Vann Mijailovic þá?

Ótvíræður sigurvegar evrukosninganna?

„Sigur fyrir hryðjuverkamenn. Spánverjar létu hræða sig,“ má heyra oft á undanförnum dögum. Af ummælum sumra sem nú tjá sig mætti halda að á Spáni hafi boðið fram sérstakur hryðjuverkalisti, sem fellt hafi ríkisstjórn landsins og taki nú við völdum.

En gott og vel. Punkturinn sem fólk kemur með er sterkur og ekki til að snúa út úr eða gera grín að: Allt stefndi í sigur hægrimanna. 200 manns deyja í hryðjuverki. Vinstrimenn vinna. Vinstrimenn eiga því sigur sinn að þakka hryðjuverkamönnunum og sitja í þeirra umboði.

Vert er að minnast hvernig þeir sem nú harma úrslit spænsku kosninganna létu í kjölfar morðsins á Önnu Lindh. Voru menn á þeirri skoðun að fólk ætti að fylkja sér að baki skoðunum hinnar látnu, og kjósa með evrunni, bara til að sýna að morð á stjórnmálamönnum hefðu þveröfug áhrif? Ja, allavega ekki þeir sömu menn sem nú gráta yfir úrslitum kosninga á Spáni.

Reyndar var hægt að verða var við töluverðar áhyggjur af því að þetta mundi einmitt gerast: að vinsældir evruaðildar mundu aukast óhóflega og hún jafnvel samþykkt. Slík tilfinningasemi þótti slæm ógn við lýðræðið. En Svíarnir felldu evruna með meiri mun en áður var spáð. Voru þeir þá að segja að morð borgi sig? Voru úrslitin sigur fyrir Mijailovic?

Jújú, vissulega er morðingi Önnu Lindh sturlaður, en ekki eru hryðjuverkamennirnir þá heilir á geði? Á skoðun þeirra að skipta nokkru máli? Áttu Spánverjar þá allir sem einn að fylkja sér að baki hægri stjórninni vegna atburðarins? Hvað þá, til að hrekkja hryðjuverkamennina? Væri það betra ef fylgi Stjórnarinnar hefði hækkað? Væru þau áhrif ekki jafnóæskileg og hin áhrifin sem urðu?

Svo má velta því fyrir sér hver það hafi verið sem ábyrgur er fyrir „sigri terrorismans“. Voru það allir kjósendur vinstriflokka? Eða bara þeir kjósendur sem ákváðu að skipta um skoðun nokkrum dögum fyrir kosningar? Voru það kannski þeir kjósendur sem slysuðust til að mæta á kjörstað en hefðu, undir „venjulegum“ kringumstæðum, átt að sitja heima?

Í lýðræðisríkjum skipta kosningar, sem betur fer, miklu máli. Það er því eðlilegt að menn verði svolítið æstir og bulli meira en venjulega sitt hvoru megin við þær. Slík iðja einskorðast auðvitað engan veginn við hægrimenn. Vinstrimenn vilja Sjálfstæðisflokkinn burt úr Stjórnarráðinu, því hann hefur verið þar svo lengi, en hafa því miður ekki enn reynst fúsir til að víkja úr Borgarstjórn, af sömu ástæðu. Og Múrinn sem réttilega hefur varið hefur ákvörðun spænskra kjósenda undan hroka íslenskra íhaldsmanna á sjálfur eflaust met í kjánalegum stjórnmálaskýringum í grennd við kosningar. Fyrir bæjarstjórnarkosningar 2002 birti vefritið athyglisverða grein þar sem útskýrt var að besta leiðin til að tryggja Samfylkingunni völdin í Hafnarfirði væri að kjósa … getið þið hverja … Vinstri-Græna! Nýstárleg tillaga sem gengur þvert á venjulegar hugmyndir mínar um notkun atkvæða í kosningum.

