Hressu, léttu lestirnar

Að undanförnu hefur sitthvað verið rætt um léttlestakerfi í Reykjavík. Tökum eftir hvernig áherslu menn leggja á orðið „létt“ í þessu samhengi. Kannski litist engum á að fá þunglamanlega hægfara lestir til Reykjavíkur og sporvagnar eru og skítugir að innan og það skröltir í þeim. En svona „léttar og hressar“ lestir. Já, það er annað mál!

Vitneskja íslensks almennings og reyndar annarra hér á landi um lestarsamgöngur er afar takmörkuð, kannski eðlilega. Þegar menn ræða um þessi mál þarf oft að svara spurningum á borð við „en ef að það snjóar?“ eða „en ef það kemur brekka, hvað gerir lestin þá?“. Það er alveg ljóst að engir tæknilegir annmarkar eru á því að hafa lestir á Íslandi. Annmarkarnir eru allir efnahagslegs eðlis.

Hugmyndir um sporbundið samgöngukerfi í Reykjavík eru afskaplega indælar. Þær bera vott skemmtilega sýn á skipulagsmál. Þær opinbera drauminn um stórborgina Reykjavík, um hressar ,léttar lestir sem skjótast með farþega af öllum stéttum fram og tilbaka eftir þétt byggðum og lifandi miðbænum.

Á sama hátt eru raddir Sjálfstæðismanna í borginni dæmi um steingeldan raunsæisma, sem þó er heilbrigður þegar fé skattgreiðenda er annars vegar. En um leið að ég veit innst inni að skynsamlegra sé að byggja mislæg gatnamót heldur en jarnbrautarteina undir hressu, léttu lestirnar þá neita ég því ekki að mér finnst síðari hugmundin ólíkt skemmtilegri. Ég held að margir geti tekið undir þetta með mér. Sporvagnar eru einhvern veginn „framtíðarlegri“ hugmynd, eitthvað sem menn mundu bíða eftir, eitthvað sem mundi breyta ásjónu Reykjavíkurborgar.

Hins vegar er það ljóst að miðað við núverandi þéttleika byggðar í Reykjavík eru hugmyndirar um fullburða sporbundið samgöngukerfi óraunhæfar. Hvað með það að ferðatíminn á leiðinni Fjörður-Lækjartorg styttist um 5 mínútur? Flestir sem ferðast milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar eru ekki að fara milli þessara tveggja staða og þá er bíllinn áfram fljótlegri kostur.

Það er umhugsunarvert að ódýrara yrði að byggja götu sem bara leið 140 gæti keyrt eftir fremur en að fjárfesta í léttlest á þessari leið. Fyrri hugmyndin þykir út í hött, en seinni hefur þennan rómantíska blæ, sem kemur í veg fyrir að menn afskrifi hana strax.

Hvernig væri að byrja bara smátt? Menn geta sett lítinn, notaðan, úkraínskan sporvagn niður Hverfisgötuna og látið hann hringsóla á annatímum. Það þyrfti ekki að vera svo dýrt og myndi gefa miðbænum þennan margeftirsótta „alþjóðlega blæ“. Ef hugmyndin myndi ganga eftir væri hægt að taka hana lengra. Ef ekki, þá sætum við a.m.k. uppi krúttlegt minnismerki um drauma meðallítillrar borgar sem vildi verða svolítið stærri.

Maður er nefnd

Árangurinn lætur ekki á sér standa!

Víða um lönd er skriffinskan mikil og stjórnkerfið óskilvirkt og hægfara. Víða um lönd eru starfandi milljónir nefnda sem gera ekkert annað en að kjósa ritara og samþykkja fundargerðir seinustu funda, milli þess sem þær svífa um í stjórnskipulegu þyngdarleysi. En á fáum stöðum í heiminum og á Norðurlöndum er nefndavæðingin jafnlímd við samfélagsmynstrið, frá vöggu til grafar.

Ég veit ekki hvaða Svíi fékk eiginlega þá hugmynd að besta leiðin til að virkja atorku nokkurra einstaklinga væri að láta þá búa til ferning úr fjórum skólaborðum og deila kynórum sínum um viðfangsefnið. Flestir sem þetta lesa hafa eflaust eitt mörgum klukkustundum ævi sinnar í hvers kyns nefndarstörf. Og ef reynsla þeirra er álíka og mín þá hefðu þeir eflaust viljað hafa ráðstafað helmingi þess tíma í annað.

