Málsvörn Ólafsnauts

Það eru ýmsar hvatir sem ráða því hvernig menn ráðstafa atkvæði sínu. Sumir kjósa bara þann sem er þeim skyldastur meðan aðrir kjósa eitthvað flippað, bara til að vera öðruvísi en allir hinir. En vissulega var það ekki auðvelt val sem margir stóðu fyrir seinasta laugardag. Á að láta sig hafa að kjósa skásta kostinn bara því að hinir eru enn þá síðri eða á sitja hjá og láta heilshugar vinstrilúða kjósa Ólaf og afstýra slysi? Sá sem þetta skrifar valdi fyrri kostinn en álasar ekki þeim sem völdu þann síðari.

Það er nú reyndar svolítið skondið að sjá suma menn tala um að niðurstöðurnar sýni að „fólkið í landinu“ hafi verið meina þetta eða hitt með öllum auðu atkvæðunum þegar ljóst er að viðmælendurnir eru einmitt sjálfir í hópi þeirra sem svo gerðu. „Fólkið í landinu“ var að senda skilaboð um að það vilji ekki pólitískan forseta. Sem sagt „við“ sögðum það. Svolítið kjánalegt að tala um sjálfan sig í þriðju persónu.

En þrátt fyrir að hafa kosið núverandi forseta þá frábið ég mér það að vera kominn í sérstakan fanklúbb Ólafs Ragnars Grímssonar með atkvæði mínu. Ég held að líka að Ólafur geti vart verið að fá aðsvif yfir hinum mikla sigri sínum. Í kosningum þar sem mótframbjóðendur hans voru rugludallur og óþekktur borgari töldu um tveir þriðju kjósenda að hann væri hæfastur til verka.

Þetta þykir mér svolítið mikið atriði sem nýkjörinn forseti verður að átta sig á. Þrátt fyrir að meirihluti kjósenda hafi álitið hann vera skásta kostinn er ekki þar með sagt að allir þeir séu að blessa hans störf og framkomu með atkvæði sínu. Þeir svöruðu einfaldlega þeirri spurningu: „Hver vilt þú að verði, af þessum þremur dauðlegu mönnum, næsti forseti Lýðveldisins?“

Ég er langt frá því ánægður að Ólafur Ragnar skuli vera forseti Íslands, í eitt kjörtímabil í viðbót. Ég er ekki hrifinn af fortíð hans, mér finnst hann klisjukenndur og ég set spurningamerki við tryggð hans við sannleikann. Eflaust hefði ekki þurft nema meðalþekktan garðálf með hreina samvisku til að ég mundi kjósa hann frekar. En hann var skásti kosturinn og því kaus ég hann.

Sumir mátu það svo að allir frambjóðendur væru jafnslappir og skiluðu auðu. Þeir gerðu það væntanlega til að lýsa sérstakri óánægju með Ólaf, því varla trúi ég því að menn hafi eftir allt saman talið hann og Ástþór vera jafngóða kosti. Sjálfur tel ég að til séu betri leiðir til að „senda skilaboð“ en að skila auðu í kosningum (SMS, email, leynilegt handaband). En auðvitað er ég engin maður til að segja öðrum hvað þeir eigi að gera.

Vandinn við góða kosningu Ólafs hefði verið sá að hann hefði eflaust gortað sig af henni og talið sérstakan móralskan sigur. En það segir Ólafi varla mikið um hans raunverulegu vinsældir að hafa orðið fremstur miðað við hvernig samkeppnin sem hann fékk var.

Það er auðvitað ómögulegt að segja hver niðurstaðan sé þegar aðeins einn er í framboði. Ólafur má auðvitað vera ánægður með að hafa sigrað en ætti ekki að gera sér upp einhverjar ranghugmyndir um vinsældir sínar í kjölfar úrslitanna. En jafnframt ættu þeir sem eru andvígir Ólafi að koma fram með alvöru mótframboð. Að kjósa ekkert er svona nett aulalegur málstaður til að berjast fyrir.

