Hressu, léttu lestirnar

Að undanförnu hefur sitthvað verið rætt um léttlestakerfi í Reykjavík. Tökum eftir hvernig áherslu menn leggja á orðið “létt” í þessu samhengi. Kannski litist engum á að fá þunglamanlega hægfara lestir til Reykjavíkur og sporvagnar eru og skítugir að innan og það skröltir í þeim. En svona “léttar og hressar” lestir. Já, það er annað mál!

Vitneskja íslensks almennings og reyndar annarra hér á landi um lestarsamgöngur er afar takmörkuð, kannski eðlilega. Þegar menn ræða um þessi mál þarf oft að svara spurningum á borð við “en ef að það snjóar?” eða “en ef það kemur brekka, hvað gerir lestin þá?”. Það er alveg ljóst að engir tæknilegir annmarkar eru á því að hafa lestir á Íslandi. Annmarkarnir eru allir efnahagslegs eðlis.

Hugmyndir um sporbundið samgöngukerfi í Reykjavík eru afskaplega indælar. Þær bera vott skemmtilega sýn á skipulagsmál. Þær opinbera drauminn um stórborgina Reykjavík, um hressar ,léttar lestir sem skjótast með farþega af öllum stéttum fram og tilbaka eftir þétt byggðum og lifandi miðbænum.

Á sama hátt eru raddir Sjálfstæðismanna í borginni dæmi um steingeldan raunsæisma, sem þó er heilbrigður þegar fé skattgreiðenda er annars vegar. En um leið að ég veit innst inni að skynsamlegra sé að byggja mislæg gatnamót heldur en jarnbrautarteina undir hressu, léttu lestirnar þá neita ég því ekki að mér finnst síðari hugmundin ólíkt skemmtilegri. Ég held að margir geti tekið undir þetta með mér. Sporvagnar eru einhvern veginn “framtíðarlegri” hugmynd, eitthvað sem menn mundu bíða eftir, eitthvað sem mundi breyta ásjónu Reykjavíkurborgar.

Hins vegar er það ljóst að miðað við núverandi þéttleika byggðar í Reykjavík eru hugmyndirar um fullburða sporbundið samgöngukerfi óraunhæfar. Hvað með það að ferðatíminn á leiðinni Fjörður-Lækjartorg styttist um 5 mínútur? Flestir sem ferðast milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar eru ekki að fara milli þessara tveggja staða og þá er bíllinn áfram fljótlegri kostur.

Það er umhugsunarvert að ódýrara yrði að byggja götu sem bara leið 140 gæti keyrt eftir fremur en að fjárfesta í léttlest á þessari leið. Fyrri hugmyndin þykir út í hött, en seinni hefur þennan rómantíska blæ, sem kemur í veg fyrir að menn afskrifi hana strax.

Hvernig væri að byrja bara smátt? Menn geta sett lítinn, notaðan, úkraínskan sporvagn niður Hverfisgötuna og látið hann hringsóla á annatímum. Það þyrfti ekki að vera svo dýrt og myndi gefa miðbænum þennan margeftirsótta “alþjóðlega blæ”. Ef hugmyndin myndi ganga eftir væri hægt að taka hana lengra. Ef ekki, þá sætum við a.m.k. uppi krúttlegt minnismerki um drauma meðallítillrar borgar sem vildi verða svolítið stærri.

Leave a Reply

Your email address will not be published.