Óþarfa áhætta?

Nýlega hefur borið á umræðu um hvort heppilegt sé fyrir Íslendinga að halda áfram vísindaveiðum á hrefnu. Þar takast á tvenn andstæð sjónarmið. Annars vegar eru það aðilar í ferðamannaiðnaðinum sem telja að veiðarnar geti haft vond á áhrif á greinina og hins stuðningsmenn veiðanna sem vilja meina að með réttu átaki væri hægt að koma í veg fyrir skaðann og jafnframt að kynna hvalkjöt sem matvöru.

Vandinn er sá að afstaða fólks sem andvígt er hvalveiðum byggist ekki á vísindalegum rökum. Hún byggist á tilfinningum. Jafnvel ef okkur tækist að sannfæra evrópska neytendur um að hvalastofnar væru í góðu ásigkomulagi og veiðarnar nauðsynlegar til að hjálpa okkur að skilja betur lífríki hafsins mundi það litlu breyta. Fólk vill einfaldlega ekki hvalveiðar vegna þess að þeim finnast hvalir sætar og góðar skepnur..

Það er barnalegt að halda því fram að hægt sé að kalla fram einhverja “viðhorfsbreytingu” meðal þorra vestrænna neytenda með vel heppnaðri “kynningu” og “markaðsátaki”. Sú barátta er löngu töpuð.

Það er auðvitað sorglegt að þurfa að beygja sig undir vitleysu og væmni annarra þjóða. En þetta hafa fjölmörg ríki þurft að sætta sig við. Til dæmis er hundaát bannað í Suður-Kóreu, þvert á siði landsins, vegna þrýstings frá Vesturlöndum.

Skemmst er að minnast þess þegar einstaklingur hér á landi reyndi að verða sér út um leyfi til að rækta hunda til manneldis. Afgreiðslustúlka í landbúnaðarráðuneytinu á að hafa sagt “oj bara,” þegar hún heyrði þessa fyrirspurn og Guðni Ágústsson, hinn víðsýni ráðherra, “tók undir þessi orð starfsmanns síns”.

Eru hundar í útrýmingarhættu? Nei. Eru hundar á einhvern hátt “gáfaðri” eða “mannlegri” en til dæmis svín? Nei. Hvers vegna þykir það þá í lagi að drepa hunda, bara ef þeir eru ekki étnir að því loknu?

Svarið við því er einfalt. Okkur þykir það einfaldlega “ógeðslegt” að borða gæludýr. Hundar eru “vinir” mannsins og maður borðar ekki vini sína. Málið snýst einfaldlega um tilfinningar og ekkert annað. Á sama hátt og baráttu fyrir hvalafriðun er tilfinningalegs eðlis þótt menn notist stundum við misvönduð vísindi í þeirri baráttu.

Rökin gegn hvalveiðum eru veik, en það eru rökin með þeim einnig. Viðskiptalegir ávinningur af veiðunum er lítill miðað við þá áhættu sem tekin er á sviði ferðaþjónustunnar.

Spurningin um hvalveiðar snýst fyrst og fremst um þjóðarstolt. “Við vorum ekki að fá sjálfstæði til að trjáfaðmandi þýskir fávitar segðu okkur hvað við eigum og hvað við eigum ekki að gera,” eru undirliggjandi rök í umræðunni.

Það er vissulega sárt að þurfa beygja sig undir það sem okkur finnst óþarfa tilfinningasemi annarra þjóða. En stundum verðum við, því miður, að horfast í augu við heiminn eins og hann er. Það að slátra nokkrum tugum hvala á ári bara til að “sýna þessu fólki að við getum það” er ekki áhættunnar virði.

Leave a Reply

Your email address will not be published.