Óþarfa áhætta?

Nýlega hefur borið á umræðu um hvort heppilegt sé fyrir Íslendinga að halda áfram vísindaveiðum á hrefnu. Þar takast á tvenn andstæð sjónarmið. Annars vegar eru það aðilar í ferðamannaiðnaðinum sem telja að veiðarnar geti haft vond á áhrif á greinina og hins stuðningsmenn veiðanna sem vilja meina að með réttu átaki væri hægt að koma í veg fyrir skaðann og jafnframt að kynna hvalkjöt sem matvöru.

Vandinn er sá að afstaða fólks sem andvígt er hvalveiðum byggist ekki á vísindalegum rökum. Hún byggist á tilfinningum. Jafnvel ef okkur tækist að sannfæra evrópska neytendur um að hvalastofnar væru í góðu ásigkomulagi og veiðarnar nauðsynlegar til að hjálpa okkur að skilja betur lífríki hafsins mundi það litlu breyta. Fólk vill einfaldlega ekki hvalveiðar vegna þess að þeim finnast hvalir sætar og góðar skepnur..

Það er barnalegt að halda því fram að hægt sé að kalla fram einhverja „viðhorfsbreytingu“ meðal þorra vestrænna neytenda með vel heppnaðri „kynningu“ og „markaðsátaki“. Sú barátta er löngu töpuð.

Það er auðvitað sorglegt að þurfa að beygja sig undir vitleysu og væmni annarra þjóða. En þetta hafa fjölmörg ríki þurft að sætta sig við. Til dæmis er hundaát bannað í Suður-Kóreu, þvert á siði landsins, vegna þrýstings frá Vesturlöndum.

Skemmst er að minnast þess þegar einstaklingur hér á landi reyndi að verða sér út um leyfi til að rækta hunda til manneldis. Afgreiðslustúlka í landbúnaðarráðuneytinu á að hafa sagt „oj bara,“ þegar hún heyrði þessa fyrirspurn og Guðni Ágústsson, hinn víðsýni ráðherra, „tók undir þessi orð starfsmanns síns“.

Eru hundar í útrýmingarhættu? Nei. Eru hundar á einhvern hátt „gáfaðri“ eða „mannlegri“ en til dæmis svín? Nei. Hvers vegna þykir það þá í lagi að drepa hunda, bara ef þeir eru ekki étnir að því loknu?

Svarið við því er einfalt. Okkur þykir það einfaldlega „ógeðslegt“ að borða gæludýr. Hundar eru „vinir“ mannsins og maður borðar ekki vini sína. Málið snýst einfaldlega um tilfinningar og ekkert annað. Á sama hátt og baráttu fyrir hvalafriðun er tilfinningalegs eðlis þótt menn notist stundum við misvönduð vísindi í þeirri baráttu.

Rökin gegn hvalveiðum eru veik, en það eru rökin með þeim einnig. Viðskiptalegir ávinningur af veiðunum er lítill miðað við þá áhættu sem tekin er á sviði ferðaþjónustunnar.

Spurningin um hvalveiðar snýst fyrst og fremst um þjóðarstolt. „Við vorum ekki að fá sjálfstæði til að trjáfaðmandi þýskir fávitar segðu okkur hvað við eigum og hvað við eigum ekki að gera,“ eru undirliggjandi rök í umræðunni.

Það er vissulega sárt að þurfa beygja sig undir það sem okkur finnst óþarfa tilfinningasemi annarra þjóða. En stundum verðum við, því miður, að horfast í augu við heiminn eins og hann er. Það að slátra nokkrum tugum hvala á ári bara til að „sýna þessu fólki að við getum það“ er ekki áhættunnar virði.

Lekur öryggisventill

Mörg ríki, sama hve þingræðisleg þau eru, hafa einhvers konar tæki sem hindrað geta, eða a.m.k. frestað gildistöku laga. Kjörtímabil löggjafarsamkunda eru nefnilega löng, oft 4-5 ár og á þessum tíma getur jafnvel „lýðræðislega kjörið“ þing framkvæmt slíkan ófögnuð að ekki verður aftur snúið. Víða hafa menn því komið fyrir ýmsum aukastoðum: efri deild,neitunarvaldi forseta, þjóðatkvæðagreiðslu eða frestunarvaldi dómara. Þetta gera menn minnugir þess að jafnvel Hitler náði völdum með því að tryggja sér meirihluta á lýðræðislega kjörnu þingi.