Jacek Kuron (1934-2004)

Jacek Kuron fæddist í Lvov (nú í Úkraínu) árið 1934. Eftir stríð flutti hann til Kraká og síðan Varsjá þar sem hann bjó til æviloka.

Jacek Kuron var alla tíð mikill vinstrimaður, og var jafnvel í Kommúnistaflokknum framan af ævinni. Hann sagði þó skilið við flokkinn endanlega um miðjan sjöunda áratug. Hann var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að birta opið bréf til flokksmanna þar sem hvatt var til umbóta.

Samtals sat hann í fangelsi í um 9 ár. Meðað á einni slíkri dvöl stóð dó Gajka, fyrri eiginkona hans. Hann hafði fengið leyfi til að heimsækja hana í 3 tíma þar sem hún lá banaleguna en varð af snúa aftur í fangelsið. Hún dó tveimur tímum síðar.

Hann tók virkan þátt í baráttunni gegn alræðisstjórninni og stofnaði mörg óháð verkalýðsfélög. Hans slagorð var „Brennið ekki ráðin, stofnið ykkar eigin.“ Hann reyndi líka að hindra illa skipulögð og handahófskennd mótmæli sem enduðu bara með handtökum eða óeirðum. Um fram allt hafði Kuron þó einhvern vinalegan sjarma og bar virðingu fyrir öllu fólki. Það sést t.d. á því að fulltrúar allra helstu trúarbragða heims fluttu bænir í útför hans þrátt fyrir að Kuron sjálfur hafi verið trúlaus og eflaust bara verið kallaður kommi á öðrum tímum.

Jacek Kuron var einn af þessum mönnum sem maður efaðist aldrei um að meinti vel. Hann varð atvinnumálaráðherra í fyrstu frjálsu Ríkisstjórn Póllands og var frægur fyrir vikulega sjónvarpsþætti, Korter með atvinnumálaráðherranum [sic], þar sem hann reyndi að tala kjark í fólk á erfiðum tímum. Hann fór sjálfur og gaf heita súpu af götum Varsjár, ekki af popúlisma eins og svo margir stjórnmálamenn heldur trúði maður því að honum virkilega þótti það mikilvægt.

Eins og svo margir aðrir fótaði Jacek Kuron sig aldrei jafnvel í frjálsum stjórnmálum og baráttunni fyrir þeim. Hann fór meðal annars í misheppnað forsetaframboð 1995 en lenti í þriðja sæti. Eftir það dró hann sig smám saman úr hringiðu stjórnmálanna og beitti sér í mannúðarmálum allt til æviloka. Hann starfaði að málefnum barna í Póllandi en einnig í Bosníu og Afríku.

Tveir persónulegir vinir Jacek Kuron sendu samúðarkveðjur í dag: Vaclav Havel og Dalaj Lama, en sá síðarnefndi var af og til gestur í íbúð hans í Varsjá þar sem þeir ræddu mannréttindamál. Þótt rödd mín sé smá við hliðina á þessum tveimur nöfnum langar mig engu að síður að koma á framfæri samúðarkveðjum til fjölskyldu hans og lýsa yfir sorg minni vegna brotthvarfs þessa frábæra manns.

Lokað á sunnudögum

Atvinnuþjófnaður útlendinga er einhver mesta og langlífasta þvæla sem fundin hefur verið upp. Sú ranghugmynd að atvinna sé takmörkuð auðlind sem flytjist á milli manna, kynþátta og landsvæða hefur oft verið rædd á þessu vefriti og jörðuð í hvert skipti, enda ekki erfitt verk. En þrátt fyrir að vera álíka fölsk og tilgátan um flatneskju jarðar virðist atvinnuþjófnaðarkenningin njóta sívaxandi vinsælda hjá ráðamönnum ýmissa þjóða.

