Ralph Nader farinn fram

hospitality.jpgRalph Nader hefur lýst því yfir að hann ætli að bjóða sig fram til forseta sem óháður frambjóðandi. Það segir svolítið um bandarísk stjórnmál að fylgið sem Ralph Nader fékk fyrir 4 árum síðan er svipað fylginu sem Ástþór Magnússon fékk í forsetakosningunum 1996. Svo mikil eru áhrif þriðju framboða á bandarísk stjórnmál.

Þetta mun vera í 3. skipti sem hinn sjötugi Nader býður sig fram til forseta, en fyrstu tvö skiptin fór hann fram fyrir Græningjaflokkinn. Nú býður hann sig hins vegar fram sem óháður frambjóðandi. Töluverð læti hafa verið í kringum Nader að undanförnu og hafa ýmsir Demokratar lagt hart að Nader að bjóða sig ekki fram til að skemma ekki fyrir væntanlegum frambjóðanda þeirra.

Það er í sjálfu sér mjög eðlilegt að menn reyni hvað sem þeir geti til að hámarka líkur á sigri frambjóðanda síns. En rökin fyrir um að „mikið sé í húfi“ eru það kjánaleg að Nader eða hver annar óháður frambjóðandi væri hálfviti ef hann mundi gleypa við þeim.

Stjórnmálaflokkar eru stofnaðir til að ná völdum. Þeir einstaklingar sem taka þátt í stjórnmálaflokki gera með sér samning um að þeir sameinist um að einhverjir þeirra komist til áhrifa og vinni að hugsjónum hinna. Það er því rökrétt að tveir einstaklingar í sama framboðinu bjóði sig ekki fram í kosningum þar sem aðeins einn nær kjöri. Það mundi minnka líkur þeirra beggja á sigri.

Hins vegar er auðvitað út í hött að krefjast þess að einhver annar, utan við flokkinn taki á sig þá ábyrgð að tryggja kjör einhverra einstaklinga innan hans. Hvað ætti hann svo sem að hafa á því að græða? Nákvæmlega ekki neitt. Það er skrýtið að sakast 2,74% jaðarframbjóðanda í stað þess að líta á aðra, augljósari, þætti eins og asnalegt kosningakerfi, atkvæðisréttarsviptingu fyrrverandi fanga, sem kemur illa niður á þeldökkum Bandaríkjamönnum, og auðvitað klúður Demokratanna sjálfra.

Í öðru lagi hafa litlir flokkar í Bandaríkjunum víða ekki neitt val um hvort þeir bjóði fram eða ekki. Stór hluti baráttu þeirra snýst bara um það að fá að koma frambjóðendum sínum á kjörseðilinn og um það að þeir fái að auðkenna sig með þeim flokki sem þeir tilheyra. Stóru flokkarnir tveir hafa sniðið kosningalöggjöf að sínum þörfum og gert allt til að hindra uppgang annara framboða. Skilyrðin fyrir því hvað telst vera „Major Party“ eru breytileg eftir fylkjum en fjöldi atkvæða í seinustu forsetakosningum kemur þar oft við sögu. Ef flokkur mundi ekki bjóða fram í forsetakosningum mundi hann geta dottið út kjörseðlunum í næstu kosningum þar á eftir.

Það er reyndar af þessari ástæðu sem margir Græningjar geta ekki hugsað sér að missa af Ralph Nader í þessari baráttu enda ljóst að frambjóðandi Græningja mun fá lítið fylgi ef hann býður fram samhliða Ralph. Sjálfur gefur Nader upp þá skýringu að Græningjaflokkurinn haldi ekki landsfund sinn fyrr en í sumar og hann vildi byrja fyrr. Hins vegar hefur flokkurinn ekki mikið val um þessa dagsetningu sökum lagasetningar í mörgum fylkjum, og þetta veit Nader væntanlega. Aðalástæðan er væntanlega sú að hann telji geta náð til fleiri kjósenda ef hann býður sig fram sem óháður frambjóðandi enda hefur slíkum frambjóðendum oftast vegnað betur en frambjóðendum smáflokka. En er þó stór hópur Græningja sem leggur hart að Nader að bjóða sig fram fyrir hönd flokksins og svo gæti jafnvel farið að flokkurinn tilnefni hann til forseta án þess að hann sækist sérstaklega eftir því.

