Sprellað í þágu alþýðunnar

asi.jpgÞað alltaf hægt að stóla á smá fjör og öskur þegar laun þingmanna hækka og þrátt fyrir að þær raddir sem heyrast í hvert skipti eru oft á tíðum afar popúlískar og ófrumlegar eiga þær auðvitað fullkominn rétt á sér. Flest okkar þurfa að semja við einhvern annan um launin okkar. Stjórnmálamenn hafa hins vegar þá stöðu að geta samið við sjálfa sig, en á okkar kostnað. Það er því fullkomlega réttmætt að við skoðum þá samninga með sérstakri athygli og gagnrýni. Reyndar væri frábært ef fólk nálgaðist önnur opinber útgjöld af jafn mikillri tortryggni og laun stjórnmálamanna, þá væri útsvarið kannski annað en það er í dag og verðið á bjór væri einu núlli styttra.

Já, en allavega fór leikhúsið í gang. Menn veifuðu spjöldum á Austurvelli. Þingmenn stjórnardandstöðunnar misreiknuðu almenningsálitið og þurftu að andmæla sínu eigin frumvarpi og sátu svo flestir miskunnarlaust hjá þegar á hólminn var komið. En úr röðum stjórnarinnar bárust raddir um að frumvarpið gæfi mönnum sem starfað hafi lengi færi á að “hætta með reisn”.

Nei, ekki viljum við að stjórnmálamenn okkar endi órakaðir niðri í skítugri holu sem hulin er með frauðplastbút. Gott og vel, þeir skulu fá að hætta með reisn, en líkt og áður sagði eru þeir sjálfir sem ákveða þessa reisn sína en við hin greiðum svo eðlilegt er að fólk bendi á það sem því finnst rangt vera að staðið.

Stuttu eftir að “reisnarfrumvarpið” var afgreitt bárust fréttir frá mönnum hverra starfi fylgir einnig töluverður skammtur af hvers kyns reisn. Verkalýðshreyfingin hafði tilkynnt um að nú skyldu lífeyrismál vera aðalmálin í næstu kjaraviðræðum. Bara svona skyndilega. Voða fyndið og sniðugt. Nú skulum við sýna þessum ráðherrum í tvo heimana með því að hefna okkar á… ummm… atvinnulífinu.

Mér finnst þetta sjálfum bara ekkert sniðugt og ekkert fyndið. Að auki efast ég um að þessar áherslur samræmist væntingum hins almenna launþega sem vill eflaust frekar auka þúsundkallinn sinn núna en ekki eftir 40 ár. Þar fyrir utan hefur fyrri eftirlaunaaldur hingað til ekki þótt brýnasta kjaramál þessarar vinnusjúku þjóðar.

Framkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í nýlegu útvarpsviðtali að hann teldi flesta launþega hafa meiri hag af því að vera með háar tekjur um fertugt en um sjötugt eins og kröfurnar virðast vera í dag. Undir þetta er auðvelt taka. Eflaust hefðu flestir launþegar meira gagn af háum launum þegar þeir eru á unga aldri: þurfa að gefa börnum mat og klæða þau í hlý föt, eru að greiða af íbúð eða bíl fremur en þegar þeir eru komnir á áttræðisaldur. Ættu menn ekki að fá að njóta ávöxtunarinnar meðan þeir eru enn ungir og hafa heilsu til? Vilji menn leggja aukalega til gömlu áranna geta þeir gert það að sjálfsögðu en það ætti að vera þeirra val.

Það skal tekið undir það að samræma beri lífeyriskilyrði opinbera starfsmanna við það sem gerist á almennum markaði. Slíkt er fullkomlega sanngjörn krafa enda út í hött að almennir launþegar þurfi að bera aukinn kostnað vegna fólks sem valið hefur starfsframa hjá hinu opinbera. En samræmingin verður að vera í þá átt að ríkið breyti lífeyriskjörum sínum til samræmis við það sem gerist hjá einkaaðilum en ekki öfugt. Slíkt væri í takt við þær jákvæðu breytingar sem átt hafa sér stað í íslensku atvinnulífi undanfarin ár: einkavæðingu ríkisfyrirtækja og afnám hafta.