Skemmst ber að minnast umræðunnar um „hjáleið inn á íslenskan vinnumarkað“ í kringum nýju útlendingalögin og þann ásetning bandarískra forsetaframbjóðenda að „stöðva flutning bandarískra starfa til útlanda.“ Nýjasta dæmið um þessa bábilju eru kröfur Þjóðverja og Frakka til að setja lágmörk og tekjuskatt fyrirtækja í ESB, til að koma í veg fyrir að nýju aðildarríkin „taki til sín“ fjárfestingar með „óeðlilegri“ skattasamkeppni.

Þetta er auðvitað ótrúleg og ósanngjörn frekja mjög þróaðs ríks í garð fátækari nágranna. Flestar A-Evrópu þjóðir hafa mun lægra tekjuskattshlutfall á fyrirtæki, sem laðað hefur að erlendar fjárfestingar. En það er auðvitað auðveldara að ota að þýskum kjósendum meintum skatthórdómi fátækra slava heldur að benda á sín eigin mistök. Það eru á endanum höftin og ósveigjanlegu hagkerfin sem valda atvinnuleysi þessara ríkja.

Nýlega var kveðinn upp merkur úrskurður í Hæstarétti Þýskalands. Rétturinn áttu að taka afstöðu til hvort lög sem bönnuðu að hafa verslanir opnar á sunnudögum stríddu gegn stjórnarskrá. Atkvæðafgreiðslan fór 4-4 en meirihluta þurfti til að fella lögin úr gildi.

Það er alveg einstaklega sorglegt vitrir menn leita skýringa á vandamálum í atferli nágranna sinna í stað að horfa í sinn eigin barm. Sjöundi hver Þjóðverji er án atvinnu. Það er bannað að hafa búðir opnar sjöunda hvern dag. Hvernig bregðumst við við vandamálinu? Með auknu frelsi? Nei, með skattaþvingunum í garð annarra þjóða!

Já, sumir stjórnmálamenn hafa yndi af því að setja lög. Og þegar þeim er bent á fáranleika laganna bregðast þeir ekki við með því að afnema lögin eða einfalda þau í átt til meira frjálsræðis. Nei, þeir bregðast við með nýjum lögum og undanþágum við gömlu lögin.

Þannig benti einhver á það að það hentaði ferðamönnum einkar illa að geta ekki farið í búð og verslað helstu nauðsynjar þegar þeir væru á ferðalagi. Við þessu var ákveðið að bregðast með því að leyfa verslunum á járnbrautarstöðvum að hafa opið á helgidögum. Ferðamaður sem staddur er á Ostbahnhof í Berlín á sunnudegi getur nú auðvitað gleymt því að hann fái að kaupa sér nokkuð nema að standa í hálftíma röð, enda er hálf Berlín að versla í matinn í þeim tveimur „ferðamannamatvöruverslunum“ sem opnar eru á stöðinni.

Vitleysur vegna laganna koma fyrir á fleiri stöðum og langt mál væri að tiltaka þær allar. Til að mynda hafa margar bílasölur sérstakar „sýningar“ á sunnudögum. Þar býðst fólki að koma og skoða bílana en það má auðvitað ekki kaupa það og, athugið, starfsfólki er óheimilt að veita upplýsingar! T.d. má ekki segja hvað bíllinn kostar því það væri sölumennska og slíkt er stranglega bannað á sunnudögum.

Sem betur fer er mikil andstæða við skattasamhæfingu hjá t.d. Bretum og öllum nýju aðildaríkjunum. Hins vegar greiða Þjóðverjar allra þjóða mest í ESB svo að þeir hafa ákveðið tromp í hendi í þessum efnum.

Og bara svona að lokum. Sumir láta eins og innganga í ESB væri óheillaskref fyrir þá frjálshyggjuparadís sem Ísland vill verða. En miðað afstöðu Íslendinga t.d. til landbúnaðarmála má draga í efa að Ísland yrði sérstakur frjálsræðismúlasni innan vébanda þess.