Í slíkum aukastoðum felst engin ógn við lýðræðið. Þvert á móti. Þær öryggisstofnanir sem hér voru nefndar eiga sjaldnast sjálfar að eiga frumkvæði að lagasetningu, Þeirra hlutverk er einungis að koma í veg fyrir gildistöku laga sem þær telja hættuleg. Enda væri það óþægilegt að vita að einfaldur meirihluti nægði til að segja skilið við hina frjálslyndu stjórnarhætti og koma á fasistastjórn.

Vissulega getur það gerst að slíkir öryggisventlar séu ekki aðeins notaðir til að standa vörð um lýðræði og frjálslyndi heldur einnig í popúlískum og pólitískum tilgangi. Þetta getur til dæmis leitt til þess að nauðsynleg en óvinsæl frumvörp nái ekki fram að ganga. En ókostirnir eru smávægilegir í samanburði við þá aukavörn gegn einræði og kúgun sem öryggisventlarnir veita.

Þannig hafa höfundar flestra lýðræðislegra stjórnarskráa, þar á meðal hinnar íslensku, metið það; og ég er sammála þeim.

En algjörlega án tillits til hve vond eða slæm nýsett fjölmiðlalög eru og hversu vel eða illa neitunarvaldsleikfangið henti til að vera prófað á þeim þá sýnir umræðan undanfarna daga að núverandi fyrirkomulag á neitunarvaldi forsetans mundi veita okkur afar lítið skjól gegn þingmeirihluta sem vildi þjóðinni illt.

Sleppum nú aðeins öllu samsæriskjaftæði og áttum okkur á einu: Núverandi ríkisstjórn Íslands er ekki harðstjórn. Ríkisstjórn Íslands mundi ekki reyna að falsa kosningar sér í vil eða fangelsa stjórnarandstæðinga fyrir skoðanir þeirra.“Valdþreyta. Pirringur. Óvönduð vinnubrögð.“ Allt í lagi. Segi hver það sem honum finnst. En Ríkisstjórn Íslands er ekki harðstjórn.

Jafnvel hin fullkomlega löglega og ótýraníska Ríkisstjórn Íslands dregur í efa að forsetinn hafi yfir höfuð neitunarvald. Því hefur verið haldið fram að valdið sé hjá ráðherra. Hve auðvelt yrði það þá meirihlutastjórn Fasistaflokksins og Rasistaflokksins að halda slíku fram? Þyrfti þá ekki að kalla saman Landsdóm til að dæma viðkomandi ráðherra fyrir brot á Stjórnarskránni? Og hver á að gera það? Þingið!

Jafnvel ef Fasistaflokkurinn og Rasistaflokkurinn féllust á að málskotsrétturinn væri gildur þá mundi það lenda á þeim að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðsluna sem framundan væri. Einnig má sjá að orðalagið „eins fljótt og auðið er“, gefur nú alveg færi á misnotkun.

Alveg óháð hver niðurstaða alls þessa hasars verður þá er nauðsynlegt að skýra þetta atriði. Annað hvort þarf að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslur í kjölfar neitunar forseta eða setja inn annan öryggisventil í staðinn fyrir þann sem nú er.

Það er nefnilega óheppilegt að neitunarvaldið skyldi vera háð geðþótta og duttlungum þess sem verið er beita því gegn.

HM hinna hýru

Hin nútímalega stjórnarandstaða á Alþingi er alveg brjáluð. Meirihlutinn er, í krafti þingskapa, að beita ofbeldi til að koma fjölmiðlafrumvarpinu í gegn. Þvert á lýðræðislegar venjur og hefðir. Öðrum málum er ýtt til hliðar, nefndarmeirihlutar hundsaðir og vanfræddir sérvitringar vanvirða sérfræðinga. Þetta mislíkar vitanlega hinni nútímalegu stjórnarandstöðu.