Það er ekki nóg með að kröfur verkalýðshreyfingarinnar séu vondar og samfélaginu dýrar heldur er það hvernig þær eru settar fram dæmi um hrokafulla framkomu manna sem fá að ráðstafa nauðungarfélagsgjöldum “félagsmanna” áratugum saman en engin virðist nokkurn tímann þurfa að kjósa. Eru launþegar ekki orðnir þreyttir á liði sem notar launabaráttu þeirra sem útspil í pólitískri baráttu? Sinni eigin pólitísku baráttu?

Að ferja dót

sheepferry.jpgEflaust hafa flestir heyrt eftirfarandi gátu. Bóndi þarf að flytja, úlf, rollu og heystakk yfir á. Báturinn getur tekið bóndann og eina skepnu/hlut. Ekki má skilja rolluna og úlfinn eða rolluna og heyið eftirlitslaust á neinum tímapunkti. Hvernig má gera þetta í sem fæstum ferðum?

Þessi gáta er raunar mjög gömul og fyrstu heimildur um hana eru frá Alcuin af York (735–804), samtímamanni Karls mikla. Hún að sjálfstögðu til í ýmsum útgáfum sem taka mið landbúnaðarvenjum þeirra svæða sem við á hverju sinni. Á íslensku er hún best þekkt á bundnu formi og hljóðar svo:

Hvernig flutt var yfir á

úlfur, lamb og heypokinn?

Ekkert granda öðru má

Eitt og mann tók báturinn

Eins og flestir þekkja felst lausnin í því að taka rolluna yfir, fara svo aftur að ná í úlfinn, fara síðan með rolluna til baka og sækja heyið og fara svo loks til baka að sækja kindgreyið. Þegar börn (eða fólk almennt) heyra lausnina í fyrsta skipti spyrja þau oft undrandi: “Nú, má fara með dót til baka?”

Það er stærðfræðingum að mörgu leyti huggun að einhver skildi enn gerast svo abstrakt að sjá helst þennan galla á verkefninu og finnast hann svikinn. Að mönnum finnist ekki hafa verið nógu skýrt kveðið á um hvað sé heimil aðgerð og hvað ekki en kippi sér ekki upp við augljósan fáranleika gátunnar að öðru leiti. Af hverju í andskotanum ætti bóndi t.d. að vera að ferja einhvern úlf?

Margar gátur með svipuðu þema eru þekktar um allan heim. Hér eru þrjár þeirra.

Karlrembugátan

Þrjú nýgift pör eru að reyna að komast yfir á. Báturinn tekur tvo og í hverri ferð þarf einhver að stýra honum. Eiginmennirnir eru afar afbrýðissamir og engin þeirra vill að kona hans sé á einhverjum tíma á einhverjum stað með öðrum karlmanni án þess að hann sé þar. Hvernig komast pörin þrjú yfir í sem fæstum ferðum?

Rasíska gátan

Þrír trúboðar og þrjár mannætur eru að reyna að komast yfir á. Tveir komast í bátinn og einn verður að róa honum. Aldrei má það gerast að á einhverjum stað verði fleiri mannætur en trúboðar, (nema ef engir trúboðar eru þar) því þá munu mannæturnar yfirbuga trúboðana og éta þá. Hvernig kemst fólkið yfir?

Rússneska gátan

Þrír hermenn eru að reyna komast yfir mikla á. Tveir ungir strákar með bát bjóðast til að hjálpa þeim. Báturinn er það lítill að hann getur aðein tekið einn hermann eða tvo stráka (en ekki einn af hvoru) í hverri ferð. Hvernig geta hermennirni komist allir yfir í sem fæstum ferðum og skilað bátnum aftur til strákanna?

Eflaust væri hægt að punga út eihverju niðurlagi á þessa grein sem væri eitthvað á þá leið að “þrátt fyrir að samgöngumátar fólks hafi breyst” þá sé engu að síður “nauðsynlegt að temja sér skipulagða hugsun” til að “nýta sem best þau tæki og tól sem notuð eru til fólksflutninga hverju sinni.”