Nýlega samþykktu ráðherra Norðurlandanna að löndin, þar á meðal Ísland og Noregur sem eru ekki í ESB, skulu mynda með sér sérstakan þrýstihóps innan sambandsins (?) til samræma áfengisskatta þess. Segja má að atvinnuþjófnaðarvitleysan hafi þarna náð nýjum hæðum. Norðurlöndum tókst að mynda með sér bandalag til að hindra flutning norrænnar drykkju til annarra Evrópulanda. Merkilegt alveg hreint.

VLFÁF

Það hefur sjaldan gefið neitt góða raun að ætla sér að koma einhverju í verk á föstudögum. Þeir sem standa í fyrirtækjarekstri eða hvers konar bissness vita hve ómögulegt það er að fá starfsfólk til hrista úr sér uppsafnaða áfengisspennu vikunnar og koma einhverju, bara einhverju í verk.

En, nei. Bolti klukkan 5. Afmæli í kvöld. Útilega á morgunn. Símtöl og skeyti fljúgast meðan aðrir, mikilvægari hluti eru skipulagðir. Föstudagar hafa alveg farið á mis við hinn mikla vöxt íslensks hagkerfis á undanförnum árum. Í raun þyrfti að koma á nýrri hagstærð VLFÁF (verg landsframleiðsla án föstudaga) til að umfang hins mikla íslenska góðæris skili sér almennilega inn í hagfræðirit.

Ja, föstudagsframleiðnin hefur nú minnkað ef eitthvað er með batnandi búi. Í gamla daga, áður en Davíð Oddsson kom landinu af bronsöld, þá var nú hvort sem er svo lítið sem menn gátu hlakkað til um helgar. Þá var nú örugglega unnið almennilega á föstudögum, og bara almennt um helgar í þá tíð. Enda höfðu menn þá ekkert sjónvarp, bara kirkjubækur og enginn var bjórinn, aðeins mysuþynnt brennvín. Fyrir þá sem höfðu það allra best.

Dag einn í júlí 2003 fór Ritsjórn Deiglunnar að úthluta Deigluskríbentum svokölluðum „Helgarnestum“ sem birtast seinni partinn á föstudögum. Það var aldrei sérstaklega útskýrt hver efnistök þessa dálks ættu að vera enda var þess ekki þörf. Orðið helgi er hlaðið þvílíkum ljóma almennrar leti og ölvunnar að frá upphafi var ljóst hvert meginþema Helgarnesta átti að vera.

Margir pennar eru mjög færir Helgarnestishöfundar. Aðrir t.d. ég skrifa einfaldlega venjulega deiglugrein, stíla hana aðeins niður og enda á áköllun um almenna ölvun. Hmm… best að skrifa bara um sameiningu sveitarfélaga, en gera það bara hratt, glettið, og enda á orðunum „fáum okkur bjór og slökum á“. Allt í anda föstudagsslepjunnar.

Þegar allt er á hólminn komið er það kannski ekkert nema jákvætt að samkomuleg hafi tekist um almennt slappelsi einn dag vikunnar. Í raun hlýtur það að vera ekkert nema af hinu góða. Svo við notum hefðbundin „atvinnurök“ þá er ljóst að fólk sem er duglegt á föstudögum að „taka atvinnu“ af öðrum. Frá atvinnusjónarmiðum væri því æskilegt að jafnvel fyrirskipa starfsfólki fyrirtækja að nota a.m.k. 40% föstudagsins í skipulagningu félagsatburða og aðra vitleysu.

Góða helgi.

75% vitleysa

Guðjón Arnar er bara svona svolítið vitlaus. Nánar til tekið svona 25% prósent vitlaus. Í Kastljósþætti sagði Guðjón Arnar nefnilega að hann teldi að setja þurfti einhvern þröskuld, t.d. 25%, á þátttökununa í þjóðaratkvæðagreiðslum til að niðurstaðan væri bindandi. Hins vegar taldi Guðjón að það væri kannski sniðugt að láta kosninguna taka lengri tíma, ekki bara dag, „kannski svona viku“ og verður sú vitleysa ekki mæld með tölu. Hefur Guðjón heyrt af utankjörfundaratkvæðagreiðslum?