Já, og hin nútímalega stjórnarandstaða á Alþingi fokkar auðvitað upp tækifærinu til að vera svolítið þroskuð og öðlast virðingu manna eins og mér, sem er annt um frelsið, en kannski ekki eins annt um hina nútímalegu stjórnarandstöðu.

Já, útverðir frelsisins beita bulli og töfum í baráttunni gegn óréttlætinu. Enda kannski lítið annað að gera með fjörkálfa á borð við Mörð Árnason innaborðs. Og Björgvin G. ætlar að koma Frelsinu eftir John Stuart Mill á stafrænt form á althingi.is með upplestri. You go, Bjöggi! Hvet fleiri þingmenn til að gera lykilbókmenntir mannkynssögunnar aðgengilegar almenningi með þessum hætti.

En í alvörunni talað, kommon!

Hámarkslengd lags í Eurovision-keppni er 3 mínútur. Slíkt er auðvitað takmörkun á tjáningarfrelsi keppenda og lagahöfunda. Eflaust væri öllum mönnum hollt að heyra nokkurra klukkustunda tóndæmi með austurslavneskri þjóðlagatónlist til að menn áttuðu sig betur á sögulegu samhengi úkraínska lagsins. En þeir sem það vilja geta gert það sjálfir í sínum eigin frítíma án þess að öll Evrópa þurfi að líða fyrir.

En þeir eru fleiri Björgvinarnir en Samfylkingarbjörgvin sem gefast ekki upp þótt á móti blási. Þegar Björgvin Halldórsson hafði sungið ellefu lög í íslenskum Eurovision-forkeppnum, án sýnilegs árangurs, sögðu menn loksins: „Jæja, Bó, nú er komið nóg.“ Og Bó var leyft að fara, án forkeppni. Í virðingarskyni fyrir ódrepandi þrautsegju.

Eurovision þrautsegja Björgvins Halldórssonar er ekki einsdæmi. Hún er raunar míkróskópísk útgáfa af Eurovision þrautsegju íslensku þjóðarinnar. Þrátt fyrir bitra reynslu og brostnar vonir seinustu ára erum við alltaf aftur mætt fyrir framan sjónvarpstækin. Enn of aftur standa íslensku keppendurnir sig best á blaðamannafundum, þykja hressasti hópurinn, lagið nær hátt í auðfalsanlegri netkönnun, og það er sjöunda seinasta lagið sem flutt er. Sem er prímtala og það boðar gott.

Keppnin í ár er sú stærsta hingað til. Nú kepptu 22 þjóðir í sérstöku undanúrslitakvöldi á miðvikudag. Það vakti athygli íslenska þularins að allar „Balkanskagaþjóðir“ hafi komist áfram. Kjósandi hvort annað, þetta balkanska lið! Það skipulagði borgarastyrjöld til að liðast í sundur og ná tökum á Eurovision í krafti ríkjafjöldans! Nú mun norræna klíkan aldrei tryggja okkur sigur! Fuss og svei.

Hvernig væri nú ef EBU mundi verðlauna þrautsegju Íslendinga og Eurovision-geðveiki, með því að leyfa okkur að halda keppnina að ári? Sama hvaða suðurslavi fer með sigur af hólmi! Að fá Eurovision til Íslands mundi jafnast á við nýja Þjóðarsátt, 10 EES samninga og 14 kjörtímabil undir undir forsæti Davíðs Oddsonar!

Sjáið hvert þetta Eurovision-leysi er að fara með þetta þjóðfélag! Símahleranir, herskylda, útlendingahatur, opinber ritskoðun! Beitum öllu tiltæku ofbeldi til að fá Eurovision til Íslands, þetta er spurning um líf og dauða fyrir okkar litla lýðveldi!

„því aðeins er öllu mannkyni, einum manni eða fleirum, heimilt að skerða athafnafrelsi einstaklings, að um sjálfsvörn sé að ræða“.