Maður einfaldlega skilur ekki hvers vegna skipa, eða kjósa, þurfi fjölskipaðar nefndir til að sinna verkefnum sem krefjast aflögukorters eins einstaklings með farsíma. Kaupa þarf kaffivél, þriggja manna nefnd. Svara þarf sendibréfi, þriggja manna nefnd. Halda þarf málfund, 5 manna nefnd. Gefa út auglýsingabækling, 7 manna nefnd.

Til að halda árshátíð í miðlungsframhaldsskóla dugir ekkert annað en 9 manna árshátíðarnefnd, sem er 5 manna skemmtinefnd til aðstoðar. Báðar nefndirnar eru vitanlega undir handleiðslu 5 manna skólafélagasstjórnar. „Ég sé um vöfflurnar, hver ætlar að redda rjómanum?“

Og stofnun nefndar er álitinn árangur í sjálfu sér. Ef ráðherra hefur áhuga á stækkun hafnar stofnar hann hafnastækkunarnefnd sem „fer vel yfir málið“. Til að sinna fjölskyldumálum Stúdenta af fullri alvöru gengur ekkert annað en fullburða Fjölskyldunefnd, enda Hagsmunanefnd upptekin við störf að öðrum fjarskyldum málum. Til að athuga stöðu ungra samkynhneigðra kvenkyns nýbúa af norrænum uppruna stofna menn nefnd. „Segið svo að ég láti málið mig ekkert varða. Ég stofnaði nefnd. Feis!“

Vitanlega eru ekki allar nefndir gagnslausar. En nefndarstörf kosta, hvort sem um er að ræða beinharða peninga eða tíma nefndarmanna, þá er í mörgum tilfellum um að ræða auðlindir sem betur mætti verja í annað.

Minnsta sveitarfélag landsins er Mjóafjarðahreppur. Þar búa samkvæmt Hagstofu Íslands 36 íbúar. Þar af eru 27 yfir 18 ára aldri. Á heimasíðu Sambands Íslenskra Sveitarfélaga má sjá lista yfir nefndir og fulltrúa á vegum hreppsins en hann starfrækir hvorki meira né minna en 8 þriggja manna nefndir til heiðurs hinum ýmsu málaflokkum (brunamál, hafnarmál, umhverfismál o.fl.).

Innan þeirra nefnda starfa 19 einstaklingar svo að við erum að tala um að einhverjir 8 aðilar í hreppnum eru að hlaupast undan lýðræðislegri nefndarskyldu sinni. En hugsanlega er um að ræða ósjálfbjarga ómaga sem félagsmálanefnd hreppsins sinnir sinnir af alúð.

Nefndarstörf eru reyndar oft afsökun fyrir fólk til að hittast, sem er í sjálfu sér jákvætt. Í mörgum tilfellum er meiri tíma varið í að skiptast á frásögnum um veðrið eða kjaftasögum um fjarstadda nefndarmenn. En þá spyr maður sig hvort ekki væri heppilegra að fólk hittist einfaldlega á bar, keypti sér bjór, og bullaði frá sér kvöldinu í afslöppuðu andrúmslofti. Þurfa menn virkilega einhverja afsökun til að kynnast nýju fólki?

Vegbrjótar

Þegar fyrstu vefnaðarvélarnar litu dagsins ljós í upphafi iðnbyltingar tóku einhverjir verkamenn sig til og skemmdu þær enda töldu þeir vélarnar vera hafa af sér atvinnu. Voru þeir kallaðir vélbrjótar. En þótt okkur nútímafólki finnst þessi tiltekna andstaða við framfarir hafa verið fáranleg og þótt vélbrjótarnir sjálfir hafi orðið einhvers konar brjóstumkennanlegir kjánar mannkynssögunnar þá lifa hugmyndir þeirra, og lifa vel.

Þessi hugmynd: Hugmynd um að atvinna sé einhver takmörkuð auðlind sem verður að stýra aðgengi að og verja með öllu móti, sú hugmynd virðist aldrei ætla að deyja. Það er þessi hugmynd sem fær fólk til að leggjast gegn því að útlendingar setjist að á Íslandi. Svekkjandi staða, ef menn vinna ekki, þá eru þeir að lifa á kerfinu og ef menn vinna þá eru þeir að „taka atvinnu“ af öðrum. You know you just can’t win.

Nýjasta dæmi um þessa atvinnuránavitleysu eru mótmæli ýmissa manna gegn hugmyndum um lagningu sk. Norðurvegar. Slíkur vegur mundi liggja yfir hálendið milli Borgarfjarðar og Skagafjarðar og stytta þannig akstursleið til Akureyrar um 42 km. Ef farið yrði gegnum Þingvelli mundi leiðin svo styttast um allt að 82 km.

