Vann Mijailovic þá?

Ótvíræður sigurvegar evrukosninganna?

“Sigur fyrir hryðjuverkamenn. Spánverjar létu hræða sig,” má heyra oft á undanförnum dögum. Af ummælum sumra sem nú tjá sig mætti halda að á Spáni hafi boðið fram sérstakur hryðjuverkalisti, sem fellt hafi ríkisstjórn landsins og taki nú við völdum.

En gott og vel. Punkturinn sem fólk kemur með er sterkur og ekki til að snúa út úr eða gera grín að: Allt stefndi í sigur hægrimanna. 200 manns deyja í hryðjuverki. Vinstrimenn vinna. Vinstrimenn eiga því sigur sinn að þakka hryðjuverkamönnunum og sitja í þeirra umboði.

Vert er að minnast hvernig þeir sem nú harma úrslit spænsku kosninganna létu í kjölfar morðsins á Önnu Lindh. Voru menn á þeirri skoðun að fólk ætti að fylkja sér að baki skoðunum hinnar látnu, og kjósa með evrunni, bara til að sýna að morð á stjórnmálamönnum hefðu þveröfug áhrif? Ja, allavega ekki þeir sömu menn sem nú gráta yfir úrslitum kosninga á Spáni.

Reyndar var hægt að verða var við töluverðar áhyggjur af því að þetta mundi einmitt gerast: að vinsældir evruaðildar mundu aukast óhóflega og hún jafnvel samþykkt. Slík tilfinningasemi þótti slæm ógn við lýðræðið. En Svíarnir felldu evruna með meiri mun en áður var spáð. Voru þeir þá að segja að morð borgi sig? Voru úrslitin sigur fyrir Mijailovic?

Jújú, vissulega er morðingi Önnu Lindh sturlaður, en ekki eru hryðjuverkamennirnir þá heilir á geði? Á skoðun þeirra að skipta nokkru máli? Áttu Spánverjar þá allir sem einn að fylkja sér að baki hægri stjórninni vegna atburðarins? Hvað þá, til að hrekkja hryðjuverkamennina? Væri það betra ef fylgi Stjórnarinnar hefði hækkað? Væru þau áhrif ekki jafnóæskileg og hin áhrifin sem urðu?

Svo má velta því fyrir sér hver það hafi verið sem ábyrgur er fyrir “sigri terrorismans”. Voru það allir kjósendur vinstriflokka? Eða bara þeir kjósendur sem ákváðu að skipta um skoðun nokkrum dögum fyrir kosningar? Voru það kannski þeir kjósendur sem slysuðust til að mæta á kjörstað en hefðu, undir “venjulegum” kringumstæðum, átt að sitja heima?

Í lýðræðisríkjum skipta kosningar, sem betur fer, miklu máli. Það er því eðlilegt að menn verði svolítið æstir og bulli meira en venjulega sitt hvoru megin við þær. Slík iðja einskorðast auðvitað engan veginn við hægrimenn. Vinstrimenn vilja Sjálfstæðisflokkinn burt úr Stjórnarráðinu, því hann hefur verið þar svo lengi, en hafa því miður ekki enn reynst fúsir til að víkja úr Borgarstjórn, af sömu ástæðu. Og Múrinn sem réttilega hefur varið hefur ákvörðun spænskra kjósenda undan hroka íslenskra íhaldsmanna á sjálfur eflaust met í kjánalegum stjórnmálaskýringum í grennd við kosningar. Fyrir bæjarstjórnarkosningar 2002 birti vefritið athyglisverða grein þar sem útskýrt var að besta leiðin til að tryggja Samfylkingunni völdin í Hafnarfirði væri að kjósa … getið þið hverja … Vinstri-Græna! Nýstárleg tillaga sem gengur þvert á venjulegar hugmyndir mínar um notkun atkvæða í kosningum.

En hvað um það, spænsku stjórninni var eflaust refsað fyrir að reyna að leyna sannleikanum um hver stæði að baki sprengjuárásunum. Með því að beina spjótum að ETA reyndi hún sjálf að nýta sér það umrót sem verður óneitanlega á kjósendum í kjölfar slíks voðaverks.

Og það er varla ósigur lýðræðisins að sú tilraun hafi ekki tekist.

Leave a Reply

Your email address will not be published.