Það er ljóst að Ralph Nader á engan möguleika á að vera kjörin forseti. Það er þó vonandi framboð hans muni hafa þau áhrif að kosningakerfið í Bandaríkjunum muni taka breytingum ef áhrif hans verða veruleg. Núverandi, „first past the post“ einmenningskjördæmakerfi ásamt gríðarlegu reglugerðafargani um hverjir mega bjóða sig fram og undir hvaða flokksnafni hefur skapað lýðræðishalla sem endurspeglast í lækkandi kjörsókn.

Ef Demókratar eru ósáttir við hvaða áhrif þátttaka Naders hefur á þeirra gengi geta þeir reynt að breyta kerfinu. Þeir hafa hins vegar ekki gert neina tilraun til þess enda hentar það þeim betur ef erfitt er að stofna flokk sem hirðir af þeim fylgið. Í staðinn ofsækja þeir óháða frambjóðendur, reyna að höfða til vinstri-siðferðiskenndar þeirra og segja „Ég veit að þú vilt vel en þú ert bara að skemma enn þá meira fyrir, svona er bara kerfið.“

Kerfið sem þeir sjálfir hafa búið til.

Gestrisin landsbyggð

hospitality.jpgAð einu leyti er íslenska landsbyggðin aðdáunarverð. Víða erlendis yrði erfitt að troða óvinsælu mannvirki eða vandræðastofnun inn í smátt bæjarfélag. Menn stofna félög og hlekkja hönd við fót bara til að koma í veg fyrir að útvarpsmastur verði reist í bænum, meðferðarstofnun flutt þangað eða nýtt fangelsi byggt. Slíkir baráttumenn hafa verið kallaðir NIMBA-fighters, fyrir „Not in My Backyard,“ enda fáir þeirra sem leggjast gegn fyrirbærum sem slíkum en vilja, af misfordómafullum ástæðum, að þeir verði hafðir annars staðar en í bakgarðinum hjá þeim. Hér á landi er þessu öfugt farið.

Já, landsbyggðaflóttinn hefur þá a.m.k. haft þessar jákvæðu afleiðingar í för með sér. Svo meðvitaðir eru íbúarnir um varnarstöðu byggða sinna að þeir taka fagnandi á móti hverju því drasli sem snúið getur við þróuinni, fengið fleira fólk í bæinn eða a.m.k. hægt á flóttanum. Menn flagga til að fagna komu álvers, eitthvað sem ótrúlegt mundi teljast annars staðar á Vesturlöndum. Og útkjálkarnir slást um að fá flóttafólk til sín. Raða saman fallega gjafakörfu handa íbúum Balkansskaga, einungis til að sjá á eftir þeim í borgina að ári liðnu.

Á Íslandi er staður þar sem fólk býr skammt frá herstöð, og er bara himinlifandi með það. Ekki bara himinlifandi með stöðina sjálfa, heldur beinlínis óttaslegið yfir því að hún gæti verið á förum. Litla herstöðin þeirra. Meðferðarheimili eru góð, fangelsi frábær, vinnubúðir vegna stóriðjuframkvæmda, hreinn draumur. Allt andhverfa þess sem mundi gerast úti í hinum stóra sjálfumglaða heimi.