Fjölmargir aðilar, t.d. stjórnmálamenn Norðvesturkjördæmis og jafnvel ritstjórar Morgunblaðsins hafa fundið hugmyndinni flest til foráttu. Auðvitað er hún ekki gallalaus ekki fremur en nein önnur. Sumum gæti finnst sem of langt sé seilst inn á hálendið. Sumum gæti vegurinn þótt of dýr eða veðurskilyrði óhagstæð. Þetta verður allt að skoða. En á endanum þá snýst andstæða þrýstihópa á Norðurlandi-Vestra um það að vegurinn muni „taka atvinnu af fólki“ í landshlutanum. Menn benda á allar vegasjoppur á sem byggðar hafa verið upp á leiðinni. Menn benda á hvernig Blönduós hefur haft hag af umferðinni í gegnum bæinn.

Er fólk ekki aðeins að misskilja? Vegasjoppur eru gerðar til að þjóna vegfarendum, ekki öfugt. Vegfarendur eiga ekki siðferðislegri skyldu að gegna gagnvart fólki sem býr nálægt veginum. Fólk sem ferðast vill oftast gera það til að komast á milli staða, en ekki til að fá sér Hrútfirðing í Staðarskála, þótt það geti verið skemmtilegt uppbrot á ferðalaginu. Tilgangurinn með ferðinni er oftast annar en ferðin sjálf, svo það er hagkvæmast fyrir alla að hún taki sem stystan tíma.

Rík þjóðfélög eru þjóðfélög þar sem hlutirnir ganga hratt og skipulega fyrir sig. Þjóðfélög verða ekki rík af því að hafa sem flesta óþarfa milliliði í þágu atvinnusköpunar. Vegaskálar eru ekki óþarfir, en það er óþarfi að hafa fleiri en við höfum not fyrir. Og hver haldið þið að muni vinna í vegasjoppum á hinnum nýja Hálendisvegi? Hálendindingar? Nei, það verður auðvitað fólk úr héruðunum í kring. Ekki það að það eigi reyndar að skipta svo miklu máli, en samt virðast allir hafa misst af þessum punkti!

Mogginn sagði enn fremur að Vestfirðir myndu á einhvern hátt einangrast enn frekar við það að hafa engann fjölfarinn veg nálægt sér! Já, það er ekki bara gott að fólk keyri framhjá glugganum manns, heldur bætir það sálarlíf heils landshluta að hafa fjölfarinn veg í hundrað km. fjarlægð frá sér.

Á endanum er þetta víst spurning um þessa sk. „þjóðhagslegu hagkvæmni“. Stundum hef ég haft það á tilfinningunni að „þjóðhagslega hagkvæmt“ sé annað orð yfir „óhagkvæmt“. En gott og vel. Ef stytting akstursvegalengdar milli tveggja stærstu þéttbýliskjarna á landinu um rúman klukkutíma er ekki þjóðhagslega hagkvæm, hvað er það þá? Þegar á hólminn er komið eru íbúar Akureyrar fleiri en íbúar nálægt hringveginum. Skipta þeirra hagsmunir engu máli?

Vélbrjótar iðnbyltingar eru orðnir að vegbrjótum 21. aldar. Báðir töldu sig eflaust hugsa rökrétt og vilja vel. En á endanum er þetta sama vitleysan sem ef farið verður eftir kemur verst niður á þeim sem hana út úr sér láta. Væri betra ef menn héldu áfram að handsauma allan fjandann? Og getur Blönduós ekki orðið mögulega neitt annað en stór vegasjoppa?

Ruslpóstur 10 ára

Nú eru um 10 ár liðin síðan að lítil lögfræðistofa í Arizona sendi út fjöldapóst á nokkrar spjallrásir þar sem þjónusta hennar var auglýst. Þar með hófst saga ruslpóstsins.

Þann 12. apríl 1994 sendu hjónin Lawrence Canter og Martha Siegel stuttan póst á yfir 6 þúsund spjallþræði á Usenet umræðunetinu. Á þeim tíma ráku þau lögfræðistofu með sérhæfingu í innflytjendaráðgjöf. Tilkynningin var eftirfarandi.

From: Laurence Canter (nike@indirect.com)

Subject: Green Card Lottery- Final One?

Newsgroups: alt.brother-jed, alt.pub.coffeehouse.amethyst

View: Complete Thread (4 articles) | Original Format

Date: 1994-04-12 00:40:42 PST

Green Card Lottery 1994 May Be The Last One!

THE DEADLINE HAS BEEN ANNOUNCED.