(Frelsið, John Stuart Mill)

Best á kosið

Fyrir seinustu Alþingiskosningar áttu sér stað umtalsverðar breytingar á kosningalöggjöfinni. Fyrir utan kjördæmabreytinguna breyttu menn einnig ákvæðum um útstrikanir og listabreytingar. Niðurstaðan er sú að breytingar á kjörseðlum, sem eitt sinn voru einungis valkostur fyrir kjósendur sem vildu friða samvisku sína, geta nú haft raunveruleg áhrif á það hverjir hljóta þingsæti.

Áður fyrr þurfti yfir helmingur kjósenda að framkvæma einhverja breytingu til að hún tæki gildi. Nú er þetta mun auðveldara. Tökum sem dæmi lista Samfylkingarinnar úr Reykjavíkurkjördæmi Norður frá seinustu kosningum.

Samfylkingin fékk 4 þingmenn kjörna í því kjördæmi. Samkvæmt kosningalögum eru því aðeins þær breytingar teknar gildar sem snúa að frambjóðendum fyrstu 8 sætum (hugsanlegir þingmenn og varaþingmenn). Því er um að ræða eftirfarandi einstaklinga.

1. Össur Skarphéðinsson

2. Bryndís Hlöðversdóttir

3. Guðrún Ögmundsdóttir

4. Helgi Hjörvar

5. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

6. Ellert Schram

7. Eiríkur Bergmann Einarsson

8. Sigrún Grendal Jóhannesdóttir

Af 13.110 kjósendum Samfylkingarinnar strikuðu 425 út Össur, 357 strikuðu út Helga Hjörvar. Að auki strikuðu 100 út Ingibjörgu Sólrúnu en aðrar breytingar voru sjaldgæfari. Nánar til tekið kom fram að eftirfarandi tvær breytingar hafi verið algengastar:

a) Össur strikaður út og Ingibjörg sett í fyrsta sætið.

b) Helgi Hjörvar strikaður út.

Það má leiða að því líkum að ásetningur kjósenda sem framkvæmdu slíkar breytingar hafi verið að koma Ingibjörgu Sólrúnu ofar á listann. Því miður fyrir þá kjósendur þá eru umræddar aðferðir ekki nógu árangursríkar.

Munum að lykiltalan í þessu sambandi er talan 8 (2*fjöldi þingmanna). Þannig fær Össur 8/8=1 atkvæði fyrir hvern sem skilur hann eftir í 1. sæti, Bryndís fær 7/8, o.s.frv.

Auðveldasta leiðin til að auka möguleika þingmanns á að ná kjöri er að færa hann upp um eitt sæti. Til þess þarf að:

a) Hámarka atkvæðið sem hann fær (með því að setja hann í fyrsta sæti.)

b) Lágmarka atkvæðið sem maðurinn fyrir ofan hann fær (með því að strika hann út.)

Besta leiðin fyrir Sollu-hneigðan kjósanda var því að strika út Helga Hjörvar og setja Ingibjörgu í efsta sæti listans. Reiknum út hve margir þyrftu að gera þetta til að þau tvö víxluðust á sætum

Ef x er látið tákna fjölda þeirra sem skiluðu óbreyttum lista og y fjölda þeirra sem framkvæmdu áðurnefnda breytingu þá fáum við að atkvæðatala Ingibjargar verður (4/8)*x+y, og atkvæðatala Helga verður (5/8)*x.

Við viljum nú fá (4/8)*x+y > (5/8)*x, sem jafngildir 8y>x. Þetta þýðir að ef níundi hver kjósandi Samfylkingarinnar (þ.e. a.m.k. 1457 kjósendur) hefði breytt kjörseðlinum sínum á áðurnefndan hátt hefði Talsmaðurinn náð inn á þing.

Staðreyndin er sú að yfir 700 kjósendur sýndu slíkan ásetning þ.a. ef þeir hefðu verið tvisvar fleiri, þá hefði þetta gengið eftir.

Hvort Alþingi Íslendinga væri betri staður með Ingibjörgu innanborðs skal ósagt látið. Hins vegar sýnir dæmið vonandi að í núverandi kerfi er alls ekki ómögulegt að hafa áhrif á uppröðun listans. Þannig að þeir lesendur sem eiga sér uppáhaldsframbjóðanda þeir vilja ýta upp eftir listanum ættu að:

a) Setja hann í fyrsta sæti listans.

b) Strika út nafn þess sem er fyrir ofan hann.

