Greiðendur afnotagjalda, athugið

ice_ruv.jpgÞað er eitt sem miðlar þola illa og það er gagnrýni sjálfa sig. Í Fréttablaðinu um helgina birtist frétt um að RÚV hafi neitað að birta auglýsingu frá SkjáEinum sem höfðaði til þeirra sem nauðugir greiða afnotagjöld en RÚV kallar “viðskiptavini sína” á tyllidögum. Þetta er í annað skipti á stuttum tíma sem “hornsteinn lýðræðislegrar umræðu í landinu” neitar að birta auglýsingu sem er gagnrýni tilvist og rekstrarform sjálfs sín.

Fréttablaðið náði tali af starfsmanni RÚV sem útskýrði afstöðu stofnunarinnar. Auglýsingin væri villandi þar sem líkt væri saman áskrift annars vegar og afnotagjöldum hins vegar. En þetta er víst tvennt ólíkt.

Nú gæti einhver haldið að munur á áskriftargjöldum og afnotagjöldum sé helst sá að þau fyrrnefndu séu greidd af fúsum og frjálsum vilja á meðan þau síðari greiðast nauðug. En, nei. Það er víst ekki aðalmunurinn.

“Með áskrift greiðir viðkomandi fyrir efni en fyrir afnot með afnotagjöldum.”

Svona útskýrði opinber starfsmaður hinn skýra mun sem hefur leitt af sér svo margan misskilning. Já, þetta var hinn mikli misskilningur, hin mikla rangfærsla sem orsakaði það að neitað var að birta auglýsingu SkjásEins.

Það er nú gott ef að fleiri slíkir misskilningar væru leiðréttir. Stimpilgjöld eru t.d., þrátt fyrir að því sé oft haldið fram, ekki skattur, heldur gjöld sem tekin eru vegna notkunar á stimpli. Einnig kostar alls ekki neitt að keyra gegnum Hvalfjarðargöngin, en hins vegar innheimtir Spölur hf. ákveðið “veggjald” sem standa á undir kostnaði við byggingu og viðhald ganganna. Nám við Háskóla Íslands er einnig algjörlega ókeypis þótt nemendur þurfi að greiða ákveðna upphæð, sk. innritunargjald, sem standa eiga straum af kostnaði við innritun nemenda.

En aftur að efninu. Það eru oft rök þeirra sem vilja halda í ríkisrekið sjónvarp að slíkt eigi að tryggja opna og lýðræðislega umræðu. En hvernig á slíkt að vera hægt ef stofnunin getur ekki einu sinni þolað gagnrýni á sitt eigið rekstrarform? Andstaða við afnotagjöldin er fremur almenn og það að höfða til hennar í auglýsingu getur seint talist hættulegt lýðræðinu, nema auðvitað að stjórnendur RÚV telji stofnun sína beinlínis ástæðu lýðræðis í landinu. Að raska frið hennar sé eins og að raska frið Alþingis: Ógn við lýðveldið.

Svona er þetta alltaf. Engin er duglegri að sýna fram á þörf sína en forstöðumaður gagnslausrar ríkisstofnunar; og því gagnslausari sem stofnunin er þeim mun kröftugri verður orðræðan. Ef RÚV yrði lagt niður mundu fréttaskýringar hverfa og klám koma í staðinn. Í augum forstjóra ÁTVR gætu einkaaðilar aldrei séð fyrir jafnmiklu úrvali af áfengi og aðeins væri hægt að fá landa blandaðan í Pepsí í sveitum landsins ef stofnunin yrði lögð niður.

Sem betur fer ferðast Íslendingar sífellt meira til útlanda og geta því séð í gegnum svona tal. Í einkareknum vínbúðum úti í heimi er boðið upp á úrval og þjónustu sem Ríkið getur ekki einu sinni dreymt um og eflaust væri hægt að búa fyrir framan sjónvarpið í Bandaríkjunum þrátt fyrir að þar sé engin stór ríkissjónvarpsstöð með metnaðarfulla (les. leiðinlega) dagskrá.

Áðurnefnd dæmi um framkomu RÚV sýna hve óraunhæft það er að ætla að miðill verði á einhvern hátt hlutlausari og opnari bara við það að starfsmenn þiggi laun af ríkinu. Á flestum vinnustöðum myndast ákveðinn andi meðal starfsmanna sem slá skjöld um vinnustaðinn þegar á hann er ráðist. Eflaust geta eignatengsl skemmt fyrir sanngjörnum fréttaflutningi og hlutleysi einkarekinna miðla. En móðursýkisleg sjálfsbjargarhvöt opinberra starfsmanna virðist ekki síðri ritskoðunarhvati en afstaða eigenda til þess sem fjallað er um.

Leave a Reply

Your email address will not be published.