Já, ef allir íbúar þessa heims yrðu svo þakklátir fyrir það sem þeir hafa eins og íslenskir landsbyggðarbúar! Þýskir hippar mundu ekki hlekkja sig við teina til að hindra flutning á geislavirkum efnum. Nei, þeir mundu halda skrúðgöngu flutningunum til heiðurs. Mundu standa meðfram teinunum og veifa til lestarstjórans og þakka honum fyrir þá atvinnu sem gegnumkeyrsla hans veitir. Og ef pólskir sveitungar mundu fagna því að meðferðarstofnum fyrir HIV-jákvæða fíkla væri að koma í dalinn í stað þess að standa mótmælastöðu með Maríulíkneski í broddi fylkingar.

Þá væri nú aðeins auðveldara að stjórna þessari bansettu veröld.

En þótt gestrisni íslenskrar landsbyggðar sem sé jákvæð og öðrum landsbyggðum heims til fyrirmyndar er ekki þar með sagt að við eigum að nýta okkur hana alltaf. Stundum getur nefnilega verið dýrt að vera í heimssókn.

Lengi hefur verið skortur fangelsi á höfuðborgarsvæðinu, sér í lagi þegar kemur að geymslu gæsluvarðhaldsfanga. Það er fínt að vista ótínda glæpamenn fjarri spilltri borginni, í von um að sveitaloftið og mystíska landslagið fylli þá með nýrri lífsýn. En það er einfaldlega of kostnaðarsamt að hafa gæsluvarðhaldsfangelsi of langt í burtu.

Undanfarin ár hefur þurft að vista gæsluvarðhaldsfanga á Litla-Hrauni. Rannsóknarlögreglumenn hafa því þurft að keyra þangað vegna yfirheyrslna. Þegar lagt er af stað segist fanginn ekki vilja hafa lögmann viðstaddan, þegar komið er á staðinn skiptir hann um skoðun og þá þarf að bíða eftir lögmanninum o.s.frv. Svona leikur óþjóðalýðurinn sér að lögunum. Lögreglumennirnir þurfa að skutlast á milli og hanga í kaffi meðan að unglingar í borginni kveikja í bílum og éta upp úr ruslatunnum.

Af ofantöldum ástæðum er ég því andvígur því að nýtt fangelsi verði reist á Suðurnesjum. Stundum verður einfaldlega mun ódýrara að hafa hluti í höfuðborginni. En hin bjartsýni ákafi landsbyggðarinnar til að sópa til sín verkum sem annars staðar þættu ógeð er virðingarverður og ekki skrýtið að menn freistist til að verðlauna hann með heimskulegum tilfærslum ríkisstofnana, af og til.

Stórt, bandarískt fyrirtæki

mcdonaldsprotest.jpgAf einhverjum ástæðum er til fólk sem hatar sumt fólk og suma hluti. Þannig hefur McDonalds fyrirtækið lent í því að sitja undir stöðugum árásum ýmissa róttæklingahópa. Sumir þessara hópa samanstanda eflaust af fólki sem hefur þörf fyrir til vera í stríði við fyrirbæri sem hefur sinn eiginn fána á meðan aðrir vilja eflaust vel, en eru að misskilja.

Fjölmargar anti-McDonalds heimasíður er að finna á netinu og er www.mcspotlight.org ein þeirra sem vilja kynna sér þeirra hlið málsins. Það verður að segjast að jafnvel þótt menn trúi sögum af hlutfalli alvörunautakjöts í BigMac hamborgara þá er það kjöt engu að síður töluvert meira en kjötið í rökum andstæðinga fyrirtækisins.