Hugmyndin um þröskulda í kosningum stafar af hinum hjartnæma ótta við fámenna þrýstihópinn sem getur þröngvað vilja sínum fram í krafti lágrar kosningaþátttöku. Guðjón Arnar hræðist þrýstihópa sem 24% af þjóðinni tilheyra, margir hafa reynt að koma í veg fyrir alræði 49%-þrýstihópa og jafnvel eru þeir til sem geta ekki sofið vegna þeirrar tilhugsunar um að fámennur, 74%– þrýstihópur, geti bókstaflega stjórnað hér öllu og kúgað hið réttkjörna þing sem öllu skal ráða (sbr. þingræði).

Í þjóðaratkvæðagreiðslum um inngöngu A-Evrópu ríkja inn í ESB var víða krafist 50% kjörsóknar. Í tveimur löndum, Póllandi og Slóvakíu, má í raun segja að andstæðingar aðildar hafi hjálpað til við að koma löndunum inn í ESB. Ef rúmur helmingur þeirrra hefði setið heima þá hefði kjörsóknin farið undir 50% og innganga landanna hefði hugsanlega tafist. Þetta sýnir fáranleika slíkra þröskulda. Skyndilega skaðar það málstaðinn að greiða honum atkvæði.

Það er rangt að slíkir þröskuldar ýti upp kjörsókn. Í flestum kosningum hefur önnur fylkingin hag af því að niðurstaðan verði ekki bindandi. Þeir kjósendur fara ekki á einhvern „bömmer“ þótt kjörsókn verði lág.

Tökum sem dæmi kosninguna sem fram undan er. Hvað eiga stuðningsmenn fjölmiðlafrumvarpsins að gera ef 50% lágmarksþátttöku verður krafist? Ef þeir eru fleiri þá vinna þeir hvort sem er með því að sniðganga kosningarnar. Ef þeir eru færri þá beinlínis gera þeim málstað sínum skaða með því að mæta því þá eru þeir að ýta upp kjörsókn og auka líkur á því að kosningin verði gild.

Við erum þá sem sagt búin að búa til kerfi sem letur fólk frá þátttöku í kosningum. Þar með er hugmyndin um leynilegar kosningar líka farin út um gluggann enda er þá farið að skipta meira máli hvort þú kýst en ekki hvað.

Það sem ýtir upp kjörsókn er áhugi kjósenda og sannfæring um að atkvæði þeirra skipta máli. Umræddir þröskuldar hafa ekkert með hvoru tveggja að gera. Eða er þá ekki nauðsynlegt að setja sambærilega þröskulda á Alþingiskosningar. Ef kjörsókn lækkar milli ára, þá situr bara sama þingið áfram?

Nei, það eiga ekki vera nein takmörk á það við hvaða aðstæður lýðræðið fái að ganga sinn gang. Eða hvers vegna eiga þeir sem nenna ekki að mæta, eru útlöndum eða nýlátnir að taka völdin af þeim sem nenntu að setja sig inn í málið? Og ef að Ríkisstjórnin metur það svo að áhugi á kosningunum hafi verið það lítill að henni sé óhætt að leggja fram sama frumvarp á næsta þingi, þá getur hún gert það og tekið pólitíska ábyrgð í næstu kosningum.

Allir þröskuldar á kjörsókn eru vitlaus hugmynd frá stærðfræðilegu og lýðræðislegu sjónarmiði. Og þeim hærri sem menn setja þá þeim mun andlýðræðislegri verða þeir.

Eða hvernig væri bara að fara með þetta alla leið og krefjast hvorki meira né minna en: 100% þátttöku? Það væri nú ekki mikið vitlausari hugmynd en þessi 75% sem menn hafa nefnt.

Nánar til tekið: svona 25% vitlausari.