The Green Card Lottery is a completely legal program giving away a

certain annual allotment of Green Cards to persons born in certain

countries. The lottery program was scheduled to continue on a

permanent basis. However, recently, Senator Alan J Simpson

introduced a bill into the U. S. Congress which could end any future

lotteries. THE 1994 LOTTERY IS SCHEDULED TO TAKE PLACE

SOON, BUT IT MAY BE THE VERY LAST ONE.

PERSONS BORN IN MOST COUNTRIES QUALIFY, MANY FOR

FIRST TIME.

The only countries NOT qualifying are: Mexico; India; P.R. China;

Taiwan, Philippines, North Korea, Canada, United Kingdom (except

Northern Ireland), Jamaica, Domican Republic, El Salvador and

Vietnam.

Lottery registration will take place soon. 55,000 Green Cards will be

given to those who register correctly. NO JOB IS REQUIRED.

THERE IS A STRICT JUNE DEADLINE. THE TIME TO START IS

NOW!!

For FREE information via Email, send request to

cslaw@indirect.com*****************************************************************

Canter & Siegel, Immigration Attorneys

3333 E Camelback Road, Ste 250, Phoenix AZ 85018 USA

cslaw@indirect.com telephone (602)661-3911 Fax (602) 451-7617

Þessi póstsending markaði upphaf ruslpóstsins. Fyrir 10 árum síðan var netið annar staður en það er í dag. Fá eða engin lög giltu um samskipti á netinu aðeins óskrifaðar reglur og venjur. Slík fjöldapóstsending braut þessar óskrifuðu reglur enda fylltist pósthólfið hjá þeim hjónum og síminn og faxtækið hættu ekki að hringja allan daginn vegna hefnda pirraðra netnotenda.

Margt hefur gerst síðan þá. Flest ríki hafa nú sett lög um auglýsingapóst og tölvufyrirtækin eyða gífurlegum fjárhæðum til að hanna síur sem blokka slíkan póst. Það sem er kannski ótrúlegt, og það sem heldur öllu kerfinu gangandi er fólk sem svarar ruslpóstum. Ætla má spam iðnaðurinn veltir milljörðum enda er alltaf til fólk sem er tilbúið að trúa því sem hljómar vel, eða hefur engu að tapa, t.d. dauðvona sjúklingar.

Sá póstur sem Canter & Siegel sendu fyrir um 10 árum hefði eflaust þótt vandaður og kurteis á nútíma“spam“mælikvarða. Enda hefði hann eflaust stoppað á einföldustu síu nú á dögum. En því miður hafa ruslpóstsíur haft þau áhrif að æ oftar lendir venjulegt fólk í vandræðum með að senda póst sín á milli. Undirritaður reyndi til dæmis án árangurs að senda textaskrá með rannsóknaráætlun milli netfanga í tveimur norrænum ríkisháskólum.

Það tókst ekki.

Óvænt uppspretta frelsis

Það tók nú „ungu þingmennina“ talsverðan tíma að læra þingsköpin, hve mörg andsvör mætti veita við hvaða andsvari og í hvaða röð fyrsta, önnur og þriðja umræða kæmu. Enda urðu menn lítt varir við þann meinta ferskleika sem tilkomu yngra fólks á Alþingi átti að fylgja. Fyrsta þingmisseri leið án þess að nein „hress og ungleg“ frumvarp litu dagsins ljós. Flestir krakkarnir létu sér nægja að hanga í þingpöllum og gera grein fyrir stefnu þingflokka sinna í málefnum iðnmenntunar og friðlýsingar háhitasvæða.

En nú er sem betur farið að færast líf í þingið og hvert „hressa og unglega“ fyllerísfrumvarpið fylgir á eftir öðru. Undirritaður hefur hér á Deiglunni fjallað töluvert um frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri þingmanna um lækkun áfengiskaupaaldurs niður í 18 ár sem ágætar líkur eru á að fáist samþykkt og í dag var sagt frá því að Guðlaugur Þór hafi ásamt ellefu öðrum þingmönnum lagt fram frumvarp um afnám einkaleyfis ÁTVR á einkasölu á bjór og léttvín.

Um rök fyrir því að treysta einkaaðilum fyrir þessu verkefni þarf vonandi ekki að fjölyrða. Um rökin á móti þarf hins vegar að fjölyrða, og það mikið.

Einfeldningurinn, ég, hafði lengi haldið að ástæðan fyrir að því að Baugur og Ragnar á Horninu mættu ekki selja bjór væri sú að þeir væru svo siðblindir og gróðasjúkir að þeir myndu selja grunnskólabörnum bjór enda mundu þeir setja sína eigin græðgi ofar menntunarþörf „þjóðarinnar“.