Alls staðar eru tíndir til hlutir eins og að maturinn sé fitandi, ílátin mengi og auglýsingar höfði til barna. Vá, maður! Gildir eflaust um langflest fyrirtæki í matvælabransanum. Í sjálfu sér er ágætt að benda fólki á að borða ekki einungis feitan mat. En er ástæða til hata einhvern út af lífinu fyrir að selja hann? Varðandi auglýsingarnar er oft hjakkast á Ögmundarrökunum: „allt sem hægt væri að gera fyrir þessa peninga“. Reyndar eyðir McDonalds heilmiklum peningum til góðgerðamála, en getið þið hvað, kæru lesendur: „Það er bara ekki nóg.“

Svo er bent á hluti eins og erfðabreytt matvæli og almenna meðferð á dýrum. Enn og aftur eru það rök sem eiga við allan matvælaiðnaðinn. Þar að auki er víðast notast við innlenda framleiðslu, t.d. á Íslandi, þannig að heppilegra væri að beina reiði sinni til bændastéttarinnar í hverju landi fyrir sig. Sú stétt virðist hins vegar alltaf eiga samúð atvinnumótmælenda, enda eflaust framarlega á sviði sanngjarnar meðferðar á spendýrum. Allir og alltaf.

Að lokum kemur sama klisjan sem öll vestræn fyrirtæki sem fjárfesta í löndum þriðja heimsins þurfa sitja undir: ekki sé nóg gætt að réttindum starfsmanna. Líkt og Jón Steinsson benti á í pistli hér á Deiglunni fyrir stuttu síðan mundi slíkt minnka fjárfestingar í þeim löndum og auka enn á eymd starfsfólksins.

Nú má margt annað segja um starfsmannastefnu McDonalds. Fjölmargir brandarar ganga um starfsfólk fyrirtækisins og eru flestir þeirra einhvers konar staðfærsla á ranghugmyndum okkar um Bandaríkjamenn. Megininntakið er allavega það sama: „Starfsfólkið á McDonalds er heimskt.“

Slíku djóki er auðvitað aldrei hægt að svara. Ég get hins vegar bent á ákveðið atriði sem ég sjálfur tók eftir á mínum tæpum 3 mánuðum hjá margumræddu fyrirtæki. Lyst hf. ræður nefnilega bókstaflega hvern sem er, óháð ættartengslum og þjóðerni, og það sem meira er, framganga innan fyrirtækisins er hröð og ræðst af dugnaði starfsmannsins en ekki faðerni hans. Þannig hefur fyrirtækið fyllt upp í göt velferðarkerfisins, með því að gefa öllum séns. Launin voru töluvert hærri lágmarkslaunum og komu alltaf á réttum tíma. Þannig að ég blæs á alla þvælu um hörmulegan aðbúnað starfsmanna fyrirtækisins.

Telja má víst að aðalástæðurnar fyrir að svo margir hati McDonalds sé sú að fyrirtækið sé stórt og bandarískt. Ég get skilið að menn hati vopnaframleiðendur. En ég get ekki skilið að menn séu tilbúnir að eyða ævinni í að berjast gegn fyrirtæki sem framleiðir hamborgara, eins og milljón önnur fyrirtæki um allan heim. Það er engin að segja að Big Mac sé einhver þjóðsöngur skynfæranna en að menn þurfi að halda uppi vefsíðum, kveikja í fána fyrirtækisins og leggja skyndibitastaðina í rúst, er það ekki of mikið?

Athugið. Skyndibitastaðina. Guð blessi okkur fyrir að lifa á Vesturlöndum, ef að þetta er nú versti óvinurinn.

Greiðendur afnotagjalda, athugið

ice_ruv.jpgÞað er eitt sem miðlar þola illa og það er gagnrýni sjálfa sig. Í Fréttablaðinu um helgina birtist frétt um að RÚV hafi neitað að birta auglýsingu frá SkjáEinum sem höfðaði til þeirra sem nauðugir greiða afnotagjöld en RÚV kallar „viðskiptavini sína“ á tyllidögum. Þetta er í annað skipti á stuttum tíma sem „hornsteinn lýðræðislegrar umræðu í landinu“ neitar að birta auglýsingu sem er gagnrýni tilvist og rekstrarform sjálfs sín.

Fréttablaðið náði tali af starfsmanni RÚV sem útskýrði afstöðu stofnunarinnar. Auglýsingin væri villandi þar sem líkt væri saman áskrift annars vegar og afnotagjöldum hins vegar. En þetta er víst tvennt ólíkt.