En hvað um það, spænsku stjórninni var eflaust refsað fyrir að reyna að leyna sannleikanum um hver stæði að baki sprengjuárásunum. Með því að beina spjótum að ETA reyndi hún sjálf að nýta sér það umrót sem verður óneitanlega á kjósendum í kjölfar slíks voðaverks.

Og það er varla ósigur lýðræðisins að sú tilraun hafi ekki tekist.

Risinn

Í dag var greint frá því í helstu fjölmiðlum landsins að líklegast mundi Enski boltinn færast yfir á SkjáEinn á næsta ári. Þetta hlýtur að vera mikið áfall „fjölmiðlarisann mikla“ sem á víst að vera allsráðandi á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Enski boltinn hefur verið sannkallað flaggskip Norðurljósa. Hann hefur verið algjör uppistaða í dagskrá Sýnar og það er ólíklegt að stöðin mundi halda í marga áskrifendur með boxinu og kláminu einu saman. Niðurstaðan er því eins og áður sagði áreiðanlega hrein martröð fyrir stjórnendur samsteypunnar og raunar ótrúlegt að þeir hafi látið þetta renna sér úr greipum og enda ljóst tilvist Sýnar hangir á bláþræði í kjöfarið.

En svona er nú markaðurinn og stundum bjóða sumir einfaldlega betur en aðrir.

Það er hins vega eitt skondið við þetta allt saman. Nei, ekki bara skondið heldur bara ógeðslega fyndið. Á meðan að heil nefnd, skipuð af forsætisráðherra, situr að störfum til að koma með tillögur um hvernig leysa skuli upp „fjölmiðlaveldi Baugsfeðga“ þá geti hinn mikli risi ekki einu sinni haldið Enska boltanum og missi hann yfir til fámennrar auglýsingastöðvar.

En væntanlega hefur risinn þagað málið í hel til að komast hjá neyðarlegri umfjöllum um sjálfan sig, eða hvað?

DV, einn fótur risans, birti forsíðufrétt um málið, daginn eftir stærstu hryðjuverk í Evrópu í tuttugu ár. Það er í sjálfu sér dálítið skrýtið forsíðuval og rennir stoð undir grun minn að DV ætlar sér svipaða stöðu í fjölmiðlaheiminum og dálkurinn „Skrýtna fréttin“ í Fréttablaðinu.

En hvað um það, þessi atburðir sýna bara ágætlega að tilraunir til að líkja saman fjölmiðlarisanum hinum íslenska við fyrirtæki Berlusconis og heimfæra þannig einhver Miðjarðarhafsvandamál yfir á íslenskan veruleika eru byggðar á afar veikum grunni.

En úr hverju er þessi íslenski risi samsettur? Sjónvarpssviði hans sem gengið hefur mjög misjafnlega milli ára, stundum hefur það skilað hagnaði, oftast tapað, en allavega þá er vart að sjá að um arðrænandi peningamáskínu sé að ræða. Og svo eru það dagblöðin tvö, DV og Fréttablaðið, sem hafa skapað sér einokunarstöðu á markaðnum milli þess sem þau verða gjaldþrota. Til skiptis.

Áhyggjur um einokunarstöðu Risans á íslenskum fjölmiðlamarkaði eru stórlega orðum auknar eins og dæmið með Enska boltann sýnir. Ég tel að mikið þurfi að gerast til að þörf sé á sérstökum lögum um eignaraðild á fjölmiðlum – lýðræðinu til bjargar.

Beint lýðræði

Umræðan um beint lýðræði er ekki ný af nálinni. Samfylkingin hefur frá stofnun haft mikinn á áhuga á málaflokknum og Vinstri-grænir kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun samhliða seinustu kosningum. Eins hefur Björn Bjarnason nýlega fjallað um málið á heimasíðu sinni, þá í tengslum við hvort þjóðaratkvæðagreiðslur geti ekki reynst vera sá öryggisventill á störf þingsins sem margir telji að forsetaembættið sé. Framsóknarmenn hafa þó enn sem komið er lítið fjallað um málaflokkinn, eflaust af almennri þörf fyrir íhaldssemi og ótta við breytingar.