Það er nú von að kjósendur muni í auknum mæli nýta sér þann valkost að hafa áhrif á uppröðun listans. Minnumst þess að á endanum eru það þingmenn en ekki listabókstafir sem kjósa á Alþingi. Það að almenningur hafi meira að segja um hverjir séu fulltrúar hans getur ekki orðið annað en lýðræðinu til framdráttar.

Evrópuþingskosningar í Póllandi

Andrzej Lepper, formaður Sjálfsvarnar.

Það er nánast alveg sama hvar menn stíga niður fæti í hinum lýðræðislega heimi, alls staðar hafa kjósendur sömu umkvörtunarefni þegar kemur að kosningum: „Stjórnmálamenn eru allir eins.“ Já, alla vega held ég að margir léttbleikir íslenskir kratar mundu nú þakka fyrir það sem þeir hafa ef þeir stæðu frammi fyrir þeim valkostum sem pólskum kjósendum bjóðast í komandi Evrópuþingskosningum.

Ef marka má niðurstöður skoðanakannana seinustu vikna, og aðeins teknir þeir sem öruggir eru um að skríða yfir 5% sem þarf til að ná inn mönnum, þá stendur valið á milli:

a) Hægriflokks

b) Öfgasinnaðs hægriflokks

c) Mjög ofgasinnaðs hægriflokks

d) Öfgasinnaðs bændaflokks

Það er almenn regla að ríkisstjórnir í Mið- og Austur-Evrópu sitji aðeins í eitt kjörtímabil. Núverandi ríkisstjórn Lýðræðislega vinstribandalagsins hefur bókstaflega hrunið í fylgi og erfitt að segja hve lengi þeim takist að tolla og hvort nýi forsætisráðherrann, Marek Belka hljóti yfir höfuð náð fyrir augum þingsins. Vel má vera að það takist ekki og boða þurfi til kosninga strax næsta haust.

Eins og staðan væri ekki nógu slæm fyrir vinstrimenn þá hefur fyrrverandi þingforseti, Borowski nú klofið sig frá og stofnað sinn eigin flokk, Sósíaldemókrataflokk Póllands. Sá klofningur er þó ekki af mjög málefnalegum toga og tengist frekar þekktu orðatiltæki þar sem ákveðin nagdýr og skip koma við sögu.

Það gæti þó vel farið svo að flokkarnir skemmi hvor fyrir öðrum og detti hvorugir inn á Evrópuþingið. Pólland yrði þá í þeirri skrítnu stöðu að vera eina landið með engan þingmann í röðum PES, þingflokks sósíaldemókrata.

Helsti stjórnarandstöðuflokkurinn PO, eða Borgaravettvangur mælist nú með einna mest fylgi. Flokkurinn telst tiltölulega hefðbundin Kristilegur Demókrataflokkur en hefur þó færst mjög til hægri síðan hann var stofnaður. Sést það best á óvenjuharðri afstöðu formanns flokksins í málefnum fóstureyðinga og mjög óbilgjarnri afstöðu varðandi atkvæðavægi í ráðherraráði ESB. Þá mótmælti Kraká-deild flokksins nýlega réttindagöngu samkynhneigðra sem mörgum þykir á engan hátt í anda þeirra frjálslyndu hugsjóna sem stofnandi flokksins og gamall forsetaframbjóðandi, Andrzej Olechowski stendur fyrir. Enda er Olechowski orðinn lítt sýnilegur og hinn harðsnúni Jan Rokita kominn í forystusætið. PO er þó enn mjög Evrópusinnaður flokkur.

Hægra megin við PO liggur PiS, Lög og réttlæti, sem er nokkurs konar Repúblikanaflokkur Póllands sem leggur sérstaka áherslu á baráttu gegn glæpum. Honum er stýrt af þeim Kaczynski bræðrum, Jaroslaw og Lech. Þessir skrítnu tvíburar léku á unga aldri í kvikmynd sem hét „Um bræðuna tvo sem stálu tunglinu.“ Hefur þessi titill valdið pólitískum ferli þeirra meiri skaða en nokkuð annað. Lech Kaczynski er nú borgarstjóri Varsjár og hyggst væntanlega finna sér einhverja Giulliani-leið inn í landsmálin.