Nú gæti einhver haldið að munur á áskriftargjöldum og afnotagjöldum sé helst sá að þau fyrrnefndu séu greidd af fúsum og frjálsum vilja á meðan þau síðari greiðast nauðug. En, nei. Það er víst ekki aðalmunurinn.

„Með áskrift greiðir viðkomandi fyrir efni en fyrir afnot með afnotagjöldum.“

Svona útskýrði opinber starfsmaður hinn skýra mun sem hefur leitt af sér svo margan misskilning. Já, þetta var hinn mikli misskilningur, hin mikla rangfærsla sem orsakaði það að neitað var að birta auglýsingu SkjásEins.

Það er nú gott ef að fleiri slíkir misskilningar væru leiðréttir. Stimpilgjöld eru t.d., þrátt fyrir að því sé oft haldið fram, ekki skattur, heldur gjöld sem tekin eru vegna notkunar á stimpli. Einnig kostar alls ekki neitt að keyra gegnum Hvalfjarðargöngin, en hins vegar innheimtir Spölur hf. ákveðið „veggjald“ sem standa á undir kostnaði við byggingu og viðhald ganganna. Nám við Háskóla Íslands er einnig algjörlega ókeypis þótt nemendur þurfi að greiða ákveðna upphæð, sk. innritunargjald, sem standa eiga straum af kostnaði við innritun nemenda.

En aftur að efninu. Það eru oft rök þeirra sem vilja halda í ríkisrekið sjónvarp að slíkt eigi að tryggja opna og lýðræðislega umræðu. En hvernig á slíkt að vera hægt ef stofnunin getur ekki einu sinni þolað gagnrýni á sitt eigið rekstrarform? Andstaða við afnotagjöldin er fremur almenn og það að höfða til hennar í auglýsingu getur seint talist hættulegt lýðræðinu, nema auðvitað að stjórnendur RÚV telji stofnun sína beinlínis ástæðu lýðræðis í landinu. Að raska frið hennar sé eins og að raska frið Alþingis: Ógn við lýðveldið.

Svona er þetta alltaf. Engin er duglegri að sýna fram á þörf sína en forstöðumaður gagnslausrar ríkisstofnunar; og því gagnslausari sem stofnunin er þeim mun kröftugri verður orðræðan. Ef RÚV yrði lagt niður mundu fréttaskýringar hverfa og klám koma í staðinn. Í augum forstjóra ÁTVR gætu einkaaðilar aldrei séð fyrir jafnmiklu úrvali af áfengi og aðeins væri hægt að fá landa blandaðan í Pepsí í sveitum landsins ef stofnunin yrði lögð niður.

Sem betur fer ferðast Íslendingar sífellt meira til útlanda og geta því séð í gegnum svona tal. Í einkareknum vínbúðum úti í heimi er boðið upp á úrval og þjónustu sem Ríkið getur ekki einu sinni dreymt um og eflaust væri hægt að búa fyrir framan sjónvarpið í Bandaríkjunum þrátt fyrir að þar sé engin stór ríkissjónvarpsstöð með metnaðarfulla (les. leiðinlega) dagskrá.

Áðurnefnd dæmi um framkomu RÚV sýna hve óraunhæft það er að ætla að miðill verði á einhvern hátt hlutlausari og opnari bara við það að starfsmenn þiggi laun af ríkinu. Á flestum vinnustöðum myndast ákveðinn andi meðal starfsmanna sem slá skjöld um vinnustaðinn þegar á hann er ráðist. Eflaust geta eignatengsl skemmt fyrir sanngjörnum fréttaflutningi og hlutleysi einkarekinna miðla. En móðursýkisleg sjálfsbjargarhvöt opinberra starfsmanna virðist ekki síðri ritskoðunarhvati en afstaða eigenda til þess sem fjallað er um.