Stórt, bandarískt fyrirtæki

mcdonaldsprotest.jpgAf einhverjum ástæðum er til fólk sem hatar sumt fólk og suma hluti. Þannig hefur McDonalds fyrirtækið lent í því að sitja undir stöðugum árásum ýmissa róttæklingahópa. Sumir þessara hópa samanstanda eflaust af fólki sem hefur þörf fyrir til vera í stríði við fyrirbæri sem hefur sinn eiginn fána á meðan aðrir vilja eflaust vel, en eru að misskilja.

Fjölmargar anti-McDonalds heimasíður er að finna á netinu og er www.mcspotlight.org ein þeirra sem vilja kynna sér þeirra hlið málsins. Það verður að segjast að jafnvel þótt menn trúi sögum af hlutfalli alvörunautakjöts í BigMac hamborgara þá er það kjöt engu að síður töluvert meira en kjötið í rökum andstæðinga fyrirtækisins.

Alls staðar eru tíndir til hlutir eins og að maturinn sé fitandi, ílátin mengi og auglýsingar höfði til barna. Vá, maður! Gildir eflaust um langflest fyrirtæki í matvælabransanum. Í sjálfu sér er ágætt að benda fólki á að borða ekki einungis feitan mat. En er ástæða til hata einhvern út af lífinu fyrir að selja hann? Varðandi auglýsingarnar er oft hjakkast á Ögmundarrökunum: “allt sem hægt væri að gera fyrir þessa peninga”. Reyndar eyðir McDonalds heilmiklum peningum til góðgerðamála, en getið þið hvað, kæru lesendur: “Það er bara ekki nóg.”

Svo er bent á hluti eins og erfðabreytt matvæli og almenna meðferð á dýrum. Enn og aftur eru það rök sem eiga við allan matvælaiðnaðinn. Þar að auki er víðast notast við innlenda framleiðslu, t.d. á Íslandi, þannig að heppilegra væri að beina reiði sinni til bændastéttarinnar í hverju landi fyrir sig. Sú stétt virðist hins vegar alltaf eiga samúð atvinnumótmælenda, enda eflaust framarlega á sviði sanngjarnar meðferðar á spendýrum. Allir og alltaf.

Að lokum kemur sama klisjan sem öll vestræn fyrirtæki sem fjárfesta í löndum þriðja heimsins þurfa sitja undir: ekki sé nóg gætt að réttindum starfsmanna. Líkt og Jón Steinsson benti á í pistli hér á Deiglunni fyrir stuttu síðan mundi slíkt minnka fjárfestingar í þeim löndum og auka enn á eymd starfsfólksins.

Nú má margt annað segja um starfsmannastefnu McDonalds. Fjölmargir brandarar ganga um starfsfólk fyrirtækisins og eru flestir þeirra einhvers konar staðfærsla á ranghugmyndum okkar um Bandaríkjamenn. Megininntakið er allavega það sama: “Starfsfólkið á McDonalds er heimskt.”

Slíku djóki er auðvitað aldrei hægt að svara. Ég get hins vegar bent á ákveðið atriði sem ég sjálfur tók eftir á mínum tæpum 3 mánuðum hjá margumræddu fyrirtæki. Lyst hf. ræður nefnilega bókstaflega hvern sem er, óháð ættartengslum og þjóðerni, og það sem meira er, framganga innan fyrirtækisins er hröð og ræðst af dugnaði starfsmannsins en ekki faðerni hans. Þannig hefur fyrirtækið fyllt upp í göt velferðarkerfisins, með því að gefa öllum séns. Launin voru töluvert hærri lágmarkslaunum og komu alltaf á réttum tíma. Þannig að ég blæs á alla þvælu um hörmulegan aðbúnað starfsmanna fyrirtækisins.

Telja má víst að aðalástæðurnar fyrir að svo margir hati McDonalds sé sú að fyrirtækið sé stórt og bandarískt. Ég get skilið að menn hati vopnaframleiðendur. En ég get ekki skilið að menn séu tilbúnir að eyða ævinni í að berjast gegn fyrirtæki sem framleiðir hamborgara, eins og milljón önnur fyrirtæki um allan heim. Það er engin að segja að Big Mac sé einhver þjóðsöngur skynfæranna en að menn þurfi að halda uppi vefsíðum, kveikja í fána fyrirtækisins og leggja skyndibitastaðina í rúst, er það ekki of mikið?

Athugið. Skyndibitastaðina. Guð blessi okkur fyrir að lifa á Vesturlöndum, ef að þetta er nú versti óvinurinn.

Leave a Reply

Your email address will not be published.