Enn lengra til hægri liggur LPR, pólska fjölskyldubandalagið, öfgasinnaður þjóðerniskaþólikkaflokkur. Roman Giertych er formaður hans, í fjarveru Maríu Guðsmóður, mætti maður halda. Flokkurinn er andvígur öllum fóstureyðingum, getnaðarvörnum, kynfræðslu í skólum, samkynhneigð og almennt hlutum sem tengjast samförum. Hann leggst mjög gegn erlendum fjárfestingum og er á móti aðild að Evrópusambandinu.

Furðulegasta fyrirbærið pólska stjórmálasviðinu er flokkur Andrzej Lepper, Samoobrona (Sjálfsvörn). Ímyndið ykkur að Framsóknarflokkurinn ætti sér greindarskertan, hrekkjóttan, yngri bróður. Í upphafi sótti flokkurinn fylgi sitt aðallega til frústreraðra bænda en hefur nú náð til frústreraðra einstaklinga í öðrum stéttum. Pólitík flokksins byggist á gjörningum á borð við þann að sturta korni inn á torg eða leiða svín inn í fundarsal. Flokkurinn mælist nú með hininhátt 30% fylgi sem lýsir á margan hátt óánægju með hefðbundnu stjórnmálaelítuna. Flokkurinn hefur er mjög Evrópuskeptískur þó hann hefur ekki mælt fyrir einhliða úrsögn úr sambandinu, aðeins að aðildarsamningarnir verði endurskoðaðir, sem að allra mati er algjörlega óraunhæf krafa.

Það er því ljóst að mörgum Pólverjum muni þykja erfitt að gera upp á milli frambjóðenda eftir tæpan mánuð. Til að mynda virðist algjörlega skorta frjálslyndan umbóta-hægriflokka eða vinstriflokk sem laus er við spillingarstimpil. Þetta, ásamt almennt dvínandi stjórnmálaáhuga og flóknu kosningakerfi mun líklegast valda því að kjörsókn verður með allra lægsta móti og fulltrúar Póllands á hinu nýja Evrópuþingi, ekkert allt of vandaðir.

Velkomin heim

Það er kannski erfitt að ákveða fyrirfram hvaða dagur verður álitinn ,,stór“ í mannkynssögunni. Þegar menn lesa fréttir og aðsendar greinar í dagblöðum kemur í ljós að árið er stútfullt af hvers kyns ógleymanlegum tímamótum sem reyndar verða ógleymanleg í mjög skamman tíma.

Oft er ýjað að því fyrirfram að ákveðin dagsetning muni marka tímamót í sögu lands eða heims en þegar á hólminn er komið verður hún fáum minnistæð. Á endanum er það oftast þeir dagar sem ekki gera boð á undan sér sem verða eftirminnilegastir, eins og til dæmis 11. september 2001 eða 1. september 1939, dagurinn sem síðari heimsstyrjöldin hófst.

Friðurinn í Evrópu hafði ekki varað lengi. Innan við 25 árum frá því að ógeðslegustu styrjöld í manna minnum lauk, höfðu átökin blossað upp að nýju. Og ekki urðu þau geðslegri í þetta skiptið. Ó, nei. Og þegar þeim var lokið var Evrópu skipt í tvo hluta, annan frjálsan og hinn kúgaðan. Ríkan og fátækan.

„Af hverju getur Lúxemburg ekki orðið kommúnistaríki?“ hljómar gamall brandari frá löndum A-Evrópu. Svar: „Því svona lítið land gæti ekki höndlað svona mikla ólukku.“

Svona Andrésarblaðabrandari austantjaldslandanna hefur kannski ekki mikla merkingu. Hann sýnir kannski bara að aulahúmor geti þrifist í öllum löndum, óháð hagkerfum. Hins vegar er ljóst að löndin austur í álfunni, sem hvort sem er mörg hver stóðu vestrinu efnahagslega langt að baki fyrir stríðið, áttu svo sannarlega ekki efni á því að lokast innan múra heimskulegasta hagkerfis veraldar.