Hins vegar er ljóst að gáturnar eru fyrst og fremst áhugaverðar fyrir það að opna fyrir fólki heim abstrakt stærðfræði sem fæstir hætta sér í ef hann er ekki klæddur í form gátu eða þrautar. Hvað hagnýtingunni við kemur þá getur það seint talist viðunandi lausn á vandamáli ferja rollu fram og til baka. Hvort sem það gerist með hjálp báts eða flugvélar.

Jól hinna trúlausu

JólÞað er tvennt sem hægt er að ganga að vísu í jólaösinni ár hvert. Í fyrsta lagi er það sú staðhæfing að jólaverslunin fari „óvenjusnemma af stað þetta árið“ og í öðru lagi er það áminningin um hvert „hið sanna inntak jólanna“ sé. Í ár hefur orðið áminingin að mestu farið fram með fulltingi leikskólabarna en undirritaður hefur þegar rekist á tvær dagblaðagreinar þar sem þessir yngstu borgarar sýna flekklausa þekkingu á þessum tiltekna atburði kristinnar trúar.

Þetta er okkur öllum glæsileg sárabót á tímum þegar fjölmiðlamenn nýta hvern einasta lögbundinn frídag til að hlaupa um göturnar og opinbera fyrir almenningi hans eigin vanþakklæti í garð þess að þeirra fornu atburða sem hindra það að hann þurfi að vinna á tilteknum degi. „Já, mikið veit nú fólk fátt,“ hugsar meðalmaður þegar hann horfir á fréttirnar á hvítasunnu.

En bíðum við! Það ekki öll von úti enn. Því að þótt margir haldi að Jesús hafi verið skírður á skírdag, dáið á páskadag og risið upp frá dauðum á uppstigningardag, þó sumir haldi að Ísland hafi fengið sjálfstæði á sumardaginn fyrsta og Ingólfur Arnarson hafi numið land 1. desember 874, þá vita leikskólabörn á Hagaborg að „á jólum eigi Jesús ammæli og þess vegna eru jólin jól.“

Þessi staðreynd er mönnum hvatning til minna en frekar á að þrátt fyrir allar auglýsingarnar og kaupæðið þá snúist jólin og fæðingu Jesú og þakklæti okkar í garð þess atburðar – það vita, jú, jafnvel leikskólabörn.

En þótt áminningin um hið sanna inntak jólanna sé þörf og jákvæð má hún ekki leiða til þess að kristið fólk telji sig á einhvern hátt hafa meiri rétt til að halda þessa hátíð en þeir sem ekki eru kristnir. Því sú athöfn að gefa vinum og ættingjum gjafir til að tjá þeim ást sína og sú athöfn að snæða saman kvöldverð með sínum nánustu eru ekki ótvírætt kristnar athafnir, þótt dæmisagan sem þær rökstyður sé það.

Reglulega þarf trúlaust fólk þarf að svara því hvort það haldi jólin hátíðleg. Hvort það skreyti tré og og skiptist á pökkum eins og annað fólk eða hvort sitji bara bara heima 25. desember og pirri þig yfir því að Ríkið sé lokað og strætóar gangi ekki.

Vitanlega halda flestir Íslendingar jól, sama hversu trúaðir þeir eru. Enda er þessi bjarta hátíð um miðjan vetur skemmtileg leið til að þrauka saman í gegnum versta óveðrið og dimmustu næturnar. Fjölmargir siðir jólanna eiga rætur sínar að rekjur langt aftur í tímann til ýmissa annarra trúarbragða. Það á til dæmis við þá venju að skreyta tré, sem var víst frjósemisathöfn sem af landafræðilegum ástæðum hefur aðallega fest sig við barrtré. Svo ekki sé minnst á íslensku jólasveinana þrettán: Ræna mat og sitja fyrir rollum. Ekkert voðaleg guðspekileg upplifun þar á ferð, enda hefur ekki einu sinni verið gerð nein heiðarleg tilraun til að troða þeim heiðnu andskotum inn í kristilegan búning.

Öllum þeim sem þetta lesa óska ég gleðilegra jóla. Ég vona að allir njóti tímabilsins sem fram undan er á þann hátt sem þeim er vænstur. En um leið vona ég að menn gleymi ekki að engin trú eða lífsskoðun hefur einkaleyfi á hamingju og góðmennsku, þótt ein þeirra henti þeim sjálfum betur en aðrar.