Velkomin heim

Það er kannski erfitt að ákveða fyrirfram hvaða dagur verður álitinn ,,stór” í mannkynssögunni. Þegar menn lesa fréttir og aðsendar greinar í dagblöðum kemur í ljós að árið er stútfullt af hvers kyns ógleymanlegum tímamótum sem reyndar verða ógleymanleg í mjög skamman tíma.

Oft er ýjað að því fyrirfram að ákveðin dagsetning muni marka tímamót í sögu lands eða heims en þegar á hólminn er komið verður hún fáum minnistæð. Á endanum er það oftast þeir dagar sem ekki gera boð á undan sér sem verða eftirminnilegastir, eins og til dæmis 11. september 2001 eða 1. september 1939, dagurinn sem síðari heimsstyrjöldin hófst.

Friðurinn í Evrópu hafði ekki varað lengi. Innan við 25 árum frá því að ógeðslegustu styrjöld í manna minnum lauk, höfðu átökin blossað upp að nýju. Og ekki urðu þau geðslegri í þetta skiptið. Ó, nei. Og þegar þeim var lokið var Evrópu skipt í tvo hluta, annan frjálsan og hinn kúgaðan. Ríkan og fátækan.

“Af hverju getur Lúxemburg ekki orðið kommúnistaríki?” hljómar gamall brandari frá löndum A-Evrópu. Svar: “Því svona lítið land gæti ekki höndlað svona mikla ólukku.”

Svona Andrésarblaðabrandari austantjaldslandanna hefur kannski ekki mikla merkingu. Hann sýnir kannski bara að aulahúmor geti þrifist í öllum löndum, óháð hagkerfum. Hins vegar er ljóst að löndin austur í álfunni, sem hvort sem er mörg hver stóðu vestrinu efnahagslega langt að baki fyrir stríðið, áttu svo sannarlega ekki efni á því að lokast innan múra heimskulegasta hagkerfis veraldar.

Hvort dagsetningin 1. maí 2004 muni lifa lengi í manna minnum verður að koma í ljós. Hins vegar eru fáar dagsetningar sem beðið hefur verið með jafnmikilli eftirvæntingu og þessari. “Beðið” er kannski ekki heppilegt orð í þessu samhengi. Fáar dagsetningar hafa krafist jafnmikils undirbúnings og einmitt hún. Flest löndin í Mið- og Austur-Evrópu þurftu að yfirfara og breyta þúsundum blaðsíðna af lögum, aðlaga rekstur stofnana, koma á frelsi í viðskiptum, afnema hvers kyns höft, einkavæða hundruð ríkisfyrirtækja og gera margt, margt fleira, til að geta sótt um aðild og fengið inngöngu.

Ekki hafa allar þessar aðgerðir verið vinsælar og sumir stjórnmálamenn hafa notað ESB sem kýlupoka til að viðhalda eigin frama. “Við þurfum að loka námunum út af ESB. Við þurfum að endurskipuleggja bótakerfið til að ná niður hallanum. Út af ESB.”

Flestar þær umbætur sem hafa átt sér stað hefði þurft að gera þar hvort sem er. En erfiðara hefði verið að framkvæma þær ef ESB-gulrótarinnar hefði ekki notið við. Þannig hefur umsóknar- og aðildarferlið sjálft verið löndunum holl og ómetanleg reynsla. Og ekki er laust við að maður finni fyrir hálgerðum tómleika þegar ferlið er á enda. Þegar við fjölskyldan höfðum skálað fyrir úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar seinasta sumar, horfðum við niður í tóm kampavínsglösin og spurðum hvort annað. Hvað nú?

Veran í ESB verður eflaust aldrei jafnskemmtileg fyrir hinar nýfrjálsu þjóðir og leið þeirra þangað. Engu að síður er dagurinn í dag, frábær dagur. Loksins eru tækifærin til staðar. Þrátt fyrir að margar þjóðir hafi lokað tímabundið á frjálst flæði vinnuafls þá er þróunin hafin og henni verður ekki aftur snúið. Menn munu geta lært þar sem þeir vilja, unnið þar sem þeir vilja og borðað sultu óháð því hvar jarðaberin vaxa.

Eflaust væri hægt að gera margt betur í ESB. Eflaust væri hægt að ná fram frjálsu flæði á fólki, vörum og skoðunum án þeirrar miklu yfirbyggingar og vitleysu sem samstarfinu fylgir. En þegar menn gagnrýna, réttilega, mikið skrifræði Evrópusambandsins, lýðræðishalla þess og annað í fari þess má engu að síður ekki gleyma því hver tilgangurinn með evrópsku samstarfi upprunalega var.

Hugmyndin var að gera ríki Evrópu svo efnahagslega tengd að þau gætu aldrei aftur farið í stríð hvert við annað. Ég held að engin geti neitað því að þessi markmið, þessi langmikilvægustu markmið samrunans, hafa náðst.

Deilumál innan Evrópusambandsins, hver eru þau? Beingreiðslur til mjólkurframleiðslu, byggðastyrkir. Hugsið ykkur að fyrir 60 árum var enn barist á götum Berlínar. Hugsið ykkur að mönnum hafi tekist að breyta deilum um landsvæði í deilur um sveigju ávaxta. Er það ekki magnað?

Í dag er góður dagur og ég gleðst af öllu hjarta með öllum þeim þjóðum og ríkjum sem eru komnar á leiðarenda ferðalags sem hófst fyrir 15 árum. Um leið viðurkenni ég að spurningin um aðild Íslands að ESB er ekki sama spurningin og sú sem Pólverjar, Tékkar og hinar þjóðirnar sem nú ganga inn stóðu frammi fyrir. Ég mun því ekki nota þennan pistil undir mishæpnar ályktanir um stöðu Íslands í ljósi stækkunarinnar. Á móti bið ég fólk um að sýna fyrrverandi fórnarlömbum alvöru alræðis þá virðingu að stilla samlíkingum við Sovétríkin í hóf á þessum merkisdegi.

Lifi Evrópa.

Leave a Reply

Your email address will not be published.