að þau þingsæti sem flokkur vinnur í einmenningskjördæmum dragast frá. Ef flokkur t.d. á rétt á 24 þingmönnum en sigraði í 15 kjördæmum fær hann 9 þingmenn af landslista.

Ljóst er að langt þyrfti að líða þangað til að kosið væri eftir þeirri leið sem hér er nefnd jafnvel þótt fullkomin sátt væri um hana. Þá þyrfti jafnvel örugglega að beita annars konar kjördæmaskiptingu sökum þróunar á íbúafjölda. Þessi tillaga sem hér er sett fram er því ætluð til að sýna að útfærsla þýska kerfisins er bæði möguleg og meira að segja skemmtileg. Vonandi að sú leið verði skoðuð nánar í framtíðinni.

Grikkir redda rokkurum

Eflaust voru margir sem kviðu fyrir skipulagningu sunnudagskvöldsins enda erfitt að þurfa að velja á milli þess að sjá Úrslitaleik EM og missa af upphafi tónleikanna eða öfugt. Sérstaklega þegar allir höfðu gert ráð fyrir að sjá tvö skemmtileg sóknarlið, Tékkland og Holland, í úrslitum.

Nú hefur hins vegar aðeins verið dregið úr þeim áhyggjum, hjá mörgum a.m.k. Grikkirnir slógu út enn eitt stórliðið í gær og eru komnir í úrslit öllum að óvörum.

Það verður ekki af Grikkjum tekið að sigur þeirra í gær var ekki ósanngjarn. Þeir spiluðu vörnina frábærlega og illa gekk hjá Tékkum að komast í gegn. Þau færi sem Grikkir fengu voru síður en svo verri en færi Tékkanna.

Það er hins vegar afar pirrandi að horfa á leiki þar sem lið eins Grikkir spila. Frábærir knattspyrnumenn líta út eins og algjörir klaufar þegar þeir hlaupa um í tvo klukkutíma og reyna að troða inn marki hjá mönnum hverra nöfn maður er að heyra í fyrsta skipti.

Það fyndna við leik Grikkjana er því ekki aðeins að þeir geta unnið leiki með öguðum varnarleik. Það hafa margir gert og raunar gerist þetta alltaf þegar smáþjóðir mæta hærra skrifuðum andstæðingum. Það magnaða er að Grikkjum tekst einhvern veginn að láta góð og skemmtileg lið eins Tékka og Frakka líta út þunglamaleg og hugmyndasnauð.

Grikkjunum hefur því tekist hið næstum ómögulega. Þrátt fyrir að menn séu hundfúlir yfir brottfalli Tékkanna, er vart hægt að fyllast einhverju hatri í garð Grikkja, eins og verður oft með lið sem grísa sig áfram með leiðinlegum varnarleik.

EM mun enda eins og það hófst, með leik Portúgala og Grikkja. Grikkjum tekst jafnvel að láta góð lið spila illa og þeir hafa gert hingað til má búast við leiðinlegum og pirrandi úrslitaleik. Metallica aðdáendur geta því óhræddir lagt tímanlega af stað og fundið sér stæði í Grafarvoginum.

Og lesið um leikinn í blaðinu á mánudaginn.