Óvænt uppspretta frelsis

Það tók nú “ungu þingmennina” talsverðan tíma að læra þingsköpin, hve mörg andsvör mætti veita við hvaða andsvari og í hvaða röð fyrsta, önnur og þriðja umræða kæmu. Enda urðu menn lítt varir við þann meinta ferskleika sem tilkomu yngra fólks á Alþingi átti að fylgja. Fyrsta þingmisseri leið án þess að nein “hress og ungleg” frumvarp litu dagsins ljós. Flestir krakkarnir létu sér nægja að hanga í þingpöllum og gera grein fyrir stefnu þingflokka sinna í málefnum iðnmenntunar og friðlýsingar háhitasvæða.

En nú er sem betur farið að færast líf í þingið og hvert “hressa og unglega” fyllerísfrumvarpið fylgir á eftir öðru. Undirritaður hefur hér á Deiglunni fjallað töluvert um frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri þingmanna um lækkun áfengiskaupaaldurs niður í 18 ár sem ágætar líkur eru á að fáist samþykkt og í dag var sagt frá því að Guðlaugur Þór hafi ásamt ellefu öðrum þingmönnum lagt fram frumvarp um afnám einkaleyfis ÁTVR á einkasölu á bjór og léttvín.

Um rök fyrir því að treysta einkaaðilum fyrir þessu verkefni þarf vonandi ekki að fjölyrða. Um rökin á móti þarf hins vegar að fjölyrða, og það mikið.

Einfeldningurinn, ég, hafði lengi haldið að ástæðan fyrir að því að Baugur og Ragnar á Horninu mættu ekki selja bjór væri sú að þeir væru svo siðblindir og gróðasjúkir að þeir myndu selja grunnskólabörnum bjór enda mundu þeir setja sína eigin græðgi ofar menntunarþörf “þjóðarinnar”.

En, nei. Skv. álitsgjafa Fréttablaðsins, Höskuldi Jónssyni, “[er] engan veginn [..] rekstrargrundvöllur fyrir sölu á sterku víni eingöngu. Það verði að finna aðrar lausnir ef frumvarp sem þetta eigi að ganga eftir.”

Og viti menn að þetta mun líklegast vera þyngsti punktur í málflutningi afturhaldssinna á Þingi, með Ögmund Jónasson í broddi fylkingar: Að ef Ríkið hætti að selja bjór þá muni enginn nenna að kaupa vodkann! Æ, nei!

Var þetta þá ástæðan? Er dreifikerfi á spíra skyndilega orðið eitt af stoðum velferðarríkisins? Æi kommon! Ef menn hafa engin betri rök en þetta segir það þeim ekki eitthvað um veikleika málstaðarins? Að Ríkið þurfi að dreifa bjór því kaupmenn, kynnu það ekki?

Leave a Reply

Your email address will not be published.