Hvort dagsetningin 1. maí 2004 muni lifa lengi í manna minnum verður að koma í ljós. Hins vegar eru fáar dagsetningar sem beðið hefur verið með jafnmikilli eftirvæntingu og þessari. „Beðið“ er kannski ekki heppilegt orð í þessu samhengi. Fáar dagsetningar hafa krafist jafnmikils undirbúnings og einmitt hún. Flest löndin í Mið- og Austur-Evrópu þurftu að yfirfara og breyta þúsundum blaðsíðna af lögum, aðlaga rekstur stofnana, koma á frelsi í viðskiptum, afnema hvers kyns höft, einkavæða hundruð ríkisfyrirtækja og gera margt, margt fleira, til að geta sótt um aðild og fengið inngöngu.

Ekki hafa allar þessar aðgerðir verið vinsælar og sumir stjórnmálamenn hafa notað ESB sem kýlupoka til að viðhalda eigin frama. „Við þurfum að loka námunum út af ESB. Við þurfum að endurskipuleggja bótakerfið til að ná niður hallanum. Út af ESB.“

Flestar þær umbætur sem hafa átt sér stað hefði þurft að gera þar hvort sem er. En erfiðara hefði verið að framkvæma þær ef ESB-gulrótarinnar hefði ekki notið við. Þannig hefur umsóknar- og aðildarferlið sjálft verið löndunum holl og ómetanleg reynsla. Og ekki er laust við að maður finni fyrir hálgerðum tómleika þegar ferlið er á enda. Þegar við fjölskyldan höfðum skálað fyrir úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar seinasta sumar, horfðum við niður í tóm kampavínsglösin og spurðum hvort annað. Hvað nú?

Veran í ESB verður eflaust aldrei jafnskemmtileg fyrir hinar nýfrjálsu þjóðir og leið þeirra þangað. Engu að síður er dagurinn í dag, frábær dagur. Loksins eru tækifærin til staðar. Þrátt fyrir að margar þjóðir hafi lokað tímabundið á frjálst flæði vinnuafls þá er þróunin hafin og henni verður ekki aftur snúið. Menn munu geta lært þar sem þeir vilja, unnið þar sem þeir vilja og borðað sultu óháð því hvar jarðaberin vaxa.

Eflaust væri hægt að gera margt betur í ESB. Eflaust væri hægt að ná fram frjálsu flæði á fólki, vörum og skoðunum án þeirrar miklu yfirbyggingar og vitleysu sem samstarfinu fylgir. En þegar menn gagnrýna, réttilega, mikið skrifræði Evrópusambandsins, lýðræðishalla þess og annað í fari þess má engu að síður ekki gleyma því hver tilgangurinn með evrópsku samstarfi upprunalega var.

Hugmyndin var að gera ríki Evrópu svo efnahagslega tengd að þau gætu aldrei aftur farið í stríð hvert við annað. Ég held að engin geti neitað því að þessi markmið, þessi langmikilvægustu markmið samrunans, hafa náðst.

Deilumál innan Evrópusambandsins, hver eru þau? Beingreiðslur til mjólkurframleiðslu, byggðastyrkir. Hugsið ykkur að fyrir 60 árum var enn barist á götum Berlínar. Hugsið ykkur að mönnum hafi tekist að breyta deilum um landsvæði í deilur um sveigju ávaxta. Er það ekki magnað?

Í dag er góður dagur og ég gleðst af öllu hjarta með öllum þeim þjóðum og ríkjum sem eru komnar á leiðarenda ferðalags sem hófst fyrir 15 árum. Um leið viðurkenni ég að spurningin um aðild Íslands að ESB er ekki sama spurningin og sú sem Pólverjar, Tékkar og hinar þjóðirnar sem nú ganga inn stóðu frammi fyrir. Ég mun því ekki nota þennan pistil undir mishæpnar ályktanir um stöðu Íslands í ljósi stækkunarinnar. Á móti bið ég fólk um að sýna fyrrverandi fórnarlömbum alvöru alræðis þá virðingu að stilla samlíkingum við Sovétríkin í hóf á þessum merkisdegi.

Lifi Evrópa.