En, nei. Skv. álitsgjafa Fréttablaðsins, Höskuldi Jónssyni, „[er] engan veginn [..] rekstrargrundvöllur fyrir sölu á sterku víni eingöngu. Það verði að finna aðrar lausnir ef frumvarp sem þetta eigi að ganga eftir.“

Og viti menn að þetta mun líklegast vera þyngsti punktur í málflutningi afturhaldssinna á Þingi, með Ögmund Jónasson í broddi fylkingar: Að ef Ríkið hætti að selja bjór þá muni enginn nenna að kaupa vodkann! Æ, nei!

Var þetta þá ástæðan? Er dreifikerfi á spíra skyndilega orðið eitt af stoðum velferðarríkisins? Æi kommon! Ef menn hafa engin betri rök en þetta segir það þeim ekki eitthvað um veikleika málstaðarins? Að Ríkið þurfi að dreifa bjór því kaupmenn, kynnu það ekki?

Um rétt til að sjá það sem annar á

Sumum nægir það að R-listinn hafi eitthvað á sinni stefnuskrá til að vera á móti því. Þannig hefur VefÞjóðviljinn og sumir Sjálfstæðismenn fundið hinni svokölluðu þéttingu byggðar allt til foráttu. En þrátt fyrir að byggðastefna R-listans hafi ekki verið farsæl er þétting byggðar engu að síður góð hugmynd. Vandinn er sá að henni hefur ekki verið fylgt.

Það má ekki gleyma einu: Skipulag úthverfa með botnlöngum, safngötum, heilum andskota af grænum svæðum og bílastæðavíðáttum; skipulag sem miðast við bíla en ekki gangandi vegfarendur, slíkt skipulag er á engan hátt „stjórnlausara“ eða „frjálshyggjulegra“.

Einkaaðlilar leitast við að hámarka verðmæti eignar sinnar. Það hjálpar þegar hægt er koma fyrir 50 íbúðum í stað fimm. Þrátt fyrir að íbúð í blokk sé ódýrari en einbýlishús getur fjöldinn vegið þar hæglega upp á móti. Auðvitað ætti það að vera ákvörðun landeigandans hvernig hann ráðstafar því og hvar á því sé byggt (innan marka heilbrigðrar skynsemi).

Opinberir aðilar hafa kannski aðrar hvatir að baki ákvörðunum sínum en að hámarka verðmæti jarðanna og þess sem á þeim er byggt. Þeir geta því spanderað heilu hektörunum í dreifbýlisbyggð í þéttbýli. Nýlegt dæmi um skipulagningu Lundarreitsins í Kópavogi sýnir þetta vel. Eigandinn vildi byggja hátt en bæjarstjórn hlustaði á lýðinn og kom í veg fyrir það. Húrra fyrir frjálshyggjunni!

Mótmæli íslenskra íbúa snúast alltaf um það sama. Útsýni og aftur útsýni. Fólk virðist geta gert endalausar kröfur á að geta séð það sem enginn eða einhver annar á, og fengið kvörtunum sínum sinnt af fullri alvöru. Stjórnmálamenn lesa vælið vandlega yfir og lækka svo „ferlíkið“ um nokkrar hæðir. Og íhaldselítan kinkar kolli: „Útsýninu bjargað.“

Hvers vegna geta menn gert kröfu um það að einhver annar stilli byggingum sínum í hóf bara til þeir njóti útsýnisins sem íbúar þeirrar byggingar mundu ellegar njóta? Nú skal ekki segja að það megi ekki vera neinar takmarkanir á því hvernig menn megi nota lóð sína en hvers vegna geta menn „athugasemdað“ byggingu niður um 2 hæðir bara til að geta varið sína eigin sýn yfir Faxaflóann? Hvers vegna geta menn neytt náungann til að breyta húsinu sína vegna þess að þeim finnst það, of stórt, of ljótt, eða „ekki í stíl“.

Af hverju þurfa nýbúar alltaf að vera réttminni en íbúar?

Lögboðuð þétting byggðar er kannski ekki góð, en það er lögboðinn dreifing ekki síður. Í dag eru í gildi fjölmargar reglur um stærð húss m.t.t. lóðar, fjölda bílastæða, lofthæð, stærð minnsta herbergis, gluggafjölda. Allt reglur sem stuðla að dreifðri byggð.

Allt reglur sem koma í veg fyrir þétta byggð og tryggja mönnum hinn heilaga rétt til útsýnis. Réttinn til að sjá það sem annar á.