Munurinn á beinu lýðræði og fulltrúalýðræði er sá, eins og flestir vita, að í beinu lýðræði kjósa allir kosningabærir menn beint um málin á meðan í fulltrúalýðræði kjósa þeir fulltrúa sína sem síðan ráðstafa atkvæðum sínum í þar til gerðum þingum og ráðum. Ætla má að ástæðurnar fyrir fulltrúalýðræðinu hafi verið tæknilegs eðlis í fyrstu, ekki gekk að smala heillri þjóð í eitt herbergi, láta hana ræða málin og síðan kjósa um niðurstöðuna. Í dag er auðvelt að koma skoðun sinni á framfæri og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna er ekki flóknari en framkvæmd venjulegra kosninga.

Þær þjóðaratkvæðagreiðslur sem haldnar hafa verið á Íslandi hafa ekki verið til þess að svipta stjórnmálamenn völdum og fela þær í hendur fólksins. Eða hvað var flugvallarkosningin í raun? Var hún framsal á valdi? Nei, hún var framsal á ábyrgð. Borgaryfirvöld vildu gefa hugmynd sinni byr undir væng, enda hefði ekki verið jafnauðvelt að taka jafnafdrifaríka ákvörðun, nánast einhliða, ef ekki hefði legið eitthvað meira að baki hennar en vilji meirihluta borgarstjórnar.

Sjálfur kaus ég í þeirri kosningu og var sáttur við niðurstöðuna. En kosningin sjálf markaði ekki tímamót í íslensku lýðræði. Ekki fremur en kosningin um hundahald í Reykjavík eða kosningar um hvort opna eigi áfengisverslun í hinni og þessari sveit.

Í beinu lýðræði felst að venjulegir borgarar geti komið sínum málum á framfæri milliliðalaust. Í beinu lýðræði felst einnig réttur til að leggja fram eigin tillögur, en ekki bara að veita stjórnmálamönnum syndaaflausn með því að samþykkja hugmyndir sem þeir þora ekki að taka ábyrgð á sjálfir.

Einhvern veginn virðast sumir menn hafa það á tilfinningunni að ef menn hafi of mikið frelsi til leggja fram tillögur þá mundi það allt enda í einhverri vitleysu (Já, Svisslendingar, þeir hafa nú sleppt sér). Þetta er sama skoðun og heldur áfenginu í ríkinu og hélt ljósvakamiðlum í höndum hins opinbera. Menn óttast að allt of mikið frelsi geti gert menn bókstaflega brjálaða; menn leyfi allt og kunni sér hvergi hóf.

Aðrir óttast á hinn bóginn að fámennir en aktífir hópar muni geta komið öfgafullum hugmyndum sínum á framfæri, þjóðnýtt fallvötnin og bannað kjötát þvert á skoðanir hins þögla meirihluta sem er kannski ekki jafn æstur út af málinu og kýs því kannski ekki. Þetta er hvort sem er alltaf að gerast nú þegar. Til dæmis er landbúnaðarmálum áreiðanlega ekki stjórnað í takt við meirihluta vilja landsmanna, þeim er stýrt samkvæmt meirihluta þeirra sem láta þau sig einhverju varða, þ.e. bænda. Til viðbótar má segja að ef „hinn þögli meirihluti“ er svona ofboðslega þögull að hann nennir ekki einu sinni að kjósa, þá er hann auðvitað enginn meirihluti.

Ég held að þegar öllu er á botninn hvolft mundi það ekki breyta svo miklu að hafa hér virkt beint lýðræði. Einhver getur þá spurt til hvers að vera að standa í þessu öllu saman, með öllum tilheyrandi tilkostnaði ef að niðurstaðan á svo að vera nákvæmlega sú sama?

Ég svara þeirri spurningu með spurningu pólsks jaðarhægrimanns:

„Til hvers að láta konur kjósa? Þær kjósa hvort sem er alveg eins og mennirnir!“