Best á kosið

Fyrir seinustu Alþingiskosningar áttu sér stað umtalsverðar breytingar á kosningalöggjöfinni. Fyrir utan kjördæmabreytinguna breyttu menn einnig ákvæðum um útstrikanir og listabreytingar. Niðurstaðan er sú að breytingar á kjörseðlum, sem eitt sinn voru einungis valkostur fyrir kjósendur sem vildu friða samvisku sína, geta nú haft raunveruleg áhrif á það hverjir hljóta þingsæti.

Áður fyrr þurfti yfir helmingur kjósenda að framkvæma einhverja breytingu til að hún tæki gildi. Nú er þetta mun auðveldara. Tökum sem dæmi lista Samfylkingarinnar úr Reykjavíkurkjördæmi Norður frá seinustu kosningum.

Samfylkingin fékk 4 þingmenn kjörna í því kjördæmi. Samkvæmt kosningalögum eru því aðeins þær breytingar teknar gildar sem snúa að frambjóðendum fyrstu 8 sætum (hugsanlegir þingmenn og varaþingmenn). Því er um að ræða eftirfarandi einstaklinga.

1. Össur Skarphéðinsson

2. Bryndís Hlöðversdóttir

3. Guðrún Ögmundsdóttir

4. Helgi Hjörvar

5. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

6. Ellert Schram

7. Eiríkur Bergmann Einarsson

8. Sigrún Grendal Jóhannesdóttir

Af 13.110 kjósendum Samfylkingarinnar strikuðu 425 út Össur, 357 strikuðu út Helga Hjörvar. Að auki strikuðu 100 út Ingibjörgu Sólrúnu en aðrar breytingar voru sjaldgæfari. Nánar til tekið kom fram að eftirfarandi tvær breytingar hafi verið algengastar:

a) Össur strikaður út og Ingibjörg sett í fyrsta sætið.

b) Helgi Hjörvar strikaður út.

Það má leiða að því líkum að ásetningur kjósenda sem framkvæmdu slíkar breytingar hafi verið að koma Ingibjörgu Sólrúnu ofar á listann. Því miður fyrir þá kjósendur þá eru umræddar aðferðir ekki nógu árangursríkar.

Munum að lykiltalan í þessu sambandi er talan 8 (2*fjöldi þingmanna). Þannig fær Össur 8/8=1 atkvæði fyrir hvern sem skilur hann eftir í 1. sæti, Bryndís fær 7/8, o.s.frv.

Auðveldasta leiðin til að auka möguleika þingmanns á að ná kjöri er að færa hann upp um eitt sæti. Til þess þarf að:

a) Hámarka atkvæðið sem hann fær (með því að setja hann í fyrsta sæti.)

b) Lágmarka atkvæðið sem maðurinn fyrir ofan hann fær (með því að strika hann út.)

Besta leiðin fyrir Sollu-hneigðan kjósanda var því að strika út Helga Hjörvar og setja Ingibjörgu í efsta sæti listans. Reiknum út hve margir þyrftu að gera þetta til að þau tvö víxluðust á sætum

Ef x er látið tákna fjölda þeirra sem skiluðu óbreyttum lista og y fjölda þeirra sem framkvæmdu áðurnefnda breytingu þá fáum við að atkvæðatala Ingibjargar verður (4/8)*x+y, og atkvæðatala Helga verður (5/8)*x.

Við viljum nú fá (4/8)*x+y > (5/8)*x, sem jafngildir 8y>x. Þetta þýðir að ef níundi hver kjósandi Samfylkingarinnar (þ.e. a.m.k. 1457 kjósendur) hefði breytt kjörseðlinum sínum á áðurnefndan hátt hefði Talsmaðurinn náð inn á þing.

Staðreyndin er sú að yfir 700 kjósendur sýndu slíkan ásetning þ.a. ef þeir hefðu verið tvisvar fleiri, þá hefði þetta gengið eftir.

Hvort Alþingi Íslendinga væri betri staður með Ingibjörgu innanborðs skal ósagt látið. Hins vegar sýnir dæmið vonandi að í núverandi kerfi er alls ekki ómögulegt að hafa áhrif á uppröðun listans. Þannig að þeir lesendur sem eiga sér uppáhaldsframbjóðanda þeir vilja ýta upp eftir listanum ættu að:

a) Setja hann í fyrsta sæti listans.

b) Strika út nafn þess sem er fyrir ofan hann.

Það er nú von að kjósendur muni í auknum mæli nýta sér þann valkost að hafa áhrif á uppröðun listans. Minnumst þess að á endanum eru það þingmenn en ekki listabókstafir sem kjósa á Alþingi. Það að almenningur hafi meira að segja um hverjir séu fulltrúar hans getur ekki orðið annað en lýðræðinu til framdráttar.

Leave a Reply

Your email address will not be published.