Miklar breytingar í áfengismálum framundan?

Það verður ekki sagt að ræst hafi sú von manna að tilkoma “allra ungu þingmanna og -kvenna” muni á einhvern hátt fríska upp á þingið og gera það frjálslyndara. Líkt og áður hefur verið fjallað um hér á Deiglunni hefur framlag þessa fólks til þingstarfa á nýfrestuðu þingi verið afar snautt, svo ekki sé sterkara að orði kveðið.

En til að gæta sanngirni verður þó að minnast á að almennt er eflaust framlag einstakra þingmanna, sem ekki eru ráðherrar, til þingstarfa afar snautt einnig, sama hve gamlir þeir eru. Það virðist einfaldlega vera mjög erfitt fyrir einhvern annan en ráðuneyti að semja frumvarp og fá það samþykkt.

Þannig er löggjafarvaldið nú orðið næstum eingöngu í höndum ráðuneytana, sem er áhyggjuefni. Óbreyttir þingmenn virðast sjaldan einu sinni geta samið sín eigin frumvörp heldur bera upp þingsályktunartillögur um “að Alþingi skori ráðuneyti að setja lög um hundarækt.”

Þetta er raunar vel skiljanlegt þar sem allur aðbúnaður þingmanna er fábrotin miðað við það sem ráðuneytin hafa. Farsælast af öllu væri að skilja á milli þingsetu og ráðherrastóls, fækka þingmönnun (t.d. niður í 25) og ráða aðstoðarmenn handa þeim sem eftir eru. Þannig væri hægt að skerpa aftur skilin milli löggjafar- og framkvæmdavaldsins.

En aftur að ungu þingmönnunum. Það kemur kannski ekki svo mikið á óvart að “unga fólkið” skyldi á endanum haga sé eins og allir aðrir í þeirra flokki. Fólk tilheyrir, jú, stjórnmálahreyfingu af einhverri ástæðu svo það var kannski óraunhæft að allir sem eru yngri en 36 ára mundu nú taka sig saman og gera “eitthvað unglegt” þvert á flokkslínur.

Helsta frávikið frá flokkspólitískum atkvæðagreiðslum er þegar um er að ræða svokölluð siðferðismál: t.d. box, áfengi og vændi. Þau mál njóta jafnan mikillrar athygli almennings en minni athygli þings og komast oft ekki út úr nefnd.

Eflaust finnst mörgum þingmönnum þessi mál óþægileg enda kljúfa þau jafnan flokka og þar að auki finnst mörgum eflaust óþægilegt að gefa upp skoðun sína á þeim.

Nú liggur fyrir þinginu frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri þingmanna um að lækka áfengiskaupaaldur niður í 18 ár. Jóhanna hefur áður borið þetta upp en ekki tekist að koma frumvarpinu í aðra umræðu.

Það væri löngu tímabær breyting ef þetta næði í gegn. En svo færi ekki þá er það alla vega mín heitasta ósk að málið komist til atkvæðagreiðslu svo fólk gæti séð skoðun þingmanna á þessu máli. Allt of margir þingmenn setja upp derhúfur og taka karókí fyrir kosningar í því skyni að ná til unga fólksins en hafa ekki löngun til að leggja þessu einfalda baráttumáli þeirra lið.

Einnig er nú nauðsynlegt að framhaldskólanemar tjái sig um málið með áberandi hætti svo þingið finni fyrir þrýstingi utan úr þjóðfélaginu. Afar lítið hefur frá þeim heyrst að undanförnu. Eflaust fyndist mönnum neyðarlegt að láta umheim vita þeirra heitasta ósk, það sem þeir vildu helst breyta í þjóðfélaginu, er að geta orðið fullur fyrr og auðveldar.

Ungt fólk fær alltaf minnimáttakennd gagnvart öllum málefnalegu málunum og þorir ekki að láta í ljós hve miklu máli slíkur “hégómi” eins og lækkun áfengiskaupaaldurs skiptir. Þess vegna eru menn fljótir að setja málið í skúffu þegar 20 ára afmælinu er náð. En frelsið kemur ekki af sjálfu sér og því verða þeir sem telja sig hafa hagsmuna að gæta að fylgja þeim eftir.

Hefðu konur fengið að kjósa ef þær hefðu ekki krafist þess sjálfar?

Leave a Reply

Your email address will not be published.