Beint lýðræði

Umræðan um beint lýðræði er ekki ný af nálinni. Samfylkingin hefur frá stofnun haft mikinn á áhuga á málaflokknum og Vinstri-grænir kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun samhliða seinustu kosningum. Eins hefur Björn Bjarnason nýlega fjallað um málið á heimasíðu sinni, þá í tengslum við hvort þjóðaratkvæðagreiðslur geti ekki reynst vera sá öryggisventill á störf þingsins sem margir telji að forsetaembættið sé. Framsóknarmenn hafa þó enn sem komið er lítið fjallað um málaflokkinn, eflaust af almennri þörf fyrir íhaldssemi og ótta við breytingar.

Munurinn á beinu lýðræði og fulltrúalýðræði er sá, eins og flestir vita, að í beinu lýðræði kjósa allir kosningabærir menn beint um málin á meðan í fulltrúalýðræði kjósa þeir fulltrúa sína sem síðan ráðstafa atkvæðum sínum í þar til gerðum þingum og ráðum. Ætla má að ástæðurnar fyrir fulltrúalýðræðinu hafi verið tæknilegs eðlis í fyrstu, ekki gekk að smala heillri þjóð í eitt herbergi, láta hana ræða málin og síðan kjósa um niðurstöðuna. Í dag er auðvelt að koma skoðun sinni á framfæri og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna er ekki flóknari en framkvæmd venjulegra kosninga.

Þær þjóðaratkvæðagreiðslur sem haldnar hafa verið á Íslandi hafa ekki verið til þess að svipta stjórnmálamenn völdum og fela þær í hendur fólksins. Eða hvað var flugvallarkosningin í raun? Var hún framsal á valdi? Nei, hún var framsal á ábyrgð. Borgaryfirvöld vildu gefa hugmynd sinni byr undir væng, enda hefði ekki verið jafnauðvelt að taka jafnafdrifaríka ákvörðun, nánast einhliða, ef ekki hefði legið eitthvað meira að baki hennar en vilji meirihluta borgarstjórnar.

Sjálfur kaus ég í þeirri kosningu og var sáttur við niðurstöðuna. En kosningin sjálf markaði ekki tímamót í íslensku lýðræði. Ekki fremur en kosningin um hundahald í Reykjavík eða kosningar um hvort opna eigi áfengisverslun í hinni og þessari sveit.

Í beinu lýðræði felst að venjulegir borgarar geti komið sínum málum á framfæri milliliðalaust. Í beinu lýðræði felst einnig réttur til að leggja fram eigin tillögur, en ekki bara að veita stjórnmálamönnum syndaaflausn með því að samþykkja hugmyndir sem þeir þora ekki að taka ábyrgð á sjálfir.

Einhvern veginn virðast sumir menn hafa það á tilfinningunni að ef menn hafi of mikið frelsi til leggja fram tillögur þá mundi það allt enda í einhverri vitleysu (Já, Svisslendingar, þeir hafa nú sleppt sér). Þetta er sama skoðun og heldur áfenginu í ríkinu og hélt ljósvakamiðlum í höndum hins opinbera. Menn óttast að allt of mikið frelsi geti gert menn bókstaflega brjálaða; menn leyfi allt og kunni sér hvergi hóf.

Aðrir óttast á hinn bóginn að fámennir en aktífir hópar muni geta komið öfgafullum hugmyndum sínum á framfæri, þjóðnýtt fallvötnin og bannað kjötát þvert á skoðanir hins þögla meirihluta sem er kannski ekki jafn æstur út af málinu og kýs því kannski ekki. Þetta er hvort sem er alltaf að gerast nú þegar. Til dæmis er landbúnaðarmálum áreiðanlega ekki stjórnað í takt við meirihluta vilja landsmanna, þeim er stýrt samkvæmt meirihluta þeirra sem láta þau sig einhverju varða, þ.e. bænda. Til viðbótar má segja að ef “hinn þögli meirihluti” er svona ofboðslega þögull að hann nennir ekki einu sinni að kjósa, þá er hann auðvitað enginn meirihluti.

Ég held að þegar öllu er á botninn hvolft mundi það ekki breyta svo miklu að hafa hér virkt beint lýðræði. Einhver getur þá spurt til hvers að vera að standa í þessu öllu saman, með öllum tilheyrandi tilkostnaði ef að niðurstaðan á svo að vera nákvæmlega sú sama?

Ég svara þeirri spurningu með spurningu pólsks jaðarhægrimanns:

“Til hvers að láta konur kjósa? Þær kjósa hvort sem er alveg eins og mennirnir!”

Leave a Reply

Your email address will not be published.